Egill Sigurjón Benediktsson fæddist á Kópareykjum í Borgarfirði, 14. júlí 1953. Hann lést 16. nóvember 2012. Foreldrar hans voru Sigríður Sigurjónsdóttir frá Kópareykjum, f. 29. september 1925, d. 26. febrúar 1960, og Benedikt Egilsson, f. 12. febrúar 1922, d. 17. janúar 2010. Systkini Egils eru: Helga, f. 1948, Margrét, f. 1950, Indriði, f. 1951, Jakobína Eygló, f. 1952, Guðrún, f. 1957, og Sigrún, f. 1959. Sambýliskona Egils er Guðrún Björg Guðmundsdóttir, f. 17. mars 1958. Synir þeirra eru: a) Benedikt Rúnar, f. 8. júní 1983, sambýliskona hans er Ásbjörg Ýr Einarsdóttir. Sonur þeirra er Egill Rúnar. b) Unnar Bjarki, f. 7. júlí 1988, unnusta hans er Elín Árdís Björnsdóttir. Egill var giftur Rósu Hugrúnu Svandísardóttur, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: a) Svanur Þór, f. 16. september 1972, kona hans er Rut Garðarsdóttir, sonur þeirra er Þórhallur Ragnar. b) Hugrún Ösp, f. 19. september 1973. Hún á Ísak Örn og Lovísu Ósk Ingabörn. Sambýlismaður Aspar er Lars J. Handegaard. Egill ólst upp á Kópareykjum til 16 ára aldurs er hann fluttu til Sauðárkróks og bjó þar til æviloka. Hann lærði bifvélavirkjun í Iðnskólanum á Sauðárkróki og vann lengst af á vinnuvélum. Útför Egils verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 1. desember 2012, kl. 11.
Elsku pabbi.
Núna ertu farinn og söknuðurinn er svo óbærilegur.
Undanfarna daga hafa svo margar endurminningar skotið upp kollinum.
Þú kenndir okkur að klára öll verkefni sem byrjað var á og lagðir alltaf svo mikla áherslu á að gera það eins vel og maður gæti.
Þegar ég hugsa til baka þá sé ég hversu duglegur þú varst í öllu því sem þú tókst þér fyrir hendur.
Í vinnunni,garðinum,sumarbústaðnum, bjarga mömmu með eitthvað nú eða að brasa eitthvað með okkur bræðrum.
Við bræður erum sestir niður og rifjum upp gamla og góða tíma með þér kæri faðir.
Ein saga kemur upp í hugann og segjum við hana hér.
Það var laugardag einn á Jónsmessunni og þú varst búinn að vera að hefla vegina uppá hálendi ofan Skagafjarðar og til stóð að koma niður veginn í Mælifellsdal.
Það var þér líkt að taka þetta verkefni með áhlaupi og varst þarna búinn að vera að vinna vel á annan sólarhring þegar þarna er komið við sögu.
Þá fengum við símtal frá þér þar sem vandamál var komið upp.
Hefillinn var að verða olíulaus. Við tókum þetta mjög alvarlega og drifum okkur af stað á Landcruisernum þínum. Settum olíu á nokkra brúsa og vorum tilbúnir að renna til þín þegar okkur datt í hug að hringja og athuga hvort það væri ekki eitthvað meira sem þig vantaði og jú þú sagðir það væri kannski gott að fá einn hamborgara með eggi.
Þá áttuðum við okkur á því að þú varst auðvitað olíulaus líka rétt eins og hefillinn.
Við brunum á sjoppuna og kaupum hamborgarann fyrir þig.
Og leggjum af stað í góðu veðri og keyrum frekar greitt því við vissum að þú varst farinn að sjá hamborgarann í hyllingum.
Þegar við erum á leið í Varmahlíð þá segir Unnar allt í einu ég man ekki hvort ég mundi eftir egginu.
Við sláum af ferðinni og það er farið að opna hamborgarann og skoða hvort það væri egg í honum. Því við vissum að það skipti höfuðmáli. Og við vorum tilbúnir að fá Pétur í K.S. Varmahlíð til að steikja fyrir okkur egg. En þetta slapp, skilaboðin höfðu greinilega borist og eggið var á sínum stað.
Þannig við héldum ótrauðir áfram og brunum framhjá Varmahlíð. Ekki stoppaði eggið okkur þar.
Þegar við komum uppá Mælifellsdal gengur allt vel og við keyrum frekar hratt þar sem við bræður njótum okkar sérstaklega vel að keyra hálendisvegi og ekki verra ef þarf að flýta sé svolítið.
