Inga Margrét Sæmundsdóttir fæddist að Minni-Vogum í Vogum Vantleysuströnd , 3 ágúst 1923. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 21. mars síðastliðin foreldrar hennar voru Sæmundur Kristinn Klemensson f. 19 nóvember 1882 d.18.febrúar 1953 og Guðrún Aðalbjörg Ingimundardóttir f. 10 október 1891 d. 17 júli 1972. Systkini Ingu voru Ólafur Ásgeir f. 1915 d. 1992. Klemens f. 1916 d. 2002. Egill f. 1918 d. 2003 Guðrún f. 1921 d. 2001. Eiginmaður Ingu Margrétar er Jón Ingibergur Herjólfsson f. 10 ágúst 1925 þau eiga saman 2 börn a) Herjólfur Hafþór f. 30.janúar 1955 maki Kristín Árnadóttir f.15.nóvember 1959 þau eiga 3 börn Jón Grétar f. 1978 maki Þóra Guðrún f. 1979 börn Viktoría Kristín f.2005 og Grétar Ingi f. 2009. Elvar Árni f. 1984 sambýliskona María f. 1982. Karen f. 1989 barn Daníel Viðar f. 2009. b) Þóra Rut f. 31 mars 1961 með fyrri manni sínum Þorsteini Sigurðsyni f. 1956 eignuðust þau 3 börn. Jóhanna Ósk f. 1979 barn Gerald Breki f. 2002. Inga Margrét f. 1983 sambýlismaður Lúðvík f.1983 barn Ragnheiður f. 2011. Sigurður f. 1989. seinni maður hennar er Guðmundur Stefánsson f. 1965 og eiga þau eina dóttur Marín Rún f. 1997. En fyrir átti Inga Margrét dóttir Ástu Björk Marteinsdóttir f. 3 mars 1948 d. 5 ágúst 2006 og eignaðist Ásta 3 börn með fyrri eiginmanni sínum Ægir Axelsyni f.1941 Jón Ingi f. 1967 sambýliskona Hafdís Alma f.1970 börn Bryndís Björk f. 1991 og Róbert Smári f. 1998. Þuríður Berglind f. 1969 maki Njáll f. 1976 börn Ægir Páll f. 2006 og Edda Björk f. 2007. Marteinn f. 1979 . Seinni maður Ástu var Jónas Baldursson f 1958. Inga studnaði nám við Húsmæðraskólann á Laugarvatni ,Hún starfaði við fiskvinnslu á sínum yngri árum, enn vinnuferilinn endað hún í Nesbú á Vatnsleysuströnd . Útför Ingu Margrétar fer fram frá Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd 3 apríl kl 15.


Söknuður

Ég gái út um gluggann minn
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar.
Ég reyndar sé þig alls staðar.
Þá napurt er, það næðir hér
og nístir mig.
(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Þetta erindi lýsir því vel hvernig mér er innanbrjósts þegar ég kveð ömmu mína Ingu Sæm.

Ég og amma vorum alltaf miklir vinir og naut ég þess alltaf að vera í kringum hana, enda  alla tíð við verið mjög náin. Það var aldrei leiðinlegt í návist hennar eins og þeir vita sem hana þekktu. Hún var mikil félagsvera og kunni best við sig að vera í kringum  fólk.

Við verðum alltaf í bandi elskan mín kallaði amma á eftir mér þegar ég fór frá henni í minni síðustu heimsókn, þegar ég kom útí bíl þá upptvötaði ég það að ég hafði gleymt símanum mínum inni hjá henni og þurfti að fara inn að sækja hann. Þá mætti mér þetta fallega bros öðru sinni og hún var aftur svo ánægð að sjá mig og auðvitað  tók þá við kveðjustund númer tvö í röðinni með kossum og faðmlögum. Þarna stóð ég í dyragættinni og við veifandi hvort öðru rétt eins og við gátum ekki hætt að veifa. Ég fór frá henni brosandi og hugsaði með hve fallegt og sérstakt þetta hefði verið, væri bara eins og við hefðum verið að kveðja hvort annað fyrir fullt og allt. Ég held að kveðjustundin hefði ekki getað orðið mikið betri en þetta þegar ég hugsa til baka.

