Eysteinn Árnason fæddist 6. september 1923 á Nunnuhóli, sem var hluti jarðarinnar Möðruvalla í Hörgárdal, Eyjafjarðarsýslu. Hann lést á Landspítalanum 20. nóvember 2012. Foreldrar Eysteins voru Árni Björnsson, kennari á Akureyri, f. 24.1. 1894, d. 29.4. 1966, og Jónína Sigrún Þorsteinsdóttir, húsmóðir og leikkona, f. 13.1. 1895, d. 18.7. 1970. Systir Eysteins Guðrún, f. 7.10. 1931, d. 1.8. 2002, giftist Richard George Young. Þau bjuggu í Kaliforníu, eignuðust tvær dætur og þrjú barnabörn. Hinn 28. desember 1948 kvæntist Eysteinn Önnu Valmundardóttur, f. 9.1. 1925. Foreldrar hennar voru Valmundur Guðmundsson, vélsmiður, f. 29.6. 1890, d. 24.7. 1963, og Sigríður Árnadóttir, f. 27.7. 1901, d. 31.8. 1962. Börn Eysteins og Önnu eru: 1) Sigríður snyrtifræðingur, f. 24.4. 1949, gift Ómari Ólafssyni flugstjóra, f. 29.11. 1947. Synir Sigríðar og Ómars eru: a) Högni Björn, flugstjóri f. 2.1. 1973, kvæntur Ingibjörgu Helgu Arnardóttur, flugfreyju, frkvstj. Sundsambands Íslands, f. 29.6. 1972, dætur þeirra eru Júlía Helga, f. 19.6. 2002, og María Helga, f. 26.7. 2005. b) Arnar Steinn, hagfræðingur, búsettur í Lúxemborg, f. 27.2. 1979, sambýliskona hans er Nicole Wiesner, f. 13.3. 1978. 2) Ragna Ingibjörg, sjúkraliði og ferðafræðingur, f. 15.6. 1961, gift Árna V. Þórssyni, lækni, f. 15.5. 1942. Dóttir Rögnu: Anna Lind Traustadóttir, nemi í næringarfræði við HÍ, f. 10.3. 1984. Unnusti hennar er Guðmundur Þ. Vilhjálmsson, flugmaður, f. 4.3. 1984, sonur þeirra f. 20.9. 2012. Að auki á Ragna þrjá stjúpsyni; Lárus Þórarin, Þór og Jóhannes Árnasyni, þrjár tengdadætur og níu barnabörn. Eysteinn tók gagnfræðapróf frá Menntaskólanum á Akureyri og stundaði auk þess tungumálanám meðfram vinnu í kvöldskólum. Hann dvaldi í Svíþjóð árið 1947 við nám í almennum verksmiðjurekstri með sælgætisframleiðslu sem sérsvið og vann sem stjórnandi framleiðslu hjá Nóa-Síríusi hf. til ársins 1956. Þá fluttist hann til Akureyrar og tók við starfi hjá Lindu hf. og stofnaði m.a. fyrirtækið Ískex hf., en sú vara er enn á íslenskum markaði. Var framkvæmdastjóri Sana hf. 1965-1969. Árið 1971 stofnaði Eysteinn innflutningsfyrirtækið E. Árnason & Co hf., sem hann rak til starfsloka. Áhugamál Eysteins voru fjölmörg, hann var í stjórn Lionsklúbbs Akureyrar, sat mörg ár í stjórn Félgs íslenskra stórkaupmanna og hlaut gullmerki FÍS að loknu starfi. Var um áraraðir félagi í karlakórnum Geysi og um áratuga skeið virkur félagi í Frímúrarareglunni og gegndi þar mörgum trúnaðarstöðum. Auk þess áttu útivist og ferðalög hug hans allan frá ungum aldri. Frá árinu 1996 hafa Eysteinn og Anna verið búsett í Reykjavík. Útför Eysteins fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 27. nóvember 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Leiddu mína litlu hendi,
ljúfi Jesús, þér ég sendi
bæn frá mínu brjósti, sjáðu,
blíði Jesús, að mér gáðu.

Hafðu gát á hjarta mínu
halt mér fast í spori þínu,
að ég fari aldrei frá þér,
alltaf, Jesús, vertu hjá mér.

Um þig alltaf sál mín syngi
sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.
Gef ég verði góða barnið,
geisli þinn á kalda hjarnið.
(Ásmundur Eiríksson)

Ég kveð afa Eystein með söknuði en um leið með þakklæti fyrir tæpa fjóra áratugi af ómetanlegri samveru.  Andlát hans bar að með skjótum hætti þar sem hann virtist á batavegi eftir skurðaðgerð á Landspítala.

Ég spenni greipar, loka augum og afi leggur sína heitu lófa á litlar hendur. Saman biðjum við bænir sem hann hefur kennt mér og ró færist yfir ungan dreng. Gleðidagur er að baki, afi er kominn að norðan til að sinna erindum í borginni og ætlar að gista hjá okkur. Válynd veður og vetrarfærð voru honum sem hvert annað viðfangsefni og dró við slíkar aðstæður hvergi af þeim náttúruunnanda sem afi Eysteinn var. Fætur mínir urðu eftir á öræfum sagði hann ef talið barst að tæplega níræðum líkamanum. Þangað inneftir höfðu  ferðafélagarnir oft lagt leið sína gangandi á fund íslenskrar víðáttu. Oft var þar nærandi kyrrð og ró, en einnig upplifðu þeir á ferðum sínum þróttmikil öskur frá jarðkjarnanum áður en seigfljótandi hraunkvikan rann hjá.

