Margrét Guðjónsdóttir fæddist í Ytri-Skógum, Kolbeinstaðarhreppi 3. mars 1923. Hún lést á dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi, Brákarhlíð, 2. maí 2013. Foreldrar hennar voru Guðjón Jónsson bóndi, f. í Hraunholtum, Kolbeinstaðahreppi, 19. feb. 1889, d. 11. apríl 1972 og Ágústa Júlíusdóttir, f. á Ingvörum í Svarfaðardal, Eyj. 20. ágúst 1895, d. 25. mars 1982. Systkini Margrétar eru Jónína Kristín, f. 6. okt. 1917, d. 27. júlí 1976, Helga, f. 6. okt. 1924, d. 4. maí 2001, Haraldur Marteinn, f. 28. maí 1926, d. 29. des. 2007, Svava, f. 3. nóv. 1928, d. 24. júlí 1947, Sigurður Kristjón, f. 3. ágúst 1930. Margrét giftist 5. júlí 1941 Guðmundi Guðmundssyni bónda, f. í Kolviðarnesi í Eyjahr. 15. sept. 1902, d. 24. jan. 1993. Foreldrar hans voru Guðmundur Þórarinsson f. í Borgarkoti, Hnapp. 21. mars 1862, d. 25. feb. 1937 og kona hans, Margrét Sigríður Hannesdóttir, f. á Leysingjastöðum, Hún. 24. ágúst 1861, d. 29. júní 1948. Börn þeirra eru Eygló, f. 1940, Guðmundur Reynir, f. 1941, Ágúst Guðjón, f. 1943, Ástdís, f. 1944, Svava Svandís, f. 1946, Margrét Svanheiður, f. 1948, Svanur Heiðar, f. 1950, Kristján Guðni, f. 1952, Tryggvi Gunnar, f. 1956, Sigrún Hafdís, f. 1960, Skarphéðinn Pálmi, f. 1962. Margrét ólst upp á Kvíslhöfða í Álftaneshreppi en fór sem ráðskona að Kolviðarnesi í Eyjahreppi 16 ára gömul. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Guðmundi, sem rak þar bú með aldraðri móður sinni. Áður en þau tóku saman hafði hann nýverið eignast barn sem Margrét tók að sér og ól upp sem sína eigin dóttur. Þau bjuggu í Kolviðarnesi allt að vormánuðum 1948 er þau fluttust búferlum að Dalsmynni í sama hreppi og bjuggu þar upp frá því. Margrét átti miklu barnaláni að fagna og fæddist hundraðasti afkomandinn stuttu áður en hún lést. Útför Margrétar fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 10. maí 2013, kl. 13.

Langri ævigöngu mætti gjarnan skipta niður í tímaskeið líkt og árstíðunum, vor, sumar, haust og vetur. Þessi æviskeið eru rétt eins og árstíðirnar æði misjöfn hjá sérhverjum einstaklingi og einstaklingsbundið hvernig hver og einn vinnur úr því sem honum hlotnaðist í vöggugjöf.

Mömmu var gefið einstakt æðruleysi til að mæta hverju sem að höndum bar með jafnaðargeði. Léttlyndið, glaðværðin og hæfileikinn til að gera gott úr öllu, sjá björtu hliðarnar á hverju sem gekk, var meðfætt og ræktað dyggilega gegnum tíðina. Hún var svona dálítið mikil Pollýanna í sér.

Þessi vísa var ein af mörgum sem hún fór oft með og var nokkurskonar lífsmottó hjá henni.

Öðrum kenna ef illa fer,
er það flestra siður.
En sannast mun að sérhver er,
sinnar gæfu smiður.

Að að koma 11 börnum til vits og þroska um og fyrir miðja síðustu öld var ekki auðvelt eins og nærri má geta. Þar fyrir utan var barnahópurinn sem kom til sumardvalar orðinn býsna fjölmennur um það er lauk. Að auki var staðið fyrir stórbúi á þess tíma mælikvarða þar sem meðal annars mjaltirnar voru hluti daglega amstursins allt þar til vélvætt fjós var byggt árið 1972.

