Ásta Vilhjálmsdóttir fæddist að Meiri-Tungu í Holtum í Rangárvallasýslu 8. október 1918. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 13. júní 2012. Ásta var dóttir Vilhjálms Þorsteinssonar bónda í Meiri-Tungu, f. 18. desember 1870 og konu hans, Vigdísar Gísladóttur húsmóður, f. 3. apríl 1878. Systkini Ástu voru fjórtán talsins. Ketill, f. 27. okt. 1899, d. 1904, Guðrún, f. 1901, d. 1935, Guðlaug, f. 1903, d. 1995, Ketill, f. 1905, d. 1991, Þorsteinn, f. 1906, d. 1989,Vilborg, f. 1907, d. 1994, Vilhjálmur, f. 1907, d. 1908, Gunnar, f. 1909, d. 1988, Þórarinn, f. 1910, d. 1983, Valdimar, f. 1912, d. 1913, Steinunn Fanney, f. 1914, d. 2005, Karl, f. 1916, d. 1946, Eva, f. 1920, d. 1996, Vigdís, f. 1922, d. 1924. Nú eru öll börn Vilhjálms og Vigdísar látin. Þann 23. janúar 1943 giftist Ásta Hallgrími Péturssyni, f. 22. júní 1910, d. 26. október 1995. Þau eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Erna, f. 3. september 1942 gift Finnboga Böðvarssyni. Þau eiga: Helgu, Ástu og Elísabetu og barnabörnin: Böðvar, Dagbjörtu, Finnboga, Margréti Gígju, Erni Þór, Egil og Rakel Leu. 2) Helga, f. 3. september 1942, gift Konráði Beck. Þau eiga: Bjarna Rúnar, Vigdísi og Hallgrím Kristján og barnabörnin: Írisi Jónínu, Fannar Helga, Helgu, Önnu, Aron Dag og Söru Rut. 3) Herdís, f. 2. maí 1947, gift Sigurði Ólafssyni. Þau eiga: Hildi, Ólaf og Guðrúnu Ástu og barnabörnin: Má, Önnu Karen, Jakob Elías, Grím Stein og Ástu. 4) Pétur Vilhjálmur, f. 25. september 1955, giftur Hafdísi Ragnarsdóttur. Þau eiga: Ragnar Snorra, Herdísi Borg og Þórdísi Rún. Ásta og Hallgrímur bjuggu lengst af í Hólavangi 10, Hellu, eða í 48 ár. Ásta tók þátt í atvinnulífinu jafnhliða húsmóðurstörfunum eftir að börnin voru uppkomin. Hún vann í sláturhúsinu nokkur haust, á saumastofu en síðast við mötuneyti grunnskólans á Hellu. Þau hjónin fluttu til Reykjavíkur haustið 1991 í þjónustuíbúð Hrafnistu, Jökulgrunni 6. Eftir lát Hallgríms flutti Ásta úr íbúðinni í herbergi í aðalbyggingu heimilisins. Útför Ástu Vilhjálmsdóttur fer fram frá Áskirkju í dag, 22. júní 2012, kl. 13.

Ástu tengdamóður minni kynntist ég fyrir um þrjátíu árum síðan. Hún var strax hún sjálf í samskiptum við mig, því það var ekki hennar að vera með gestalæti. Í samskiptum var Ásta stundum hvatvís en tilfinningar hennar byggðust á heiðarleika, umhyggju og oftast sanngirni.Við lærðum fljótlega hvor á aðra og sameinuðumst í því sem við áttum sameiginlegt og okkur var kærast.
Ásta var fædd og uppalin í Meiri-Tungu í Holtum í Rangárvallasýslu. Sveitin var hennar jarðvegur. Frásagnir hennar af uppeldinu, systkinunum, lærdómnum, sem hún hefði gjarnan viljað hafa meiri og þeim forréttindum að fá að alast upp í faðmi fjölskyldunnar gáfu til kynna að hún leitaði þar í notalegar minningar. Ásta naut sín best í litlum hópi þar sem skoðanskipti gátu orðið um allt milli himins og jarðar en hjá henni var ekki komið að tómum kofanum. Hún fylgdist vel með og vildi engin hornkerling vera.
Ásta var fjölskyldumanneskja og sagðist ekki þurfa að eiga marga vini því hún ætti börnin sín. Þar sem fjölskyldan var saman komin var þétt setið og haldist í hendur og þá leið Ástu vel. Ömmu- og langömmubörnin áttu hug hennar allan. Hún hafði metnað fyrir þeirra hönd, hafði trú á þeim en sagði þeim til syndanna og hvað þeim bæri að varast í lífinu. Ásta fylgdist vel með hvað ömmubörnin voru að sýsla og hreifst með þeim. Hún var alltaf tilbúin að prófa allt sem var henni framandi. Hana langaði í GSM síma eins og krakkarnir áttu og var um tíma að velta því fyrir sér hvort hún væri orðin of gömul til að fara á tölvunámskeið, hún væri nú ekki nema 90 ára. Eitt sinn vildi hún ólm fá að tala inn á GSM síma yngstu ömmubarnanna því henni fannst það svo sniðugt að geta sjálf ákveðið hvernig hringingin hljómaði. Eftir nokkrar æfingar heyrðist með hennar djúpu rödd þegar síminn hringdi: Baulaðu nú búkolla mín ef þú getur. Ásta hló mikið og var mjög ánægð með sína listrænu hæfileika og sagði að þetta ætti að minna þau á að gleyma hvorki henni né þjóðsögunum.
Tengdaforeldrar mínir fluttu frá Hellu til Reykjavíkur árið 1991. Heimili þeirra var á Hrafnistu í Reykjavík, en tengdafaðir minn Hallgrímur Pétursson lést árið 1995. Þau hjónin voru oftast hjá okkur á jóladag og gamlárskvöld. Þessir dagar eru því alltaf dálítið sérstakir í minningu okkar þar sem amma Ásta var alltaf hrókur alls fagnaðar, sagði sögur og tók virkan þátt í öllu sprelli, þó aldursforseti væri.
Mér þótti mjög vænt um Ástu og við höfðum gaman af því að ræða saman en vorum ekki alltaf sammála. Við fundum hvor aðra í pólitíkinni og húmornum. Ásta hringdi stundum í mig þegar uppákomur voru í stjórnmálunum og vildi ræða þær frekar. Umræðurnar gengu alltaf vel því við vorum báðar á vinstrivængnum. Ásta vildi Íslandi það besta og sá auðlindir þess bæði í fornu verklagi bændasamfélagsins, afurðum, viðhaldi bújarða, verndun náttúrunnar og sanngirni í skiptingu gæðanna og ég var henni hjartanlega sammála.
Að eignast Ástu sem tengdamóður hefur gefið mér margt sem ég kann að meta og þakka fyrir. Ég ber virðingu fyrir þessari konu sem lifði ótrúlegar breytingar í íslensku samfélagi og missti aldrei sjónar á mikilvægi fjölskyldunnar, sveitarinnar og náttúrunnar í lífsgildunum sínum og að Ísland væri einstakt og eftirsóknarvert og því sérstök ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart umgengni við það og nýtingu þess. Síðasta mánuð fór verulega að draga af Ástu en hún var með á nótunum þar til undir það síðasta. Hún hafði oft orð á því að nú væri þetta orðið gott hjá henni og hún vonaðist bara til þess að hún lenti hjá Hallgrími því þar væri gleðin.
Ég vona að allar óskir hennar verði uppfylltar því hún hefur unnið til þess.
Með virðingu og þakklæti,

Hafdís Ragnarsdóttir.