Henry Christian Mörköre fæddist í Klakksvík í Færeyjum 27. september 1939. Hann lést í Scottsdale í Arizona 15. apríl 2013. Henry ólst upp í Klakksvík í skjóli móður sinnar og móðurfólks, af föður sínum hafði hann lítt að segja. Á fermingaraldri réð hann sig á norskt flutningaskip og sigldi með því á vit ævintýra. Árið 1964 kemur hann í fyrsta sinn að Íslandsströndum, og er þegar kominn til Vestmannaeyja, sem minnti hann mjög á ættland sitt. Í Vestmannaeyjum kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Pálsdóttur, þau giftu sig árið 1965. Saman eignuðust þau fimm börn: Þuríður, Birgir, Gunny Judit, Már Ývar og Henry, sem fæddur er í Danmörku. Útför Henrys fór fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju 27. apríl 2013.
Svartmáluð skúta með hvítum röndum frá stefni í skut kemur siglandi yfir hafið með byr í seglum í áttina að landinu bláa með jöklana hvítu, sem ber við himinn þegar nær færist. Ákvörðunarstaðurinn er Heimaey, hin klettótta og fagra fjallaeyja sem er einn gimsteinn í hafinu fyrir langsiglda sjómenn.
Og Henry var langsigldur maður með norskum farskipum og ferðaðist víða. Heimsótti lönd ólíkra þjóðflokka og gengið meðal annars hina frægu brú yfir fljótið Kwai, sem þekkt er af samnefndri kvikmynd. Sem unglingur hafði hann heillast af þeim sem sigldu og ævintýralegum sögum sem fylgdu með. Og nú stóð hinn ungi maður í stafni þegar skútan leið inn í höfnina á Heimaey og hlýddi hugfanginn á hinar fjölbreytilegu tóntegundir sem bergmáluðu um hin litskrúðugu björg.
Og þegar skútan hafði lagst við bólfestar í höfninni fékk hann félaga sína með sér í land róandi á litlum skjögbát. Þeir vildu kynnast af eigin raun menningarlegum tilburðum eyjaskeggja, sem sagðir voru gleðigjafar miklir. Og nú stóð svo á að dansskemmtun dunaði í samkomuhúsi staðarins, og þeim var leiðin greið inn í þetta mekka skemmtunariðnaðarins. Og á þeim örlagaríku augnablikum var framtíð hans ráðin þegar hann hitti sína heilladís og tilvonandi eiginkonu Jóhönnu systur mína. Í blóma lífsins bundust þau tryggðum, og báru sín heit til æviloka. Hér í eyjum fæddust þeirra fyrstu börn sem nú kveðja kæran og traustvekjandi föður.
Hér í gjöfulli gullkistu hafsins stundaði Henry fiskveiðar framan af og meðal annars í eigin útgerð með bræðrum mínum á vélbátnum Draupni VE, en dró sig svo í hlé frá þeim útvegi og vann um tíma í vélsmiðjunni Magna og einnig í fiskimjölsversmiðju FES. Meðan á náttúruhamförunum stóð, sem eyddi byggð og búsetu íbúanna, bjó fjölskyldan á Suðurnesjum en fluttu svo aftur hingað heim þegar landið fór að lifna úr rústum. En rótleysið var farið að þjaka og þyrla upp tilbreytingum og þótt grösin séu ekki alltaf grænni fjarri heimaslóðum gerði fjarlægðin fjöllin blá.
Árið 1978 tekur fjölskyldan sig upp og flytur til Danmerkur. Þar í landi drottningar dvöldu þau í tíu ár. Á þeim tíma vann Henrý við hin ýmsu störf en Jóhanna við ræstingarstörf í ráðhúsi borgarinnar. Jóhanna hugsaði oft heim á æskuslóðir því römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til. Svo þegar aðstæður breyttust þar ytra var ekki verið að streitast á móti þeirri löngun sem svo lengi hafði búið um sig og fjölskyldan flutti aftur heim til Íslands. Hér í Eyjum festu þau kaup á húsinu Varmahlíð og bjuggu þar í fáein ár, árum hinna blíðu vona. En aftur hreiðraði hin forna útþrá um sig hjá langsigldum sæfara sem lagði út á hin fornu orð út vil ek sem hunangið var sagt drjúpa af hverju strái og dísir vorsins áttu að syngja hvað fegurst.
En sagan endurtók sig þegar árin liðu því rótarslitin visnar vísir þótt vökvist hlýrri mörgundögg eins og segir í þekktu kvæði. Það er erfitt að festa rætur á erlendri grundu þegar heimþráin hefur fléttað um sig gullnum þráðum. Eftir og heim var snúið til föðurlandsins fríða. Þegar eyjarnar blöstu við slógu hraðar hjartans hörpu strengir. Heima er best sagði systir mín þegar þau höfðu komið sér fyrir á notalegu heimili sínu að Faxastíg 8 hér í bæ. Og héðan fer ég aldrei. Hér nutu þau góðrar árstundir með ástvinum sínum og öðrum þeim sem heimsóttu þau, enda var oft mannmargt þar á heimili þegar víma gleðinnar flaut í tárum. Þar á brunni útbjó húsbóndin sér aðstöðu fyrir skerplukjötsframleiðslu sína og fengu gestir að bragða á góðum bita. En heilsan var farin að dofna og þurfti heimilisfaðirinn oft læknisþjónustu en hana þurfti að sækja til Reykjavíkur.
Hjónin létu það þó eftir sér að ferðast á milli staða og heimsækja börn sín sem voru dreifð víða, meðal annars til Ameríku. Í einni slíkri ferð veiktist Henrý og varð að leggjast inn á sjúkrahús þar vestra. Í faðmi fjölskyldu sinnar, ástkæru eiginkonu og barna kvaddi hann sitt jarðneskja líf sem veitt hafði honum auðæfi, sem ævin sækist eftir.
Þær öldur sem berast að lægandi og freyða sig yfir gengin spor ná ekki að eyða minningum um góðan mann, sem átti sína drauma og framtíðar vonir.
Þótt söknuðurinn sé bitrastur við endalok mannlegrar tilveru munu góðar minningar græða þau sár.
Ég votta systur minni og öllum þeim mína innilegustu samúð.
Kristinn Viðar Pálsson.