Gerður Sigurðardóttir fæddist á Sleitustöðum í Skagafirði 11. febrúar 1915. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 14. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Sigurðardóttir, húsmóðir, frá Víðivöllum í Skagafirði, f. 29. júní 1886, d. 4. júlí 1969 og Sigurður Þorvaldsson, kennari, bóndi og hreppstjóri frá Álftártungukoti á Mýrum, f. 23. janúar 1884, d. 21. desember 1989. Gerður ólst upp hjá foreldrum sínum á Sleitustöðum í stórum systkinahópi og eru þau: Sigrún, f. 1910, d. 1988; Gísli, f. 1911, d. 1966; Sigurður, f. 1917, d. 1999; Guðrún, f. 1918, d. 2000; Þorvaldur Pétur, f. 1920, d. 1922 og tvíburi hans, drengur, d. 1920; Lilja, f. 1923, d. 2008 og Rósa tvíburi hennar, d. 1923; Þórveig, f. 1925; Jón, f. 1927, d. 1928, Jón, f. 1929 og Guðjón Þór Ólafsson (fósturbróðir), f. 1937, d. 1998. Einkabarn Gerðar er Ragnhildur Björk Sveinsdóttir, kennari, f. 24. febrúar 1957. Faðir hennar var Sveinn Viggó Stefánsson, f. 1913, d. 1987. Eiginmaður Ragnhildar er Eiríkur Oddur Georgsson, húsasmiður, f. 22. september 1956. Börn Ragnhildar og Eiríks Odds eru: 1) Þorgerður Hulda, læknir, f. 25. september 1977, gift Peter Frisch, f. 20. september 1967, dóttir þeirra er Lena Sóley, f. 27. febrúar 2011. 2) Hugrún Ösp, sagnfræðingur, f. 29. desember 1978, gift Ólafi Kjartanssyni, f. 29. mars 1977, sonur þeirra er Sverrir Ragnar, f. 17. júlí 2010. Faðir Þorgerðar Huldu og Hugrúnar Aspar er Reynir Þór Sigurðsson. 3) Trausti, háskólanemi, f. 12. maí 1988. Unnusta hans er Helga Dagný Arnarsdóttir, f. 22. janúar 1990. Aðal starfsvettvangur Gerðar var kennsla. Hún kenndi tvo vetur á Skógarströnd, 1941-1943 og þrjá vetur í Húnavatnssýslum, 1943-1946. Veturinn 1949-1950 kenndi hún á Stokkseyri. Gerður stundaði nám í Kennaraskólanum með hléum en lauk prófi þaðan árið 1949 með handavinnu að sérgrein. Haustið 1950 flutti hún til Keflavíkur og kenndi lengst af handavinnu við Barnaskóla Keflavíkur eða til ársins 1984. Eftir það vann hún á saumastofum í Reykjavík í fjóra vetur. Eftir að Gerður eignaðist Ragnhildi, dóttur sína, bjuggu þær á heimili Þórveigar systur hennar og hennar manns, Ólafs Jónssonar. Börn Þórveigar og Ólafs eru uppeldissystkini Ragnhildar. Þau eru Ragnar Smári, f. 27. október 1958, Sigrún Erla, f. 11. október 1959, Hrafnhildur Inga f. 12. desember 1960 og Sólveig Jóna, f. 16. ágúst 1964. Æskuslóðir Gerðar, að Sleitustöðum í Skagafirði, voru henni afar kærar. Þar undi hún sér best og dvaldi nær öll sumur og jól ævi sinnar. Eftir langa og góða starfsævi flutti Gerður í Sigtún, húsið sitt á Sleitustöðum, en bjó nokkra mánuði á veturna á heimili dóttur sinnar og fjölskyldu í Reykjavík. Frá árinu 2009 til æviloka bjó Gerður á Hjúkrunarheimilinu Skjóli. Útför Gerðar fer fram frá Dómkirkjunni að Hólum í Hjaltadal í dag, 25. ágúst 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Að vera bóndi ­ ó, guð minn góður!
í grænu fanginu á sinni móður
og finna ljós hennar leika um sig
og lyfta sálinni á hærra stig!

/

Og bónda hitnar í hjartans inni
við helgan ilminn frá töðu sinni,
og stráin skína í skeggi hans
sem skáldleg gleði hins fyrsta manns.

/

Og litlir englar með litla hrífu
við ljámýs eltast og hampa fífu,
en mamma hleypur á hólinn út
með hvíta svuntu og skýluklút.

/

Og sumardagarnir faðma fjöllin
og fljúga niður á þerrivöllinn,
og stíga syngjandi sólskinsdans
við sveittan bóndann og konu hans.

Hendingar úr ljóðinu,  Heyannir,  eftir  Jóhannes úr Kötlum, verða mér oft hugstæðar þegar mér verður litið aftur til bernsku minnar.  Þannig birtast mér oft fyrir hugskotssjónum, leiftur frá gamalli tíð þegar ég var smástrákur.  Á sólríkum sumardegi mátti finna hóp fólks við vinnu niður á engjunum, voru það aðallega konur og börn sem gengu á flekkina  til að ryfja, eins og það var kallað. Bændurnir voru álengdar, úti við jaðarinn og slógu sem mest þeir gátu með orfi og ljá. Á ræktuðum túnum var þó vélmenningin reyndar hafin á þessum upphafsárum mínum í sveitinni.

