Helgi Jens Árnason fæddist í Vinaminni, Neskaupstað, 7. desember 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum 11. apríl 2013. Foreldrar hans voru Gyða Guðmundína Steindórsdóttir húsmóðir, f. 26. febrúar 1901, d. 20. mars 1960, og Árni Daníelsson verkamaður, f. 23. mars 1901, d. 3. júlí 1978. Helgi var fimmti í röðinni af níu systkinum. Ármann Dan, f. 1927, Guðný Kristín, f. 1929, d. 2009, Ólöf, f. 1930, d. 1997, Steindór, f. 1931, Stefanía María, f. 1935, Hjörtur, f. 1936, d. 2012, Alfreð, f. 1938 og Ari Daníel, f. 1940. 26. febrúar 1954 giftist hann Auði Jónsdóttur frá Skeggjastöðum, Jökuldal, f. 21. apríl 1932. Foreldrar hennar voru Jón Björnsson bóndi, Skeggjastöðum, f. 19. júní 1903, d. 20. júlí 1986, og Anna Grímsdóttir húsfreyja, Skeggjastöðum, f. 21. ágúst 1904, d. 18. desember 1996. Börn Helga og Auðar eru: 1). Bjarni, f. 1954, búsettur á Selfossi, kvæntur Önnu Maríu Snorradóttur. Bjarni var áður kvæntur Sigrúnu Ágústu Harðardóttur og á með henni Hugrúnu Ósk og Kjartan Braga. 2). Gyða Árný, f. 1955, búsett á Egilsstöðum, gift Sigfúsi Þór Ingólfssyni og á með honum dæturnar Sigríði Klöru og Auði Helgu. Fyrir átti hún soninn Brynjar Atla með Hjörleifi Guttormssyni. 3) Jón, f. 1962, búsettur á Jökuldal. Hann var áður kvæntur Ingunni Stefánsdóttur og á með henni dæturnar Auði og Guðdísi. Seinna í sambúð með Fjólu Björk Óttósdóttur og á með henni soninn Helga Hrafn. 4). Anna Guðný, f. 1967, býr á Akureyri, gift Sigurði Arnarsyni. Hún var áður í sambúð með Bent Ove Flensborg og á með honum dæturnar Jóhönnu og Katrínu. Að auki eiga þau sex barnabarnabörn. Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum til 10 ára aldurs. Þá fór hann í fóstur að Skorrastað í Norðfirði til hjónanna Kristjönu Magnúsdóttur og Bjarna Jónssonar. Helgi átti sitt heimili hjá þeim til fullorðinsára. Veturinn 1948-49 stundaði hann nám við Héraðskólann á Laugum í Þingeyjarsveit og einn vetur fór hann í smíðaskóla að Hólmi í Landbroti. Eftir giftingu þeirra Helga og Auðar fluttu þau á Jökuldal og bjuggu fyrst um sinn á Skeggjastöðum ásamt foreldrum Auðar. Þau byggðu nýbýlið Refshöfða út úr þeirri jörð og fluttu þangað árið 1959. Samhliða búskapnum vann hann við brúargerð og gerði út vörubíl, fékkst við skólaakstur, sat í hreppsnefnd og söng í kirkjukór svo eitthvað sé nefnt. Árið 1980 fluttu þau hjónin til Egilsstaða þar sem Helgi vann í smíðavinnu hjá KHB og í sláturhúsinu, hafði umsjón með kirkjugarðinum og var veðurathugunarmaður í 11 ár, hann söng í kirkjukórnum og lagði stund á hestamennsku sér til ánægju. Margar góðar stundir átti Helgi með hestamönnum og fór í nokkrar eftirminnilegar ferðir með þeim. Útför Helga fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 20. apríl 2013, og hefst athöfnin kl. 11.

