Margrét Arnheiður Árnadóttir Laugarvegi 35 Siglufirði fæddist að Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal 10. febrúar 1923. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 2. maí 2013. Foreldrar hennar voru hjónin Steinunn Jóhannesdóttir, f. 21.10. 1899, d. 8.7. 1971 og Árni Valdimarsson, f. 20.10. 1894, d. 31.1. 1959. Systkini hennar: Aðalheiður, f. 10.7. 1921, d. 5.5. 2010, Jónína, f. 7.8. 1925, Valrós, f. 3.8. 1927, Stefán Ragnar, f. 15.1. 1933, Hallfríður, f. 6.6. 1935 og Snælaugur Heiðar, f. 14.3. 1941. Um tvítugsaldur fluttist Margrét til Siglufjarðar þar sem leiðir hennar og Þórðar Þórðarsonar, f. 14.12. 1921, d. 22.11. 1992, vélstjóra frá Siglunesi lágu saman. Þau gengu í hjónaband 14.12. 1946 og bjuggu á Siglufirði allan sinn búskap. Þau eignuðust sjö börn. Þau eru: 1) Sigríður Anna, f. 14.5. 1946, fv. alþingismaður, ráðherra og sendiherra. Maki: Jón Þorsteinsson, fv. sóknarprestur í Grundarfirði og Mosfellsbæ. Þeirra börn: a) Jófríður Anna. Maki: Rune Johansen. Þeirra börn: Hjálmar, Jónas og Rúnar. b) Þorgerður Sólveig. Maki: Michael Daemgen. Þeirra börn: Magrét Letizia, Harald Jón og Magnús Hermann. c) Margrét Arnheiður. Maki: Kristinn Ólafsson. Þeirra börn: Sigríður Anna og Inga Guðrún. 2) Árdís, f. 6.3. 1948, rekstrarhagfræðingur. Eiginmaður: Björn Bjarnason, rekstrarhagfræðingur, þau skildu. Þeirra börn: Bjarni og Baldur. 3) Þórunn, f. 14.12. 1950, gæðastjóri. Maki: Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri. Börn hennar með fv. eiginmanni Willard Helgasyni, skipstjóra: a) Birna Rut. Maki: Kjartan Guðbergsson. Þeirra barn: Amalía Eir. Sonur Birnu með Mal Barter: Calum Bjarmi b) Össur. Barn: Viktor Smári c) Þórður, hann lést 2004. 4) Árni Valdimar, f. 28.1. 1954, skipstjóri. Maki: Jóhanna Bjarnadóttir , iðjuþjálfi. Þeirra barn: Þórður Mar. Börn Árna með fv. eiginkonu Petrínu Óskarsdóttur, hárgreiðslumeistara a) Elín Rósa. Maki: Edward O. Adabor. Börn þeirra: Lúkas og Lísa. b) Margrét Arnheiður. Barn hennar: Emilý Rós. Dóttir Árna með Guðbjörgu Aðalbjörnsdóttur: Bylgja. Sambýlismaður: Hrafn Stefánsson. Dóttir Bylgju með Þórarni Traustasyni: Guðbjörg. Sonur hennar: Gabriel Ares. Börn Jóhönnu, stjúpbörn Árna: Helga Rósa og Hákon Örn. 5) Þórður, f. 16.12. 1955, yfirvélstjóri. Maki: Heiðbrá Sæmundsdóttir, svæfingahjúkrunarfræðingur. Þeirra börn: a) Þórunn, sambýlismaður: Axel Ottósson b) Þórður. 6) Margrét Steinunn, f. 25.7. 1959, kennari. Sambýlismaður Rafn Sveinsson, þau slitu samvistir. Þeirra börn: a) Rafn. Maki: Lene Hollseter. Þeirra börn: Tindra Eir, Enja Lín, Lýra Mist. b) Willard. Sambýliskona: Freja Grandjean. 7) Jónas, byggingafræðingur, f. 16.8. 1967. Maki: Sigrún Harpa Magnúsdóttir, kennari. Þeirra börn: a) Þorbjörg Arna b) Marvin. Dóttir Jónasar með Sædísi G. Bjarnadóttur: Írena Elínbjört. Sambýlismaður: Aðalsteinn Ernir Bergþórsson. Dóttir þeirra: Natalía Björt. Margrét naut hefðbundinnar barnaskólafræðslu á Dalvík auk náms við Húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dölum. Margrét stýrði stóru heimili af rausn og myndarskap. Þegar börnin uxu úr grasi vann hún utan heimilis við síldarverkun og aðra fiskvinnslu. Hún tók drjúgan þátt í margs konar félagsstarfi á Siglufirði. Hún var söngelsk og söng í mörgum kórum í gegnum tíðina. Útför Margrétar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 11. maí 2013, kl. 14.

