Svanfríður Briana Romant fæddist í Texas 6. nóvember 1999. Hún lést á Barnaspítala Hringsins 21. maí 2012. Foreldar hennar eru Hanna Sigurrós Ásmundsdóttir, f. 25. mars 1974 og Felix Rudolph Romant, f. 20. júní 1964. Eldri bróðir hennar er Vilhjálmur Nökkvi Baldvinsson, f. 14. júní 1992 og yngri systir hennar er Álfrún Embla Jónsdóttir, f. 8. nóvember 2005. Útför Svanfríðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 31. maí 2012, og hefst athöfnin kl. 13.
Elsku fallega Svana mín. Ég veit ekki hvar ég á að byrja - minningarnar þeytast um höfuðið. Ég er svo full af sorg en samt svo miklu þakklæti elsku hjartað mitt fyrir að hafa fengið að annast þig. Guð treysti mér fyrir svo miklu þegar hann treysti mér fyrir þér því þú ert augasteinninn hans. Þú varst bara 20 mánaða þegar þú komst fyrst til okkar og þú tengdist okkur strax djúpum kærleiksböndum. Þú vannst huga okkar og hjarta frá fyrstu stundu og okkur fannst það þvílík forréttindi að fá að annast þig. Við vorum svo heppinn að fá að vera stuðningsfjölskylda þín. Við vorum stuðningsfjölskylda þín í tæp 10 ár en þú hélst samt áfram að vera dóttir okkar og systir í hjartanu okkar þó leiðir okkar skildu þegar við fluttum út til Svíþjóðar. Sara sagði núna eftir að þú varst búin að kveðja okkur: hugsaðu þér ef við hefðum ekki fengið að passa hana, þá hefði ég ekki fengið að vera systir hennar - og ég veit að Kristinn hugsar eins. Ég man eftir því þegar þú varst ekki eldri en 2 ára að þú fékkst oft illt í mallann þinn eftir matargjafirnar þínar og þá lagðist þú á gólfið með ælubakka - ældir og svo bara stóðst þú upp og hélst áfram með það sem þú varst að gera. Þannig varstu! Þú leist aldrei á þig sem sjúkling. Þú vildir bara leika þér eins og önnur börn. Þú kvartaðir aldrei eða vorkenndir sjálfri þér. Þú vildir bara vera eins og allir hinir - og elsku Svana, þú varst fallegasta blómið í garðinum. Þú barst af hvar sem þú varst! Þú vannst hug og hjörtu allra sem kynntust þér. Ég sagði alltaf við þig að þú værir hetjan mín! Og það varstu elsku hjartans engillinn minn! Þú kenndir mér svo margt - hvernig maður t.d. á að njóta líðandi stundar... að það er ekki sjálfsagt að vera heilbrigður... Þú kenndir mér að vera hugrökk og sterk! Og svo margt margt annað... Þú auðgaðir líf mitt og allrar fjölskyldunnar. Þú settir fótspor þitt í hjarta okkar og við munum minnast þín um alla eilífð! Eins og Sara mín komst svo vel að orði: þú munt búa í hjörtum okkar í svo mörgum litum og minningum! Þú kynntir okkur fyrir Barney - þú elskaðir að horfa á Barney... Og hann söng: I love you, You love me, We're a happy family, With a great big hug and a kiss from me to you, wont you say you love me to! I love you, You love me, We're best friends like friends should be, With a great big hug and a kiss from me to you, Wont you say you love me to! Ég elska þig og þú elskar mig. Við erum glöð og sæl fjölskylda. Með risastóru knúsi og kossi frá mér til þín. Þig langar að segja að þú elskar einnig mig. (ísl. þýðing á Barney I love you). Og svo sannarlega elska ég þig elsku hjartans gullið mitt og ég vona að þú finnir knúsin og kossana frá mér. Þetta lag er líka okkur svo kær minning núna og tengir okkur við þig.
