Snorri Sigbjörn Jónsson fæddist á Hólalandshjáleigu í Borgarfirði eystra 9. september 1926. Hann lést á Akranesi 28. ágúst 2012. Foreldrar hans voru Guðný Þórólfsdóttir, f. 26.7. 1889, d. 3.4. 1979, og Jón Ísleifsson, f. 7.7. 1893, d. 23.11. 1964, bóndi í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá. Hálfbróðir Snorra, sammæðra, var Þórólfur Stefánsson, f. 1914, d. 2004. Alsystkin Snorra eru Guðgeir, f. 1923, d. 2009, Lukka, f. 1925, d. 2004, Egill, f. 1927, Kristmann, f. 1929 og Sæbjörg, f. 1932. Fyrri kona Snorra var Margrét Helga Kristjánsdóttir, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Kristján Björn, f. 20.1. 1955, var kvæntur Öldu Sigríði Guðnadóttur. Börn þeirra eru Margrét Helga, f. 17.2. 1983, dóttir hennar er Arndís Alda. Guðni Albert, f. 2.7. 1984, sambýliskona Jóhanna Lind Brynjólfsdóttir. Bjarki, f. 21.12. 1989. Eiginkona Kristjáns Björns er Þóra Þrastardóttir. Börn hennar eru Ellý, Ragnar og Rúna Tómasarbörn. 2) Ingibjörg Kristín, f. 12.9. 1956, d. 10.3. 1961. 3) Guðný, f. 15.7. 1958, gift Árna Sörensen. Börn þeirra eru Elva Dögg, f. 23.7. 1980, gift Agli Ibsen Óskarssyni, þeirra börn eru Ísabella Sól og Ernir Ibsen. Arnfríður, f. 14.4. 1984, dóttir hennar er Emma Östensen. Árni, f. 19.9. 1990. 4) Anna Jóna, f. 21.10. 1960, gift Jóni Magnúsi Magnússyni. Börn þeirra eru Katrín Magnea, f. 29.1. 1980, í sambúð með Jóni Pétri Guðmundssyni, þeirra börn eru Jón Emil, Emilía Anna og Annel Jón. Tinna Marína, f. 13.2. 1985, í sambúð með Sigfúsi Steinarssyni. 5) Kristín, f. 19.10. 1963, gift Þorvaldi Einari Þorvaldssyni. Börn þeirra eru Þóra Elín, f. 19.7. 1990, d. 12.5. 2011, sonur hennar er Jóhann Einar. Jón Þór, f. 11.9. 1992 og Einar Logi, f. 26.12. 1995. 6) Helga Sigfríður, f. 19.11. 1964, í sambúð með Jóni Hallfreð Engilbertssyni. Börn þeirra eru Snorri Sigbjörn, f. 26.9. 1993 og Kristín Harpa, f. 7.6. 1996. 7) Þórunn, f. 9.11. 1967, gift Jóni Ágústi Björnssyni. Börn þeirra eru Ingibjörg Kristín, f. 24.10. 1993 og Björn Ágúst, f. 23.6. 1996. Snorri kvæntist, 27.10. 1984, eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristbjörgu Huldu Pétursdóttur, f. 9.3. 1937. Börn hennar eru: 1) Erla Helga Bjargmundsdóttir, f. 7.7. 1959, gift Gunnari Þór Björnssyni. Þeirra börn eru Jóhanna Eva, f. 5.9. 1980, hennar dóttir er Særós Erla. Viðar Snær, f. 2.2. 1985, Björn Þór, f. 7.3. 1990 og Guðni Már, f. 27.2. 1996. 2) Einar Pétur Bjargmundsson, f. 25.3. 1966, kvæntur Erlu Signýju Lúðvíksdóttur. Börn þeirra eru Hulda Björk, f. 23.5. 1989, unnusti Guðmundur Ingi Gunnarsson, og Bjargmundur Einar, f. 30.6. 1992. Snorri ólst upp í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá og víðar. Haustið 1953 fluttist hann í Skagafjörð og starfaði sem mjólkurbílstjóri frá 1957-1977 er hann tók við skólaakstri á Hofsósi. Árið 1980 hófu Snorri og Kristbjörg búskap á Akranesi og starfaði hann hjá Heimaskaga hf. og síðar Haraldi Böðvarssyni hf. sem bílstjóri. Tónlistin skipaði stóran sess í lífi Snorra og spilaði hann á harmonikku við hin ýmsu tækifæri. Einnig söng hann í kórum, bæði í Skagafirði og á Akranesi. Snorri verður jarðsunginn frá Akraneskirkju í dag, 3. september 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveð ég hann pabba minn með trega og söknuði, en einnig með hlýhug og þakklæti. Þakklæti fyrir þær minningar sem eftir sitja og fyrir allar samverustundirnar sem við áttum. Ég er ekki síður þakklát fyrir það hversu lengi hann hafði góða heilsu, að hann gat búið heima alla tíð og hve fljótt hann fékk að fara þegar heilsan gaf sig og ekki var til baka snúið.