Undanfarna daga hef ég verið að reyna að finna fyrstu minningar mínar um hana móður mína elskulegu. Ég er ekki viss um hverjar það eru. Mamma hefur alltaf verið til staðar. Eins og sólin eða tunglið. Alltaf á sínum stað. Stóð ætíð sína plikt. Oft jafnvel lengur en stætt var. Kannski man ég hana fyrst þegar hún var að baða okkur systurnar í bala á eldhúsgólfinu á Túngötunni eða þegar systir mín fæddist eða þegar hún var að sauma á okkur systur og gera fínar eða var það þegar hún kom og náði í flotta þeytispjaldið mitt, sem hafði verið stolið af mér? Ég veit hins vegar hvar minningarnar urðu til. Það var á Siglufirði, fyrst á Túngötunni hjá ömmu og síðar Laugarveginum í rúm 65 ár.
Á Laugarveginum var sérstakt samfélag um miðbik síðustu aldar þegar foreldrar mínir gerðu sér þar hreiður með barnahópinn sinn. Við fluttum fjögur með þeim úr Túngötunni og á Laugarveginum bættust 3 yngri börnin við. Á heimilinu var líf og fjör og þar réði mamma ríkjum. Þar fór fram umfangsmikil matvælaframleiðsla. Þau voru bæði með hænsni og kindur. Þá var pabbi mikill veiðimaður og stundaði af ástríðu skotveiði til lands og sjávar og veiddi líka á stöng af miklum móð. Maturinn var þurrkaður, saltaður, súrsaður, frystur og hvað það nú heitir. Eldamennskan var svo sérkapítuli út af fyrir sig. Hún var listakokkur, órög í alls konar tilraunir. Svo var mamma með sauma- og prjónastofu og umsvifamikla þrifaþjónustu. Meðfram öllu þessu var hún að ala okkur upp börnin sín. Sé öll þessi virkni verðlögð með sama hætti og nú tíðkast er mér ljóst að á starfsævinni var hún mamma hálaunamanneskja þó ekki fengi hún mikið útborgað. Þá var hún líka viðloðandi atvinnustarfsemi pabba, sem rak útgerð, síldarsöltun, frystihús og seinast iðnfyrirtæki. Hún hafði alltaf nóg fyrir stafni. Svona eftirá að hyggja hefur hún sennilega ekki sofið mikið á tímabili. Fyrst á fætur og síðust að ganga til hvílu. Þar sem hún lagði hönd á plóg munaði líka um hana. Þoldi ekki hangs eða illa unnið verk. Í rauninni lék allt í höndum hennar.
Mamma kom úr sveit, fegurstu sveit á Íslandi, hvorki meira né minna. Svarfaðardalurinn var paradís á jörðu í augum mömmu minnar og fólkið, sem þar bjó besta fólkið í allri veröldinni. Hún naut ekki mikillar skólagöngu í sveitinni, fór fljótt að vinna fyrir sér eins og þá tíðkaðist. Hún fór á Kjalarnesið til Sigrúnar föðursystur, sem þar var bóndi. Áður en hún lagði í þá langferð lét afi hana lofa sér því að hún myndi aldrei reykja og aldrei drekka áfengi. Hún gerði það og hélt það loforð alla tíð. Ekki var hún hrifin af Kjalarnesinu því sú sveit stóðst engan veginn samjöfnuð við dalinn fallega fyrir norðan að ekki sé talað um þann rokrass eins og hún kallaði Kjalarnesið uppfrá því. Því kom hún norður aftur. Þar vann hún ýmis störf til sjávar og sveita. Hún laðaðist að sjávarsíðunni og var eftirsótt við að beita við dagróðrabáta. Það var akkorðsvinna, sem átti vel við þessa duglegu, jafnréttissinnuðu og kraftmiklu konu. Ég man að í skálinni inni í svefnherberginu hennar var falleg medalía, verðlaun fyrir beitingar, sem hún hlaut fyrir rúmum 70 árum. Ég dáðist að þessari medalíu og óskaði þess, lítil stelpa, að einhvern tímann mætti ég eignast slíka gersemi. Þessi skerpa, hugrekki, metnaður og kjarkur bar mömmu til Siglufjarðar þar sem hún hitti pabba og eftir það gengu þau saman ævina á enda en hann dó alltof snemma fyrir rúmum 20 árum. Þau undirbjuggu sig undir framtíðina með því að fara í skóla eins og efnin leyfðu. Hún í húsmæðraskólann að Staðarfelli og hann menntaði sig á véla- og verkstjórasviðinu. Þessi undirbúningur dugði þeim vel í lífsins ólgusjó.
