Unnur Júlíusdóttir fæddist á Vorsabæ, A-Landeyjum 8. apríl 1934. Hún lést á dvalarheimilinu Lundi á Hellu 1. maí 2013. Foreldrar hennar voru Júlíus Guðjónsson, sjómaður og verkamaður, f. 28. júní 1905, d. 16. júlí 1988, og Guðrún Sigurósk Jónsdóttir, húsmóðir, f. 9. desember 1906, d. 8. maí 1935. Fósturmóðir hennar var Sigríður Guðmundsdóttir, f. 6. maí 1880, d. 1. október 1966. Systkini Unnar eru: Markús Þórarinn, f. 1932, d. 1962, samfeðra eru: Guðrún Jóna, f. 1950, og Björn, f. 1952, auk þess átti Unnur tvö stjúpsystkini, þau Guðbjörgu Rögnu og Gylfa, og níu uppeldissystkini. Unnur giftist 25. des. 1953 Sigurði Sigurðssyni frá Steinmóðarbæ V-Eyjafjöllum. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson, f. 10.11. 1895, d. 11.6. 1981, og Sigíður Helga Einarsdóttir, f. 26.11. 1900, d. 2.11. 1985. Unnur og Sigurður eignuðust fjögur börn 1) Guðrún Sigurðardóttir, f. 12. maí 1954, maki Torfi H. Sigurðsson, f. 28.10. 1953, og eiga þau fjögur börn. Björk, f. 1971, sambýlismaður hennar er Jón Baldvin Árnason, f. 1973, og á hún tvö börn, Elísu, f. 1994, og Henný, f. 1997. Unnþór, f. 1977, maki Carla Torrico Sanhueza, f. 1981, og eiga þau eitt barn, Gabríellu Björk, f. 2012. Elvar Páll, f. 1987, og Sigurður Helgi, f. 1989. 2) Sigríður Hrönn Sigurðardóttir, f. 27. maí 1955, maki Ingvar Björn Björnsson, f. 2. nóv. 1946, og eiga þau tvö börn. Tinna, f. 1974, og á hún tvö börn, Sögu, f. 1995, og Dag Júlíus, f. 2003. Ingvar Björn, f. 1976. 3) Markús Ómar Sigurðsson, f. 24. apríl 1963, og á hann þrjú börn, Sandra Dögg, f. 1986, og á hún eitt barn, Emilíana Unnur, f. 2004. Hrannar Freyr, f. 1994, og Roswitha Sigurósk, f. 2001. 4) Hrafnhildur Sigurðardóttir, f. 28. maí 1969, maki Hjalti Garðarsson, f. 22. okt. 1960, og eiga þau þrjú börn. Guðrún Elísabeth, f. 1991, sambýlismaður hennar er Timon D. Olsen, f. 1982, og eiga þau einn son, Tristan Amor, f. 2011, Haukur, f. 1995, og Hjalti Unnar, f. 2001. Unnur fæddist á Vorsabæ en ólst upp á Voðmúlastöðum frá eins árs aldri hjá Sigríði Guðmundsdóttur. Hún lauk barnaskóla eins og gerðist á þeim tíma. Unnur og Sigurður byrjuðu búskap sinn á Selfossi árið 1954 en fluttu síðan til Reykjavíkur árið 1962. Unnur vann ýmis störf en lengst af sem vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur og hóf hún störf þar árið 1977 í sumarafleysingum og í kjölfarið var hún fastráðin og starfaði sem vagnstjóri til ársins 1998. Hún tók virkan þátt í félagsstörfum, var í kirkjukór Breiðholtskirkju og í safnaðarnefnd Breiðholtskirkju frá stofnun hennar árið 1972. Árið 2005 flytja Unnur og Sigurður á Hvolsvöll, þar tók hún virkan þátt í starfi eldri borgara og söng með Hringnum, kór eldri borgara. Síðasta árið dvaldi Unnur á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Útför Unnar verður gerð frá Voðmúlastaðarkapellu í A-Landeyjum í dag, 11. maí 2013, og hefst athöfnin kl. 16.
Ástkær móðir mín er dáin.
