Þórarinn Sigurjónsson fæddist 26. júlí 1923. Hann lést föstudaginn 20. júlí 2012. Foreldrar Þórarins voru Sigurjón Árnason bóndi og smiður í Pétursey í Mýrdal, 1891-1986, og Sigríður Kristjánsdóttir húsfreyja, 1884-1941. Alsystkini Þórarins eru Elín, 1922-2008, og Árni, f. 1926. Hálfbræður, samfeðra með seinni konu Sigurjóns, Steinunni Eyjólfsdóttur, 1910-1979, eru Eyjólfur, f. 1947, og Sigurður, 1949-2000. Einnig ólust upp með honum í Pétursey, Þórhallur Friðriksson, 1913-1999, Bergur Örn Eyjólfs, 1938-1996, og Sigurbjartur Jóhannesson, f. 1929. Þann 4. júní 1952 kvæntist Þórarinn eftirlifandi eiginkonu sinni Ólöfu Ingibjörgu Haraldsdóttur, f. 1931. Foreldrar hennar voru Kristín Sveinsdóttir, 1905-1991, og Haraldur Jóhannesson, 1903-1982. Börn Þórarins og Ólafar eru: 1) Sigríður, f. 1953, gift Óla Sverri Sigurjónssyni, f. 1953. Börn þeirra eru Ólöf Inga, f. 1980 og Þórarinn, f. 1984. 2) Haraldur, f. 1954, kvæntur Þórey Axelsdóttur, f. 1949. Dætur þeirra eru Ólöf, f. 1982 og Dóra, f. 1988. Dóttir Þóreyjar er Svanhildur, f. 1970. 3) Kristín, f. 1956, gift Garðari Sverrissyni, f. 1959. Dóttir þeirra er Þorgerður Guðrún, f. 1990. Sonur Garðars er Sverrir, f. 1984. 4) Sigurjón, 1960-1961. 5) Sigurjón Þór, 1962-1964. 6) Ólafur Þór, f. 1965, kvæntur Malin Widarsson, f. 1969. Börn þeirra eru Elín Linnea, f. 1993, Anton Þór, f. 1996, Hanna Kristín, f. 1998, og Einar Árni, f. 2003. Að loknu búfræðiprófi frá Hvanneyri 1943 fékkst Þórarinn við margvísleg störf til sjós og lands. Í félagi við uppeldisbróður sinn Þórhall rak hann um árabil alhliða viðgerðaverkstæði í Pétursey og fékkst að auki við fólks- og vöruflutninga á eigin bifreiðum. Þórarinn var bústjóri í Laugardælum frá 1952 til 1980. Hann tók sæti í stjórn Sambands eggjaframleiðenda 1956 og var formaður þess 1957-1979. Í stjórn Verkstjórafélags Suðurlands 1956, formaður 1958-1974. Í stjórn Verkstjórasambands Íslands 1963-1975. Sýslunefndarmaður Hraungerðishrepps 1959-1985. Formaður Framsóknarfélags Árnessýslu um árabil. Í stjórn Kaupfélags Árnesinga 1962-1992, formaður frá 1966. Stjórnarformaður Húsmæðraskóla Suðurlands frá 1964. Í stjórn Meitilsins hf., Þorlákshöfn, 1964-1992. Í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga 1968-1992. Þórarinn var þingmaður Sunnlendinga frá 1974 til 1987. Sat á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins 1977-1985. Í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1980-1983. Formaður Þingvallanefndar 1980-1988. Í Veiðimálanefnd ríkisins og formaður hennar 1987-1992. Formaður sauðfjársjúkdómanefndar 1987-1992. Að auki voru Þórarni falin fjölmörg önnur trúnaðarstörf í atvinnu- og félagslífi. Fyrir störf að landverndar- og landbúnaðarmálum var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Þórarinn var alla tíð mikill áhugamaður um starf ungmennafélagshreyfingarinnar, var félagi í Rotary og lét sig miklu varða velferð Laugardælakirkju sem fyrir hans tilstuðlan og fleiri var endurreist á hinum forna kirkjustað fyrir nærri hálfri öld. Var hann meðal annars formaður sóknarnefndar og meðhjálpari um áratugaskeið. Útför Þórarins fer fram frá Selfosskirkju í dag, 28. júlí 2012 og hefst athöfnin kl. 13.30.
Í dag fylgjum við til grafar Þórarni Sigurjónssyni frá Laugardælum. Þórarinn kom að Laugardælum ásamt Ólöfu konu sinni fyrir um 60 árum, ráðinn af Búnaðarsambandi Suðurlands til að byggja upp búskap með tilraunastarfsemi á jörðinni. Með Ólöfu fylgdu síðar systur hennar þær Rósa og Þórfríður sem byggðu ásamt mökum sínum, Jóni og Sigmundi, íbúðarhús í Laugardælum. Systurnar þrjár, fjölskyldur þeirra, ásamt Klöru og Einari mynduðu lítið samfélag í Laugardælum ásamt fjölda fólks sem bjó í lengri eða skemmri tíma á staðnum. Þetta samfélag var umgjörð um líf okkar og leiki í uppvextinum.