Þú varst alltaf svo góð hjá okkur. Mamma þín var oft svo undrandi yfir því. En það þurfti aldrei að hafa eitthvað sérstaklega fyrir þér fannst mér. Þú varst bara ein af okkur og undir þér vel. Þú varst líka svo ótrúlega þolinmóð og nægjusöm. Þú og Kristinn urðuð meira eins og systkini því það voru bara 3 ár á milli ykkar. Þið elskuðuð hvort annað en auðvitað klöguðuð þið líka yfir hvort öðru - eins og systkini gera. En Svana; Kristinn elskaði þig og mun ávallt sakna þín. Hann sendi þér kveðjur síðustu helgina þína þegar við vissum hvað þú varst orðin veik. Hann vildi segja þér hversu mikið hann elskaði þig og saknaði þín. Þú leist líka svo upp til Söru en hún var 7 árum eldri en þú. Hún elskaði líka að dúllast með þér. Þú varst svo gefandi. Þú varst alltaf að segja henni hvað hún væri frábær og sæt - en Svana: það er Sara sem hefur alltaf litið upp til þín. Það ert þú sem ert fallegust og best! Við erum svo þakklát fyrir að hafa fengið að annast þig en það varst samt þú sem annaðist okkur meira. Ég verð líka að minnast á mömmu þína en þú hefðir ekki getað fengið betri mömmu. Vá hvað ég dáist að henni hvernig hún barðist fyrir þig ástin mín - alveg fram í það síðasta! Ég kynntist ykkur þegar þið voruð nýkomnar til landsins en þú fæddist í Ameríku. En þú greindist bara nokkurra mánaða með þennan sjúkdóm. Kringumstæðurnar voru vægast sagt erfiðar hjá mömmu þinni eftir að þið fluttuð heim en hún hugsaði bara um hvað væri best fyrir litlu stúlkuna sína. Aldrei kvartaði hún heldur - þú fékkst þennan andlega styrk frá henni. Mamma þín er mjög sérstök eins og þú ert sérstök. Villi stóri bróðir var svo stoltur af þér og þú varst alltaf að tala um hvað hann væri góður við þig. Og þegar elsku fallega Álfrún litla systir þín fæddist þá varst þú svo glöð og þið voruð alltaf svo miklar vinkonur. Alltaf hugsaðir þú um litlu systur og vildir ekki skilja hana útundan. Ég veit að Jesú mun annast þau núna fyrir þig.
Ég veit ekki hvernig ég á að kveðja þig elsku hjartað mitt. Kannski var það best að við fáum að minnast þín eins og þú varst því við vorum ekki til staðar síðustu mánuðina þína eða frá því við fluttum til Svíþjóðar. En samt er það svo sárt að hafa ekki verið til staðar fyrir þig þegar þér leið svona illa. En þó að leiðir okkar hefðu skilið þá varst þú okkur samt alltaf ofarlega í huga. Þú varst og munt alltaf vera hluti af þessari fjölskyldu. Við elskuðum þig eins og dóttur og eins og systur. Nú hefur orðið stórt tómarúm sem enginn annar getur fyllt. En tómarúm er kannski ekki rétta orðið því þú lifir áfram í hjörtum okkar. Kristinn saknar þín svo sárt. Hann er búinn að gráta mikið en minningarnar hafa huggað okkur og yljað. Sara fékk að kveðja þig í hinsta sinn - en hún saknar þín svo sárt. Maggi pabbi saknar þín og að geta ekki kitlað og prakkarast með þér einu sinni enn. Ég sakna þín meir en orð fá lýst. Ég náði ekki að kveðja þig en ég bað Jesú að skila því til þín að knúsa þig og segja þér að ég elska þig út yfir endimörk alheimsins - alltaf og endalaust. Ég veit að núna ertu hjá Jesú, heilbrigð og eðlileg - eins og allir hinir, eins og þú þráðir svo mikið. Þú syngur örugglega fallegast því núna getur þú talað og sungið óhindrað. Þér er líka örugglega treyst fyrir einhverju stóru verkefni í himnaríki því alltaf hugsaðir þú fyrst og fremst um hag annarra. Og ég veit að auki að núna færðu allar þínar vonir og langanir uppfylltar. Ég kveð þig að sinni gullið mitt og mun taka allan þann lærdóm sem þú kenndir mér og lifa samkvæmt því.
Elsku Hanna, Villi, Álfrún, og aðrir ástvinir, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og bið algóðan Guð að umvefja ykkur elsku sinni og huggun eins og hann einn getur. Við minnumst þín að eilífu.
Þín
Kata mamma og Maggi pabbi - og Sara og Kristinn.