Helgi er látinn. Hann háði snarpa baráttu við krabbamein og hefur nú fengið friðinn. Eftir eru minningar um góðan dreng og góð kynni. Hann tók mér vel þegar ég kom inn í fjölskylduna og smám saman kynntumst við betur og ég fékk að njóta stunda með honum sem gefið hafa mer mikið. Fyrir þær er ég þakklátur.
Við fórum í ófáa bíltúrana saman bæði skemmri bíltúra í næstu sveitir sem og í lengri túra í fjarlægar sveitir. Þá ræddum við margt um landsins gagn og nauðsynjar. Ekki vorum við endilega alltaf sammála um alla hluti enda með ólíka sýn á æði margt. Þá var ekki laust við að honum fyndist ég full mikið borgarbarn á stundum. Við bárum samt virðingu fyrir skoðunum hvor annars og ræddum þær og bárum saman og mátuðum við ýmiss rök. Báðir vildum við landi okkar allt hið besta og vel gróið land höfðaði betur til okkar en auðnir og hölkn. Ef við vorum of sammála gátum við alltaf bryddað upp á því að bera saman þá dali sem okkur þótti mest til koma, Jökuldal og Skriðdal. Hélt hvor fram sínum dal má vera að þeim rökum sem beitt var í þeim umræðum hafi ekki alltaf staðist vísindalega nákvæmni.
Helgi var mikill hestamaður og á ferðalögum okkar um landið sagði hann oft frá hestaferðum og mundi þær í þaula. Hann rifjaði upp hvar áð var og hvar hann hafði hitt skemmtilega og eftirminnilega menn. Hann hafði áhuga á litríkum mönnum sem settu svip á samfélagið og kunni af þeim sögur og sóttist eftir nýjum. Í þessum ferðum sló alltaf bændahjartað í Helga sem alla tíð bar hag búpenings fyrir brjósti. Hann dáðist að vel girtum túnum, fallegum búpeningi og reisulegum býlum og höfðaði slíkt meira til hans en útlit fjalla og fossa.
Í bíltúr í einum af þessum mörgu bíltúrum var ég tekinn fyrir of hraðan akstur. Það var eitthvað sem lítil hætta var á að Helgi reyndi á eigin skinni og þótti honum þetta allt hið merkilegasta. Ég var færður yfir í lögreglubílinn til skýrslugerðar og þótti Helga það einkennilegt og engu líkara en ég væri handtekinn fyrir þetta lítilræði. Þetta litla atvik varð Helga ágætis hvalreki. Hann var húmoristi og fannst gaman að smá stríðni sem engan sakaði. Þegar við hittumst eftir þetta átti hann það til að spyrja: Hefur þú nokkuð verið handtekinn nýlega? Einkum þótti honum þetta skemmtileg og viðeigandi spurning ef einhver heyrði sem ekki þekkti til.
Sameiginlegt áhugamál okkar voru hverskyns landbætur. Við fórum stundum saman í Refshöfða til að prufa landgræðsluplöntur sem ég hafði komist yfir, svo og skógarplöntur. Ef honum fundust plönturnar fram úr hófi litlar setti hann niður staura við þær til að auðveldara væri að finna þær aftur. Voru þessar ferðir lærdómsríkar og skemmtilegar og sér þeirra enn merki. Sumt reyndist vel, annað ekki. Eitt vorið tók Helgi upp fáeina lúpínuhnausa og gróðursetti undir rofabarð. Þær tóku vel við sér og blómstruðu mikið og fallega. Þetta vildi Helgi að sjálfsögðu sýna mér og fór ég spenntur með honum í þessa ferð. Kom þá í ljós að blessaðar sauðkindurnar höfðu fundið plönturnar og gengið allnærri þeim. Þá viðhafði Helgi orð um sauðfé sem ég læt mig ekki dreyma um að hafa eftir og kann að vera að þetta hafi verið í eina skiptið sem við vorum sammála um skaðsemi lausagöngu búfjár.
Helgi var glettinn og brosmildur. Hann var ágætur sögumaður og kunni margar lausavísur. Oft var glatt á hjalla í kringum Helga og fékk ég helst að kynnast því í eldhúsinu á Ártröðinni þegar góða gesti bar að garði. Sumir af bestu vinum Helga bauð hann reyndar ekkert síður í bílskúrinn sinn þar sem hann var jafnan að dytta að hinu og þessu smálegu ásamt því að gera upp gamlan Ferguson traktor og annað tilfallandi. Þar var oft skeggrætt um allt milli himins og jarðar á meðan troðið var í pípu. Í eldhúsinu kom gestrisni þeirra hjóna vel fram. Á heimili þeirra gat hver sem er komið hvenær sem var. Var það ósjaldan svo að einn gestur tók við af öðrum og sátu í eldhúsinu og drukku kaffi sem Auður bar á borð ásamt pönnukökum og öðru bakkelsi. Hápunkturinn á slíkum trakteringum voru hinar alþekktu Auðarkleinur. Á slíkum stundum naut frásagnargáfa Helga sín ágætlega og var hann þá stundum launfyndinn en aldrei þannig að undan sviði. Hann kunni einnig þá list að hlusta á aðra og fá menn til að segja sögur. Allir fengu því að njóta sín við eldhúsborðið þeirra Auðar og Helga. Þrátt fyrir þetta kom það fyrir að þögn varð við eldhúsborð þeirra hjóna. Þá hafði Helgi nokkra frasa til að grípa til og komu þeir í veg fyrir að þagnirnar yrðu of langar. Einn sá áhrifaríkasti var Það er nefnilega það&.. ásamt léttu banki í borðið. Þá var við hæfi að brydda upp á annarri sögu eða frásögn.
Enn er ónefndur einn af höfuðkostum þessa góða manns. Helgi var einstaklega hjálpsamur og bóngóður. Ef einhversstaðar þurfti að grípa til hamars var Helgi fyrstur á svæðið. Hann hjálpaði til við girðingavinnu og hvaðeina sem til féll. Í tilfelli Helga var þetta gagnkvæm hjálpsemi. Alltaf voru menn boðnir og búnir til að hjálpa Helga ef á þurfti að halda. Helgi átti ekki bara marga vini, heldur góða vini og sennilega er fátt sem lýsir mönnum betur en vinir þeirra.
Nú er Helgi sjálfsagt farinn að læra nýjar sögur af skemmtilegum mönnum. Hann dyttar að girðingum og dáist að grænum völlum þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af uppblæstri og landeyðingu.

Blessuð sé minning hans.

Sigurður Arnarson.