Það er sterk kona með fallega sál og stórt hjarta sem fallin er frá, ég mun alltaf minnast hennar með ást og hlýju.
Mamma var ungbarn þegar hún missti mömmu sína og var komið í fóstur að Voðmúlastöðum hjá Sigríði Guðmundsdóttur sem bjó þar með börnum sínum. Ég man eftir ömmu Sigríði sem fallegri, smávaxinni konu með sjal um herðar sér bundið í kross og með svuntu. Bros hennar var blíðlegt og hún var með sítt hár sem var fléttað og vafið um höfuðið. Hún leyfði mér að greiða hárið og hún kenndi mér að flétta. Þá var hún á Búlandi. Ég skyldi vel af hverju mamma elskaði hana fóstru sína svona mikið því það var svo gott að vera hjá henni. Mömmu þótti afar vænt um uppeldissystkini sín og bar mikla virðingu fyrir þeim.
Mamma átti stóra fjölskyldu því uppeldissystkini hennar voru níu og eitt þeirra var Sigríður sem var fósturdóttir ömmu eins og mamma. Sigríður var frá Voðmúlastaða-Austurhjáleigu þ.e. á næsta bæ og átti hún tíu systkini og voru þessar fjölskyldur náskyldar og samheldnar. Í mínum huga, þegar ég var barn, voru þau bara öll systkini og frændfólk mömmu.
Ég man eftir mörgum afmælis- og fermingarveislum þar sem alltaf var safnast saman í kringum orgel og sungið af hjartans list.
Einnig var móðurfjölskylda mömmu í nágrenninu og man ég vel eftir heimsóknum til Jónínu frænku í Vorsabæ og þar var hópur af myndarlegum krökkum.
Mamma var félagslynd og söngelsk kona sem lærði ung að spila á orgel og gítar. Ég man eftir mynd af henni í stórum kór og var það Rangæingakórinn.
Ung að árum kynnist hún Sigurði Sigurðssyni frá Steinmóðarbæ, sem var elstur systkina sinna þeirra Einars, Ingjaldar, Lillu, Hjalta og Siggu. Þeir þóttu hvatvísir bræðurnir, uppátækjasamir og stríðnir en þau systkinin voru líka músíkölsk, hagmælt og bráðgáfað fólk sem öll verk virtust leika í höndunum á.
Mamma og pabbi giftust á jóladag árið 1953 og hófu búskap sinn á Selfossi. Gulla systir fæddist þar 1954 og ég 1955 og að sjálfsögðu var heimili þeirra opið ættingjum, vinum og vandamönnum sem þurftu gistingu af einhverri ástæðu í lengri eða skemmri tíma.
Á þessum tíma bjuggu á Selfossi bæði einhver af uppeldissystkinum mömmu og æskuvinkonur hennar úr sveitinni og í minningunni virðist lífið einkennast af gestagangi, hlátri, söng og hljóðfæraleik.
Árið 1962 fluttumst við til Reykjavíkur, fyrst í leiguíbúð á Laugarteig 17 og bjuggum við þar þegar Markús bróðir fæddist síðasta vetrardag 1963. Nú var kominn tími til að kaupa sér íbúð og varð úr að kaupa þriggja herbergja íbúð í blokk sem var í byggingu í Ljósheimum númer 22. Mamma og pabbi tóku að sér að vera húsverðir þarna og aukapeningur fyrir vinnu svona heimavið kom sér eflaust vel en erillinn gat líka verið töluverður.
Margt af föðurfólki mömmu bjó í Reykjavík og þar bjó líka Júlíus afi ásamt seinni konu sinni, Ingibjörgu, börnum sínum Guðrúnu og Birni og stjúpbörnum sínum Guðbjörgu og Gylfa. Þau bjuggu að Hólmgarði 4. Frá afa hefur mamma erft blíðu sína og hjartahlýju. Heimsóknir voru tíðar í Hólmgarðinn meðan afi var á lífi og tók hann það loforð af mömmu að hún myndi líta eftir Ingibjörgu þegar hann væri farinn og það stóð hún við enda kom ekkert annað til greina en að standa við loforð sín.
