Haraldur Hrafnkell Einarsson fæddist í Reykjavík 20. janúar 1934. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 9. apríl 2013. Hann var sonur hjónanna Einars Kristjánssonar, f. 1903, d. 1984, og Helgu Haraldsdóttur, f. 1902, d. 1955. Bræður Haraldar eru Magnús Þorgeir, f. 1936, maki Guðrún Þóra Jóhannsdóttir, f. 1943, og Kristinn, f. 1944, maki Hanna Sigurðardóttir, f. 1946. Haraldur kvæntist 19. janúar 1964 Margréti Jónu Magnúsdóttur frá Reykjavík, f. 2. janúar 1940. Börn þeirra eru: 1) Kristín Júlía, f. 1959, maki Magnús Ragnar Bjarnarsson, f. 1960. Þeirra börn eru Bjarnar Hrafnkell, f. 1979, Margrét Rún, f. 1991 og Arngunnur Ýr, f. 1994. 2) Helgi, f. 1963, maki Greta Benjamínsdóttir, f. 1963. Þeirra börn eru Herdís, f. 1990 og Haraldur, f. 1992, 3) Hrafnhildur, f. 1965, maki Elvar Elefsen, f. 1958. Hrafnhildur var áður gift Áskeli Erni Ólafssyni, f, 1962. Þeirra börn eru Alda Friðný, f. 1984, maki Sveinbjörn Ársæll Sveinbjörnsson, f. 1981. Þau eiga þrjá syni: Alexander Orra, Viktor Daníel og Mikael Axel. Aníta Ósk, f. 1987, Örvar Freyr, f. 1989 og Arnbjörg Hlín, f. 1997. 3) Dröfn, f. 1967. Sonur hennar og Aðalsteins Þórarinssonar er Hrafnkell Máni, f. 2009. 4) Helga Björk, f. 1972. Synir hennar og Gylfa Hafsteinssonar eru Hrólfur, f. 2001 og Högni, f. 2004. Haraldur ólst upp í Laugarneshverfinu. Hann lærði rennismíði og starfaði lengst af sem rennismiður, bæði sjálfstætt og hjá öðrum. Stærstan hluta starfsævinnar starfaði hann í Hafnarfirði, fyrir utan níu ár þegar hann starfaði sem framleiðslustjóri Plasteinangrunar á Akureyri. Þegar Haraldur var 71 árs fluttu hann og Margrét kona hans frá Hafnarfirði á Selfoss, þar sem hann rak sitt eigið renniverkstæði fram undir það síðasta. Haraldur var mikið fyrir að vera úti í náttúrunni og leið aldrei betur en við vatnsbakka með veiðistöng í hendi. Hann fylgdist ávallt vel með þjóðfélagsmálum og hafði skoðanir á flestu. Einnig hafði hann mikið yndi af menningu hvers konar, ekki síst söng og allri tónlist. Útför Haraldar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 19. apríl 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Þegar manni þykir vænt um einhvern þá eiginlega reiknar maður með því að viðkomandi verði alltaf á lífi. Mér fannst eins og þú yrðir alltaf hjá okkur og ég trúi því varla að þú sért farinn elsku afi minn. Það er með mikilli sorg í hjartanu og tár í augum sem ég sit hér nú og hugsa til baka.

Ég á margar minningar um afa og allar eru þær góðar. Hann var einstakur karl, svo hlýr og ljúfur, samt algjör prakkari og alltaf stutt í glottið.  Hann var sá besti.

Ég man svo vel eftir því þegar þú varst að selja fallegu laufabrauðshjólin þín í Byko. Ætli ég hafi ekki verið svona sex-sjö ára og mér fannst þetta alveg sérstaklega merkilegt. Ég var að springa úr monti yfir því að eiga svona merkilegan afa, því það varstu svo sannarlega í mínum augum. Þegar hinir krakkarnir voru að segja montsögur af pöbbum sínum, svona pabbi minn er sterkari en pabbi þinn metingur, þá sagði ég:  já, afi minn er sko að smíða laufabrauðshjól fyrir Byko! Þetta toppaði allar hinar sögurnar, það átti enginn séns í afa.

Það var svo gaman að fá að kíkja í skúrinn þinn á Álfaskeiðinu og sjá hvað þú varst að brasa þar. Þú varst ótrúlega flinkur rennismiður og mér fannst allt sem þú gerðir svo fallegt. Ég gleymi því aldrei þegar þú sýndir mér einu sinni pendúl sem þú hafðir smíðað og sýndir mér hvernig hann virkar. Þá varð ég sannfærð um að þú værir töframaður, það var engin önnur möguleg skýring á þessu öllu saman. Ég hef nú lært ýmislegt síðan ég var átta ára og ég er í dag búin að átta mig á að þarna voru ekki galdrar að verki heldur bara ótrúlega fær handverksmaður.

Þú varst alltaf svo góður við mig afi. Ég man þegar ég kom einhvertíma í heimsókn til Reykjavíkur þegar ég var 12 ára og mig langaði svo að fara í Kringluna. Ég bjó þá á Akureyri og Kringlan var auðvitað það mest spennandi í Reykjavík fyrir 12 ára stelpu. Það var enginn neitt sérstaklega æstur í að fara í Kringluferð svo að þú fórst með mér. Við röltum alla Kringluna fram og til baka og þú fórst með mér í allar búðir með bros á vör. Kringlan hefur aldrei verið eins skemmtileg eins og þennan dag á röltinu með afa.

Mér fannst alltaf svo gaman að fá að skottast með þér, við fórum einhvertíma saman í Fjarðarkaup og þar keyptirðu handa mér ísskeið, því þér fannst alveg nauðsynlegt að ég ætti eina slíka. Það eru 22 ár síðan og ísskeiðina á ég enn og þykir mjög vænt um hana.

Þegar Alexander fæddist komu þið amma á sjúkrahúsið til okkar og voruð þau fyrstu til að sjá hann. Þú tókst utan um mig og sagðir að þetta væri fallegur drengur. Þetta er mér einstaklega kær minning og ég er ótrúlega þakklát afi minn  fyrir það að drengirnir mínir hafi fengið tækifæri til að kynnast þér.

Þó þú sért farinn, þá lifir þú hér,

þín minning mun líf okkar gleðja

í okkar hjörtum er staður helgaður þér,

En sárt er að þurfa að kveðja.

/

Þú gafst okkur margt, bæði gleði og hlýju,

sem aldrei munum við gleyma.

Sá dagur mun koma, við hittumst að nýju,

en þar til mun guð þig geyma.

Alda Áskels.

Það er mikill missir sem við stöndum frammi fyrir núna. Þú ert farinn og það virðist nánast ómögulegt að hugsa til þess að fá ekki að sjá þig meir. Ég var ekki svo heppin að geta kvatt þig afi minn og ég gæfi mikið til að geta faðmað þig einu sinni enn og sagt þér hversu endalaust mikið mér þykir vænt um þig.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að þekkja þig svona lengi og fyrir að hafa átt besta afa í heimi.

Þín er sárt saknað afi minn.

Þín

Alda.