Níels Friðbjarnarson fæddist á Siglufirði 7. september 1918. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði 7. september 2012. Foreldrar hans voru hjónin Friðbjörn Níelsson, fæddur á Halllandi á Svalbarðsströnd 17. janúar 1887, kaupmaður og síðar bæjargjaldkeri á Siglufirði, d. 13. október 1952, og Sigríður Stefánsdóttir, fædd 21. júní 1895 á Krakavöllum í Fljótum, húsmóðir á Siglufirði, d. 2. júní 1987. Níels var elstur sex systkina. Hin eru Kjartan, fæddur 23. nóvember 1919, látinn 29. apríl 2003, Anna Margrét, fædd 15. ágúst 1921, Stefán, fæddur 16. júlí 1928, Kolbeinn, fæddur 3. október 1931, látinn 11. júní 2000 og Jóhann Bragi, fæddur 30. nóvember 1935, látinn 12. júní 1990. Níels kvæntist 3. ágúst 1953 Önnu Margréti Guðleifsdóttur frá Móskógum í Fljótum, f. 14. október 1916, d. 24. mars 2003. Hún var dóttir Guðleifs Jónssonar frá Fjalli í Sléttuhlíð og Guðrúnar Halldórsdóttur frá Bjarnargili í Fljótum. Börn Níelsar og Margrétar eru: 1) Guðrún Þóranna, f. á Siglufirði 18.12. 1953, maki Sigurður Kjartan Harðarson, f. á Dalvík 16.5. 1952, börn þeirra: a) Anna Margrét, f. 17.12. 1974. Börn hennar eru Sylvía Björk, f. 30.0 6. 1991, unnusti Ragnar Þorsteinn Sigurðarson, 14.9. 1991, og Sif, f. 7.4. 1998. b) Guðjón Orri, f. 12.5. 1984. c) Sunna Berglind, f. 29.1. 1992. d) Freyja Sólrún, f. 18.6. 1994. 2) Friðbjörn Níelsson, f. á Siglufirði 23.12. 1954, börn hans eru: a) Rannveig Björk, f. 11.10. 1976, maki Arnar Már Einarsson, f. 6.8. 1975, barn þeirra Kristján Daði, f. 13.11. 2002. b) Níels Friðbjarnarson, f. 18.1. 1984, barn hans Vala Ósk, f. 9.8. 2008. Fyrir átti Margrét dótturina Ólöfu Margréti Ólafsdóttur, f. á Þrastarstöðum í Sléttuhlíð 5.6. 1944, maki Jón Torfi Snæbjörnsson, f. í Hólshúsum í Eyjafirði 27.5. 1941, börn þeirra eru: a) Ólafur Örn, f. 25.5. 1964, sonur Gunnar Steinþór, f. 20.3. 1998, og Anna Margarita, f. 15.11. 2007. Ólafur ólst upp að miklu leyti hjá Níelsi og Margréti. b) Pálína, f. 16.5. 1968, dóttir Ugla Huld Hauksdóttir, f. 31.7. 1989. c) Júlía Þórunn, f. 22.11. 1982, dætur Agla Rut, f. 7.9. 2006, Njála Rún, f. 7.9. 2006. Níels ólst upp á Siglufirði. Stundaði nám við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Þaðan lá leiðin til náms í Reykjavík og útskrifaðist hann með verslunarpróf frá Verslunarskólanum í Reykjavík. Á skólaárunum í Reykjavík stundaði hann fimleika og var í sýningarflokki með ÍR og einnig með norðlenskum sýningarhópi eftir að heim kom. Næstu árin eftir að hann útskrifaðist úr Verslunarskólanum vann hann við verslunarstörf á Siglufirði en lengstan starfsaldur átti hann í Útvegsbankanum á Siglufirði. Auk þess kenndi hann um árabil bókfærslu við Gagnfræðaskólann og Iðnskólann á Siglufirði. Níels var mikill útivistarmaður og náttúruunnandi. Hann var einnig mikill bridsspilari og keppnismaður í þeirri íþrótt og heiðursfélagi Bridsfélags Siglufjarðar. Útför Níelsar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, 21. september 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Nægjusemi, hófsemi, hógværð...  Þessi orð og ámóta lýsingar komu mér hvað fyrst í hug á þagnarstund er ég settist niður til að setja á blað hugleiðingar um fóstra minn og seinni mann Margrétar ömmu minnar, sem ég ólst upp hjá á Siglufirði.  Og vera má að einmitt orð í þessa veruna lýsi afa hvað best ef ég þekki rétt.  En afa fylgja einnig önnur orð, sem kannski hafa á sér ögn veraldlegri blæ eins og: ábyrgð, samviskusemi, vandvirkni...

