Sigrún Einarsdóttir fæddist í Hafnarfirði 11. desember 1927. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 7. september 2012. Kjörforeldrar Sigrúnar voru Einar Ágúst Guðmundsson, f. 1894, d. 1961, og Þuríður S. Vigfúsdóttir, f. 1900, d. 1987. Fóstursystir Sigrúnar er Sigríður Guðmundsdóttir, f. 1928, búsett í Bandaríkjunum. Foreldrar Sigrúnar voru Jón Gestur Vigfússon, f. 1892, d. 1980, og Sesselja Magnúsdóttir, f. 1893, d. 1975. Systkini Sigrúnar voru Steinunn Ingiríður, f. 1916, d. 2007, Guðlaugur Magnús, f. 1918, d. 2004, Ásta Vigdís, f. 1920, d. 1999, Sigríður Áslaug, f. 1922, d. 1994, Vigfús, f. 1923, d. 1991, Gunnar Kristján, f. 1925, d. 1997, Jón Gestur, f. 1926, Haukur, f. 1929, d. 1930, Haukur, f. 1931, d. 2001, Hörður, f. 1934, Guðmundur, f. 1935, d. 1988 og Einar Þórir, f. 1938. Sigrún giftist hinn 28. júní 1952 Yngva Guðmundssyni rafmagnseftirlitsmanni og kennara við Iðnskólann á Ísafirði, f. 12. febrúar 1926 í Reykjavík, d. 15. ágúst 2003. Foreldrar hans voru Guðmundur Kristinn Guðjónsson, f. 1893, d. 1977, og Geirþóra Ástráðsdóttir, f. 1892, d. 1980. Börn Sigrúnar og Yngva eru: 1) Þuríður, f. 1952, maki Guðmundur Jónsson, f. 1952. Börn þeirra eru a) Málfríður, f. 1977, b) Yngvi, f. 1984, kvæntur Sigrúnu Melax, f. 1984. Saman eiga þau dæturnar Þuríði, f. 2007, og Áslaugu, f. 2011 c) Ingibjörg Ásta, f. 1987. 2) Guðmundur Geir, f. 1953, d. 1975 3) Auður, f. 1963, gift Skúla Berg, f. 1963. Börn Auðar eru a) Anna f. 1981, d. 1981. b) Guðmundur Geir, f. 1985, sambýliskona hans er Birgitta Rós Guðbjartsdóttir, f. 1988. Saman eiga þau synina Ásgeir Yngva, f. 2007 og Eið Otra, f. 2011. c) Sigrún Anna, f. 1993. d) Guðmundur Viðar, stjúpsonur, f. 1983. e) Þórunn Sigurbjörg, stjúpdóttir, f. 1985, sambýlismaður hennar er Baldur Hannesson, f. 1988, sonur þeirra Hannes Freyr Berg Baldursson, f. 2010. 4) Einar Ágúst, f. 1963, kvæntur Emelíu Þórðardóttur, f. 1960. Börn Einars eru: a) Konráð, f. 1988, sambýliskona hans er Maria Gundersen, f. 1988. b) Daníel Ágúst, f. 1997. c) Katrín Ósk, f. 1999. d) Kristinn Ísak Arnarsson, stjúpsonur, f. 1981, kvæntur Elsu Margréti Magnúsdóttur, f. 1981. Saman eiga þau börnin Ástmar Helga, f. 2005 og Dagnýju Emmu, f. 2009. Sigrún ólst upp á Ísafirði hjá Þuríði föðursystur sinni og Einari Ágústi Guðmundssyni klæðskera. Sigrún fékk ung að aldri lömunarveiki sem markaði líf hennar alla tíð. Hún nam söng og píanóleik í Tónlistarskóla Reykjavíkur á sínum yngri árum. Sigrún og Yngvi bjuggu á Ísafirði í um 40 ár. Hún helgaði sig húsmóðurstörfunum en að auki kenndi hún á píanó og var mjög virk í starfi Sunnukórsins og Kirkjukórsins á Ísafirði. Sigrún og Yngvi fluttu í Mosfellsbæinn árið 1994 og bjuggu þar í 9 ár. Þegar Yngvi féll frá flutti Sigrún aftur til Ísafjarðar og bjó á Hlíf á meðan heilsan leyfði. Síðustu tvö árin dvaldi Sigrún á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði. Útför Sigrúnar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 15. september 2012, og hefst athöfnin kl. 14.
