Benjamín Þórðarson fæddist í Hergilsey á Breiðafirði 28. apríl 1927. Hann lést á Landspítalanum 21. apríl 2013. Foreldrar hans voru hjónin Þorbjörg Sigurðardóttir, f. á Brjánslæk í V-Barðastrandarsýslu 26. október 1899, d. 27. mars 1987 og Þórður Valgeir Benjamínsson, f. í Flatey á Breiðafirði 2. ágúst 1896, d. 10. nóvember 1985. Þau bjuggu lengst af í Hergilsey, Flatey og Stykkishólmi. Benjamín var sjötti 16 systkina, en hin voru: Valborg Elísabet, f. 1918, d. 2008, Sigurður, f. 1920, d. 1975, Dagbjört Guðríður, f. 1921, Björg Jóhanna, f. 1923, Auður, f. 1925, Guðmundur Sigurður, f. 1928, d. 2004, Ari Guðmundur, f. 1929, Sigríður Hrefna, f. 1931, d. 1945, Jóhannes, f. 1932, d. 2010, Guðbrandur, f. 1933, Ásta Sigrún, f. 1937, Ingunn, f. 1939, Gunnar, f. 1940, d. 1940, Gunnar Þórbergur, f. 1942, d. 1969, og Sigurbjörg, f. 1945. Benjamín ólst upp í Hergilsey og flutti 1946 með fjölskyldunni til Flateyjar. Benjamín kvæntist 29. ágúst 1953, Bergþóru Kristinsdóttur, f. á Akureyri 17. júní 1931, d. á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi 30. júní 2006. Foreldrar hennar voru hjónin Björg Magnea Sigurjónsdóttir frá Óslandi, f. 21. maí 1896, d. 23. júní 1975, og Kristinn Jóhannesson, f. á Nolli í Grýtubakkahreppi í S-Þingeyjarsýslu 14. maí 1886, d. 27. október 1945. Benjamín og Bergþóra ættleiddu Björgu, f. 15. júní 1954, dóttur Önnu Bjarnadóttur og Reynis Levisonar. Þau bjuggu í Hafnargötu 5 í Stykkishólmi til 1959 er þau fluttu til Reykjavíkur. Ári seinna fluttu þau til Hafnarfjarðar og bjuggu í Kelduhvammi 3 til 1972 er þau fluttu að Kotmúla í Fljótshlíð. Þau fluttu 1973 í Ólafsfjörð og til Akureyrar 1981 og bjuggu þar í Ásgarði 2. Þau fluttu síðan aftur til Stykkishólms árið 1982, fyrst bjuggu þau á Skúlagötu 6, síðan Lágholti 2 og síðast í Tjarnarási 13. Benjamín lauk prófi frá Stýrimannaskólanum 1953. Hann hafði þá áður verið nokkur ár til sjós, en hann var ætíð eftirsóttur í vinnu. Hann var stýrimaður á Baldri í Stykkishólmi fyrstu árin eftir útskrift, en flutti síðan til Hafnarfjarðar og vann við bátasmíðar í skipasmíðastöðinni Bátalóni í Hafnarfirði í áratug og þótti sérlega laginn við að setja niður bátavélar. Frá 1972 störfuðu Benjamín og Bergþóra við trúboð á vegum Fíladelfíusafnaðarins. Síðustu starfsárin starfaði Benjamín í Skipavík í Stykkishólmi og aftur á Breiðafjarðarferjunni Baldri. Útför Benjamíns verður gerð frá Stykkishólmskirkju í dag, 4. maí 2013, og hefst athöfnin klukkan 14.
Frændi minn og vinur okkar Benjamín Þórðarson er látinn eða eins og hann gæti hafa orðað það að vera kominn heim í faðm síns almáttuga föður. Svo sterk og trúföst var kristin lífsskoðun hans alla tíð, frá því hann þá ungur fullþroskaður maður gekk af alefli til liðs við Hvítasunnusöfnuðinn á Íslandi og hóf að breiða út fagnaðarerindi kristinnar trúar.
Benni kom úr sextán systkinahópi sem öll nema þrjú komust til fullorðins ára. Mér var sagt að Ólína Ágústa, sem var vinnukona á þessu mannmarga heimili, hafi ávallt kallað Benna höfðingjann, í besta skilningi þess orðs, en það viðurnefni fengu ekki margir frá henni.
Hann lagði fyrir sig sjómennsku og fór ungur til sjóróðra úr foreldrahúsum í Hergilsey. Bæði á vertíðir úr Sandgerði og Patreksfirði þar sem hann var á nýsköpunartogaranum Gylfa BA og var þar skipverji túrinn þegar eldsvoðinn varð um borð. Haustið 1951 innritaðist hann í fiskimannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík og útskrifaðist frá skólanum vorið 1953 með Hið meira fiskimannapróf. Benni var harðduglegur ákafa maður til allrar vinnu og eftirsóttur í skiprúm og eftir skólavistina var hann ráðinn stýrimaður á síldveiðiskipið Garðar EA 761 sem í lok sumarsíldveiðanna var hlutahæsta skip flotans. Þetta sumar giftist hann unnustu sinni sem hafði verið bréfavinur hans um nokkur ár. Það atvikaðist þannig að hann og æskufélagarnir voru í Kaupfélagsbúðinni í Flatey. Upp úr skókössum komu miðar með nöfnum kvenna og heimilisföngum. Benni, alltaf skjótráður, sló til og skrifaði Bergþóru Kristinsóttur og fékk svar. Eftirleiðis sögðu félagarnir að Benni hafi fengið Bessu sína upp úr skókassa.
