Helgi Berg Viktorsson fæddist í Vestmannaeyjum 16. mars 1967. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 18. október 2012. Foreldrar hans eru Stefanía Þorsteinsdóttir, f. 1944 og Viktor Berg Helgason, f. 1942. Foreldrar Stefaníu voru Anna Jónsdóttir, f. 1917, d. 2007, og Þorsteinn Sigurðsson, f. 1913, d. 1997, frá Blátindi í Vestmannaeyjum. Foreldrar Viktors voru Unnur Lea Sigurðardóttir, f. 1922, d. 1998 og Helgi Bergvinsson, f. 1918, d. 1989, til heimilis að Miðstræti 25 í Vestmannaeyjum. Bræður Helga eru: 1) Þorsteinn Viktorsson, f. 1963, eiginkona hans er Díanna Þyri Einarsdóttir, f. 1971, börn þeirra eru Stefanía, f. 1988, Alexander Jarl, f. 1993 og Viktoría Rún, f. 1997, 2) Gunnar Berg Viktorsson, f. 1976, eiginkona hans er Dagný Skúladóttir, f. 1980, börn þeirra eru Viktor Berg, f. 2005 og Þórdís, f. 2009. Dóttir Helga er Lea Helgadóttir, f. 1993, unnusti hennar er Magni Freyr Magnússon, f. 1992. Barnsmóðir Helga er Sigrún Jónsdóttir, f. 1971, foreldrar hennar eru Jónína Árnadóttir, f. 1939 og Jón Hákonarson, f. 1944. Eftirlifandi sambýliskona er Sæunn Marinósdóttir, f. 1973, foreldrar hennar eru Kristín Alfreðsdóttir, f. 1950 og Marinó Ragnarsson, f. 1941. Helgi Berg ólst upp í Vestmannaeyjum til átján ára aldurs en þá flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann undi sér vel. Hann starfaði stærstan hluta sinnar starfsævi hjá Blikksmiðjunni Glófaxa ehf. í Ármúla. Helgi var mikill fjölskyldumaður sem tileinkaði sér heilbrigt líferni. Hann hafði mikla ástríðu fyrir bílum sem kom fram strax á barnsaldri. Þá stundaði hann líkamsrækt af einskærri elju og hafði mikinn áhuga á útivist. Útför Helga fer fram frá Landakirkju í dag, 27. október 2012, og hefst athöfnin kl. 14.
Mikið óskaplega er það skrýtin tilfinning að sitja og rita minningarorð um þig kæri bróðir. Símtalið klukkan fimm að morgni frá Gunnari bróður okkar var eins og köld vatnsgusa í andlitið. Allt fór af stað og við tók verkefni sem mig hefði ekki getað órað fyrir er við ræddum síðast saman rúmum sólarhring áður. Þú varst búinn að vera hálf slappur en ekkert virtist vera alvarlegt í gangi að sögn sérfræðinga. Þau voru þung skrefin niður Illugagötuna til mömmu og pabba og ég velti því fyrir mér hvernig ég gæti fært þeim þessar fréttir. Af hverju í ósköpunum varst þú tekinn frá okkur? Góðmenni sem aldrei hefur gert flugu mein. Kannski var þinn tími kominn, elsku bróðir, þótt erfitt sé að skilja að svo sé.
Það er af mörgu að taka þegar litið er til baka. Ýmislegt kemur upp í hugann og ósjálfrátt leitar hugurinn til æskunnar. Þegar þú fæddist bjuggum við í blokkinni við Hásteinsveg. Mér fannst það vera mitt verkefni að passa upp á þig. Fjögur ár skildu á milli okkar og varstu litli bróðir allt þar til Gunnar, litla örverpið eins og við kölluðum hann, kom í heiminn. Í gosinu fluttum við upp á land og bjuggum í vesturbænum. Ég gekk í Melaskóla og þú varst í dagvistun í kjallaranum í Neskirkju. Pabbi var að vinna úti í Eyjum og við bíllaus þannig að það kom í minn hlut að leiða þig í og úr leikskólanum, ég að verða ellefu ára og þú að verða sjö ára. Eitt sinn eftir skóla fann ég ekki skóna mína, þeir höfðu verið teknir í misgripum. Nú voru góð ráð dýr. Þar sem ég stóð í anddyrinu komu vinir okkar þeir Smári og Siggi og buðust til að reiða okkur heim á hjólunum sínum. Ég setti þig á bögglaberann á öðru hjólinu og sagði þér að halda þér fast. Allt gekk vel og þegar heim var komið brostir þú út að eyrum. Þetta ævintýri átti vel við þig.
Jólin voru einstakur tími hjá okkur. Mér er sérstaklega minnisstæð einlægni þín þegar þú varst búinn að hrista alla jólapakkana og gast ekki beðið lengur. Þú horfðir á pabba með fallegum saklausum svip og spurðir af þinni einskæru einlægni hvort hann ætlaði virkilega að fá sér meira að borða. Hvenær átti að opna pakkana?
