Þór Vigfússon, fyrrverandi skólameistari, fæddist á Þórshamri í Sandvíkurhreppi 2. apríl 1936. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 5. maí 2013. Foreldrar: Vigfús Guðmundsson, bifreiðastjóri við Ölfusárbrú, á Selfossi, síðar sjómaður á Seltjarnanesi, f. 16.9. 1903 í Neðra-Dal í Biskupstungum, d. 22.11. 1990, og Guðrún Jónsdóttir húsfreyja, f. 2.3. 1904 á Eyrarbakka, d. 18.7. 1950. Systkin: Eggert slökkviliðsstjóri, f. 1932, Guðni verslunarmaður, f. 1934, d. 1992, Jón skipstjóri, f. 1938, d. 1955 og Örn framkvæmdastjóri, f. 1941. Hálfsystkin samfeðra: Stefán Guðmundur, f. 1954, d. 2000, og Guðmunda, f. 1955. Þór kvæntist 1. júlí 1960 Helgu Maríu Novak rithöfundi, Þýskalandi, f. 1935. Þau skildu 1968. Börn þeirra eru 1) Ragnar Alexander leiðsögumaður, f. 1958 (kjörbarn), börn hans eru Guðmundur Andri, f. 1983, Helga María, f. 1992, og Júlía Sif, f. 1996. 2) Nína iðnrekstrarfræðingur, f. 1962, maki Jón Björnsson húsasmíðameistari, f. 1953, dóttir þeirra er Margrét Snæfríður, f. 1992. Þór kvæntist 31. desember 1976 eftirlifandi eiginkonu sinni Auði Hildi Hákonardóttur listakonu og fv. skólastjóra, f. 1938. Foreldrar hennar voru Hákon Guðmundsson, hæstaréttarritari og yfirborgardómari í Reykjavík, f. 1904, d. 1980 og Ólöf Dagmar Árnadóttir, íþróttakennari og rithöfundur, f. 1909, d. 1993. Stjúpbörn 1) Kolbrún Þóra Oddsdóttir landslagsarkitekt, f. 1956, börn hennar Þórhildur Kristjánsdóttir, f. 1986, Katrín Kristjánsdóttir, f. 1988. 2) Hákon Már Oddsson kvikmyndagerðarmaður, f. 1958, börn hans eru Urður, f. 1980, barn hennar er Kría Ragnarsdóttir, f. 2006. Arnór, f. 1991, og Hildur Laila, f. 2007. Þór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1955 og nam hagfræði í Þýskalandi við Hochschule für Ökonomie í Berlín og lauk Diplom Wirtschaftler 1961, með sérgrein í milliríkjaviðskiptum. Hann lauk prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands 1967, námi í húsasmíði við iðnbraut Fjölbrautaskólans á Selfossi 1982 og sveinsprófi 1989. Þór lauk prófi í svæðisleiðsögn frá Farskóla Suðurlands 1993. Við heimkomu vann Þór sem skrifstofustjóri hjá Sameiningarflokki alþýðu – Sósíalistaflokknum og sem starfsmaður verslunarsendinefndar Þýska alþýðulýðveldisins. Hann hóf kennslu við Héraðsskólann á Laugarvatni 1963 og kenndi við Menntaskólann að Laugavatni 1964-70, við Mennatskólann við Tjörnina, síðar Sund, 1970-83 og var konrektor skólans 1975-78. Hann var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 1983-94 og kennari til ársins 1998. Þór var virkur í þjóðfélagsmálum og sat öðru hvoru í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1970-80, var formaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1971-73, sat á Alþingi sem varaþingmaður 1974, var borgarfulltrúi í Reykjavík 1978-80 og formaður Umferðarnefndar. Þór stundaði leiðsögn á Suðurlandi sem leiddi til stofnunar Draugaseturs á Stokkseyri og var félagi í Skálafélagi um varðveislu Tryggvaskála. Þór er aðalhöfundur Árbókar Ferðafélags Íslands í Árnesþingi vestanverðu 2003. Útnefndur heiðursfélagi í Félagi þýskukennara 2010. Útför Þórs fer fram frá Selfosskirkju í dag, 18. maí 2013, kl. 13.30.