Já þær voru margar stundirnar sem ég átti með honum pabba. Ég var mikil pabba stelpa og þvældist með honum í leik og starfi. Ein fyrsta minning sem ég á er úr hesthúsinu heima í Ártúni, pabbi var að taka inn hest  að hausti til sem lét öllum illum látum og braut niður stallinn fyrir framan mig, þó pabbi næði fljótt tökum á honum. Hann var laginn við hesta og hafði gaman af því að kljást við þá sem voru erfiðir. Það fór þannig að þessi hestur gekk á eftir honum um vorið og kom ef hann kallaði á hann. Ég man líka hvað ég var glöð og montin þegar hann gaf mér alvöru skóflu, rauða skóflu með fínu tréskafti í minni stærð. Þá gat ég mokað flórinn eins og pabbi gerði. Við pabbi áttum margar stundir saman í kringum skepnurnar í sveitinni, hann kenndi mér að umgangast þær af natni og virðingu. Þó svo að hann hætti búskap og byggi lengst af í þéttbýli voru hestar alla tíð stór hluti af pabba lífi og hestamennska var hans aðal áhugamál.

Pabbi var mjólkurbílstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga þegar ég var að alast upp. Ég fór snemma að fara með honum í mjólkurferðir, reif mig  jafnvel upp fyrir kl. 7 á morgnana til þess að komast með honum að ná í brúsana útfyrir (út á Höfðaströnd) en oftast fór ég bara með honum innúr (inn Óslandshlíðina) og upp á Sauðárkrók. Þá setti pabbi brúsana upp á vörubílspallinn og ég dró  þá svo til og raðaði eftir hans tilsögn á meðan hann keyrði milli bæja. Það var allt skipulagt þannig að vinnan yrði sem einföldust og allt var í röð og reglu. Þegar inn á Krók var komið dró ég brúsana til og hann setti þá niður á færibandið við mjólkursamlagið. Þegar við vorum búin við samlagið og brúsarnir komnir tómir á pallinn, drukkum við alltaf nesti og spjölluðum saman, þá kenndi hann mér líka oft vísur, en þær kunni hann margar.  Það var mest gaman að fara með honum á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum en þá daga kom hann við í kjötvinnslunni,  sótti lyf í apótekið fyrir Hofsósinga og fór svo í bakaríið. Það var ekki ósjaldan að við fengum smá nestispoka frá Guðjóni bakara. Þá stoppuðum við pabbi niður á sandinum utan við Sauðárkrók og drukkum auka nesti áður en við fórum heim. Það var líka annað sem var spennandi við þessa daga og það var að á þessum dögum tók pabbi olíu og keypti sér tóbak, þá fékk ég líka poka af fylltum brjóstsykri. Í upphafi heimferðarinnar voru molarnir taldir, svo ræddum við um hvað við mættum borða marga á dag og hvar myndi passa að fá okkur á leiðinni þannig að pokinn myndi duga þangað til við færum næst í sjoppuna. Ég gætti þess vandlega að þær systur mínar vissu ekki af þessu svo við pabbi fengjum ekki minna.

Ég man líka vel þegar pabbi hætti að reykja. Það höfðu verið þættir í sjónvarpinu um fólk sem var að hætta að reykja. Þessa þætti horfði hann á og reykti á meðan, sagðist sko ekki þurfa neina sjónvarpsþætti  til þess að hætta. Svo var það nokkru seinna að hann keypti sér tóbak, setti það í öskubakkann á eldhúsborðinu og hætti, þar var tóbakið alla tíð síðan.

Pabbi var góður harmonikkuleikari og kunni ógrynni af lögum og textum sem hann kenndi okkur systkinunum. Mér eru minnisstæðar söngstundir inni í Ártúni þar sem hann lét okkur systurnar sitja uppi á borði og svo spiluðu hann og Kristján undir. Eins man ég þegar hann kenndi mér að dansa yanka, þá spilaði hann á harmónikkuna og lét mig dansa með.

Pabbi hafði líka gaman af spilum. Hann lagði oft kapal og kunni  helling af spilaköplum og spilum sem hann kenndi okkur. Það var oft setið og spilað, manna, marías, vist og svo bridge. Við vorum ekki gömul þegar hann kenndi okkur að lesa spilin og fylgjast með því hvað færi í hverri sort, en það gat nú stundum farið fyrir ofan garð og neðan hjá manni. Pabbi var ákafur bridge-spilari og hann var ekki ánægður ef maður henti vitlausu spili í borðið og benti þá gjarnan á hvernig maður hefði átt að gera að spili loknu.

