Valborg Sigurðardóttir fæddist 1. febrúar 1922 í Ráðagerði á Seltjarnarnesi en ólst upp á Ásvallagötu 28 í Reykjavík. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 25. nóvember 2012. Foreldrar hennar voru Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir húsfreyja, f. 18.10. 1883, d. 9.4. 1969, og Sigurður Þórólfsson skólastjóri, f. 11.7. 1869, d. 1.3. 1929. Systkini Valborgar voru: Þorgrímur Vídalín, prófastur, f. 1905. Hrefna, f. 1907. Anna, forstöðumaður Kvennasögusafnsins, f. 1908. Guðmundur Axel, stud. jur., f. 1911. Guðrún, húsmóðir, f. 1912. Margrét, húsmóðir. f. 1914. Aðalheiður, húsmóðir, f. 1915. Sigurmar Ásberg, borgarfógeti, f. 1917. Áslaug, fóstra, f. 1919. Hálfsystur Valborgar, samfeðra: Kristín Lovísa, alþm., f. 1898, Margrét, f. 1901. Eru þau öll látin. Valborg giftist Ármanni Snævarr, fyrrv. háskólarektor og hæstaréttardómara, f. 18.9. 1919, d. 15.2. 2012. Foreldrar hans voru Valdimar V. Snævarr, skólastjóri og sálmaskáld, og Stefanía Erlendsdóttir, húsmóðir. Börn Valborgar og Ármanns eru: 1) Sigríður Ásdís, f. 23.6. 1952, sendiherra, gift Kjartani Gunnarssyni, lögfræðingi, sonur þeirra er Kjartan Gunnsteinn. 2) Stefán Valdemar, f. 25.10. 1953, prófessor í Lillehammer í Noregi. 3) Sigurður Ármann, f. 6.4. 1955, hagfræðingur, kvæntur Eydísi K. Sveinbjarnardóttur, deildarstjóra og klínískum lektor. Börn Sigurðar eru Jóhannes og Ásdís Nordal, maður hennar er Gunnar Sigurðsson. Börn Eydísar eru Sveinbjörn Thorarensen og Sigurlaug Thorarensen, sambýlismaður hennar er Jacob Lind. 4) Valborg Þóra, f. 10.8. 1960, hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson, kvikmyndagerðarmanni. Sonur Valborgar er Gunnsteinn Ármann Snævarr, eiginkona hans er Zeynep Sidal Snævarr. Dóttir Eiríks er Oddný Eva Thorsteinsson, sambýlismaður hennar er Darri Hilmarsson. 5) Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, f. 4.3. 1962. Börn hans eru Ásgerður, sambýlismaður Andri Bjartur Jakobsson, og Þorgrímur Kári. Valborg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1941. Hún hlaut styrk Menntamálaráðs og stundaði nám í sálfræði við Háskólann í Minnesota 1942-1943. Valborg lauk BA-prófi í uppeldis- og sálarfræði frá Smith College, Massachusetts 1944 og MA-prófi þaðan 1946. Valborg var kjörin heiðursdoktor við Kennaraháskóla Íslands 2002. Hún var heiðursfélagi í Fósturfélagi Íslands og Sálfræðingafélagi Íslands. Valborg var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar 1972 og stórriddarakrossi 1986. Valborg skrifaði fjölda greina og bóka um uppeldis- og kennslumál. Óútgefin er MA-ritgerð hennar „An approach to the study of the stereotypes of family roles and their influence on people’s judgements of personality and behavior“. Meðal útgefinna ritverka má nefna Myndsköpun ungra barna, 1989, Leikur og leikuppeldi, 1991. Árið 2005 kom út bók hennar Íslenska menntakonan verður til. Valborg var skólastjóri Fósturskóla Íslands frá stofnun árið 1946 og þar til hún lét af störfum 1985. Útför Valborgar fer fram frá Neskirkju í dag, 30. nóvember 2012, og hefst athöfnin kl. 15.
Nú eru frumbyggjar háskólahverfisins allir horfnir til feðra sinna, síðust fóru þau heiðurshjón, Ármann og Valborg Snævarr. Þar með verða kaflaskil: Við, börnin úr hverfinu, erum orðin foreldralaus og þar með elsta kynslóðin.
En lífið heldur áfram og bernskuveröldin, -paradísin býr nú í huga okkar.
Ég sé það ljóslifandi fyrir mér þegar við Sigga Dís, elsta barn Valborgar og Ármanns, hittumst í fyrsta sinn, 4 ára gamlar, þau nýflutt í húsið á Aragötu 8 en ég bjó á Oddagötu 4. Þar með hófst vinátta sem var ekki aðeins milli okkar stelpnanna, sem áttum eftir að fylgjast að alla okkar skólatíð til stúdentsprófs, heldur líka við foreldrana, heimilin. Við eignuðumst aukaforeldra, Sigga mína, ég hennar. Og þannig var það í þessu hverfi, við börnin áttum ævinlega athvarf hvert hjá öðru, á nóttu sem degi, eignuðumst umhyggjusama og spennandi foreldra í hverju húsi.
