Þórunn Helga Guðmundardóttir fæddist á Ísafirði 14. júlí 1959. Hún lést á heimili sínu 8. nóvember 2012. Þórunn ólst upp á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hennar eru Guðmundur Kristján Magnússon, f. 1927 og Kristín Steinunn Þórðardóttir, f. 1928, d. 2005, bændur á Melgraseyri. Systkini Þórunnar eru 1) Snævar Guðmundsson, f. 1956, giftur Önnu Guðnýju Gunnarsdóttur, f. 1969, sonur Snævars, Jakob Már, f. 1988, synir Önnu, Ástþór Ingi, f. 1993 og Gunnþór Tumi f. 1996. Dætur Snævars og Önnu eru Kristín Valgerður, f. 2004 og Steinunn Jóhanna, f. 2007. 2) Magnea Jenny Guðmundardóttir, f. 1963, dóttir hennar er Ragnheiður Kristín, f. 1991. Þórunn giftist 1979, Steindóri Karvelssyni, f. 1958, þau skildu, saman eiga þau soninn Fannar Karvel, f. 1980, sem er í sambúð með Sigríði Þórdísi Sigurðardóttur, f. 1978, þau eiga synina Sigurð Karvel, f. 2008 og Steindór Orra, f. 2011. Þórunn giftist 1995, Kolbeini Péturssyni, f. 1963, þau eiga saman Natan, f. 1993, Sölku, f. 1995 og Arnfinn, f. 1996. Þórunn gekk í Reykjanesskóla og tók landspróf í Reykholti í Borgarfirði, síðan lá leið hennar í Menntaskólann á Ísafirði, lauk námi í tækniteiknun frá Iðnskólanum á Ísafirði, 1985 lauk hún námi við Samvinnuskólann á Bifröst. Þórunn var að hefja nám að nýju og stefndi á háskólanám í skógfræði. Þórunn vann fjölbreytt störf, fyrst landbúnaðarstörf á Melgraseyri, fiskvinnslu með skóla á Ísafirði, á bæjarskrifstofu Bolungarvíkur, skrifstofu Framsóknarflokksins í Reykjavík þar sem hún var mjög virk um árabil og var eitt kjörtímabil varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Vestfjarðakjördæmi. Hún sat í stjórn sjúkrahússins á Patreksfirði meðan hún bjó á Tálknafirði á árunum 1993 til 2002 þar til hún flutti til Kópavogs. Hún starfaði að sveitarstjórnararmálum á Tálknafirði meðan hún bjó vestra. Eftir að Þórunn flutti suður vann hún m.a. fyrir Handprjónasamband Íslands og sem leigubílstjóri. Útför Þórunnar Helgu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. nóvember 2012 og hefst athöfnin kl. 13.

Eins og lífið er yndislegt þá dregur stundum fyrir sólu og við upplifum erfiða tíma. Undanfarna daga hefur sólin verið á bak við skýin og söknuður og þakklæti verið þær tilfinningar sem ég hef upplifað. Þegar okkar tími er kominn er ekkert sem stöðvar það, svo mikið er víst.

Elsku Þórunn mín lífið hefur verið þér erfitt á stundum og þá gekk þér oft illa að vinna úr öllum tilfinningunum þínum. Þau eru misjöfn verkefnin sem við veljum okkur í lífinu og öll förum við misjafna leið til að ná þeim. Sumum er hún auðveld en flestum er hún strembin. Þitt verkefni var mikið og stórt en það er trú mín að þú hafir verið búin að klára það, vinna baráttuna og sættast við sjálfa þig, guð og menn og því kominn tími til að kveðja þetta jarðlíf og fá næsta verkefni á þeim stað sem tekur við af þessum. Undanfarnir mánuðir hafa verið svo yndislegir og þér var búið að líða svo vel, hlakka til framtíðarinnar, komin í skóla og farin að setja þér markmið, sem var svo gott fyrir okkur hin að finna og heyra. Litlu ömmuljósin þín, voru svo sannarlega að hjálpa þér að finna lífskraftinn og tilganginn með þessu öllu saman, enda varstu alltaf boðin og búin til að vera með þá, sækja þá í leikskólann og aðstoða okkur á allan hátt. Alveg sama hversu upptekin þú varst alltaf gastu fundið smugu til að vera með ömmuljósin og þessi setning já, endilega komið með þá til mín við finnum okkur eitthvað að bralla  heyrðist ætíð þegar við hringdum og spurðum hvort þú gætir hjálpað okkur í hundraðasta skiptið þá vikuna. Strákarnir stukku út úr bílnum um leið og við renndum í hlað fyrir utan blokkina og kepptust um að fá að ýta á takkana til að opna dyrnar og hlaupa í faðminn á þér þegar þú beiðst eftir þeim í hurðinni. Báðir strákarnir mínir eru búnir að missa svo mikið og þá sérstaklega Sigurður Karvel enda voruð þið bestu vinir í heiminum, ansi oft kom það fyrir að hann vildi ekki fara heim til sín heldur vildi hann bara fara til ömmu Tótu, þar gat hann dundað sér með allt og ekkert á meðan þú sast í stólnum þínum og prjónaðir lopapeysurnar eða lást á gólfinu og lékst við hann. Þið brölluðuð svo mikið saman, ferðirnar með strætó á bókasafnið, dundið í litla garðinum þínum þar sem þú leyfðir þeim að sulla og vökva blómin, baka kökur fyrir langafa sem þið fóruð síðan með til hans, gefa fiskunum, leika með potta og sleifar og ótal litlir hlutir sem skipta okkur svo miklu máli. Alltaf gafstu þeim athygli þína 100% og það var svo gaman að sjá hvað þeir voru afslappaðir og glaðir þegar þeir voru hjá þér, enda sagðirðu alltaf þegar við komum að sækja þá þeir eru búnir að vera alveg yndislegir og ekki heyrst eitt einasta tuð eða taut í þeim eitthvað held ég að það hafi kannski ekki alltaf verið alveg satt! Við Fannar ræddum svo oft um það hversu heppin við værum að hafa alla góðu stundirnar með þér og strákarnir svo heppnir að fá að eiga þig að og kynnast þér. Þegar þér leið vel þá hugsaðir þú svo vel um börnin þín og alla sem á vegi þínum urðu, bæði dýr og menn, fórst með mat til þeirra sem þurftu, snattaðist með gormana þína út um borg og bæ og skrappst með langafa vestur í Djúpið þitt þar sem þér leið alltaf svo vel.

Ég er svo þakklát fyrir þær stundir sem við ræddum um lífið og tilveruna og þú sagðir mér frá því hvað væri efst á blaði hjá þér þá stundina. Ég veit að þér líður vel núna, kíkir á okkur þegar okkur líður illa og líka þegar okkur líður vel, tekur svo á móti okkur þegar okkar tími kemur. Við litla fjölskyldan erum heppin að eiga ömmu Tótu engil á himnum sem passar vel uppá okkur.

Skammdegi og skuggsýnt er

ský á himinn draga

ömmuljósið lýsir mér

léttir alla daga

(Amma Tóta, október 2012).

Elsku fallega og góða Þórunn mín, ég á eftir sakna matarboðanna þinna, heimsóknanna og nærveru þinnar og mun halda minningunni um þig á lofti fyrir litlu ömmuljósin þín. Hafðu það sem allra best og sjáumst þegar rétti tíminn kemur knús.

Þín,

Sigríður Þórdís.