Björgvin Ingimarsson, kennari og sálfræðingur, fæddist 16. nóvember 1965 og ólst upp í Kópavogi. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 9. febrúar síðastliðinn. Faðir hans var Ingimar Kristján Jónasson skrifstofustjóri á Hagstofu Íslands f. 21.2.1925, d. 7.7.1989 og móðir Sigrún Guðmundsdóttir hjúkrunarkona, f. 23. júní 1927. Eftirlifandi eiginkona Björgvins er Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og þjóðfræðingur f. 3.9.1965. Dóttir þeirra er Sigrún Ugla Björgvinsdóttir f. 21.5.2004. Stjúpbörn Björgvins eru Katrín Vilborgardóttir Gunnarsdóttir f. 31.5.1987 og Matthías Már Valdimarsson f. 5.10.1994. Bróðir Björgvins er Jónas Ingimarsson f. 6.3.1959. Björgvin lauk sveinsprófi í rafeindavirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík 1985, hlaut kennsluréttindi frá Kennaraháskóla Íslands 1998, lauk BA prófi í sálfræði frá HÍ 2004, MSc prófi í heilsusálfræði frá Queen Margaret University College í Edinborg 2006 og Cand.Psych. prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Björgvin starfaði sem rafeindavirki árin 1984-1994 og sem kennari við Rafmagnsdeild Iðnskólans í Hafnarfirði 1995 til 2005. Árið 2010 opnaði Björgvin sálfræðistofu og kenndi sálfræði við Menntaskólann í Hamrahlíð 2011 til 2012. Útför Björgvins verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík þriðjudaginn 19. febrúar kl. 15.00.
Minn elsti vinur er fallinn frá.
Ég sit í svartamyrkri snemma á laugardagsmorgni og get ekki sofið eftir að tíðindin bárust. Brotakenndar myndir raðast saman í huganum en þrátt fyrir sortann þá eru það bjartar myndir, dýrmætar minningar um sólríka daga og í huga mér er þakklæti fyrir að hafa fengið að vera vinur þessa frábæra manns.
Ég man fyrst eftir Björgvini eða Böbba eins og vinir hans kölluðu hann sem rólegum og dökkleitum unglingi, löðursveittum í fjólubláum æfingagalla þegar við byrjuðum að æfa saman bardagaíþróttir haustið 1981. Það var ekki annað hægt en að líka vel við hann. Hann kenndi mér seinna að keyra, löngu áður en við höfðum aldur til, á afgamlan bílskrjóð sem hann hafði afnot af. Akstursævintýrin héldu áfram seinna í ferðalagi til eyjarinnar Krítar, ég veit ekki enn hvað bjargaði lífi okkar í mótorhjólaævintýrum þar. Í Þórsmörk, Böbbi hlæjandi, neglandi niður tjaldhæla og seinna fjúkandi með tjaldinu okkar út í Krossá í mestu rigningum í manna minnum sumarið eftir (suðurlandsvegurinn fór í sundur á 9 stöðum þennan dag). Og enn síðar Böbbi spilandi á munnhörpu við varðelda í ferðalagi okkar fimm félaganna um Suður-Ameríku árið 1987. Böbbi dansandi eins og innfæddur á þorpsböllum í Kólumbíu, ótrúlegur sundsprettur okkar til að sleppa undan erfiðum straumum þegar við hættum okkur of langt frá landi í Venezuela. Björgvin rólegur að vanda, þegar vopnaðir glæpamenn ræna okkur fermingarúrunum á dimmri götu í Caracasborg. Já, það var eins og við ættum níu líf - og veitti ekki af. Maður kynnist fólki vel þegar maður eyðir hverri stundu dagsins með þeim mánuðum saman - í Suður-Ameríkuferðalagi okkar lærðum við félagarnir að jafnlyndari, æðrulausari, fyndnari og hjálpsamari ferðafélaga en Böbba var ekki hægt að finna.
