Guðmundur Páll Ólafsson fæddist á Húsavík árið 1941. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 30. ágúst 2012. Hann var sonur Ólafs Friðbjarnarsonar og Brynhildar Snædal Jósepsdóttur. Systkini Guðmundar eru: Guðrún, Ásta, nú látin, Guðmundur, Hrafnhildur, Hanna og Þröstur. Hann stundaði háskólanám og ýmis störf í Bandaríkjunum á árunum milli 1960 og 66, lærði meðal annars köfun, myndlist og lauk B.Sc. gráðu í líffræði. Frá 1966 til 68 var hann skólastjóri og kennari við Barna- og miðskóla Blönduóss þar sem hann setti á fót fyrstu tungumálastofu landsins, en frá 1968-70 var hann líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri. Á árunum 1970-74 lærði hann ljósmyndun og stundaði doktorsnám í sjávarlíffræði í Stokkhólmi. Auk þess skrifaði hann námsefni fyrir börn og stundaði rannsóknir á fjörulífi í Flatey á Breiðafirði. Á þessum árum starfaði hann og bjó í Flatey, var skólastjóri og kennari, stundaði náttúru- og heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð. Næstu ár starfaði hann jöfnum höndum við köfun, hönnun bóka, trésmíðar, fiskveiðar og teikningar í Flatey, meðal annars í rit Lúðvíks Kristjánssonar Íslenzkir sjávarhættir I-IV. Árin 1984-85 stundaði Guðmundur Páll listnám í Bandaríkjunum. Eftir 1985 starfaði hann samfellt sem rithöfundur, náttúrufræðingur, náttúruljósmyndari, virkur náttúruverndari og fyrirlesari heima og erlendis. Stórvirki Guðmundar eru bækur um náttúru Íslands: Fuglar, Perlur, Ströndin, Hálendið og óútgefin bók um Vatn. Perlur og Ströndin hafa verið þýddar á ensku. Að auki skrifaði hann barnabækur um náttúruna og bækurnar Þjórsárver og Um víðerni Snæfells. Í bókum sínum hefur Guðmundur skrifað texta, gert skýringarmyndir og tekið ljósmyndir. Hann ferðaðist víða heima og heiman í leit að myndefni og upplifunum. Guðmundur hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín. Guðmundur Páll bjó og starfaði frá 1990 í Stykkishólmi. Í Flatey kynntist hann Ingunni K. Jakobsdóttur kennara og hófu þau sambúð 1976. Dætur Guðmundar eru Blær, f. 1973, Ingibjörg Snædal, f. 1981 og Halla Brynhildur, f. 1984. Tengdasynir hans eru Finni, Ragnar Brjánn og Mads. Barnabörn Guðmundar eru þrjú: Rökkvi Steinn, Salka og Þórkatla. Útför Guðmundar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 6. september 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Do you know this guy? Það var gömul vinkona okkar, Nina Leopold, sem spurði og otaði að mér bandarísku náttúruverndartímariti með mynd af manni í íslenskri lopapeysu í íslenskri náttúru. Nina var dóttir Aldo Leopold, helsta umhverfissiðfræðings sögunnar. Greinin var um vernd náttúru Íslands og maðurinn á myndinni var Guðmundur Páll Ólafsson. Ég sagði Ninu að ég þekkti hann ekki persónulega en auðvitað þekkti ég til hans; það gerðu allir Íslendingar, hann væri þrautseigasti og snjallasti málsvari íslenskrar náttúru. Well, this guy is doing an extraordinary job svaraði hún. Þá varð maður montinn af því að vera Íslendingur! Ég þekkti Guðmund Pál ekki, en datt í hug að nota tækifærið, sendi honum póst og sagði honum að ég væri mikill aðdáandi verka hans, allt frá litlu kverunum um fjörugróður til stærri verka, og að nú hefði dóttir og arftaki Aldo Leopold spurt  eftir honum og dáðst að því sem hann væri að fást við. Og auðvitað svaraði Guðmundur Páll um hæl. Mikið fannst honum gaman að heyra af þessu. Verk Aldo Leopold væru í hillunni fyrir ofan skrifborð hans og að dóttir meistarans skyldi spyrja eftir honum þótti honum vænt um.

