Þuríður Jóna Árnadóttir fæddist í Miðdölum, Dalasýslu, 8. september 1920. Hún lést á Dvalarheimilinu Grund 14. desember 2012. Foreldrar hennar voru Sigurjóna Jónsdóttir frá Arnarstapa, Snæfellsnesi, f. 4.10. 1894, d. 29.7. 1959, og Árni Jónasson ullarmatsmaður frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal, fæddur 30.6. 1892, d. 10.6. 1968. Þuríður var einkabarn foreldra sinna og ólst upp í foreldrahúsum í Skriðukoti í Haukadal. Fluttist hún þaðan með foreldrum sínum til Reykjavíkur árið 1934. Árið 1941 giftist Þuríður Ingólfi Jónssyni, frá Stöðvarfirði, f. 5.6. 1908, d. 19.2. 1998. Þau skildu. Þuríður og Ingólfur eignuðust eina dóttur, Steinunni, f. 7.7. 1943. Maki Gylfi Geirsson frá Vík í Mýrdal, f. 21.10. 1948. Börn þeirra: 1) Geir Gylfason, f. 25.9. 1977, og 2) Jóhanna Gylfadóttir, f. 7.7. 1979. Barn hennar og Bjarna Þ. Sigurbjörnssonar er Katla, f. 24.5. 2012. Árið 1958 giftist Þuríður Einari Alberti Magnússyni leigubifreiðastjóra frá Leirubakka í Landsveit, f. 11.11. 1917, d. 20.8. 1992. Þuríður og Einar eignuðust Árna Kristin, f. 1.3. 1959. Árni á soninn Hákon Örn, f. 5.6. 1986, með Súsönnu Þ. Jónsdóttur, f. 23.7. 1959. Þau slitu samvistum. Maki Árna er Ómar Ellertsson, f. 8.12. 1966. Synir hans eru Jón Óli og Ellert Björn. Sonur Einars af fyrra hjónabandi er Gunnar Magnús, f. 29.2. 1948. Maki Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir, frá Húsatóftum á Skeiðum, f. 13.5. 1949. Dætur þeirra: 1) Sólveig Hrönn, f. 17.12. 1973. Maki Gísli Ragnar Kristjánsson, f. 29.9. 1972. Þeirra börn: Kristján, Ingibjörg og Einar Örn. 2) Bergdís Saga, f. 4.6. 1975, maki Júlíus Björgvinsson, f. 29.9. 1968. Synir þeirra: Gunnar Hans, Ari Haukur og Andri Karel, sonur Júlíusar af fyrra hjónabandi. Þuríður tók barna- og gagnfræðaskólapróf í Reykjavík. Síðari á ævinni stundaði hún nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Hún vann lengi við verslunarstörf í Reykjavík, m.a. hjá kvenfataverslununum Ninon og Feldinum. Ljósmyndun var Þuríði mjög hugleikin og starfaði hún m.a. hjá ljósmyndastofu Vigfúsar Sigurgeirssonar og ljósmyndastofu Lofts. Á sjötta áratugnum fór Þuríður til Bandaríkjanna og starfaði þar við ýmis þjónustustörf. Eftir að heim kom starfaði hún í mörg ár hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga við verslunarstörf og kenndi þar m.a. á Singer-saumavélar eftir að hafa sótt nokkurra mánaða námskeið þar að lútandi í London. Þuríður stundaði ritstörf, skrifaði sögur og ljóð. Auk þess sem hún tók fjölmörg viðtöl við alþýðuhetjur víða um land sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins undir stjórn Gísla Sigurðssonar ritstjóra. Þuríður var vel hagmælt og ættingjar hennar gáfu út ljóðasafn hennar „Hvaðan og hvert“ á nýræðisafmæli hennar 2010. Þuríður og Einar bjuggu í Reykjavík, lengst af á Háaleitisbraut og síðar í Mávahlíð. Eftir lát Einars bjó Þuríður áfram í Mávahlíð en flutti á Dvalarheimilið Grund haustið 2011. Útför Þuríðar verður gerð frá Háteigskirkju föstudaginn 21. desember 2012 kl. 13.

Ég minnist Þuríðar J. Árnadóttur tengdamóður minnar með mikilli virðingu og þakklæti. Þakklæti fyrir alla þá umhyggju og hlýju sem hún sýndi mér og fjölskyldunni og með virðingu fyrir þeim manngildum sem hún stóð fyrir - kærleika, tryggð, samviskusemi og dugnaði.

Tengdamóður minni kynntist ég fyrir rúmum fjórum áratugum þegar við Gunnar byrjuðum að vera saman og ég fór að koma á heimili þeirra sómahjóna, Einars og Þuríðar. Þau tóku mér strax af vinsemd og alúð og á ég dýrmætar minningar frá ótal samverustundum bæði úr Háaleitinu og síðar í Mávahlíðinni. Einar féll frá 1992 og var mikil eftirsjá í tengdaföður mínum. Þuríður bjó áfram í Mávó eins og við kölluðum heimili hennar en þegar heilsan fór þverrandi fór hún á Grund þar sem hún dvaldi í rúmt ár og naut góðrar umönnunar.

