Þorsteinn Geirsson, sjómaður, fæddist á Ísafirði 23. september 1956. Hann lést á Landspítalanum þann 28. febrúar 2013. Foreldrar hans voru Helga Guðrún Sigurðardóttir frá Nauteyri, f. 1934, d. 1991 og Geir Guðbrandsson, f. 1933, d. 2000. Systkini Þorsteins, sammæðra: Sigrún Ósk Bergsdóttir, f. 1954, hún á tvo syni; Halldór Geirsson, f. 1957, maki Jónína Karvelsdóttir. Þau eiga þrjá syni og þrjú barnabörn; Margrét Geirsdóttir, f. 1960, maki Marzellíus Sveinbjörnsson. Þau eiga þrjár dætur og eitt barnabarn. Bræður Þorsteins, samfeðra: Eyþór Geirsson, f. 1954, maki Jónína Bachmann. Þau eiga einn son; Guðbrandur Gimmel, f. 1955, maki Ingunn Þórðardóttir. Þau eiga tvær dætur. Þorsteinn kvæntist Kristínu Ágústsdóttur. Þau skildu. Börn þeirra: 1) Arnar Már, f. 1980. 2) Aldís, f. 1982, maki Ómar Líndal Magnússon. Þau eiga tvö börn. Þorsteinn var í sambúð með Auði Aradóttur og eignaðist með henni soninn Daníel Þór, f. 1989, sambýliskona Elma Sturludóttir. Fyrir átti Auður soninn Ara sem Þorsteinn gekk í föðurstað. Þau skildu. Þorsteinn kvæntist Jiamrat Thimla-Or sem lifir eiginmann sinn. Jarðarför Þorsteins fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 9. mars 2013, kl. 15.
Steini, andaðist í faðmi fjölskyldunnar á Landsspítalanum eftir stutt en
erfið veikindi. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að
vera hjá honum síðasta sólarhringinn, þakklát fyrir að hafa getað tjáð
honum það sem mér bjó í brjósti, þakkað honum elskuna í minn garð alla tíð.
Hann hafði áður sagt mér hvernig hann myndi vilja haga málum eftir andlát
sitt. Bálför hefur farið fram í Reykjavík en duftkerið flutt heim á
Ísafjörð og verður sett niður hjá foreldrum okkar, í kirkjugarðinum í
Engidal, eftir athöfn í Ísafjarðarkirkju. Þetta vildi hann. Steini stundaði
sjómennsku mest alla sína starfsævi og lærði vélstjórn. Til margra ára
stundaði hann bridgespilamennsku, sem var mikið áhugamál hans. Hann vann
til ýmissa verðlauna á þeim vettvangi.
Ein af fyrstu minningum mínum tengjast Steina. Páskadagsmorgunn, foreldrar
okkar búnir að fela páskaeggin og púkarnir vaknaðir fyrir allar aldir til
að leita. Ég komst ekki upp úr rimlarúminu man ég var með snuð - Steini
kom og lyfti mér upp úr rúminu til að ég gæti tekið þátt í leitinni. Þannig
minningar á ég margar um Steina frá barnsárunum, dýrmætar minningar um
bróður sem var alltaf tilbúinn til að hjálpa litlu systur og auðvelda henni
dagana.
Á æskuárunum var aldrei lognmolla í kringum Steina, hann var uppátækjasamur
strákur. Foreldrar okkar áttu oft fullt í fangi með að hafa hemil á
strákapörunum. Við ólumst upp í Sólgötu 5 á Ísafirði og var nándin við
gamla kirkjugarðinn uppspretta margra ævintýraferða Steina og Halldórs
bróður okkar. Á tímabili þurftu foreldrar okkar að tryggja að Steini væri
inni í húsi þegar jarðarfarir fóru fram því annars var víst að hann tæki
virkan - og óvelkominn - þátt í líkfylgdinni. Hann átti það líka til að
færa móður okkar blóm eftir jarðarfarir, það þarf ekki að taka fram hvaðan
blómin komu. Hann tók einnig upp á því, ásamt bróður sínum og vinkonu, að
mála nokkur leiði með svartri málningu sem hann fann í kjallaranum.