Á haustdögum réðst hann til föður míns á Baldur en þá var útgerðin með tvo báta í flutningum og tók Benni við skipstjórn annars bátsins eða þar til hann var seldur en eftir það var hann stýrimaður og skipstjóri hjá útgerðinni. Á þessum árum þegar Benni og Bessa bjuggu hið fyrra skiptið í Hólminum var ég að komast af barnsaldri og vissulega laðaðist ég að þeim þessum lífsglöðu ungu hjónum.
Á þessum árum var Benni mikið á sjónum, en eftir að hann efldist í trúnni hvarf hann frá sjómennskunni. Þau fluttu suður árið 1959 en þá dró úr samskiptum og ég var einnig að flytja að heiman. Þau hjónin fluttu fyrst til Reykjavíkur og svo til Hafnarfjarðar og starfaði hann ávallt síðan í skipasmíðastöðvum og vélsmiðjum. Benni var alltaf vandvirkur og afkastamikill starfsmaður þar sem verkin vöfðust ekki fyrir honum. Hann hafði létt og glaðlegt geðslag og oftast var stutt í hláturinn en samt sem áður réri hann ávallt á mið kristinnar trúar, en sumum vinnufélögum hans fannst óþægilegt að hlusta á hans hjartans mál. Það fór með hann eins og bræðurna Jakob og Jóhannes sem kallaðir voru frá fiskveiðum eins var hann kallaður í land og falið sömu verk, að veiða menn, sem hann og gerði lengi.
Eftir að ég var kominn aftur á æskuslóðir lágu leiðir okkar saman að nýju þegar Benni og Bessa fluttu í annað sinn til Stykkishólms árið 1982 og tóku þar við forstöðu í Hvítasunnusöfnuðinum. Þau gegndu þeirri köllun af trúmennsku og ástúð ævinlega glöð og kát. Bergþóra andaðist árið 2006. Ævinlega fann ég á honum þennan undirliggjandi söknuð eftir henni en fullvissan varð alltaf æðri að hún væri komin í náðarfaðm Hins almáttuga himnaföður sem hann af bjargfastri trú vissi að biði sín fljótlega. Að vera forstöðumaður safnaðarins var hans aðal viðfangsefni en hann starfaði hjá Skipasmíðastöðinni Skipavík af mikilli eljusemi og trúmennsku þar til hann hætti þar störfum sextíu og sjö ára að aldri, sökum þróttleysis. Honum fannst hann ekki geta lagt sig jafn hlífðarlaust fram eins og áður. Tilviljun réð því að orsök þessa þróttleysis fannst en það var eftir slys sem hann varð fyrir þegar hann féll ofan af húsþaki og beinbrotnaði ásamt fleiri áverkum sem hann hlaut. Í eftirleik slyssins fundu læknar að hann var mjög illa haldinn af hjarta-og æðasjúkdóm og var strax brugðist við því. Eftir að þrótturinn jókst kom hann til stafa hjá Breiðafjarðarferjunni og starfaði bæði sem bryggjuformaður og stýrimaður á Baldri. Þessum störfum sinnti hann af jafn miklum trúnaði og elju og einkenndu alltaf öll hans störf. Hann hætti þegar Breiðafjarðarferjan Baldur ehf. hætti rekstri ferjuleiðarinnar.
Áfram barðist hann við afleiðingar æðasjúkdómsins sem á tímum voru honum sennilega afar erfiður. Hann kvartaði aldrei og bar sig alltaf eins og maður á besta skeiði ævinnar léttur í fæti og ekki ragur við að spretta úr spori eða bregðast skjótt við. Til að halda sér í betra formi stundaði hann sund reglulega, nánast til síðasta dags. Þessir eiginleikar við að hlífa sér aldrei hvernig sem ástandið hans var tel ég að hafi leitt til þess að Herrann kallaði hann fyrr til sín en ella hefði orðið.
Mikill vinskapur og samgangur var á milli fjölskyldu minnar og hans og jókst hann fremur eftir að Begþóra féll frá og erum við fjölskyldan honum afar þakklát fyrir hjálpsemina því það var alltaf hægt að leita til hans. Á þessum síðustu árum hafði hann unum að fást við ýmis smá verkefni.
Eftir að Bergþóra dó reyndi hann mikið að koma tónlist Bergþóru sinnar á nótur en það gekk seint, þó varð nokkur árangur af þessu starfi hans.
Á þessum tímamótum vottar fjölskyldan að Skólastíg 4 dótturinni Björgu og börnum hennar dýpstu samúð.
Guðmundur Lárusson.