Anna Kristjánsdóttir fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 12. september 1925. Hún lést 29. apríl 2013. Foreldrar hennar voru Kristján Jónas Kristjánsson stýrimaður f. 8. apríl 1900 á Flateyri d. 6. júlí 1979, og kona hans Margrét Sigurlína Bjarnadóttir húsmóðir f. 26. október 1902 að Kötluholti í Fróðárhreppi, d. 10. apríl 1993. Systkini Önnu eru Sigurður Ásgeir skipstjóri f. 15. ágúst 1928, d. 23. september 2012, Inga Margrét f. 7. desember 1934, Guðmundur Kristján skipstjóri f. 4. ágúst 1944, og uppeldissystirin Sigríður Jónsdóttir f. 2. október 1928, d. 16. nóvember 2012. Anna giftist 23. september 1950 Vilhelm Þorsteinssyni, skipstjóra og framkvæmdastjóra f. 4. september 1928 að Hléskógum í Grýtubakkahreppi, d. 22. desember 1993. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Vilhjálmsson, fiskmatsmaður f. 9. nóvember 1894 að Nesi í Grýtubakkahreppi d. 23. júlí 1959 og Margrét Baldvinsdóttir, ljósmóðir f. 25. október 1891 á Stóru Hámundarstöðum á Árskógströnd, d. 6. október 1963. Börn Önnu og Vilhelms eru: 1) Þorsteinn f. 3.5.1952, maki Þóra Hildur Jónsdóttir f. 1950, börn þeirra eru: Laufey Björk f. 1969 maki Vignir Rafn Gíslason þau eiga sex börn. Vilhelm Már f. 1971, maki Anna Rósa Heiðarsdóttir þau eiga fjögur börn. Hildur Ösp f. 1975, maki Magnús Jónsson þau eiga þrjú börn. Brynja Hrönn f. 1977, maki Sveinn Biering Jónsson þau eiga einn son. Jón Víðir f. 1983, maki Salóme Tara Guðjóndóttir þau eiga eina dóttur. Stefán Ernir f. 1995, kærasta Alexía Rut Guðlaugsdóttir. 2) Kristján f. 13.8.1954, maki Kolbrún Ingólfsdóttir f. 1954, börn þeirra eru: Halldór Örn f. 1974 maki Sigurbjörg Jónsdóttir þau eiga þrjár dætur. Anna f. 1979. Dagný Linda f. 1980 maki Valur Ásmundsson þau eiga tvö börn. Katrín f. 1991 kærasti Aron Ottósson. Kristján Bjarni f. 1993. 3) Margrét Jóna f. 16.4.1956, maki Wolfgang Bürkert f. 1954, börn þeirra eru: Maximilian f. 1984 kærasta Sara Ellen Picard. Anna Kristín f. 1987 kærasti Christian Weisbecher. Konstantin f. 1995. 4) Sigurlaug f. 29.10.1960, maki Guðjón Jónsson f. 1957, börn þeirra eru: Vilhelm f. 1978 maki Helga Finnsdóttir þau eiga eina dóttur. Kristján, Þór og Jón Friðrik fæddir 6. janúar 1998. 5) Valgerður Anna f. 25.7.1964, maki Ormarr Örlygsson f. 1962, börn þeirra eru: Erla f. 1983 maki Andri Hjörvar Albertsson þau eiga tvö börn. Almarr f. 1988 maki Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. Vala f. 1996 og Arna f. 1998. Anna ólst upp í foreldrahúsum, gekk í skóla á Flateyri og vann þar við sveitastörf og fiskvinnslu, var liðtæk í íþróttum og stundaði m.a. handbolta og fimleika. Hún fór í Héraðsskólann á Laugarvatni og lauk gagnfræðaprófi eftir það nam hún við Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði í tvo vetur. Anna starfaði á símstöðinni á Akureyri þar til hún gifti sig og stofnaði heimili. Anna og Villi byggðu sér heimili í Ránargötu 23 á Akureyri, ásamt tengdaforeldrum Önnu. Anna sinnti húsmóðurhlutverki sínu af mikilli natni og þurfti sem sjómannskona oft að sinna flestum verkum á stóru heimili. Útför Önnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag 10. mai 2013 kl. 13.30