Meistari vor er fallinn frá. Hann var meistari okkar allra í Fjölbrautaskóla Suðurlands, allra nemenda og starfsmanna. Þór var einstakur persónuleiki og stjórnandi en hann notaði þá aðferð við að stjórna, að eigin sögn, að miða þumalputtanum á tunglið og margfalda með Pí. Það gaf þá góðu raun að Þór var líklega einn  ástsælasti skólameistari landsins. Þór stjórnaði skólanum af mildi og hjartagæsku. Hann tók við Hlaupabrautinni af Heimi Pálssyni haustið 1983. Skólahúsnæðið var á sjö stöðum. Fyrsta skóflustungan að nýrri byggingu hafði verið tekin sumarið áður. Alla tíð Þórs við skólann var verið að byggja aðalskólahúsið Odda og síðari hluti þess var ekki vígður fyrr en nokkrum mánuðum eftir að Þór lét af störfum. Hann átti stóran þátt í því að vel tókst til við byggingarframkvæmdir. Þór var flest til lista lagt. Brautskráningarræður hans voru áhrifamiklar, orðsnilldin kynngimögnuð. Hann fjallaði um margt í ræðunum, m.a. um þekkinguna og sagði: Það er fleira mikilvægt í lífinu en þekkingin og miklu mikilvægara. Sá sem klappar ekki konunni sinni, honum duga engar Pýþagórasar-reglur, sú sem faðmar ekki barnið sitt, henni dugar enginn kjarnakljúfur. Gott hjartalag og brjóstvitið skiptu öllu máli á stundu mikilvægra ákvarðana. Samskipti hans við nemendur voru afar góð, þeim fannst orðfar hans sérstakt og skemmtilegt. Hér sé friður, Haldið árunni hreinni.  Dásamlegt var eitt af þeim orðum sem hann tók sér hvað oftast í munn. Hann heilsaði öllum á göngum skólans og hann fór ekki í manngreinarálit.  Þór var sagnameistari og hrókur alls fagnaðar á kaffistofunni Bollastöðum. Þór hafði frumkvæði að því að nefna vistarverur í skólanum eftir bæjarnöfnum á Suðurlandi. Vælugerði hét skrifstofa skólans. Ráðagerði fundarherbergið og Ráðleysa skrifstofa skólameistara. Tækjadraugurinn Móri kom fljótlega í skólann eftir að Þór tók við. Ég minnist þess að draugsi hljóp í símaskiptiborðið á aðalskrifstofunni og ekki fengu ljósritunarvélarnar heldur að vera í friði. Nóg var að Þór nefndi nafn Móra svo allt færi í samt lag aftur. Þór kenndi ýmsar greinar við skólann og þótti afbragðskennari. Hann kenndi  þýsku en einnig stærðfræði og bókfærslu. Hann tók einnig að sér kennslu í söðlasmíði og aflaði sér gagna frá Þýskalandi í þeim tilgangi. Einnig útvegaði hann efni svo við gætum brautskráð nemanda úr glerslípun og speglagerð. Þór var alltaf til í nýjungar og breytingar í skólastarfinu. Hægt væri að halda áfram endalaust að tala um hæfileika og fjölhæfni Þórs. Hann skokkaði, hjólaði, stundaði körfubolta, sigldi á kajak, gekk yfir fjöll og firnindi. Tíkin hans hún Týra hljóp oft með meistara sínum en þegar hún fór að eldast og þreytast lét Þór smíða handa henni vagn sem hann festi við hjólið. Það var stolt tík hún Týra þegar Þór hjólaði af stað frá skólanum og hún sat sperrt í vagninum. Þór lést 5. maí á fæðingardegi Karls Marx, þess mikla kenningasmiðs en Þór glímdi í námi við kenningar hans og þeirra sem reyndu að framkvæma kenningarnar, en það er önnur saga. Ég sakna Þórs mjög, það voru góðir tímar með honum í Fjölbraut. Ég þakka honum þolinmæðina sem hann sýndi mér sem aðstoðarmanni sínum, góð ráð á erfiðum stundum og allan stuðning, líka hin síðari ár, þegar ég varð skólameistari FSu.

