Sigríður Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 9. október 1949 og andaðist á krabbameinslækningadeild Landspítalans 22. janúar 2013. Foreldrar hennar voru Elín Elíasdóttir frá Saurbæ í Holtum, f. 12. nóvember 1913, d. 13. mars 1971 og Ólafur Guðmundsson frá Þórkötlustöðum í Grindavík, f. 23. júní1920, d. 27. febrúar 2010. Sigríður var næstelst fjögurra systkina. Systir hennar var Hjördís, f. 1945, d. 2002 og bræður eru Elías f. 1951 og Benóný f. 1955. Sigríður hóf sambúð árið 1987 með Guðmundi Guðmundssyni, f. 15. júní 1951, frá Arnarholti í Borgarfirði. Barn þeirra: Kristján Gylfi Guðmundsson, f. 28. desember 1987. Börn Guðmundar af fyrra hjónabandi: 1) Borghildur, f. 21. nóvember 1973, eiginmaður Kolbeinn Sveinbjörnsson, f. 1975, þeirra börn: Kristrún, f. 1998; Tryggvi, f. 1999; Guðmundur, f. 2007 og Hildur, f. 2011. 2) Brynhildur, f. 21. nóvember 1973, eiginmaður Jón Valgeirsson, f. 1974, þeirra börn: Lúkas, f. 1999; Felix, f. 2003 og Sólveig, f. 2012. 3) Eyrún, fósturdóttir Sigríðar, f. 27. nóvember 1979, sambýlismaður Unnar Bragi Bragason, f. 1979, þeirra börn: Emil Bragi, f. 2005 og Eva Karen, f. 2007. Sigríður hóf lífsgönguna í braggahverfi á Melunum og var einn vetur í Melaskóla áður en fjölskyldan flutti 1957 í Bústaðahverfið, þar sem barnmargar fjölskyldur voru á hverju strái. Þar lá leiðin í Breiðagerðisskóla og síðan í Kvennaskólann þaðan sem hún útskrifaðist 1966. Hún starfaði hjá RARIK þar til hún 1969 réði sig með vinkonu sinni í vist í Danmörku. Heimkomin hóf hún aftur störf hjá RARIK og vann þar fram á haust 1987 þegar móðurhlutverkið tók við. Hún fór aftur út á vinnumarkaðinn og starfaði hjá verkfræðistofunni Afli og orku og Raferninum og síðustu árin sjálfstætt við bókhald fyrir ýmsa aðila. Sigríður hóf sambúð með Guðmundi í ársbyrjun 1987. Í Árbæjarhverfið fluttu þau 1990 og bjuggu þar til 2006 þegar leiðin lá í gamla vesturbæinn þar sem þau komu sér fyrir á Bræðraborgarstíg 7, í göngufæri frá miðbænum. Fjölskyldan og vinirnir voru henni það dýrmætasta í lífinu og hópurinn hennar stækkaði jafnt og þétt. Listir og menning voru henni gleðigjafar. Hún var mikill Reykvíkingur og við iðandi miðbæ Reykjavíkur á góðvirðisdögum gat engin heimsborg keppt. Hennar önnur Paradís var fjaran á Þórkötlustöðum í Grindavík þar sem þau hjón keyptu landspildu fyrir nokkrum árum og í haust lítið hús á fjörukambinum þaðan sem óteljandi fjöruferðir voru fyrirhugaðar í framtíðinni. Sigríður verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, föstudaginn 1. febrúar, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Kveðja frá bræðrunum

Sigga systir kann að lesa það er alveg nóg. Hún les allt fyrir mig.  Þannig svaraði sá eldri okkar þegar átti að fara að reyna að kenna honum að lesa sex ára gömlum. Sigga var einu og hálfu ári eldri, mjög bráðger og hafði lært að lesa fimm ára.

Sigga systir lést þriðjudaginn 22. janúar síðastliðinn á Landsspítalanum eftir erfið veikindi sem hún glímdi við undanfarin ár af dugnaði og með bjartsýni að leiðarljósi. Við bræðurnir söknum hennar mjög og þökkum um leið fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur.

Við systkinin vorum samrýnd og héldum vel saman og móðir okkar sagði að stundum hefði það gerst á árunum vestur í Camp Knox þar sem fjölskyldan bjó til 1957 að ef eitt okkar systkina hefði meitt sig þá hefði verið erfitt að átta sig á því hvert okkar það var því öll grétum við jafnhátt. Á þeim árum þurfti faðir okkar oft að vera langdvölum á Vífilstöðum vegna berklaveiki en móður okkar Elín hélt heimili fyrir okkur systkinin.