Þegar ég var um 12 ára hætti pabbi á mjólkurbílnum og fór að keyra skólarútuna. Í þá daga voru reglulega unglingaböll í félagsheimilunum í Skagafirði, í Höfðaborg, Bifröst, Melsgili og í Héðinsmynni. Seinna bættist svo við að fara á 16 ára böllin í Miðgarði og á Hótel Höfn á Siglufirði. Til þess að komast  á ball þá þurfti maður að hafa far og oft fór ég til pabba og spurði hann hvað þyrfti marga til þess að fara á rútunni, hann gaf mér tölu og svo gekk ég í hús og safnaði saman krökkum til þess að koma með á ball. Pabbi var alltaf tilbúinn að fara með okkur krakkana eitthvað og var vinur okkar.

Ég minnist þess ekki að pabbi hafi bannað mér að fara eitthvað eða gera eitthvað en hann ræddi það hinsvegar við mig. Mér er minnistætt árið sem ég  fermdist, þá var mikil skellinöðrumenning í Hofsós og strákarnir áttu Yamaha skellinöðrur sem ég var yfir mig hrifin af. Ég ræddi það við pabba að þegar búið væri að ferma mig, þá ætlaði ég að nota fermingarpeningana mína til þess að kaupa mér hjól. Hann ræddi við mig um kosti og galla  þess að eiga hjólið en spurði mig svo hvað ég myndi gera ef ég þyrfti að velja á milli þess að eiga hest eða hjól, hvort ég myndi velja. Um þetta hugsaði ég, svo sagði hann við mig að ef ég myndi ekki kaupa hjól þá skyldi hann gefa mér hest, hnakk og beisli í fermingargjöf. Þessu tilboði gat ég auðvitað ekki hafnað þannig að það varð aldrei neitt af því að ég fengi mér skellinöðru, en hest, hnakk og beisli fékk ég í fermingargjöf frá honum. Pabbi fór ákaflega vel með alla hluti og innprentaði okkur að fara vel með hlutina, standa við það sem við segðum og vera stundvís. Ég man þegar hann var að kenna mér að láta alla peningana snúa eins í peningaveskinu og svo ættu ekki að vera nein brot í þeim, hafa þá slétta. Þetta sat í mér og þegar ég var að vinna í verslun á kassa þá passaði ég upp á að allir peningarnir snéru eins og væru ekki krumpaðir í kassanum. Mér varð oft hugsað til hans þegar menn komu með samanvöðlaða peninga í vasanaum til þess að borga, þetta hefði pabba ekki líkað.

Eftir að ég stofnaði heimili á Sauðárkróki og var komin með börn þótti þeim mjög gaman að kíkja á afa á Akranesi, var þá jafnan tekin upp harmónikkan, hann spilaði lag og þau sungu. Það var líka kíkt í hesthúsið og börnin fengu að fara á hestbak. Pabbi var laginn við að hæna að sér börn og fannst nú ekki leiðinlegt að spila þau stundum aðeins upp í einhver fíflagang, þá var mikið helgið.

Pabbi hafði alla tíð mjög gaman af öllum félagsskap, húsbílaklúbburinn og harmónikkufélagið voru honum mjög kær. Þarna lágu leiðir okkar pabba saman. Þannig var að ég var í félagi Harmónikkuunnenda í Skagafirði og þeir eru með hátíð í Húnaveri um Jónsmessu ár hvert. Eitt sumarið þá voru mikil forföll hjá harmónikkufélaginu í Skagafirði þessa helgi og erfitt að manna í hljómsveit fyrir tvö böll. Var rætt hvernig þessu yrði bjargað og fannst mér að þetta yrði ekkert mál, við myndum bara fá pabba til þess að spila. Ég hringdi í hann og spurði hvort hann væri til í að spila með okkur. Honum fannst það nú sjálfsagt mál að spila með okkur og fékk Egil bróður sinn með sér og spiluðu þeir með okkur í nokkur ár. Það var mjög gaman að syngja við undirleik pabba því hann var svo músíkalskur og taktviss auk þess sem  það skipti engu máli í hvaða tóntegund lagið var. Hann kunni líka alveg ógrynni af lögum og ef hann kunni þau ekki þá var hann snöggur að læra þau. Hann þurfti ekki að heyra lag oft til þess að geta spilað það. Hann gat vel samið lög þó ekki væri hann mikið að opinbera það. Ég hef oft hugsað það að við systkinin værum sennileg ekki svona músíkölsk ef hann pabbi hefði ekki alið okkur upp við svona mikla músík. Hvatt okkur áfram í söng, að spila á hljóðfæri og leiðbeint okkur. Hann áréttaði við mann þegar maður var að byrja að syngja að textinn yrði að verða skýr og ekki ætti að renna sér of mikið á tónana. Það væri betra að syngja pínu stakkató og mýkja það svo.