Barnafjöldinn í Laugardælum var mikill, leikfélagar ávalt tiltækir og uppátækin að sama skapi margvísleg. Þessi kjarni var sjálfum sér nógur um flesta hluti og það eru mikil forréttindi að hafa upplifað þessa tíma. Þórarinn var bústjóri í Laugardælum og síðar þingmaður Árnesinga. Í hugum okkar var það mjög eðlilegt að framsóknarmenn á Suðurlandi skyldu velja Þórarinn til þess að vera í forsvari. Hann var ötull talsmaður samvinnustefnunnar, tækniframfara, góðra samgangna og framþróunar í landinu. Þórarinn var talsmaður bænda og bættrar menntunar í landbúnaði og hafði þar mikil og jákvæð áhrif með störfum sínum.
Það er margs að minnast frá uppvextinum í Laugardælum og oft mikil ærsl og fjör í kringum krakkahópinn. Þórarinn var þolinmóður við okkur krakkana. Hann umbar gáskafulla leiki og ærsl af mikilli rósemi. Þó svo að rúða hafi brotnað í glugga í fjörugum fótboltaleik á hlaðinu eða eitthvað annað óhapp komið fyrir þá var það fyrst og fremst tilefni til þess að læra af reynslunni. Það væri heppilegra að hitta í hurðaropið í stað þess að þruma boltanum í gluggann! Í Laugardælum byrjuðum við ung að vinna á búinu og mjög snemma var okkur falin ábyrgð. Þórarinn var einstakur í því að leiðbeina og sýna okkur hvernig vinna ætti verkin og gera það vel. Hann kenndi okkur að aka dráttarvél, að slá, snúa, vitja um net, að raka dreif af túnum, tína upp rusl sem á vegi okkar varð, ganga snyrtilega um, fara vel að skepnum og sinna almennum bústörfum o.s.frv. Við vorum reyndar það litlir fyrst í stað að töluverða lagni þurfti til að aka dráttarvél, sérlega þegar þurfti að kúpla og stíga á bremsur á sama tíma, því við einfaldlega náðum ekki niður á stigfetin. Ávallt var þó haft vakandi auga með okkur en Þórarinn hafði þá kennsluaðferð að byrja á að fá okkur verkefni sem við réðum við, síðar tóku við flóknari verkefni. Við áttum ekki að aka hratt eða vera með glannaskap. Að slá á Ferguson í lágadrifi og fyrsta gír í botni var ekki fljótleg aðferð við að slá tún en eftir svona tvo hektara voru þó flestir komnir á lagið!
Hugtakið að leggjast á árar öðlaðist skýra merkingu þegar vitjað var um á Ketilbrotinu með Þórarni. Hann lagðist á árar með okkur þegar róa þurfti á móti árstraumnum og reyndar hvert svo sem andstreymið var þegar við vorum annars vegar. Við minnumst þess að Þórarinn var ekki mjög sáttur ef við vorum of lengi með hendur í vösum að sniglast í kringum hann það átti að hafa eitthvað fyrir stafni. Heyskapur í Laugardælum með Þórarni var skemmtilegur tími. Þá var hann í essinu sínu og hugur í honum. Það kom fyrir að heyvagninn var full hlaðinn fyrir Ferguson, dráttavélin prjónandi og lét ekki vel að stjórn. Við þær aðstæður settist Þórarinn gjarnan framan á húddið og hvatti okkur að keyra áfram. Heyvagninn átti að fara full lestaður heim á hlað! Slíkur var hugurinn og driftin að það var ekki annað hægt en að hrífast með. Þórarinn gjarnan klæddur í peysu og með bindi, kátur að hvetja okkur krakkaskarann áfram að ná heyjum sem fyrst inn í hlöðu.
Fyrir utan þá allra nánustu er ekki ofsagt að Þórarinn hafi haft mikil og jákvæð áhrif á okkur í uppvextinum. Hann var fyrirmynd, kenndi okkur að vinna og treysti okkur til að leysa verkefni okkar. Hann stóð með krakkaskaranum frá Laugardælum af heilum hug og fyrir það er þakkað að sama skapi af heilum hug. Það var ekkert starf ómerkilegt sem þurfti að vinna að hans mati og það átti að leysa öll störf vel af hendi. Þetta viðhorf var reyndar töluverðan tíma að síast inn við rakstur á dreif á sínum tíma en tókst þó á endanum! Þórarinn var greiðsvikinn með eindæmum og taldi það ekki eftir sér að sendast eftir okkur á menntaskólaárunum í Reykjavík og taka okkur með austur í Laugardæli í helgarfrí. Þá var gjarnan safnast saman á Kaplaskjólsveginum hjá Kristínu ömmu í kökuhlaðborði og beðið eftir að Þórarinn kláraði vinnuvikuna í þinginu. Barngóður var hann alla tíð og gaf sér ávallt tíma til að spjalla við krakkana og síðar börnin okkar. Honum þótti sjálfsagt að fara með mannskapinn í fjós eða hlöðu og skoða hunda og ketti. Gjarnan vildi hann gefa krökkunum kettlinga sem vakti alltaf mikla kátínu hjá reyndar flestum öðrum en foreldrum barnanna. Í hugum okkar stendur lifandi minning um jákvæðan, traustan og duglegan mann. Góðan mann sem hafði jákvæð og uppbyggileg áhrif á umhverfi sitt og samferðamenn. Mann sem treysti fólki og naut trausts og virðingar. Það eru mikil forréttindi að hafa kynnst Þórarni Sigurjónssyni.
Við sendum Ólöfu, frændsystkinum og venslafólki innilegar samúðarkveðjur.
Ólafur og Haraldur Jónssynir