Þuríði var alla tíð umhugað um velferð fjölskyldunnar og fylgdist með öllu sem var að gerast í lífi afkomendanna og það skipti hana mestu máli að allt væri í lagi og helst áttu allir að vera á heimaslóðum og var ekki í rónni fyrr en allir voru komnir heilir heim úr ferðalögum.

Þuríður var vel gefin kona, með mikla frásagnarhæfileika og hafði alltaf frá einhverju fróðlegu og skemmtilegu að segja. Hún var sjálfstæð og ákveðinn persónuleiki og vildi hafa áhrif á umhverfi sitt. Þuríður fylgdist vel með þjóðmálaumræðunni, setti sig inn í málefni og hafði ákveðnar skoðanir. Þuríður hafði einstakt lag á því að spjalla við alla, jafnt unga sem aldna og sýndi alltaf viðmælanda sínum áhuga. Mér er minnisstætt þegar hún kom til okkar á Selfoss, þá hvarf hún oft inn í herbergið hjá unglingnum og setti sig inn í áhugamálin hans, fótboltann eða tónlistina.

Það var árviss viðburður að við Þuríður tókum slátur saman og þar átti hún sérstakt sæti í horninu við eldhúsborðið. Þar sat hún og saumaði vambir og sagði frá æsku sinni, uppvexti eða því sem á dagana hafði drifið á langri ævi.

Þuríður var fædd í Miðdölum en foreldrar hennar fluttu í Haukadal þegar hún var tveggja ára og bjuggu í Skriðukoti til ársins 1934 er þau fluttu til Reykjavíkur. Fyrsta ferðin að heiman var á hesti þegar hún var sex ára en þá fór hún ríðandi að Skarði í skírnarveislu og reið ein í hnakki. Þuríður var fróðleiksfús og vildi skoða heiminn og kynnast hinu óþekkta. Eitt sinn gekk hún upp á fjallið fyrir ofan bæinn og sá þá toppinn á Baulu í Borgarfirði og langaði að sjá hvernig þar væri umhorfs. Þá ósk sína fékk hún uppfyllta þegar hún var á sjöunda ári og þurfti að fara til læknis til Reykjavíkur. Farið var um Bröttubrekku og gist í Dalsmynni í tvær til þrjár nætur en síðan haldið áfram til Borgarness og siglt þaðan með Suðurlandinu til Reykjavíkur. Í Dalsmynni hitti hún krakka sem hún gat leikið við og það þótti henni skemmtilegt en Þuríður var einbirni og átti ekki leikfélaga í sveitinni. Hún varð strax í upphafi hrifin af borginni sem átti síðar eftir að vera hennar framtíðar dvalarstaður. Þuríður hélt áfram að ferðast bæði innan lands sem utan og dvaldi um tíma í Bandaríkjunum og vann þar við ýmis þjónustustörf. Okkur eru minnisstæðar fjölmargar ferðir með henni og Einari en seint mun líða úr minni ferðalag til Englands 1972 þegar við skoðuðum alla kastala og kirkjur sem á vegi okkar varð en hún hafði lesið sig til og kynnt sér sögu staðanna af sinni eðlislægu nákvæmni.

Þuríður hafði alla tíð mikla ánægju af bóklestri og fylgdist með og las flestar bækur sem komu út fyrir jólin. Hún átti auðvelt með að setja saman vísur og orti mörg ljóð og kvæði en ég er hagmælt en ekki skáld-  sagði Þuríður eitt sinn. Þegar hún var 10 eða 11 ára samdi hún eftirmæli um ungan fjölskylduvin frá næsta bæ í Haukadalnum þegar hann fórst af slysförum. Þetta voru fimm vísur og hún var ekki alveg viss hvort braghendingarnar væru alveg réttar hjá sér svo pabbi hennar fékk Jóhannes úr Kötlum sem var fjölskylduvinur þeirra til að lesa ljóðið og honum leist vel á og breytti aðeins einu orði. Þuríður átti alltaf gott með að koma hugsunum sínum í orð og fékkst við skriftir í mörg ár. Viðtöl sem hún tók við áhugaverða einstaklinga birtust reglulega í Lesbók Morgunblaðsins og einnig ljóð eftir hana. Ljóðin hennar Þuríður voru mörg og Árni sonur hennar átti frumkvæði að því að gefa út bók með ljóðum hennar þegar hún varð níræð 8. sept. 2010.  Þessi ljóðabók veitti henni ómælda ánægju og gleði, hún las ljóðin sín, áritaði bókina og gaf vinum og vandamönnum meðan heilsa og kraftar leyfðu.

Nú er komið að kveðjustund, einstök manneskja hefur kvatt þessa jarðvist. Eftir sitjum við með söknuð í huga en fyrst og fremst þakklæti fyrir að hafa kynnst og notið kærleika hennar.

Guð geymi þig, mín kæra Þuríður.

Ingibjörg S. Guðmundsdóttir.