Mamma var langt á undan sinni samtíð með sitthvað. Hún var mikilvirk í garðyrkjunni og ræktaði jarðávexti og grænmeti ýmisskonar til heimilis. Þegar kom fram á veturinn fylltust allar gluggakistur af af hinu og þessu í moldarbökkum og kerjum sem koma þurfti af stað fyrir sumarið. Nýjar kartöflur voru fastur liður í matseldinni þegar kom fram í júní ásamt grænmetinu. Mamma saumaði mjög mikið á okkur krakkana, sérstaklega til að byrja með, hannaði yfirleitt flíkina sjálf, eða stældi tískuflíkur sem hún sá. Hún hafði þó aldrei farið á nein saumanámskeið, þræddi ekki eða títaði.

Þegar um hægðist og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu fór hún að fá meiri tíma fyrir síg og margvísleg hugðarefni sem ekki hafðist unnist tími til að sinna.

Mamma gat þá látið það eftir sér að fá hinar og þessar hugdettur sem hún gekk í að framkvæma, helst í gær. Til dæmis bjó hún till litla skeljavasa úr hörpuskeljum og bæði þurrkaði í þá blóm og seldi, en gaf þó kannski aðallega vinum og vandamönnum. Henni hugkvæmdist líka að setja einhverja gifsblöndu utan á flöskur, skreyta svo og mála. Þetta urðu mjög persónulegir blómavasar. Skinnskórnir hennar voru vel þekktir. Seinna saumaði hún Barbafjölskylduna, kanínur, seli o.fl. fyrir barnabörnin. Þar sem hún var ekki mikið fyrir að vesenast með smámuni varð þetta oftast heilmikil framleiðsla.

Hvenær mamma hafði tíma til að stúdera heimsbókmenntir, ljóðabækur og vísnasöfn er illskiljanlegt en hún kunni ógrynnin öll af ljóðum, vísum og sögum sem sífellt voru á takteinum þegar hafa þurfti ofan af fyrir barnaskaranum. Það var hljóður barnahópurinn sem raðaði sér í kringum hana í kvöldmjöltunum og hlýddi andaktugur á sögur, ljóð og vísur sagðar eða sungnar, meðan mjólkin streymdi í fötuna með tilheyrandi hvisshljóði og froðumyndun. Meira að segja kýrnar lygndu aftur augunum og jórtruðu án þess að hreyfa legg né lið í þessu kyngimagnaða andrúmslofti.

Eitt af því sem lá utan áhugasviðs mömmu var að velta sér mikið uppúr því sem betur mætti fara hjá öðrum. Þau voru samhent í því sem öllu öðru hjónin, að taka ekki þátt í umtali sem var til þess að gera lítið úr öðrum og hefðu trúlega ekki fundið sig í kommentakerfum nútímans. Ef einhver var svo seinheppinn að hefja máls á slíku var talinu eytt með lofsorðum um viðkomandi, hvort sem sá átti það nú skilið eða ekki.

Meðal margra áhugamála var skógræktin sem hún gat hellt sér úti á hauststigi æviskeiðsins. Hún naut þess sérstaklega vel að ferðast og taka þátt í starfi með Skógræktarfélagi Íslands, bæði utanlands og innan og var þá í essinu sínu með gamanmálin og vísnagerðina. Þar eignaðist hún marga góða vini sem hún mat mikils.

Já, hún átti létt með að setja saman vísur og ljóð og þó framanaf einskorðaðist það nokkuð við gamanbragi sem samdir voru nánast eftir pöntunum, slæddust með tækifærisvísur, sumar afbragðsgóðar og alltaf var húmorinn og léttleikinn með þegar við átti.

Mamma hafði skoðanir á flestu og lá ekki á þeim ef svo bar undir. Trúmálin voru henni hugleikin. Þó ekki sé rétt að halda því fram að bókstafstrúin hafi beinlínis átt upp á pallborðið hjá henni var enginn efi um að annað líf tæki við að loknu þessu. Leiðarlokin hér yrðu aðeins til að opna dyr inn í næstu tilveru.

Þrátt fyrir mikla jákvæðni og tal um hvað hún hefði það gott hjá þessum dásamlegu stúlkum á Dvalarheimilinu í Borgarnesi, þar sem hún hefir dvalið síðustu árin var vetrarfar æviskeiðsins farið að verða erfitt. Mamma var orðin tilbúin að opna dyrnar á næstu tilveru þar sem pabbi myndi taka á móti henni. Þar kemur hún inn í nýtt vor með endalausum gróðurbreiðum.

Eygló, Reynir, Ágúst (Gösli), Ástdís, Svandís, Margrét, Svanur, Kristján, Tryggvi Sigrún og Skarphéðinn.