Kaffið var síðan borið niður á engjarnar í sérstökum trogum, reitt fram  og kepptust við börnin við að gera bakkelsinu skil, næla okkur í eina kleinu eða svo og kannski  jólakökusneið líka.  Og  þegar heyið var orðið þurrt þá þurfti að raka því saman, saxa föngin og hlaða þeim í bólstra. Eða þá að það var strax tekið saman og flutt heim í hlöðu. Mitt í þessum atgangi öllum var Gerður föðursystir mín.  Þannig man ég fyrst eftir henni , þar sem við börnin nutum handleiðslu hennar við heyskapinn.  Jæja, lagsmaður,.. sagði hún  þá, eða  komdu nú, lagsmaður,  þegar heyskapur var í aðsigi og við fylgtum liði niður á þerrivöllinn.

Gerður var þriðja elst í stórum systkinahópi og þurfti snemma að taka ábyrgð við barnauppeldi. Aðstoðaði móður sína við hversdagsleg störf á heimilinu og sinnti bústörfum jafnframt,  eftir því sem til féll.  Yngri börnin fundu fljótt öryggið hjá stóru systur og leituðu jafnan til hennar með hin ýmsu úrlausnarefni.  Og þannig háttaði til í mörg ár, stóð ég til að mynda föður minn að því fyrir nokkrum árum,  sem var yngstur systkina sinna,  að fara með buxurnar sínar til Gerðar til lagfæringar. En hún var nefnilega frábær saumakona og lék allt í höndunum á henni sem sneri að saumaskap. Hún var lærður handavinnukennari  og saumakona, á þeim vettvangi sem hún starfaði síðar um langt skeið.

Á jólum var það sérstakt tilhlökkunarefni þegar þær systur, Lóley og Gerður komu að sunnan, þar sem þær þá bjuggu, með fjölskyldur sínar til að taka þátt í jólagleðinni heima á Sleitustöðum. En ætíð háttaði svo til að stórfjölskyldan kom saman í húsi ættforeldranna til hátíðahalds. Þá var borðað heimareykt hangikjöt  með kartöflustöppu og grjónagrautur með berjasaft að gömlum íslenskum sið.  Gengið í kringum jólatréð og mesta lukku vöktu auðvitað jólapakkarnir frá Gerði sem innihéldu kjóla á stúlkurnar eða buxur og vesti á strákana sem hún hafði saumað sjálf. Gerður var allt í öllu og stjórnaði jólaundirbúningnum af mestri rausn.

Og víða kom hún að verki og átti hlutdeild í athafnasemi  stórfjölskyldunnar á Sleitustöðum um ómunatíð, hvort heldur það var verktakastarfsemi eða virkjanagerð. Oftast beindust þó kraftar hennar að bústörfum á ættaróðalinu, eins og fyrr segir,  þar sem hún veitti föður sínum og síðar bróður, dygga aðstoð við heyskapinn  um sumartímann þegar hún hafði frí frá kennslustörfum.

Minnisstæðust verður þó aðild hennar að hugsjónastarfi föður síns þar sem hann hafði komið sér upp litlum skógræktarreit, skammt sunnan við bæinn. Þar átti hún sínar stundir og sýndi það í verki hversu vænt henni þótti um þann stað. Þær voru ófáar ferðirnar hennar suður í skógrækt og mörg voru hennar handtök þar. Viðhald á ættarreitnum, Fagralundi, sem farið er að kalla svo, kostaði hún oft úr eigin vasa.  Þar hefur nú verið reistur minnisvarði um frumkvöðulinn og fjölskyldu hans.  Í hvert skipti sem barn fæddist inn í fjölskylduna þá lýsti Gerður því hvernig hana dreymdi fyrir þeirri fjölgun, henni fannst að hún væri að ganga um skógræktina og sæi þá blóm sem hún hefði aldrei séð áður. Þessi skemmtilega draumsýn varð síðan kveikjan að því verkefni í Fagralundi sem nefnt hefur verið Barnalundur.  En þá gróðursetja minnstu börnin tré í eigin nafni með aðstoð foreldra sinna.

Gerður átti nokkra tamda hesta sem gjarnan voru settir undir yngstu börnin. Ekki síst þegar halda átti í rúningssmölun eða haustsmölun fram í Kolbeinsdal. Eitt skiptið minnist ég þess þegar við vorum á heimleið úr einni slíkri ferð. Þá var oftast sprett úr spori síðustu kílómetrana og farið geyst. Allt í einu hnaut hestur Gerðar og hún hentist af baki og fór margar veltur og kollhnísa. Hélt ég að hún væri stórslösuð enda var hún þá komin af léttasta skeiði. Var þó ekki lengi að brölta á fætur og dusta af sér rykið, rétt eins og ekkert hefði í skorist.

Gerður var alla tíð mjög heilsuhraust og náði háum aldri. Hún var mikil hæglætiskona og dagfarsprúð. Hún var vel gefin til orðs og æðis og prýðilega vel hagmælt. Þessu til staðfestingar liggur einmitt eftir hana þessi fallega vísa;

Í æsku hlaut ég þrek og þor,

það er árin sýna.

Eflaust marka einhver spor,

ævigöngu mína.

Fyrir hönd föður míns og fjölskyldunnar allrar sendum við Ragnhildi og Oddi,  Gerðu og Hugrúnu og Trausta og fjölskyldum þeirra, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minningin um góða konu lifir.

Reynir Jónsson og fjölsk.