Ég hef alltaf verið mikill ömmustrákur, jafnvel vinir mínir hafa skotið á mig í gríni, þegar ég tók upp símann hvort sem það var á þjóðhátíð, knattspyrnuleik eða erlendis þá varð ég bara láta hana vita að ég væri í lagi og um leið vita hvernig þau gömlu hefðu það. Það er kannski ekkert skrítið því fyrstu  19  árin í mínu lífi bjuggu amma og afi í næsta húsi við mig, fyrst í Heiðargerðinu svo í Kirkjugerðinu. Þegar svona stór partur í mínu lífi kveður mann þá eðlilega fer maður að hugsa til baka og rifjast þá upp gamlar minningar sem maður taldi sig jafnvel ekki muna lengur.

Amma og afi áttu vinafólk austur á Núpi undir Eyjafjöllum. Fóru þau alltaf til þeirra nokkrum sinnum á ári og gistu hjá þeim um helgar en þau voru með sveitabúskap.  Amma  og afi vildu endilega að ég myndi prófa vera  í sveit og kynnast þessu sveitalífi. Úr varð að ég fór með ömmu og afa austur 14 ára gamall og var samkomulagið að ég yrði eftir og myndi vera í tvær vikur og kynnast bústörfum og anda að mér sveitaloftinu.  Þegar þessar tvær vikur voru liðnar og ekkert bólaði á ömmu og afa þá hringdi ég í ömmu. Þá kom uppúr krafsinu að amma vildi að ég yrði lengur því Ásta vinkona hennar væri svo ánægð með mig. Þrátt fyrir góðar tvær vikur og mér leið vel þarna þá vildi ég koma heim.  Eftir smá símafund við ömmu og mömmu varð það að samkomulagi að ég yrði tvær vikur í viðbót hjá Ástu í sveitinni  á launum hjá ömmu og mömmu. Ég mátti bara ekki láta Ástu vita. Þegar ég hugsa þetta til baka þá er ég svo þakklátur að þessar tvær vikur sem áttu svo að verða að fjórum vikum og endaði síðan í heilu sumri. Var þetta skemmtileg lífsreynsla og það var alltaf gaman þegar við amma rifjuðum þetta upp.

Ég var svo heppinn að fá að keyra ömmu og afa til þeirra  í sveitina eftir að þau treystu sér ekki  sjálf vegna aldurs. Þá yfirleitt stoppaði ég og borðaði með þeim og fór síðan aftur til baka. Átti ég að koma aftur eftir tvo til þrjá daga að sækja þau. Oftar en ekki hringdi amma í mig til að framlengja ferðina um nokkra daga í viðbót. Þegar maður kom austur þá skildi maður vel hvers vegna þau vildu vera þarna. Það fór svo vel á með þeim öllum, einstaklega fannst mér gaman að sjá kærleikann sem var á milli ömmu og Ástu. En amma og Ásta voru búnar að vera vinkonur í áratugi. Það var alltaf gaman að hlusta á ömmu þegar hún var að rifja upp þegar hún og afi fóru austur til að hjálpa þeim við heyskapinn eða önnur bústörf. Ég tala nú ekki um þegar hún rifjaði upp hvernig þær kynntust í gamla daga. Einnig hringdust þær mikið á, það kom fyrir að Ásta hringdi í mig þegar hún hafði áhyggjur af ömmu og bað mig um að athuga málið. Já, þær voru miklar vinkonur og ömmu fannst hún vera svo rík að eiga hana fyrir vinkonu. Síðast þegar ég keyrði  ömmu  austur var sumarið 2009. Þegar ég sótti hana þá sagði hún mér á heimleiðinni hve góðar þessar ferðir væru fyrir sig. Þær vinkonur hefðu verið að spila saman á píanó og spjallað saman langt fram eftir öllu. Ástu gæti hún sagt allt og hún treysti henni. Einnig sagði hún mér  að henni fyndist svo gott að tala um mömmu við hana, ég vissi alltaf að amma missti mikið þegar mamma dó, en í þessari heimferð frá Núpi gerði ég mér grein fyrir því hve stórt högg þetta hefði verið fyrir hana. En amma sagði að það hefði verið gott að ræða þessa hluti við Ástu vinkonu sína  í sveitinni.

