Guðrún Ágústa Steinþórsdóttir fæddist í Reykjavík 5. febrúar 1956. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 7. maí 2013. Foreldrar hennar voru Jóhanna Pétursdóttir, f. 27. okt. 1927, d. 29. júní 2009, og Steinþór Þorvaldsson, f. 28. maí 1932. Systkini Guðrúnar eru Jón Haukur, f. 22. júlí 1961, d. 8. okt. 1978, Pétur Ásgeir, f. 23. nóv. 1962, og Sigrún, f. 30. apríl 1964. Guðrún giftist Hafsteini Má Kristinssyni þann 27. október. 1975. Foreldrar hans voru Guðrún Guðjónsdóttir f. 1. janúar 1923, d. 15. október 1993 og Kristinn Magnússon. Börn Guðrúnar og Hafsteins eru 1) Steinþór Grétar, f. 16. júlí 1975, sonur hans Ásgeir Árni, f. 7. júlí 1994. 2) Dagný Helga, f. 24. júlí 1976, maki Valgarður Magnússon, f. 3. júlí 1979, börn þeirra Hafsteinn Smári, f. 11. apríl 1994, sonur hans er Benedikt Freyr, f. 10. september 2012, Viktor Freyr, f. 17. nóv. 2001, og Kara Sif, f. 3. maí 2005. 3) Jón Haukur, f. 2. apríl 1981. 4) Sunna Björg, f. 25. maí 1987, maki Óli Chomtarong Jóhannesson, f. 12. mars 1985. Guðrún var jarðsungin frá Keflavíkurkirkju 10 maí 2013.
Elsku mamma.
Það er sárar en orðum tekur að setjast niður og reyna rita hér niður orð þér til minningar. Okkur þykir það svo sárt að hafa þurft að kveðja þig svo snemma eftir erfiða og harða baráttu þína við krabbamein. Við trúum því að nú sért þú komin á friðsælan stað þar sem ástvinir þínir hafa tekið vel á móti þér.
Þegar við horfum til baka og minnumst mömmu er þakklæti okkur efst í huga. Við erum þakklát fyrir þá ást og alúð sem hún veitti okkur og fyrir þá leiðsögn og fræðslu sem hún gaf okkur í lífinu. Alltaf gátum við leitað til mömmu, sama hvað það var. Hún hjálpaði okkur alltaf að leita lausna og leiðbeindi okkur á réttar brautir. Það var í raun alveg saman hver það var sem leitaði til mömmu, hún var alltaf tilbúin að leggja sig fram við að aðstoða eftir fremsta megni. Mamma var mjög vel gefin, hún hafði dálæti á bókum og las mikið. Hennar viska og lífssýn hafði mikil áhrif á okkar líf. Hún myndaði sér alltaf sterkar og sjálfstæðar skoðanir í lífinu og innleiddi hjá okkur þann hugsunarhátt. Gildismat mömmu hefur einnig haft sterk áhrif á líf okkar, t.a.m. er varðar jafnrétti kynjanna og að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum-, menningu- og trú. Að hafa fengið að alast upp við þessa góðu kosti hefur gert okkur að betri manneskjum. Við minnumst allra góðu stundanna sem við áttum með mömmu, sem voru ótal margar. Má þar nefna ferðalögin sem við fórum í um okkar fagra land með mömmu og pabba. Þar sem mamma fræddi okkur iðulega um staði og staðhætti í leiðinni. Stundirnar á Grund, í Jökuldal, eru okkur minnisstæðar og dýrmætt að hafa fengið það tækifæri að kynnast lífinu í sveitinni. Það er ekki að ástæðulausu að mamma okkar var kölluð naglinn á spítalanum þar sem hún dvaldi sína síðustu daga, enda eflaust ekki hlaupið að því að finna annað eins hörkutól. En eins og hún skrifaði sjálf í bókina Hughrif sem gefin var út af Björginni þá var drifkraftur hennar í lífinu þrjóskan, skapið og fjölskyldan. Hennar aðal fyrirmynd á yngri árum var Guðrún Jónasdóttir, móðuramma hennar, 11 barna bláfátæk kona, verkalýðsleiðtogi og baráttujaxl til dauðadags. Við getum sannanlega staðfest það að mamma hafi verið fyrirmynd sinni til sóma. Það er erfitt að koma því í orð hversu mikil áhrif mamma hefur haft á líf okkar og hversu mikils virði hún var okkur. Við verðum ævinlega þakklát fyrir þann tíma sem við fengum í lokin þó stuttur væri, eftir að veikindi tóku sig upp, til að kveðja þig á viðeigandi hátt. Allir sem þekktu mömmu heyrðu hana tala um fjölskyldu sína, eiginmann, börn, barnabörn og barnabarnabarn. Aldrei þreyttist hún á því að segja frá okkar högum við hvern sem hún talað þar sem hún hældi okkur í bak og fyrir. Hún var svo stolt af okkur og þakklát fyrir að hafa haft sér við hlið til dauðadags. Elsku mamma minningin um þig mun ávallt lifa í hjörtum okkar.
Þjóðarblómið.
Þýður vindurinn vaggar lauslega í kolli Holtasóleyjarinnar.
Þar sem hún vex
á berangurslegum melnum.
Ætli norðanblænum takist
að hella úr krónu hennar daggardropunum,
er nóttin skildi eftir
til minningar um sig?
Þjóðarblómið.
(höf. Guðrún Ágústa)
Börnin þín,
Steinþór Grétar Hafsteinsson, Dagný Helga Hafsteinsdóttir, Jón Haukur Hafsteinsson og Sunna Björg Hafsteinsdóttir.