Það má segja að við höfum byrjað snemma saman í rekstri. Þegar ég fékk brennandi áhuga á dúfnarækt suðaðir þú um að fá að vera hluthafi í dúfnabúinu. Á endanum var auðvitað ekki annað hægt en að gefa þér útgerðina í heild sinni þar sem leið mín lá í Menntaskólann á Laugarvatni og hver annar en þú myndi sjá um búið af alúð? Það kom mér því á óvart þegar ég kom heim í jólafrí að dúfurnar voru horfnar af lóðinni og að búið var að selja þær hæstbjóðanda. Ekki langur rekstur það! Reyndar var mamma hæstánægð með söluna og hugsa ég að hún hafi eitthvað haft með málið að gera enda ekkert nema óþrifnaður í kringum útgerðina.
Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar þú fékkst bílprófið á sautján ára afmælinu þínu. Ekki leið á löngu þar til þú baðst um að fá BMW-inn minn að láni til þess að fara á rúntinn. Auðvitað fékkstu hann um leið, þrátt fyrir að ég vissi vel að hann kæmi til baka með tóman tank. En ég vissi líka að bíllinn yrði tandurhreinn og þrifinn og því um ágætis viðskiptasamband að ræða. Í raun var þetta þegjandi samkomulag sem aldrei var rætt. Á átjánda aldursári fluttir þú á mölina. Þá urðu kaflaskil í þínu lífi og þú kynntist tryggum vinum og fannst þína fjöl í lífinu. Það kom berlega í ljós núna þegar ég hitti vini þína og samstarfsmenn hjá Glófaxa, sem voru harmi slegnir og sárir yfir vinamissi, að þarna voru vinnufélagar þínir til margra ára að missa góðan félaga sem alltaf var hægt að treysta á. Ég fylltist stolti, það er nefnilega þannig að maður ávinnur sér virðingu. Einhvern veginn hafði ég á tilfinningunni að þessir strákar hefðu verið svo heppnir að fá að kynnast þér í þínu daglega lífi mun betur en ég og þarna hafir þú geymt hluta af þínu sterka vígi sem aldrei var borið á torg.
Þegar þú hélst upp á fertugsafmælið þitt tókstu mig afsíðis og baðst mig um að koma aðeins með þér út í bílskúr. Þar blasti við mér Mustang sem sást töluvert á en þú sagðir þetta vera rosalega gott eintak og ekki þyrfti mikið til að koma gripnum í stand. Svo komu þessi fleygu orð: Það er enginn maður með mönnum nema eiga Mustang. Boðið var gott en ekki gat ég sagt þér að ég hefði ekki efni á bílnum og gerði því lítið úr tilboðinu. Auðvitað átti ég að segja þér sannleikann. Ég mun hins vegar gæta bílsins þíns sem er í kjallaranum hjá mér eins og sjáaldurs augna minna. Bíll sem þú lifðir fyrir og ómældar vinnustundir liggja að baki. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið einhver ástæða fyrir því að þú baðst mig að geyma Mustanginn. Þú hefðir svo auðveldlega getað fengið geymslu fyrir hann uppi á landi.
Helgi, þú varst alltaf í því hlutverki að þjóna fólki og aldrei fórstu fram á eitt eða neitt. Manstu þegar ég spurði þig hvort þú þyrftir ekki hjálp við að skipta um járn á þakinu hjá þér? Ég fann að þú varst einhvern veginn að bíða eftir að ég myndi brydda upp á þessu. Við börðum járnið í gríð og erg þar til allir puttar voru orðnir bláir á mér. Þá komstu sallarólegur með borvél og bentir mér á að best væri að bora gat áður en naglinn færi í gegn. Ekkert kom þér úr jafnvægi! Rólegur og yfirvegaður og ekki anað að neinu. Einnig var alveg makalaust þegar við vorum að flytja búslóðina þína. Þú taldir ekki þörf á því að tæma skápana þar sem þeir væru ekkert þungir. Annað kom á daginn, bakið á mér gaf sig en þú stóðst uppi eins og Tarsan í trjánum og skildir ekkert í því hvað ég var linur.
Elskulegi bróðir minn, hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er komið að kveðjustund. Eitthvað sem engan óraði fyrir. Mér þótti óendanlega vænt um þig og er ég viss um að það var gagnkvæmt þótt við hefðum ekki haft mörg orð um það. Ég mun halda minningu þinni á lofti og passa upp á prinsessurnar þínar sem voru þér svo kærar.
Elsku Lea og Sæunn, missir ykkar er mikill en vonandi eigum við eftir að eiga fullt af fallegum stundum og rifja upp skemmtilegar minningar um Helga bróður.
Þinn bróðir,
Steini Vitta.