Sigga var næstelst okkar systina og nutum við bræður þess að vera lengst af undir verndarvæng hennar og Hjördísar eldri systur okkar sem lést árið 2002 56 ára að aldri. Þær systur siðuðu okkur og leiðbeindu um framkomu, fataval og á fleiri sviðum þar sem þær töldu ekki vanþörf á að bæta um betur.

Í maí árið 1957 urðu miklar breytingar á högum okkar þegar fjölskyldan flutti inn í Bústaðahverfi í  90 fermetra raðhús við Réttarholtsveg. Í hverri íbúð voru að lágmarki fjögur börn enda var það skilyrði til að geta eignast þessar íbúðir. Það var því enginn skortur á leikfélögum og tók Sigga þátt í leikjum okkar krakkanna af lífi og sál enda félagslynd og vinamörg eins og endranær.

Sigga sótti Breiðagerðisskólann frá átta ára aldri og var ætíð í besta bekk og átti auðvelt með að komast inn í Kvennaskólann í Reykjavík þegar þar að kom en þaðan lauk hún Kvennaskólaprófi árið 1966.

Í nokkur sumur dvaldi Sigga í sveit í Skarði í Landsveit hjá því góða fólki Dóru og Guðna og við bræðurnir fengu stundum að heimsækja hana í um það bil vikutíma á sumri. Þar fundum við vel að Sigga var metin að verðleikum.

Móðir okkar Elín lést árið 1971 57 ára að aldri en þá var Sigga 21 árs og við bræður 19 ára og 15 ára. Nokkru fyrr hafði Sigga snúið heim frá vist í Danmörku til að aðstoða í veikindum móður okkar. Sigga hélt síðan heimili með föður okkar og okkur bræðrum næstu ár. Hún hjálpaði pabba við að matreiða og þvo af okkur bræðrum en faðir okkar var langt á undan sinni samtíð þegar kom að húsverkum.

Eftir að við urðum fullorðin þá höfum við systkinin alltaf haldið nánu sambandi og stutt hvert annað eftir bestu getu. Sigga var með afbrigðum barngóð og nutu systkinabörnin þess ómælt, fyrst börn Hjördísar og síðan börn okkar bræðra og barnabörn okkar systkinanna. Allur þessi hópur syrgir  nú og saknar Siggu frænku.

Það var mikið gæfuspor fyrir Siggu þegar hún hóf sambúð með Guðmundi Guðmundssyni árið 1987. Þau höfðu kynnst á vinnustað beggja hjá Rafmagnsveitum ríkisins en Guðmundur átti þá þrjár dætur af fyrra hjónabandi. Vitum við að Sigga hefur reynst þeim stoð og stytta. Yngsta dóttir Guðmundar, Eyrún, ólst upp á heimili þeirra Siggu og Guðmundar og í árslok árið 1987 fæddist þeim sonur sem skírður var Kristján Gylfi. Hann var augasteinn móður sinnar og var Sigga vakin og sofin í að hugsa um velferð hans.

Þórkötlustaðahverfið í Grindavík var snar þáttur í lífi okkar systkinanna. Þar bjuggu föðuramma og afi og auk þess móðursystir okkar Ingibjörg. Hjá henni bjuggu móðuramma og afi okkar svo ekki var einkennilegt þótt við sæktum mjög í að vera sem mest í Grindavík. Sigga og Guðmundur festu kaup á lítilli landsspildu á Siglunni við Þórkötlustaði fyrir nokkrum árum og fyrir nokkrum vikum keyptu þau Sólbakka sem er lítið hús í nágrenni Þórkötlustaða.

Sigga var mikill ljóðaunnandi eins og móðir okkar og sendi hún okkur oft part úr ljóðum á jóla- og afmæliskortum. Við viljum að lokum kveðja Siggu með kvæði Hannesar Péturssonar Farvegir.

Utan þessa dags

bak við árin og fjallvegina

streyma fram lindir mínar.

/

Ef ég legg aftur augun

ef ég hlusta, ef ég bíð

heyri ég þær koma

eftir leyningunum grænu

langt innan úr tímanum

/

hingað, hingað úr fjarska.

Þær hljóma við eyru mér

Þær renna gegnum lófa mína

ef ég legg aftur augun.

Elías og Benóný.