Mamma átti einstaklega góða lund og sá einhvern veginn oftast ljósu hliðar tilverunnar. Hún dvaldi ekki við mistökin heldur reyndi að gera gott úr skellunum. Ég heyri enn hláturinn hennar og sé andlitið og augun ljóma. Söngur var hennar líf og yndi. Ógleymanlegt var tímabilið þegar Demetz kom norður og var að leiðbeina og þjálfa meðal annars söngfólk á Siglufirði. Hún söng Verdi þann vetur yfir þvottinum, pottunum og bara öllu. Svo var það saumaklúbburinn. Hún sleppti því ekki að hitta stelpurnar. Okkur krökkunum fannst best þegar hún hélt sjálf saumklúbb því þá fengum við terturnar flottu og gómsætu daginn eftir. Hún var vitanlega besti bakari í heimi. Mamma var afar pólitísk. Hafði farið á fund hjá Ólafi Thors ung kona þegar hún var á Kjalarnesinu og hrifist af þeim málflutningi. Eftir það kaus hún ætíð Sjálfstæðisflokkinn. Hún var líka trúuð kona og söng í kirkjukórnum í áratugi.
Mamma vildi vitanlega að við börnin hennar fengjum að kynnast dalnum hennar og fólkinu góða. Því var hún dugleg að fara með okkur til Dalvíkur. Þá var það ekki hálftíma akstur eins og nú. Við fórum með báti og mamma lét sjóveikina ekki aftra sér heldur var siglt með flóabátnum Drangi eða hreinlega fiskibáti í þrjá til sex tíma milli þessara staða. Í minningunni voru þetta hinar mestu svaðilfarir. Svo þegar bræður mínir tveir voru fæddir sendi hún okkur þrjár stelpurnar einar með fiskibáti til Dalvíkur og minningin um fyrstu slíka ferð er ævintýri líkust. Ekki síst fyrir það að þegar við loks komum að Staðarhóli til afa og ömmu á Dalvík um miðja nótt og börðum á suðurgluggann birtist afi eins og hálfgerður tröllkarl með stírurnar í augunum fyrir innann gluggann. En dvölin á Dalvík var dásamleg. Kynnin við móðurfólkið var góður skóli undir lífið. Þau voru glaðsinna, hreinskiptin, starfssöm, traust, raungóð, sanngjörn og nægjusöm nákvæmlega eins og mamma. Hún vildi gera það besta sem hún vissi fyrir okkur dætur sínar. Því fann hún tvo afbragðs bæi í Skíðadalnum fyrir okkur tvær í sveit, mig og litlu systur mína. Ég tolldi í tvo eða þrjá daga í sveitinni. Mér leiddist hroðalega. Systir mín fann sig hins vegar algjörlega í þessu umhverfi þannig að hún var í Skíðadalnum öll sumur uppúr því fram á unglingsár mömmu til mikillar gleði. Aldrei lét mamma mig gjalda þess að ég strauk úr sveitinni. Hún tók oft upp hanskann fyrir mig þegar ég hafði gert einhver axarsköftin, sem nóg var af. Þá hafði hún oft á orði: ekki er betri músin sem stekkur en sú sem læðist. Þá fannst mér hún vitur kona, djúpvitur. Vitanlega kom stundum fyrir að okkur fannst mamma ósanngjörn. Einhverju sinni þegar mér og litlu systur minni ofbauð strukum við að heiman. Gengum niður í Norðurgötu til Siggu frænku þar sem við töldum okkur eiga skjól. Það var rúmlega hálftíma gangur og þegar við vorum komnar til Siggu var okkur eiginlega runnin reiðin, mundum varla hvers vegna við fórum. Við áttum gott spjall við frænku og fórum svo bara heim aftur. Ég