Barnshugurinn skildi ekkert í sterkum neikvæðum áhrifum þessa framtaks.
Honum fannst leiðin þurfa á málningu að halda! Það varð svo verk
foreldranna að mála allt hvítt aftur. Fyrrnefnd vinkona kom einu sinni til
þeirra, Steina og Halldórs, í nýjum kjól með tíkarspena í ljósu fallegu
hárinu. Þeir gerðu sér lítið fyrir og máluðu hana græna. Enn og aftur við
lítinn fögnuð foreldranna. Ótalmörg önnur prakkarastrik er hægt að telja
upp og Steini sagði oft að mamma og pabbi hafi ekki átt sjö dagana sæla
þegar uppátæki hans voru annars vegar. Þrátt fyrir þetta var Steini
undurblíður og góður drengur sem vildi engum illt. Framkvæmdasemin átti sér
einfaldlega engin takmörk. Einu sinni sendu þeir bræður mig niður á hótel
Mánakaffi með Matadorpening til þess að kaupa ís. Ég skildi ekki út á hvað
málið gekk, svo auðvitað fór ég til að kaupa ís. Afgreiðsludömunni fannst
uppátækið svo sætt að hún gaf mér ísinn. Þegar þeir bræður sáu að ég hafði
ís upp úr krafsinu ákváðu þeir að reyna það sama. Því er skemmst frá að
segja að viðtökurnar sem þeir fengu voru þveröfugar - skammir og enginn ís.
Þá græddi litla systir.
Á þessum árum var ekkert rætt um ofvirkni, hvatvísi eða athyglisbrest og
oft á tíðum lítill skilningur á atferli barna. Þau voru bara óþekk og
foreldrar þeirra háðu oft erfiða baráttu til varnar börnum sínum í umhverfi
sem hafði takmarkaðan skilning á frávikum. Steini háði margra ára baráttu
við völd sem voru honum ofviða, þó átti hann góða tíma inn á milli og gat
notið þess sem honum var hugleiknast og fyllti hann stolti, -börnin og svo
barnabörnin. Það leyndi sér ekki þegar hann ræddi um þau hversu ánægður
hann var og hversu undurvænt honum þótti um þau.
Hann hafði fallega söngrödd, mjúka barítónrödd og gott tóneyra sem fáir
fengu þó að njóta. Aðeins þeir sem þekktu hann mjög vel vissu hversu næma
tilfinningu hann hafði fyrir tónlist. Hann flíkaði ekki hæfileikum sínum,
var hlédrægur og dulur. Hann var snöggur upp á lagið og leiðrétti
tafarlaust ef einhver kallaði mig Möggu. ,,Hún heitir Margrét!
Minningar um skarpgreindan, og umfram allt yndislegan stóra bróður, með
glettið og hlýlegt augnaráð, verða aldrei frá mér teknar. Þegar frá líður
og sárasta sorgin er liðin hjá, mun ég ylja mér við þær og þakka fyrir að
hafa átt hlýju og væntumþykju vísa þar sem Steini var. Ég er þess fullviss
að vel hefur verið tekið á móti Steina, af foreldrum okkar, á góðum stað.
Móðir okkar, sem hafði áhyggjur af honum fram á sitt síðasta, getur nú
annast elsku drenginn sinn. Það er góð tilhugsun.
Jiamrat votta ég innilega samúð mína og þakka henni ræktarsemi, alúð og
elsku í garð bróður míns. Elsku Arnar Már, Aldís og Daníel Þór, ykkar
missir er mikill en þrátt fyrir allt eigið þið minningar um ljúfar stundir
og góðan mann, sem pabbi ykkar vissulega var. Við skulum vera þakklát fyrir
það. Mazzi, dæturnar og ég þökkum Steina samfylgdina og biðjum honum Guðs
blessunar.
Margrét Geirsdóttir.