Ég ætla mér ekki þá dul að lýsa manninum í eitt skipti fyrir öll né þaðan af síður að koma með einhverja konkret niðurstöðu um það hvernig maður hann var.  En eitt er víst að Níels afi var með sérstæðari mönnum, sem ég hef kynnst um dagana.  Og því meir sem ég brýt heilann um þennan hæga og prúða edilonsmann kemur mér í hug Bókin um veginn með heimspeki kyrrðarinnar sem aðalinntak.  Afi starfaði nefnilega í hljóði og barst ekki á.  Alla tíð skilaði hann sínum tímum með kurt og pí.

Kannski er það þversagnakennt að maður svo frábitinn öllu veraldarvafstri sem afi sannarlega var skuli hafa starfað lungann úr ævinni í hinu háa musteri Mammons við Aðalgötu við að telja peninga daginn út og inn.  Það var vettvangur hans og sú hlið sem blasti við públikum.  En bakhliðin á skildingi hans var engu að síður sjálf náttúran, jurtirnar, fuglarnir og annað þar fram eftir götunum.   Hann hélt sjálfur hænsn með kvinnu sinni heima í Grundargötu.  Það eru skemmtilegustu fuglar, sem ég veit um.  Hann var vanur að koma inn í stofu í sloppnum sínum með litlu ungana í tágakörfu eða pappakassa með dagblöðum á botninum að sýna okkur, en aðeins í smástund svo hænan og fiðurféð allt færi ekki að örvænta.  Það voru afskaplega ánægjulegar stundir og eru með elstu minningum tengdum afa.

Ég minnist þess einnig að hann sótti hverja teikniblokkina á fætur annarri inn í skrifborð sitt og líka stafrófsarkir, sem ég klippti sundur og krotaði á.  Þegar ég óx úr grasi hjálpaði hann mér með heimanámið og var ekki vanþörf á.  Ég er hræddur um að það verði að skrifast á tossaskap minn og tregnæmi að fyrir kom að blessaður kallinn, þessi mikli rólegheitamaður, stökk upp á nef sér og strokaði reiðilega út vitleysuna, sem vall úr mér.  En hann gat líka haft gaman af vitleysunni og hlegið að henni eins og þegar hann var að hlýða mér yfir kvæðið Ísland þar sem ég sagði: manndrápin best í stað: manndáðin best.  Þessi einkakennari minn og mikli nákvæmnismaður kenndi einnig bókfærslu í stundakennslu í iðnskólanum á kvöldin og gagganum á morgnana.  Í gamla daga opnaði bankinn ekki fyrr en klukkan tíu.  Ég man einu sinni eftir því að þessi stundvísi maður varð fyrir þeirri ógæfu að sofa yfir sig.  Hann rauk upp með andfælum og stökk af stað án þess að bragða hvorki vott né þurrt.  Hann mátti ekki vamm sitt vita.

Það var mikil endurnæring og endurlausn eftir að hafa setið dasaður undir útvarpsmessunni á sunnudögum að ráði ömmu að komast í reglulega góða skemmtun seinna um daginn, nefnilega þrjúbíó hjá Oddi.  Þá fékk ég sunnudagspeninga hjá afa í lófann eins og krakkarnir hans höfðu áður fengið.  Fyrst voru það fimmtíu krónur því bíóið sjálft kostaði 25 krónur og Oddsísinn frægi og góði annað eins.  Seinna fékk ég sextíu krónur, en ég man ekki hvort um hefðbundna hækkun hafi verið að ræða eða verðbólguskot.  Einu sinni kom það fyrir að ég missti tíukrónu peninginn niður í holræsi.  Ég flýtti mér heim og sagði afa hvernig komið var, en hann gaf mér bara fyllilega í skyn að maður yrði að halda fast um peningana.  Því miður hef ég ekki alltaf farið nægilega vel að þeim ráðum.

Afi var þögull maður, sagði fátt en hugsaði lengra.  Sagði ekkert orð út í bláinn.  Ef hann talaði hlustuðu menn því hann var rökfastur og meitlaður.  Hann hafði sig yfirleitt lítt í frammi, hélt sig hálfpartinn til hlés við umræðuna, var eilítið fjarlægur í nánd sinni en fylgdist vel með öllu.  Það var eins og hann væri aldrei sjálfur í aðalhlutverki.   Á eigin heimili var hann til að mynda í aukahlutverki því amma fór með aðalhlutverkið og tók sig mjög vel út í því.  Stundum var líkast sem hann stæði utan við leikritið og væri bara að fylgjast með því sem þar gerðist alveg þátttökulaust.  Hann virtist geta horfið alveg inn í umhverfið og samsamað sig því fullkomlega eins og kamelljónið, en á sama tíma var hann eins og utan við veröldina, ekki á staðnum.  Amma nöldraði soldið í honum því henni þótti hann heldur rólegur í tíðinni með að framkvæma ýmislegt, sem hana langaði í.  Afi stóð það allt af sér eins og Stóuspekingur, en auðvitað borgaði kall brúsann.  Það datt hvorki né draup af honum.  Hann var afskiptalítill maður.