Mamma átti albróður í Reykjavík hann Markús. Maggi frændi dó þrítugur úr hvítblæði. Mamma bar alltaf sorg í hjarta sínu vegna þess. Hún var trúuð og las biblíusögurnar fyrir mig og sagði mér frá Guði og Jesús og kenndi mér bænirnar mínar og Faðir vor. Hún sagði mér líka frá honum Magga og einhvern veginn þá talaði hún um hann á þann hátt að ég setti hann við hlið þeirra tveggja því hann var svo góður og huggunarorð hans voru svo falleg.
Í Reykjavík bjuggu einnig uppeldissystkini og sveitungar og þar sem þetta var fyrir tíma sjónvarpsins var mikill samgangur milli vina og vandamanna og heimsóknir til ættingja voru tíðar.
Mamma var myndarleg húsmóðir og var það til vitnis um þann myndarskap sem hún ólst upp við. Hún var hamhleypa til verka og henni virtist ekkert ómögulegt. Hún saumaði alfatnað á fjölskylduna, gjarnan upp úr öðrum fötum, handprjónaði peysur með flóknum mynstrum og úr prjónavélinni hrundu niður hverjar gammosíurnar af annarri og seinna þegar hún hafði eignast nýtísku prjónavél þá voru það rúllukragapeysur, útvíðar buxur, ökklasíðar peysur og stuttir kjólar.
Það voru settar niður kartöflur á vorin og teknar upp á haustin, þá var farið með nesti og dagurinn tekinn snemma og verkið klárað, það voru alltaf tekin minnst tíu slátur fyrir fjölskylduna sjálfa en svo var bætt við eftir því sem skjólstæðingum mömmu fjölgaði og slátur tekið fyrir þá og hjálpuðust þá margir að. Mamma átti stórt hjarta og hún mátti ekkert aumt sjá og hún var líka dugleg að heimsækja veika ættingja, vini og vinnufélaga bæði heim til þeirra, á sjúkrahús eða á elliheimili og taldi það ekki eftir sér.
Mamma tók reyndar alla daga snemma því eftir því sem hún sagði þá gaf morgunstund, gull í mund og varð henni mikið úr verki á morgnana, bakaði og þreif, þvoði þvott og straujaði.
Árið 1969 fæddist Hrafnhildur litla systir og 1971 var flutt í Ósabakka 19 í Breiðholti. Fyrst var flutt í kjallarann og sama ár bættist einn ungi í hópinn þegar Gulla eignaðist hana Björk. Mamma tók henni opnum örmum og passaði hana meðan Gulla var í vinnunni.
Mamma tók líka virkan þátt í félagsstörfum og var hún meðal annars í Kirkjukór Breiðholtskirkju og í safnaðarnefnd Breiðholtssóknar til fjölda ára allt frá frá stofnun hennar árið 1972.
Afi og amma í Steinmóðarbæ ákváðu að bregða búi um þetta leyti og fluttu til Reykjavíkur ásamt Einari frænda og keyptu þau lítið hús, Fossgil, í Blesugrófinni og var þá orðið stutt á milli fjölskyldnanna.
Ég flutti að heiman snemma árs 1973, giftist og við hjónakornin réðumst í byggingu húss í Garðabænum sem útheimti það að selja íbúðina sem við áttum og þá kom náttúrulega ekkert annað til greina en að flytja aftur heim til pabba og mömmu í gamla herbergið mitt því þetta átti bara að vera hálft ár eða svo, en árinu urðu tæplega tvö og mömmu til mikillar gleði þá fæddist hún Tinna okkar í herberginu hans Markúsar í ágúst árið 1974. Þetta var á sunnudegi og eins og svo oft áður þá voru gestir. Gunna frænka hafði kíkt í morgunkaffi og svo hafði Sævar lögga vinur pabba og veiðifélagi einnig komið við. Mamma lauk við að sauma vöggusettið, þvoði það og þurrkaði og svo straujaði ég það og allt var tilbúið þegar ljósmóðirin kom eftir hádegið og barnið fæddist síðdegis.