Það fór ekkert á milli mála að amma missti mikið þegar mamma dó langt fyrir aldur fram. Lát hennar bar mjög brátt að og var öllum mikið áfall sem stóðu henni nærri. Amma og mamma voru svo miklu meira en mæðgur, þær voru bestu vinkonur. Bjuggu hlið við hlið til fjölda ára, hittust á hverjum degi. Mamma sagði alltaf að hún vildi hafa ömmu og stjúpa eins nálægt sér og hægt væri. Þegar mamma og pabbi ráku sjoppuna þá mætti amma alltaf oft og iðulega rétt fyrir lokun og skúraði fyrir mömmu. Þær voru svo ótrúlega góðar við hvor aðra, amma var dugleg að mæta á heimilið okkar og hjálpa til við heimilisstörfin. Það var ótrúlega gott að vera í kringum þær tvær og hlusta á hláturinn og gleðina sem einkenndi þær. Þær voru svo nánar og samtaka í einu og öllu. Hvort sem það var verið að spila vist eða matreiða í tonnavís, þá var mikið stuð og mikið hlegið.  Fyrir nokkrum árum síðan þá hringdi ég í hana og sagði henni að ég væri að fara að leiðinu hennar  mömmu að setja niður blóm, amma vildi endilega koma með. Þrátt fyrir að nálgast níræðisaldurinn var amma ekki lengi að skella sér niður á hnéin og byrjuð að reyta arfa og gera fínt. Fór hún þá að rifja upp með mér og segja mér sögur frá því þegar hún og afi voru alltaf að sinna garðinum í Heiðargerði. Fengu viðurkenningu fyrir fallegasta garðinn og hún ljómaði öll þegar hún fór að rifja þetta upp.

Ég hef alltaf haft þann sið á þegar ég ferðast erlendis til lengri tíma þá hringdi ég allavega einu sinni í ömmu. Það er þó eitt símal sem er minnisstæðast en sumarið 2007 fór ég til Barcelona í þrjár vikur, þegar ég var staddur á kaffihúsi í gamla hverfi borgarinnar þá fékk ég allt í einu þá hugmynd að ég yrði að heyra í ömmu og láta hana vita af mér. Ég varð að segja ömmu allt , byrjaði á að segja henni hvernig ferðin væri búin að vera og frá hitabylgjunni sem væri í gangi. Þegar ég sé á símanum mínum að 5 mínútna símtalið var orðið að 40 mínútum og símtalið myndi kosta líklega sama og flugmiðinn minn þá varð ég að reyna stoppa mig af, ég var farinn að hlaupa um eins og óður væri og lýsa öllu því sem var í kringum mig. Hvort sem það væru styttur, listaverk, brunnar, götulistamenn eða húsbyggingar. Ég varð að lýsa þessu nákvæmlega. Amma var komin á flug með mér og alltaf var hún á línunni, hláturinn hennar og svo heyrðist alltaf annað slagið þetta er alveg ótrúlegt .  Þegar við loksins kvöddumst  þá auðvitað þurfti hún að minna mig á að vera í skugga enda alveg mætt í anda á svæðið og ef einhver hefur fylgst með mér þá hefur hann eflaust haldið að ég væri búinn að missa vitið. Það var alltaf gaman að hringja í hana frá útlöndum og finna hversu vænt henni þótti að fá þessi símtöl.