Það var gott að vera við hlið hans og láta smátt höfuð hvíla á bumbunni. Hægur andardrátturinn og afalyktin vaggaði mér þægilega í svefn.

Amma Anna og afi Eysteinn reistu sér hús í Suðurbyggð 11 á Akureyri.  Sú bygging þótti um margt framúrstefnuleg og mjög var til hennar vandað eins og búast mátti við af þeim hjónum. Minningar mínar þaðan eru fjölmargar.

Geislar morgunsólar rísa yfir Vaðlaheiði og endurvarpast að hluta á gljáfægðri eldhúsinnréttingunni. Afi heilsar nýjum degi léttur í lund og blístrar lagstúf þar sem við nærum okkur saman við rauða borðið.  Við sækjum messu og fögnum upprisunni með því að syngja sálm nr. 147.

Sigurhátíð sæl og blíð

ljómar nú og gleði gefur,

Guðs son dauðann sigrað hefur,

nú er blessuð náðartíð.

Nú er fagur dýrðardagur,

Drottins ljómar sigurhrós,

nú vor blómgast náðarhagur,

nú sér trúin eilíft ljós.

(Páll Jónsson.)

Á páskum var jafnan margmenni í Suðurbyggð 11 og eggjaleitin árviss viðburður. Þrátt fyrir góðan vilja og þrautseigju veislugesta fundust sjaldnast öll eggin fyrr en snjó var tekið að leysa að vori, svo vel voru þau falin.

Eitt sinn fengum við símtal að norðan um að naumlega hefði tekist að stöðva sláttuvélina áður en eitt ófundið páskaeggið varð undir við fyrsta slátt.

Vinamót og mannfagnaðir voru ríkur þáttur í lífi afa og ömmu, sem voru ætíð höfðingjar heim að sækja. Þann sið höfum við Ingibjörg reynt að tileinka okkur því eins og segir í 47. erindi Hávamála:

maður er manns gaman og þegar sorgin ber að dyrum eins og nú er huggandi að leita í fjársjóð góðra minninga.

Mér leið alltaf vel á Akureyri og naut þess að fá að dveljast hjá ömmu og afa. Fólkið í Suðurbyggð var í minningunni einstakt jafnt ættingjar mínir sem aðrir nágrannar. Hvergi var betra að undirbúa sig fyrir áskoranir námsáranna en þar.  Því var mér ljúft að þiggja boð ömmu og afa um að undirbúa mig fyrir flugnám í Bretlandi með námsdvöl í Suðurbyggð.  Ekki spillti heldur fyrir að vera svo nærri vöggu flugsins á Íslandi.

Þegar ég að námi loknu hóf störf sem flugmaður hjá Flugleiðum árið 1995 hringdi ég stundum í afa Eystein frá Akureyrarflugvelli. Dró hann þá hvergi úr í veðurlýsingu sinni eins og þar var víst siður. Afi ég er að hringja frá flugvellinum og hér virðist vera að draga fyrir sólu reyndi ég að andmæla.

Má vera en Pollurinn var í það minnsta spegilsléttur í morgun sagði hann þá glaður í bragði.

Til Reykjavíkur fluttu þau undir lok síðustu aldar og komu sér vel fyrir. Fjölskyldan átti þá auðveldara með að koma saman. Norðurlandið heimsóttu afi og amma reglulega enda sagði afi: það er lítið mál að keyra þetta í dag, vegirnir eru orðnir svo góðir. Ég sé hann fyrir mér opna hurðina fyrir ömmu, setja á sig akstursgrifflur, lækka stýrið að kjöltu og kveikja á radarvaranum áður en lagt er af stað.

Hann var víðförull heimsmaður sem hafði tileinkað sér ýmsa siði og venjur á undan mörgum öðrum. Hann var vandur að virðingu sinni og bar eiginkonu sína á höndum sér enda hjónaband þeirra aðdáunarvert. Okkar verk verður að annast ömmu Önnu að honum gengnum og munum við leggja okkur fram um að vel takist.

Afi Eysteinn var víðlesinn og fróður og fylgdist vel með málefnum líðandi stundar. Hann var bóngóður og hjálpsamur maður með skopskyn og bros sem heillaði marga.

Því var það heiður þegar Ingibjörg líkti nýfæddri dóttur okkar, Júlíu Helgu við hann  þ. 19. júní 2002.  Hún og María Helga, sem fæddist þ. 26. júlí 2005, syrgja langafa sinn hvor með sínum hætti. Hann sýndi þeim mikinn áhuga og fylgdist vel með lífshlaupi þeirra. Oft lagði hann líka sína heitu lófa yfir þeirra litlu hendur.

Hvíl í Guðs friði afi Eysteinn.

Högni.