Elsku Anna amma í Ránó eins og við kölluðum þig alltaf en þar áttuð þið Villi afi fallegt heimili. Fráfall þitt bar snöggt að enda trúðum við því að þú yrðir í það minnsta 100 ára gömul enda varstu tiltölulega nýhætt að hlaupa á eftir langömmubörnunum. Dýrmætar minningarnar hafa verið að spretta fram síðustu daga og af nógu er að taka. Allir bíltúrarnir, lautarferðirnar, gönguskíðaferðirnar, fjöruferðirnar, trilluferðinar á Eddunni og nestisstoppin með ykkur afa. Villi afi kvaddi þennan heim langt um aldur fram og þið áttuð ekki þann tíma á efri árum sem þið höfðuð lagt drög að með því meðal annars að byggja ykkur fallegan bústað í Bárðardal. Þú varst alltaf dugleg að vera með fjölskyldu þinni eins og dæmin sýna. Okkur fannst þú vera hálfgert unglamb enda fannst þér mjög skemmtilegt að verja tíma þínum með yngri kynslóðinni. Ófá eru skiptin þar sem þú arkaðir með okkur um stræti New York eða dvaldir með okkur á Spáni. Ógleymanlegar voru skíðaferðin til Frakklands og Floridaferðin eftir útskrift Villa þar sem svo skemmtilega vildi til að við dvöldum á sama stað og þið afi voruð á 20 árum áður og það fannst þér merki um að afi væri með okkur í anda. Ömmu fannst gaman að versla og nutu við gjafmildi hennar og var hún nösk á að sjá fyrir áhuga okkar á hlutum og var gjörn á að laumast til að kaupa hluti sem við höfðum augastað á. Það nennir engin af vera með mér, ég er ekki svo skemmtileg lét amma oft hafa eftir sér og flissaði pínu á eftir. Eins og dæmin sanna hefði það ekki getað verið fjær sannleikanum þar sem við fjölskyldan sóttum mikið í að hafa hana með okkur og alltaf var heimsókn og samverustund með ömmu á dagskrá þegar komið var til Akureyrar. Við munum aldrei gleyma þínum yndislega hlátri og hvernig þú ypptir öxlunum í leiðinni, sérstaklega þegar einhver var að stríða þér. Við höfðum líka gaman að því að ef amma vissi af fari suður þá vildi hún alltaf nýta ferðina og senda pakka og nú síðast heyrði hún af ferð til Tælands þar sem lítil nafna hennar býr og auðvitað ákvað hún að nýta ferðina og sendi pakka. Amma var alltaf að hugsa um aðra og sagði ósjaldan, það á ekkert að vera hafa svona fyrir mér en hún vildi samt aldrei sitja auðum höndum sjálf og opnaði oft Straustofu Önnu ömmu í Ránó þegar hún dvaldi á Spáni og í Ísalind og var gantast með að hún ætti bara að færa út kvíarnar og gera business úr þessu. Amma var alltaf svo elegant og flott enda átti fólk erfitt með að trúa því hvað hún var orðin gömul. Eitt nýlegt dæmi er þegar hún kom núna um Páskana í fermingu Ívars Gísla, einu langömmubarninu, og fór að sjálfsögðu í lagningu og sitt fínasta púss. Villa er minnistætt þegar þú varst date-ið hans í stað Önnu Rósu nöfnu þinnar í maraþon ferð til Berlínar. Það fór ekki fram hjá neinum hvað þú varst stolt af honum þar og eins hvað hann var stoltur og ánægður að hafa þig með í för arkandi um alla borg til að sjá hópinn hlaupa sem víðast og að skjótast í búðir þrátt fyrir að hafa ekki löngu áður lærbrotnað. Eins þegar hann vann á frystihúsinu á sumrin og var í fæði hjá ykkur afa og þú sást til þess að hann mætti á réttum tíma í vinnuna aftur eftir lúr. Brynju er minnistætt þegar þú varst oft að spyrja hvar hún hefði fengið hina og þessa skó, töskur og fleira og sagðir svo er nokkuð til svona á mig? og oft fór hún með þér í búðarleiðangur þar sem henni leið eins og hún væri með unglingsstelpu með sér því þú varst svo létt á fæti. Eins þegar þú bauðst okkur í mjólkurgrautinn þinn, amma þú bjóst til besta mjólkurgraut í öllum heiminum enda nostraðir þú við hann í fleiri klukkustundir. Þegar þú settist aldrei niður og borðaðir með okkur þegar stórfjölskyldan var í mat hjá ykkur afa því þú vildir passa upp á að allir væru með nóg og alltaf væri heit sósa á borðinu. Þegar þú varst í "laumusólbaði" eins og við kölluðum það og stóðs með bakið upp í sólina við sundlaugarbakkann. Jóni er minnistætt öll skiptin sem hann fór með þér til Mijas á Spáni. Þér fannst svo gaman að koma til fallega fjallaþorpsins þar sem þið afi höfðuð komið tveimur áratugum fyrr og greinilegt að staðurinn var í miklu uppáhaldi hjá þér. Þú varst alltaf svo svöl amma, t.d. þegar Jón hélt upp á 25 ára afmælið sitt mættir þú og varst hrókur alls fagnaðar á meðal vinanna og vissir orðið deili á þeim öllum í lok kvölds. Stundum göntuðumst við systkynin með það hvort þú vildir ekki finna þér vin, en það kom aldrei til greina hjá þér að vera með öðrum manni en Villa afa, enda var hann einstaklega góður og flottur maður og nú hlýjar það okkur um hjartarætur að vita af ykkur saman á ný. Við eigum eftir að sakna þín óendanlega mikið elsku amma. Við geymum allar fallegu minningarnar um þig í hjörtum okkar, minningar um fallega og góða konu en umfram allt yndislega ömmu. Hvíl í friði elsku besta amma í Ránó.

Þín barnabörn,

Vilhelm Már, Brynja Hrönn, Jón Víðir og Stefán Ernir.