Heimilisbragur var annar hjá Snævarsfjölskyldunni en á heimilum okkar hinna þó að vissulega væru engin tvö heimili beinlínis keimlík vegna þess hve persónurnar voru margvíslegar. En þó hafði heimili Siggu algjöra sérstöðu. Þau systkinin urðu fimm, fleiri en í hinum húsunum. Það var því ævinlega mikill handagangur í öskjunni, mikið rætt og hátt um þjóðfélagsmál og fleira, þegar fjölskyldan kom saman, svo sem á matmálstímum, og enginn lá þar á skoðunum sínum. Við vinkonurnar borðuðum gjarnan hver hjá annarri svo ósjaldan tók ég þátt í umræðunni eða fylgdist með. Þarna var fólk svo sannarlega ekki sammála um allt en lífið varð bara skemmtilegra fyrir vikið.
Það sem var líka sérstakt á þessu heimili var mamma Valborg. Hún var nefnilega ekki bara mamma, eins og mamma flestra okkar hinna, heldur önnum kafinn skólastjóri, sem var sjaldgæft á þessum tíma og nánast einsdæmi, að mömmur væru skólastjórar, reyndar voru þær þó tvær í hverfinu, hún og Guðrún Pálína Helgadóttir í næsta húsi. Valborg var framúrstefnukona, langskólagenginn uppeldisfræðingur sem vann brautryðjandastarf í þjóðfélaginu. Vegna annríkis móðurinnar var ævinlega erlend vinnukona á heimilinu sem bætti enn við fjölbreytileika fjölskyldunnar. Okkur börnunum þótti Valborg merkileg, við bárum virðingu fyrir henni, kannski örlítið óttablandna. Við sáum hana auðvitað minna en hinar mömmurnar, vissum að hún kom þreytt heim á kvöldin eftir annasaman dag og ég held að við höfum virt það, sýnt svolitla tillitssemi. En við gerðum okkur ekki grein fyrir því þá, eða vissum ekki, hver stefna hennar var í uppeldismálum þó að vitum það núna og sjáum hversu mjög hún hefur mótað lífsviðhorf barna sinna. Sem uppeldisfræðingur lagði hún ekki áherslu á að finna veikleika barnsins og uppræta þá heldur að koma auga á styrkleika þess og efla hann. Mikill metnaður fylgdi fyrir hönd barnsins. Allt var mögulegt, og leikur þess skyldi vera gagnlegur. Á þeirra heimili lékum við okkur ekki að aðkeyptum dúkkum eða dúkkulísum, nei, við tíndum blóm og þurrkuðum þau og greindum, föndruðum og byggðum heilu borgirnar úr pappa, saumuðum út í jafa nálapúða og bókamerki til gjafa, bökuðum brauð og kökur, undirbjuggum og héldum tómbólur, lékum leikrit og sömdum endalaust spurningar fyrir hin ótalmörgu afmælisboð og ósjaldan fylgdum við Valborgu á leikskóla, Grænuborg eða Hagaborg, þar sem nemendur hennar störfuðu og fengum að taka þátt í uppbyggilegum leik þar. Á Aragötu 8 var fólk sístarfandi. Ég er þakklát fyrir að hafa svo síðar á ævinni fengið að kynnast Valborgu á starfsvettvangi hennar þegar ég um skeið kenndi íslensku í Fóstruskólanum. Þar kynntist ég hinni starfsglöðu, eldlegu Valborgu sem virti líka fyllilega hugmyndir og áhuga samkennara sinna. Í starfi naut Valborg sín til fulls.
Pabbi Ármann var líka einstakur maður og sérlega hlýr heimilisfaðir. Mér fannst eins og hann væri alltaf til staðar fyrir okkur börnin. Hann gaf sér að minnsta kosti ævinlega tíma fyrir okkur, hversu önnum kafinn sem hann var, til að spjalla, spyrja hvernig okkur liði og hvort við værum hamingjusöm - og stundum samdi hann með okkur spurningaleikinn góða. Okkur fannst hann nánast móðurlegur. Hinir prófessorarnir í hverfinu voru meira utangátta sem feður og þeim leiðst það þar eð flestar hinar mömmurnar voru oftast heima. Við vorum mikilvægar persónur þegar við vorum með Ármanni, hann umgekkst okkur eins og jafningja og varð sjálfur eins og einlægt barn þegar hann var með okkur.Hann fylgdist svo með okkur, fósturbörnum sínum, alla tíð og sýndi því áhuga sem við vorum að sýsla en fyrst og fremst því hvort við værum hamingjusöm.
Samheldni þeirra hjóna var einstök og börnin þeirra fimm lánsöm að fá að njóta foreldra sinna svo lengi, fersk og vakandi til hinstu stundar. Á börnunum má svo sjá hver áhrif þeirrar metnaðarfullu lífsstefnu sem tekin var í föðurhúsum hafa orðið.
Ég kveð Valborgu og Ármann og minnist þeirra með þökk og hlýju.
Sigrún Steingrímsdóttir.