Einar Kr. Jónsson fæddist í Neðri-Hrepp í Skorradal 3. ágúst 1932. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 29. október 2012. Foreldrar hans voru Steinunn Ágústa Steindórsdóttir og Jón E. Jónsson, sem bæði eru látin. Einar var giftur Jóhönnu Hauksdóttur sem lést 30. júní 2007. Þau eignuðust þrjú börn, sem eru: 1) Sigurður, f. 23. september 1964, börn hans eru Rakel Ýr, f. 29. júní 1992, Jón Ingi, f. 20. febrúar 1995, og Hjörtur, f. 2. febrúar 2005. 2) Steinunn Ágústa, f. 3. júní 1967, synir hennar eru Einar Hugi, f. 19. ágúst 1990, Arnþór Ósmann, f. 29. september 1999 og Hrannar Örn, f. 29. janúar 2002. 3) Björn Haukur, f. 23. janúar, 1973 kvæntur Ástríði Guðmundsdóttur. Þeirra börn eru Brynjar, f. 11. janúar 1997, Birgitta, f. 9. nóvember 2001 og Ástrún, f. 4. desember 2007. Einar verður jarðsunginn frá Hvanneyrarkirkju í dag, 10. nóvember 2012, og hefst athöfnin kl. 14.
Haustið er fallegur tími, ekki síst þegar veður er svo gott og stillt sem raun ber vitni þetta haustið hér um slóðir. Litskrúð gróðursins ólýsanlegt, í augum þeirra sem kunna að njóta þess. Þegar líður á, falla þó laufin og grasið fölnar og haustið tekur völd. Haustið tók líka völd hjá pabba, hvað heilsuna varðaði, og hann kvaddi okkur 29. október sl. saddur lífdaga.
Þau eru misjöfn verkefnin sem lífið ætlar okkur að leysa, og misjafnt hvernig okkur tekst að inna þau af hendi. Pabbi var þar engin undantekning, hann fékk sín verkefni, og leysti þau af stakri prýði. 34 ára gamall greinist pabbi með ólæknandi sjúkdóm. Ungur maður í blóma lífsins, nýtekinn við búi í Neðri-Hrepp, nýlega giftur ástinni sinni, frumburðurinn fæddur og ég í móðurkviði. Það dylst engum að slíkar fréttir eru gríðarlegt skipbrot, einmitt þegar lífið átti að blasa við ungu hjónunum. En uppgjöf var ekki til í huga pabba þá, frekar en nokkurn tíma síðan. Saman héldu þau áfram, pabbi og mamma, ótrauð með óbilandi kjark, vilja og þor að leiðarljósi. Þau byggðu upp og unnu að sínu búi og bjuggu okkur fjölskyldunni gott heimili þar sem þau voru alltaf til staðar fyrir okkur, börnin sín. Síðar þegar barnabörnin fóru að fæðast áttu þau alltaf vísa ást, hlýju og handleiðslu afa og ömmu í Hrepp. Einar Hugi minn var þar löngum stundum sem barn og unglingur og naut hverrar stundar, enda allt gert fyrir hann sem mögulegt var. Fyrir það er hann og ég afar þakklát. Af fádæma æðruleysi tók pabbi sínum veikindum, með mömmu sér við hlið, og það æðruleysi hélst allt til hinstu stundar hans. Þau voru fleiri áföllin sem pabbi þurfti að takast á við varðandi heilsu sína, en ég rek það ekki frekar hér. Ótrúlegur sjálfsagi, harka og vilji studdu hann þar að mömmu ógleymdri.
Pabbi var mikill íþróttamaður á yngri árum, hraustur og mikill keppnismaður. Íþróttaáhuginn fylgdi honum alla tíð og fylgdist hann með flestu á því sviði, þó sundið, frjálsar og handboltinn væri í uppáhaldi. Þar deildum við áhuga, eins og á fleiri sviðum. Hann vann mikið fyrir Ungmennafélagið Íslending og þjálfaði m.a. sundlið félagsins hér áður fyrr þegar það náði hvað bestum árangri að ótalinni sundlaugarvörslu í Hreppslaug mörg sumur, og auðvitað allt í sjálfboðavinnu. Ungmennafélagsandinn sveif þar yfir vötnum. Pabbi var mikill náttúruunnandi, skepnumaður og dýravinur. Sveitastörfin áttu hug hans alla tíð og heimahagarnir honum afar kærir. Þeir vita sem okkur þekkja að við pabbi vorum mjög náin og ákaflega kært á milli okkar alla tíð. Þó að ég byggi mörg ár fjarri heimahögunum töluðum við alla tíð mikið saman í síma, jafnan annan hvern dag og stundum oftar. Bæði seint og snemma og umræðuefnin margvísleg. Ég flutti í Borgarfjörðinn aftur í vor og fyrir þann tíma, sem ég var nærri honum, er ég þakklát. Það var pabba gríðarlegt áfall þegar mamma dó 2007. En eins og áður kom sjálfsaginn, kjarkurinn og æðruleysið honum til góða og hann hélt áfram allt til enda. Þau voru honum líka þung sporin þegar hann þurfti að fara frá Neðri-Hrepp í desember á síðasta ári. En hann sætti sig við það eins og annað sem lífið hafði lagt fyrir hann.
Á þessari stundu flæða minningar mínar um pabba um hugann. Í fjósinu í gamla daga þar sem ég fékk alltaf að mjólka eina kú í fötu, meðan pabbi mjólkaði hinar. Trúlega ekki til mikils gagns eða flýtis fyrir hann. Margar og góðar stundir höfum við átt í fjárhúsunum í gegnum árin. Ég hefði trúlega aldrei orðið læs eða skrifandi, svo ekki sé nú minnst á margföldunartöfluna, ef hann hefði ekki setið með mér löngum stundum og hjálpað mér að læra. Hann kenndi mér allt sem ég kann. Hugur minn og hjarta eru barmafull af þakklæti fyrir að vera dóttir þessa einstaka manns. Þær verða ekki fleiri heimsóknirnar eða hringingarnar til pabba. Við fáum okkur ekki oftar wiskýtár saman. Strákarnir mínir fá ekki oftar mola eða súkkulaði í munninn hjá honum. Við geymum öll minningarnar. Ég veit að faðmur mömmu hefur verið hlýr og kærkominn. Pabbi naut hans lengi og þráði ekkert heitar en að finna hann á ný. Ég mun sakna pabba míns ósegjanlega sárt en ég fékk að vera hjá honum þegar hann kvaddi, hélt í hönd hans ásamt Bjössa bróður og Ástu. Sú stund var okkur öllum kær.
Blessuð sé minning pabba míns, Einars í Neðri-Hrepp.
Þín dóttir,
Steinunn og synir.