Þegar við hittum svo á þig þá sést þú í svo réttu ljósi. Gott veður og þú einn að vinna á vegheflinum þínum við að laga vegi.
Við settum olíuna á hefilinn meðan þú gæddir þér á hamborgaranum sem allt hafði snúist um.
Þetta tók allt mjög stuttan tíma, svo stuttan að þú stóðst ekki einu sinni upp og vildir ólmur halda áfram við að vinna. Þú þakkaðir okkur kærlega fyrir eins og þú gerðir alltaf ef eitthvað var gert fyrir þig sem okkur þótti svo sjálfsagt að gera.
Með það skiljast leiðir og við bræður förum aftur í bæinn.
Um nóttina var ég svo staddur í Hofsós þar sem ég hafði tekið að mér að keyra Obbu minni og vinkonum hennar á Jónsmessuball í Höfðaborg.
Um hálf þrjú þegar ég beið eftir stelpunum þá stoppa ég bílinn fyrir utan Kaupfélagið í Hofsós.
Halla aftur sætinu og læt mér líða vel. Ég var að hlusta á Bylgjuna og það var frekar leiðinlegt lag þannig að ég fór að skipta á milli rása. Og þegar ég smelli á Rás2 þá heyrist þín mjúka rödd halló mér dauðbrá, það var engu líkara en þú sætir í aftursætinu hjá mér svo heyri ég aftur mig langar að heyra óskalag þá skýrist málið. Þegar röddin í útvarpinu fer að spjalla við þig þá kemst ég að því að þú ert enn að vinna einhverjum 10-12 klukkutímum eftir að ég kvaddi þig. Þú baðst um lag sem heitir Álfkonan sem ég hafði aldrei heyrt og það var ekki einu sinni til á Rás2.
Ég fékk svosem aldrei uppúr þér hvort þú vannst þarna í 40 eða 50 klukkutíma án svefns og á einum hamborgara að ógleymdu kaffinu sem fylgdi með í allar ferðir.
Þarna er þér rétt lýst, endalaust þrek í vinnu og aldrei baðstu um hjálp nema þegar þú komst ekki lengra rétt eins og í þessari minningu vegna olíuleysis. Við erum ákaflega þakklátir fyrir að hafa fengið að hjálpa þér endrum og eins, eftir allt sem þú hefur gert fyrir okkur.
Ég veit ekki hversu oft við strákarnir stóðum niður á verkstæði og klóruðum okkur í hausnum yfir einhverjum vandamálum þegar lausnin labbaði inn um dyrnar. Og alltaf sama viðmótið ekkert mál
Við þökkum fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum hvort heldur sem er heima við eða niður á verkstæðinu okkar þar sem þú hjálpaðir okkur við jeppabreytingar og alltaf varstu til staðar að standa við bakið á okkur sama hvaða vitleysu okkur datt í hug.
Ég sá síðasta sumar hvað þér þótti vænt um að fá nafnann þinn þegar við Obba skírðum ljósgeislann okkar. Og ég veit hversu vænt þér þótti um hann. Mig hlakkar til þegar Egill Rúnar verður nógu gamall til að skilja hvaða nafn hann ber og af hverju. Mig hlakkar líka til þegar ég get sagt honum sögur af afa sínum. Með stolti.
Við erum ákaflega stoltir synir sem eigum ykkur mömmu allt að þakka. Þið gerðuð okkur að þeim mönnum sem við erum í dag.
Elsku pabbi við kveðjum þig með sorg í hjarta. Þín verður sárt saknað um ókomna tíð.
Hvíl þú í friði kæri faðir.
Frá himnum svífa herskarar í nótt
og hugga þá sem gráta ofurhljótt.
Þau sýna okkur veröld þá sem var
og vísa áfram veg til framtíðar.
Við eigum þarna engla þú og ég
sem áttu sporin ljúf um æviveg.
Sem traustast ófu öll sín tryggðabönd
og trúföst alltaf réttu hjálparhönd.
Í draumum okkar staldra þau um stund
og styrkja þannig von um endurfund.
Frá brjóstum sindrar gullmolanna glit
og glæðir allan regnbogann með lit.
Er dagur rennur dögg er aftur ný
og dögun eilífðar er mjúk og hlý.
Í fangi sínu hefur frelsarinn
nú fólkið okkar, - líka himininn.
Svo demöntum er dreift um æviskeið
og dásamleg er farin litrík leið.
Frá himnum svífa herskarar í nótt
og hugga þá sem gráta ofurhljótt.
(Jóhanna H. Halldórsdóttir)
Benedikt Rúnar Egilsson og Unnar Bjarki Egilsson.