Þegar maður eignast gott ritverk, eins og bækur Guðmundar Páls eignast maður félaga sem hægt er að leita til þegar efla þarf andann og skerpa á skilningi. Að eignast höfund slíkra verka að vini er ómetanlegt. Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi eftir að við fluttum til Íslands í byrjun aldarinnar og nutum ríkulega.

Guðmundur Páll var einstakur maður, eldhugi, hugsuður og hugsjónamaður eins og þeir gerast bestir. Leiftrandi greindur, mikill húmoristi og fjölhæfari en gengur og gerist. Um það vitna bæði bækur hans og bú. Hann var heimsmaður, víðförull og víðlesinn en um leið hógvær, lítillátur og nægjusamur.

Þrautseigja Guðmundar í baráttunni fyrir því að náttúrunni væri sýnd sú virðing sem henni ber, er aðdáunarverð. Fáir hafa lagt eins mikið af mörkum til að auka skilning fólks á gildi íslenskrar náttúru. Hann hafði skilning á samhengi hlutanna og benti fólki á hvernig mannanna verk gætu haft áhrif bæði til góðs og ills. Margir heilluðust af verkum hans, en það getur verið erfitt að eiga við stjórnvöld sem átta sig ekki á því hvaðan auðlegð þjóðarinnar kemur og að þeirri uppsprettu megi ekki spilla. En Guðmundur gafst ekki upp, hann skrifaði bækur og tvinnaði saman náttúrufræði, sögu, bókmenntum og vistfræði þannig að fólk gæti lært. Og þegar það dugði ekki til, greip hann til friðsamlegra aðgerða, reisti fána, á landi sem búið var að dæma til drekkingar og þar beið hann með landinu þess sem verða vildi. Þetta var ógleymanlegur görningur, sterkur og snjall eins og gerandinn.

Guðmundur var aðal hvatamaður að stofnun Auðlindar-Náttúrusjóðs, en hann hafði lengi viljað  að stofnaður yrði sjóður til verndar náttúru Íslands. Hugmynd hans varð að veruleika 1.desember 2008. Guðmundi öðrum fremur, tókst að smala saman  fólki, sem á erfiðum tímum var tilbúið til láta fé af hendi rakna til að stofna sjóð til að standa vörð um mikilvægustu auðlind okkar, náttúruna sjálfa. Síðan þá hefur þessum litla sjóði tekist að styðja verkefni sem miða að endurheimt landgæða og tekist að vekja eftirtekt innlendra og erlendra aðila.  Enn bíður sjóðsins  mikið starf, en við höldum minningu Guðmundar best á lofti með því að halda áfram á þeirri braut sem hann ruddi.

Guðmundur var gæfumaður í einkalífi, Inga kona hans var greinilega hans sterkasti stuðningsmaður og dæturnar þrjár, fallegar og greindar eins vænta má. Honum þótti líka greinilega undur vænt um fjölskyldu sína, þó hann hafi áreiðanlega fórnað mörgum stundum fyrir land og þjóð á kostnað fjölskyldusamveru. Fjölskylda hugsjóna- og baráttumannsins leggur líka sitt að mörkum, með því að gefa honum tóm til að berjast fyrir okkur öll.

Síðustu misserin glímdi Guðmundur við erfið veikindi, en var samt sem áður sami ósérhlífni baráttumaðurinn fyrir góðum málstað, ávalt virkur, forvitinn og hugsandi með greindarlegt glettnisblik í auga.

Við kveðjum einstakan hugsuð og öðling með söknuði, virðingu og þakklæti fyrir dýrmæt kynni og sendum Ingu, dætrunum og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Minning hans lifir um ókomna tíð.

Salvör og Jón Atli.