held nú satt að segja að mamma sjálf hafi eiginlega alveg misst af þessu stroki okkar. Mamma var mikill dýravinur og mátti ekkert aumt sjá. Hún var barngóð með eindæmum og fór ekki í manngreinarálit. Að vera sjálfbjarga skipti hana miklu máli. Guð bjargar þeim sem bjarga sér sjálfir hafði hún oft á orði. Sonum mínum fannst furðulegt að amma þeirra væri með hamar í eldhússkúffunni. Þar átti hann að vera tilbúinn ef þyrfti að sinna smálegu viðhaldi. Fatlaðir og minni máttar áttu í henni hauk í horni. Hún hafði alist upp með fatlaðri frænku sinni í Svarfaðardalnum forðum og vafalaust áttað sig á því snemma hve samhjálpin skipti miklu máli.
Þau áttu alltaf bíl, pabbi og mamma. Í minningunni fóru þau nánast hverja helgi á sumrin með krakkaskarann yfir Skarðið ýmist í Fljótin, í Skagafjörðinn eða í Ólafsfjörð. Hún lagði mikið uppúr svona ferðalögum. Þá nestaði hún liðið með dýrðarinnar smurðu brauði og svo var kakó með í för. Ég man hvað hún var sæl þegar einhver karl í Ólafsfirði leit inní bílinn hjá pabba horfði á mömmu og spurði hvort hún væri elsta dóttir hans! Henni fannst alltaf jafnfyndið þegar sú saga var sögð. Á haustin fórum við vitanlega í berjamó að hennar undirlagi og svo var sultað, saftað og búið á haginn.
Mamma horfði sjaldnast til baka heldur fram á við. Það var svo lærdómsríkt að horfa á hana eldast. Hún hélt sínu sjálfstæði. Söng með kórum, ferðaðist, stundaði útiveru og samneyti við vinina á Laugarveginum. Lét mála íbúðina reglulega, parketleggja og taka eldhúsið og baðið í gegn. Fór vel með sig. Held að hún hafi verið komin á níræðisaldur þegar hún ákvað að fá sér uppþvottavél. Hún lifði alla tíð lífinu lifandi. Hún gat verið heima þar til fyrir fáeinum árum þegar nærminnið sveik og elli kerling sótti að. Þetta gat hún með hjálp vinanna á Laugarveginum og ómældri aðstoð og styrk yngstu systur minnar Margrétar Steinunnar. Fyrir alla þá fórnfýsi og elsku er ég þakklát. Eftir það átti hún skjól á sjúkradeildinni á Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Starfsfólkið þar bar hana á höndum sér og er ég þeim þakklát fyrir hve vel þau reyndust henni og okkur öllum, sem unnum þessari konu. Það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig mamma tókst á við álagið, sem fylgir slíkum breytingum á högum. Fara af heimili sínu og inná stofnun. Hún tókst á við það af æðruleysi og umburðarlyndi. Til hinstu stundar hélt hún reisn sinni, gleðinni og þeirri náttúrugreind, sem hún fékk í vöggugjöf. Hún náði því að komast á tíræðisaldurinn með glæsibrag. Um páskana fannst mér hún hálfpartinn vera að kveðja. Mamma var alveg tilbúin að fara, sátt við guð og menn. Dauðastríðið var stutt, snarpt og fallegt, nákvæmlega eins og hún var. Ég á eftir að sakna hennar mjög en veit að hún er á góðum stað, finnur ekki lengur til í mjöðmunum og er komin á ný með stálminni. Nú getur pabbi glaðst búinn að heimta Grétu sína á ný. Guð blessi minningu Margrétar Arnheiðar Árnadóttur.

Árdís.