SEIG. Við stóðum í fokheldu húsinu sem Sigrún frænka og Yngvi (Ingi) voru að byggja að Engjavegi 27 á Ísafirði. Þetta var á þeim tíma sem menn byggðu hús sín sjálfir og vinir og vandamenn lögðu hönd á plóg. Sigrún hafði teiknað þessa stafi á eina rúðuna og sýndi mér: þetta væru upphafsstafirnir í nöfnunum þeirra Yngva en sýndi jafnframt að þau væru seig! Þetta fannst mér stálpuðum krakkanum nokkuð smart en seinna átti þetta orð eftir að verða mér tákn um seigluna í henni frænku minni. Seig var hún og þurfti meira á því að halda en margir aðrir. Bíta á jaxlinn og bölva í hljóði sagði hún við okkur krakkana ef við vorum eitthvað að bera okkur aumlega. Má maður segja svona? Já, Sigrún má það svaraði móðir okkar. Og Sigrún mátti ýmislegt sem okkur krökkunum var kennt að væri ókurteisi og ekki er viðeigandi að segja frá í minningargrein um svo fágaða og fallega konu. En skýringin kom. Barn að aldri veiktist Sigrún af lömunarveiki og barðist við afleiðingar hennar allt sitt líf en hún gerði það með þeim hætti að við krakkarnir gerðum okkur ekki grein fyrir skertum líkamsburðum hennar. Að hún skyldi ganga með og fæða 4 börn er í mínum huga hreint kraftaverk. Um tvítugt fór hún í mikinn bakuppskurð og þurfti í framhaldi af því að liggja á Landakotsspítala að mestu í eitt og hálft ár. Hún talaði stundum um sumarið þegar hún lá rúmföst í gifsi frá mjöðm og upp að hálsi og úti skein sólin, börnin léku sér og blómin blómstruðu. Þrátt fyrir fötlun sína bar hún sig ætíð með reisn og þokka, glæsileg, ég man eftir mynd af henni og pabba prúðbúnum á Sunnukórsballi, þar stendur hún þráðbein í flotta ballkjólnum, myndin hefði smellpassað í hvaða glanstímarit dagsins í dag. Og önnur mynd er mér hugstæð, hún er tekin á jólum í Hafnarstræti 6 hjá Þyrí ömmu og frænda. Sigrún og Yngvi með Þyrí og Geir, á aldrinum 4-5 ára. Öll svo falleg og fín, ævintýraljómi yfir þeirri mynd.
Sigrún lét fötlun sína ekki aftra sér. Eftir að hún lauk Gagnfræðaskólanum á Ísafirði stundaði hún nám í Tónlistarskóla Reykajvíkur í 2 ár þar sem hún lagði stund á píanó- og söngnám auk þess sem hún sótti tíma í Myndlistarskólanum. Hún hafði ákaflega fallega söngrödd og var talin eiga framtíðina fyrir sér í söngnum en afleiðigar lömunarveikinnar komu í veg fyrir það. Þá þurfti hún á seiglunni að halda eins og oftar í lífshlaupinu, en harðast gekk lífið að henni er Geir, næstelsta barnið þeirra Yngva, lést úr krabbameini rúmlega tvítugur.
Listrænir hæfileikar Sigrúnar nutu sín m.a. í ákaflega fallegu handverki, hún var ótrauð við að prófa alls kyns nýjar og oftar en ekki óhefðbundnar hannyrðir. Eitt sinn hringdi hún og bað mig að koma og máta fyrir sig. Ég hef verið svona 10 ára. Þá var hún búin að sauma dýrindis baby-doll náttföt. Mikil var hamingja mín þar til hún sagði að þetta ætti að vera jólagjöf fyrir frænku fyrir sunnan... Ég fór heim niðurbrotin, hvernig gat hún Sigrún gert mér þetta... En hvað kom upp úr jólapakkanum annað en hvítu baby-doll náttfötin með grænu doppunum!
Sigrún var okkur systkinum miklu meira en bara frænka. Eldri systkinunum var hún eiginlega eins og stóra systir, enda ekki nema 13 ára þegar elsti bróðir minn fæddist, í Hafnarstræti 6 á heimili Þyrí ömmu og frænda. Alla tíð voru samskipti fjölskyldnanna afar náin, aðeins nokkur hús á milli heimilanna á Engjaveginum og á sumrin vorum við nánast eins og ein stórfjölskylda þar sem við bjuggum í sumarbústöðunum í Tunguskógi, lóðirnar samliggjandi og stígur milli húsanna. Þyrí amma, mamma og Sigrún sáu um börn og bú inni í Skógi meðan frændi, pabbi og Yngvi stunduðu vinnu sína á Ísafirði, fóru snemma morguns og komu heim að kvöldi með lífsviðurværið, að hætti Skógarfeðra. Lífið var leikur, í minningunni sól og blíða alla daga, tvær mömmur og ein amma sem kom og kitlaði bræðurna til að koma þeim á fætur á morgnana. Einu gilti hver þeirra huggaði og setti plástur á sár eða gaf mjólk og köku eða kringlu. Í Skóginum var mannlífið einstakt og gott, þar ræktaði Sigrún garðinn sinn af mikilli list, varð sér úti um fáséð blóm og runna. Þangað sótti hún styrk. Síðustu sumrin var garðvinnan nánast orðin henni ofviða en þá lét hún sig ekki muna um að fara um á fjórum fótum til að hreinsa beðin og sinna blómunum sínum.
Sigrún frænka mín var hörkutól. Hún var lífsglöð, falleg, blíð. Fullorðin kona fannst mér gott að koma til hennar og ræða málin. Hún var stór hluti af lífi mínu. Ég bið Guð að geyma Sigrúnu og kveð hana með væntumþykju og þakklæti fyrir það sem hún gaf mér og var mér með fallegu kveðjunni hennar sjálfrar: Vertu sæl, elskuleg.
Ásdís S. Hermannsdóttir.