Seinna Björgvin á Ísafirði og heimsóknir til hans þar. Böbbi finnandi leið til að koma okkur félögunum í dimmþoku yfir einstigi á Hornströndum og mánuði seinna sitjandi sposkur undir sigurboganum í París, reykjandi pípu þegar við Ólöf mælum okkur mót við hann þar. Björgvin í vísindaferð læknanema á Ísafirði, til í að leika ungan innkirtlasérfræðing til að við getum haft hann með í gleðskapinn og gerir það svo vel að allir láta blekkjast.
Svo flytur Björgvin í bæinn aftur, á Grundarstíg - gleymir sér í borgarsollinum um hríð - en segir loks hingað og ekki lengra. Fer í meðferð og hefur nýtt líf sem edrú maður. Sami góði skemmtilegi maðurinn, en með árunum þroskaðri, íhugulli, lífsreyndari. Margar heimsóknir til okkar Ólafar til London, sumar eftir sumar. Þægilegasti og skemmtilegasti gestur sem hægt er að hugsa sér. Hann kann betur á kaffihús og sérbókaverslanir borginnar en innfæddir. Og áfram heldur hann að þroska og bæta sjálfan sig, bætir við sig kennaranámi, þróun kennslu í rafeindavirkjun, og fær vaxandi áhuga á sálfræði.
Ný íbúð á Bárugötunni - og eins og hendi sé veifað - nýtt líf. Öll viskan og allur þroskinn fer í samband - fyrsta alvöru samband Böbba og þá hlaut það að vera svo frábær manneskja - hann búinn að finna Vilborgu sína. Þau flytja á Hallveigarstíginn, eignast Sigrúnu Uglu. Aldrei hef ég séð hamingjusamari mann og stoltari en þegar hann sýnir mér dóttur sína í fyrsta skipti. Og allt í einu er Björgvin orðinn heimilisfaðir í fimm manna fjölskyldu í Þingholtunum. Og síðan Edinborg. Þau Villa bæði í námi, hann lýkur meistaranámi í sálfræði - brúðkaup sumarið 2006 í sumarfríi til Íslands. Bjartir hamingjudagar.
Um haustið bregður skugga yfir - veikindin, erfið meðferð en minn vinur af sínu æðruleysi og með ótrúlegum stuðningi Villu hefur sigur á þeim - í bili. Þau koma heim á Hallveigarstíginn á ný, við tekur endurhæfing hugans sem Böbbi rækir af ótrúlegri þrautseigju. Hann nær sér svo vel að ekki aðeins nær hann aftur minni og tali heldur hefur hann - og lýkur, erfiðu námi í klínískri sálfræði og fer svo að vinna sem sálfræðingur á stofu og við sálfræðikennslu. Jafnframt því gefur hann út handbók í rafeindavirkjun; Rásakverið. - Þegar vágesturinn ber aftur dyra í haust er vinur minn tilbúinn. Æðrulaus.
Björgvin var mannkostadrengur. Hann var ekki trúaður en hafði mikinn áhuga á andlegum málum og þau hjónin áttu geysistórt bókasafn sjálfshjálparrita, sem ég veit að hann las - mjög gagnrýnum huga - því hann kunni aðferðafræði fram og aftur. Hann hlýtur samt að hafa tekið eitthvað úr þessum vangaveltum, því kristnar dyggðir voru honum eðlislægar. Björgvin var jafnlyndasti maður sem ég þekki, greip daginn á sinn hægláta og hógværa hátt. Hjálpsamur með afbrigðum, alltaf með bros á vor. Viska, hugrekki, hófstilling, von og kærleikur, allt einkenndi þetta hann í ríkum mæli og ef um einhvern má segja að hann hafi ekki látið litlu hlutina koma sér úr jafnvægi, þá var það Björgvin. Þegar kom að óvissunni stóru, stundinni sem bíður okkar allra, þá gilti síðan það sama, Böbbi tók því sem að höndum bar eins og alltaf. Hann gat líka miklu fremur en allir sem ég þekki litið til baka og sagt; þetta var gott líf, ég reyndi margt og breytti rétt og var svo lánsamur að eiga góða móður og eignast yndislega fjölskyldu. Megi Guð gefa Vilborgu, börnunum þeirra, móður hans og bróður styrk í þeirra mikla missi. Blessuð sé minning míns góða vinar.
Páll Matthíasson