Jóhanna Guðrún Sigurðardóttir fæddist í Jaðarkoti í Flóa 3. maí 1926. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 3. mars síðastliðinn. Jóhanna var næstyngst af fimm systkinum en auk þess átti Jóhanna uppeldissystur, Margréti Sigurgeirsdóttur. Foreldrar Jóhönnu voru Halldóra Halldórsdóttir bóndi, fædd í Nesi í Selvogi en ólst upp frá eins árs aldri í Sauðholti í Holtum, og maður hennar, Sigurður Guðmundsson frá Saurbæ í Villingaholtshreppi. Systkini Jóhönnu voru: tvíburarnir Halldór, f. 1920, d. 1944, hann fórst með togaranum Max Pemberton, og Guðmunda Oddbjörg, f. 1920, d. 2008, Kristinn, f. 1923, Sigríður Friðsemd, f. 1929, og uppeldissystirin Margrét, f. 1936. Útför Jóhönnu fer fram frá Selfosskirkju í dag, 16. mars 2013, og hefst athöfnin kl. 11, jarðsett verður í Villingaholtskirkjugarði í Flóa.
Lífsbaráttan var hörð í sveitinni, Jóhanna eða Jóa eins og hún var alltaf kölluð, var aðeins 10 ára gömul þegar pabbi hennar dó og þá börðust þau áfram af miklu harðfylgi systkinin að Jaðarkoti og amma. Jóa sagði mér að það væri skjalfest að leysa hefði átt upp heimilið en þeim tókst að halda búinu og byggðu nýtt hús að Jaðarkoti. Annað reiðarslag dundi á fjölskyldunni að Jaðarkoti þegar togarinn Max Pemberton fórst, Halldór bróðir Jóu var þar háseti og fyrirvinna heimilisins. Amma syrgði hann alla tíð.
Tvo vetur starfaði Jóa í Reykjavík, annars vann hún hefðbundin bústörf og húsmóðurstörf. Árið 1954 tók Kristinn við búinu og keypti jörðina Mýrar í Flóa, Jóa rak búið með honum og amma bjó hjá þeim alla tíð.
Jóa var hreinskiptin en þó orðvör, hjartahlý og börnin hændust að henni. Lundin var létt og hún kunni dægurlagatextana, því mikið var hlutað á útvarp á Mýrum. Við sáum Jóu taka danssporin og söng af innlifun með. Það er gaman að hlusta á yngri kynslóðina tala um Jóu frænku, þar var ekkert kynslóðabil. Þegar við komum til Jóu stoppaði tíminn, það var allt eitthvað tímalaust sem segir manni að gott var að koma að Mýrum. Jóa talaði ekki mikið um sjálfa sig en ef hún var spurð um gamla tímann stóð ekki á svörum. Ég skildi ömmu mikið betur þegar Jóa hafði sagt mér hvernig uppvexti hennar var háttað en það hafði ég aldrei heyrt. Já, hún Jóa var afsjór af fróðleik ef eftir honum var leitað. Hún fór ekki á marga mannfagnaði hvorki hjá fjölskyldunni né í sveitinni, það var hennar að taka á móti fólki og uppvarta en það vita allir sem komu að Mýrum að þeim var ekki í kot vísað, borðin svignuðu af tertum, kökum og smurðu brauði. Vegna gæsku Jóu átti hún marga vini og margir þessara vina reyndust henni vel síðustu árin eftir að hún var orðin eini ábúandinn á Mýrum. Ég get ekki annað en minnst á Laufeyju í Egilsstaðarkoti í Flóa en hún hringdi í Jóu nánast á hverjum degi og var með henni í bíltúr daginn fyrir andlát Jóu. Guðbjörg í Vorsabæjarhjáleigu í Flóa fylgdist með Jóu og þær voru miklar vinkonur. Jóa vildi mikið frekar biðja Guðbjörgu að skutla sér en okkur systkinabörnin þó svo að alltaf væri verið að bjóða henni það. Hilmar í Hamarshjáleigu var líka betri en enginn. Hann droppaði inn bara til að athuga hvort ekki væri allt í lagi hjá vinkonu sinni henni Jóu.
Við systkinabörnin kynntumst Jóu mismikið en þau sem voru í mörg sumur að Mýrum tengdust henni sterkum böndum eins og um hennar börn væri að ræða, vil ég þar nefna Adda frænda, Sigþór bróður og Dóru frænku. Við hin droppuðum inn við tækifæri en auðvitað alltof sjaldan.
Jóa brosti með öllu andlitinu, hún hafði mikið gaman af að fá fólkið sitt til sín, þá hvort sem það voru ættingjar eða vinir og allra skemmtilegast var þegar smáfólkið mætti í sveitina.
Jóa skammaðist aldrei, hún bara í mestalegi brosti út í annað ef við gerðum eða sögðum eitthvað sem henni líkaði ekki. Hún var mjög pólitísk og fylgdist manna best með fréttum og stöðu þjóðmála. Mamma sagði oft; maður bara skammast sín fyrir það hvað maður er lítið inn í þjóðmálunum eftir að hún hafði verið að tala við Jóu. Jóa sagði áður en allt fór á versta veg í þjóðfélaginu að það væri mesta böl sem komið hefði fyrir þjóðina að bankarnir hefðu verið seldir, við ættum eftir að sjá það. Það er svo einkennilegt að meðaljóninn eins og Jóa veit oft betur en þeir sem standa í eldlínunni í pólitík hvað er okkur fyrir bestu.
Jóa var mikill jafnréttissinni og fyrir alla aðra en sig sjálfa. Hún puðaði og puðaði og krafðist einskis. Það sagði mér einn snúningsdrengurinn sem var á Mýrum að Jóa hafi eitt sinn sagt: Ef ég dríf mig ekki suður innan árs þá fer ég aldrei og það varð úr. Sá hinn sami þakkaði líka það að hafa fengið að kynnast búskaparháttum fyrri tíma.
Jóa var treg að leita sér lækninga, þetta lagast var viðkvæðið. Hún hafið orð á því að þegar hennar tími kæmi vildi hún fara eins og hann Gústi og það gerði hún svo sannarlega, hún veiktist seinnipart laugardags og var dáinn að morgni næsta dags. Ég er þakklát fyrir það. Hún var að leggja á borð og traktera fólk fram á síðasta dag eins og henni einni var lagið.
Elín Ágústsdóttir og Hrafn Ingimundarson.