Nú hefur pabbi kvatt þennan heim og spilar ekki meir undir söng hjá mér að sinni eða leiðbeinir. Hann spilar nú annarsstaðar og veit ég að það hefur verið  tekið  vel á móti honum. Ég vil þakka honum fyrir allar þær stundir sem við áttum saman, allar leiðbeiningar sem hann veitti mér í lífinu og stuðning á erfiðum stundum.

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem)

Ég vil kveðja pabba með þessari bæn sem ég lærði sem krakki og fór alltaf með fyrir börnin mín.

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Vertu sæll pabbi minn og takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Kristín.

Elsku pabbi minn.

Við vitum öll að  lífið endar, en enginn hvenær  og alltaf er maður jafn óundirbúin fráfallinu. Þú hefur nú verið leystur frá þrautum sem hafa þjakað þig í sumar og nú er mér ljóst  að þær þrautir hafa verið miklu meiri en þú lést í ljós, enda barst þú tilfinningar þínar ekki á torg.

Minningarnar úr bernskunni streyma fram í hugann. Það fyrsta sem ég man eftir mér er á pallbíl  með þér.  Við vorum að flytja frá Gröf.  Ég hef trúlega verið 3ja ára ég vildi fá að vera á pallinum hjá búslóðinni og þú lést mig standa fremst á pallinum og halda mér í höldu á  gulum gaskúti á leiðinni út í Ártún.

Ég hafði alveg óendanlega gaman af því að vera með þér í bílnum hvert sem þú fórst en mest gaman fannst mér að fara í erfiðar ferðir helst í brjáluðu veðri og mikilli ófærð. Ég man sérstaklega eftir einni slíkri í miklum snjóþunga við vorum sólahring á leiðinni til Sauðárkróks á mjólkurbílnum. Snjógöngin í Óslandshlíðinni voru á köflum hærri en karfan á bílnum. Þú hafðir einstakt lag á að mjakast í gegnum skaflana  og gladdist við hvern áfanga.

Ég man að það kom oft til álita hjá ykkur mömmu hvort ég færi með í svona ferðir þegar ég sótti það fast, oftast  léstu undan og aldrei man ég eftir því að þú hafir misst þolinmæðina gagnvart mér eða skammað mig nokkurn tímann. Oft var ég með þér fram á nótt, en það átti við þegar  fjárflutningar bættust við  mjólkurflutningana á  haustin.

Ef Það kom fyrir að ég mátti ekki fara með þér í bílinn þá brá ég stundum á það ráð að fara á undan þér útí bíl og fela mig bak við bílstjórasætið . Þegar þú komst í bílinn  brostir þú yfirleitt og sagðir Nú ertu þarna  ég skal segja mömmu þinni að þú komir með Ég var svolítið lík þér  ég gafst ekki upp fyrr en að fullreyndu.

Þú varst mikið ljúfmenni  skemmtilegur  húmoristi og léttur á þér. Ég gleymi aldrei þegar þú varst að smala hrossunum, mér fannst þú alltaf hlaupa hraðar en þau.

Harmónikka og söngur voru fastir liðir í okkar lífi  og mikið fjör á heimilinu. Svo var  mikið  sungið í mjólkurbílnum. Þú kenndir okkur ótal lög og texta sem við gleymum aldrei,  og einnig eina og eina vísu sem við höfum ekki eftir.

Um fermingu  fór ég með þér kirkjukórinn og söngfélagið Hörpu skömmu síðar.  Svo fórstu að keyra okkur í hljómsveitinni Upplyftingu  til að spila á böllum út um allt land það var skemmtilegur tími, allavega hjá okkur í hljómsveitinni, ég vorkenndi þér nú oft að vaka alla nóttina og bíða eftir okkur en iðulega  var ekki komið heim fyrr en undir morgun. Þú varst  boðinn og búinn fyrir okkur og óendanlega þolinmóður þrátt fyrir að tímasetningar færu oft úr skorðum af ýmsum ástæðum.

Ég var ekki gömul þegar þú leyfðir mér að keyra Land Roverinn. Ég þurfti að sitja fremst á sætisbrúninni til að ná niður á bremsuna, og teygja mig til að sjá út um gluggann. Þú lést mig stundum fara í hærri brekkur en ég þorði ég lét mig hafa það og svo hlógum við.

Ég held að mamma hafi ekki vitað um þennann glæfraakstur okkar.

Ég hugsa oft til þín þegar ég er í bíl og nota oft setningar sem þú notaðir gagnvart öðrum ökumönnum eða umferðinni almennt en þær eiga nú ekki við í minningargrein.