Árið 1976 var hringt í mömmu um miðja nótt úr Garðabænum og hún beðin um að koma og fylgja mér á fæðingardeildina og þar var hún aftur viðstödd fæðingu barnabarns, drengsins Ingvars Björns. Gladdist hún mjög yfir stækkandi fjölskyldu og þrír aðrir drengir, synir Gullu, Unnþór, Elvar Páll og Sigurður Helgi bættust í hópinn á næstu tólf árum.
Pabbi var vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur en mamma hafði unnið við ýmis störf í gegnum tíðina en árið 1977 tók hún meirapróf bifreiðastjóra og gerðist fastráðinn vagnstjóri, fyrst kvenna, hjá SVR þar sem hún starfaði til ársins 1998.
Það hlýtur að vera merki þess hversu gott var að vera hjá mömmu og pabba því yngri systkinin fóru ekki að heiman fyrr en á þrítugsaldri og öll millilentum við, á einhverjum tímapunkti í það minnsta einu sinni, hjá þeim. Það var alltaf pláss.
Markús varð á undan Hrafnhildi að bæta við barnahópinn og fékk hann gott forskot þar sem Sandra Dögg kom þriggja ára með mömmu sinni inn í líf hans og svo bættust Hrannar Freyr og Roswitha við.
Þau voru alltaf samrýmd systkinin Markús og Hrafnhildur svo þau voru nokkuð samstíga í að fjölga í fjölskyldunni því Hrafnhildur fékk líka telpu, Guðrúnu Elísabeth sem kom með pabba sínum inn í líf hennar og svo bættust Haukur og Hjalti Unnar við.
Það má segja að fjölskyldan hafi verið mikil strætó-fjölskylda því á tímabili voru mamma, pabbi, Markús og kærasta hans María Ellen, Hrafnhildur og maðurinn hennar Hjalti G. öll vagnstjórar hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, ég er ekki frá því að helsta umræðuefnið þá hafi verið bílar og umferð.
Mamma og pabbi byggðu sér sumarbústað austur í Rangárvallasýslu í landi Steinmóðarbæjar og af sömu elju- og iðjusemi og fyrr, ásamt Markúsi og Hrafnhildi, var þar ræktaður upp landskiki og tjágróðri plantað og sannkallaður sælureitur varð til. Þangað komu margir í heimsókn og ófá míní-ættarmótin voru haldin þar. Hrafnhildur og fjölskylda flutti svo í nágrennið, það er að segja, að Káratanga.
Barnabörnin komu svo eitt af öðru öll jafn velkomin til langömmu og langafa.
Árið 2005 flytja mamma og pabbi á Hvolsvöll og var það mikið gæfuspor því þar hefur þeim liðið afar vel og í nágrenninu er fjöldi ættingja og vina. Þar tók mamma virkan þátt í starfi eldri borgara og söng með kór þeirra, Hringnum.
Ég er þakklát fyrir samveru okkar á La Marina á Spáni þó ferðirnar þangað hafi orðið færri en vonir stóðu til en þetta var góður tími sem verður geymdur í minningunni og á myndum.
Elsku mamma mín, þú fékkst sjúkdóminn sem þú óttaðist mest og í hönd fóru erfið ár en þú áttir þér sterka stoð, eiginmann þinn, sem stóð eins og klettur við hlið þér og tók erfiðleikunum með æðruleysi. Þú áttir líka að tvo engla, annað er ekki hægt að kalla þær systurnar Gullu og Hrafnhildi sem stóðu með þér í blíðu og stríðu og umvefja nú pabba með kærleika og hlýju.
Í febrúar 2012 fór mamma mín á Dvalarheimilið Lund á Hellu og var hún þar í umsjá frábærra starfsmanna og pabbi sýndi ást sína í verki og heimsótti mömmu daglega þessa fjórtán mánuði sem hún dvaldi þar og var hann við dánarbeð hennar ásamt okkur systkinunum þegar hún lést miðvikudaginn 1. maí 2013.
Drottinn blessi þig og varðveiti elsku mamma mín,
Þín dóttir,
Sigríður Hrönn Sigurðardóttir.