Amma var alltaf tilbúin að aðstoða mig, hún sá t.d. um að þvo af mér í nokkur ár og átti það fyrst að standa yfir í nokkrar vikur. Þó þvottavélin væri mætt á svæðið þá hélt amma þessu áfram, tók ekki í mál að ég gerði þetta sjálfur. Bæði vinir og vandamenn hristu hausinn þegar ég þurfti að koma við á Suðurgötunni að sækja þvott hjá ömmu. Oftar en ekki var ég spurður af hverju ég væri með brotin saman þvott aftur í bíl hjá mér já ég var hjá ömmu að sækja þvottinn minn svaraði ég eins og ekkert væri sjálfsagðara.  Eitt skiptið þegar ég var ekki búinn að koma með þvott  í nokkrar  vikur hringdi amma í mig reið. Hún þekkti mig það vel og vissi sem var að ég væri hættur að koma með þvott vegna þess að aðrir hefðu verið að setja útá þetta. Hún sagði mér að gjöra svo vel að halda þessu áfram því þá hefði hún eitthvað að gera og hún sæi mig miklu oftar. Þegar ég hugsa til baka þá var þetta ótrúlega skemmtilegt tímabil. Hún vissi nákvæmlega hvaða föt ég vildi hafa um helgar og í hvaða fötum ég væri dags daglega. Skyrturnar alltaf straujaðar, og kom fyrir að hún spurði mig hvort ég væri hættur að ganga í einhverri ákveðinni flík. Svo fékk ég alltaf miðana, klinkið og það sem leyndist í vösunum í glærum nestispoka ofan á hreina þvottinum .

Ef ég var veikur og amma frétti af því, þá var hún mætt á svæðið með C-vítamíntöflur og önnur vítamín. Þetta gerði hún alltaf, þegar maður hugsar svona til baka þá er ekkert skrítið hversu mikið mér þótti vænt um hana og hversu náin við vorum.  Það skemmtilega við að heimsækja hana  var að sjá hversu glöð hún var alltaf að sjá mig.

Amma var mikil Vogamanneskja og þótti vænt um heimabæinn sinn, en sökum heilsubrest flutti hún á Garðvang í maí á síðasta ári. Þau skipti sem ég sótti hana þangað og fór með hana í Vogana  sagði hún í hvert einasta skipti sem við renndum niður Vogaafleggjarann  er ég ekki bara  komin í Vogana . Fyrir rúmum mánuði síðan sótti ég hana til að fara með í klippingu til Hrannar, hún vildi endilega keyra Hvammsgötuna áður þar sem hún sagðist hafa frétt að einhver væri fluttur í gömlu  íbúðina þeirra. Hafði hún á orði hversu vel henni hafi liðið þarna.  Nær undantekningar laust spurði hún mig í heimsóknum mínum til hennar  útá Garðvang. Hvort ég væri búinn að keyra framhjá íbúðinni hennar á Hvammsgötu.

Það var alltaf gott að koma á Hvammsgötuna til ömmu.  Við gátum spjallað endalaust saman . Mér stóð þó ekki alltaf á sama þegar ég keyrði  ömmu til læknis, í Bónus eða annarra útréttinga.  Oft þurfti hún að hafa orð á því að  segja öllum í röðinni hve mikill ömmustrákur ég væri. En auðvitað hafði ég gaman að þessu eftirá. Amma hefði orðið níræð í ágúst nk., og verður skrítið að geta ekki heimsótt hana á afmælisdaginn eins og venja var, þegar ég heimsótti hana í fyrra þá voru hennar gömlu vinkonur Anna Ingólfs. og Elsa í Hofi mættar á svæðið. Tókum við afmælissönginn ömmu til heiðurs sem var virkilega skemmtilegt.

Elsku amma , þakka þér fyrir þann tíma og allar þær yndislegu stundir sem við höfum átt saman. Þú sagðir mér fyrir fáeinum árum að þú myndir alltaf fylgjast með okkur barnabörnunum úr fjarlægð þegar  við vorum að ræða hvað tæki við eftir þetta líf, þú varst svo viss. Svo gastu ekki annað en hlegið þegar ég sagði þér að þú mættir bara ekki vera hnýsast í einhverju sem þér kæmi ekki við.

Þú skilar kveðjunni til mömmu frá mér sem hefur  án efa verið með allt tilbúið fyrir þig ef ég þekki hana rétt. Um leið og þú faðmar hana frá mér þá máttu einnig þakka henni fyrir rauða hárið og freknurnar sem hún gaf mér í vöggugjöf og eflaust átt þú þinn þátt í því líka.

Ég bið góðan guð um að styrkja afa og aðra aðstandendur.  Megi minningin um þessa einstöku konu lifa.

Þinn ömmustrákur,

Marteinn Ægisson.