Hann var geysifróður um marga hluti.  Þekkti allt og alla á Siglufirði og kunni á öllum tengslum skil.  Hann var áskrifandi að ýmsum íslenskum og erlendum fræðiritum um áratugaskeið.  Minnisstæðast er mér hið gula og vandaða National Geography vegna allra litmyndanna af framandi dýrum, mannflokkum og ýmsum öðrum furðum veraldar.  Hann náði góðu valdi á teikningu þó hann legði það ekki fyrir sig og hafði fagra og fínlega rithönd.  Var afburða fimleikamaður ungur, og þegar ég var að alast upp var morgunleikfimin alltaf fastur passi hjá honum.  Ég man vel að einn morguninn þegar hann var að gera æfingar sínar tilkynnti hann með undrun í röddinni að gos væri hafið í Heimaey.  Hann fór reglulega í sund og synti sína 200 metra.  Á göngu hafði hann ætíð barðahatt með broti í hliðum og kolli, og var á burstuðum blankskóm í skóhlífum því í gamla daga óðu menn ekki síður í aur en peningum í gamla síldarbænum.

Bridsinn var sérkapítuli út af fyrir sig.  Afi var vanur að spila brids eitt kvöld í viku, mig minnir endilega mánudagskvöld.  Í þessu forframaða og útfarna spili, sem brúar heimsálfurnar, kristallaðist hvorttveggja karakter afa og aðferð akkúratmannsins: nákvæmnin, eftirtektin, sögnin að segja aðeins það sem skiptir máli.  Punktur.  Þetta spil átti sérhvert bein í afa.  Hann varð Norðurlandsmeistari með sinni sveit.  Amma sagði að hann svæfi illa nóttina eftir spil því þá var hann að fara yfir spilin í huganum.  Og nóttin fyrir spil var víst ekki laus við spennu eða eftirvæntingu.  Hann spilaði ekkert hittumiggrand við húsfrú sína eða gesti þegar vistin var annarsvegar og spáði meira í sín eigin spil.  Hann hikaði ekki við að segja nóló ef hann taldi það réttari sögn miðað við aðstæður.  Hann var raunsær.  Þótti ömmu Nilli sinn, spekingurinn, á stundum heldur lengi að hugsa sig um.  Hann hafði sérstaka takta við borðið og lyfti hendinni á alveg sérstakan hátt þegar hann drap.  Hann notaði ermahnappa.

Afi var spakur maður með spaugilegar hliðar nema hvað?  Launfyndinn sjálfur.  Heilsteyptur en þversagnakenndur eins og sjálf tilveran.  Flókinn í einfaldleik sínum.    Hreinn og beinn og laus við alla tilgerð.  Sannur og trúr yfir því sem honum var treyst fyrir.  Það gat stundum hvarflað að manni að hann væri skaplaus en svo var ekki.  Og hann var afgerandi persónuleiki og fastur fyrir ef því var að skipta.   Aldrei fann ég að hann væri upptekinn af sjálfum sér, en gat verið viðutan.  Og ég fann ekki betur en hann væri eins við alla og gerði ekki mannamun.  Að vísu þoldi hann illa menn ef þeir voru í víni, en það er annað mál.  Hann var ekki trúmaður og þó sannari en fólkið  sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í Krist.  Hann var sparsamur í þess orðs bestu merkingu.

Afi og amma höfðu allt til alls en lifðu mjög fábrotnu lífi að mér fannst.  Spil og bingó voru þeirra salt og pipar.  Þetta fólk var lítið á fartinni og lét oftast duga að renna með öku-Þór inn í Fljót og Sléttuhlíð.  Afi naut slíkra ferða mjög því hann var náttúrubarn í eðli sínu.  Hann hafði mikið gengið á fjöll og unni kviku umhverfinu.  Einhverju sinni vorum við í berjum þegar amma uppástendur að afi sé týndur og byrjar að hrópa og kalla í allar áttir.  Kom kall í leitirnar fyrr en seinna, en var ekki ánægður með að kella hefði rofið kyrrðina því hennar vildi hann njóta í friði.

Við feðgarnir göntuðumst stundum okkar á milli hve framkvæmdafælinn kallinn væri því þegar hann kom í Lónkot spurði hann ævinlega um maríuerluna en vék talinu aldrei að uppbyggingu staðarins, sem við vorum mjög uppteknir af.  En afi var svo lítillátur að hann var bara upptekinn af smáfuglunum.  Og kannski að það sé svo þegar öllu er á botninn hvolft að sjálf hamingjan felist einmitt í hinu smáa.  Kannski mætti líka orða það þannig að hið mikla sé í líki hins litla og allt annað sé hégómi og eftirsókn eftir vindi...

Ólafur Jónsson

Ólafur Örn Jónsson