Ég vona að Þór sé á góðum stað þar sem hægt er að segja sögur og drekka góðan móasopa eins og hann gerði oft með Hildi sinni og fleirum.  Við Steingerður vottum Hildi og fjölskyldu, systkinum hans og fjölskyldum þeirra djúpa samúð.

Örlygur Karlsson.

Þór Vigfússon er einn eftirminnilegasti maður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Hann var kennari minn í dönsku í Héraðsskólanum á Laugarvatni,hann innan við þrítugt ég fjórtán ára. Þór var jarpur á hár og alskeggjaður um hann get ég sagt eins og Flosi um Kára. Fáum mönnum er Kári líkur og þann veg vildi ég helst skapi farinn vera. Enn man ég morgunávarp Þórs með hárri röddu Hér sé friður, og með yður svöruðum við krakkarnir einum rómi, dagurinn var hafinn allir með á nótunum. Þór hafði mikið vald á kennslunni og var hann strax dýrkaður af nemendum sínum. Blessuð danskan var nú ekki skemmtilegasta fagið í þá daga en kennarinn var heillandi. það var manndómsskóli að vera nemandi Þórs,á einum vetri hristi hann af manni feimnina minnimáttarkenndina og hógværð Flóamannsins. Hann gerði okkur krakkana að sjálfsöruggu og stoltu fólki. Ósjálfrátt fórum við að tala eins og Þór og jafnan var það svo með mig að eftir samfundi okkar þá gerðist það að ég fann áhrif meistarans í orðum og gjörðum mínum. Þór var ævintýramaður hafði numið með þjóðverjum í Austur-Berlín var rótækur vinstrimaður í skoðunum. Hann hafði á þessum árum gengið um Ísland þvert og endilangt. Komið niður í sjávarþorpin eins og útilegumaður talandi þýsku, farið um sveitirnar unnið í fiski eða með bændum í heyskap fyrir mat sínum og gistingu. Og fólkið hélt hann útlending en þótti merkilegt hvað hann kunni handtökin vel,svo var hlegið að öllu saman. Hann var sveitamaður að eðlisfari en um leið heimsborgari, skar sig allsstaðar úr vakti athygli og þorði að vera hann sjálfur. Hann varð borgarfulltrúi í Reykjavík 1978. Sjálfstæðismenn töpuðu borginni hann talaði fyrir göngu- og hjólareiðastígum og reiðleiðum, fyrstur manna. Hann lagði til að geitur yrðu hafðar í Hljómskálagarðinum, var einn um þá skoðun, nema Davíð Oddsson síðar borgarstjóri studdi tillöguna. Þar hefur hugmyndin að Húsdýragarðinum orðið til, sem Davíð stofnaði síðar. Hann varð skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands í ellefu ár frá 1983 til 1994, réttur maður á réttum stað ekki síst til að byggja upp skólann. Hann kunni að tala fyrir skólabyggingunni ná mönnum í héraðinu saman, reka erindi við ráðamenn landsins þar var hann einstakur, menn hrifust með skóla-meistaranum og allt gekk upp. Húsið mikla reis í hönnun doktor Magga í höndum staðarsmiðsins Sigfúsar Kristinssonar. Þór vissi að þarna voru gömlu menntasetrin að sameinast á ný Oddi, Skálholt og Haukadalur beint úr sögunni,Oddi fræðasetrið forna var skólahúsið sjálft nefnt. Og svo bæjarnöfn höfðingjanna á ýmsum sölum og skólastofum. Hann tók krakkana sömu tökum og á Laugarvatni forðum, var jafningi þeirra og vinur þekkti pabba og mömmu afa og ömmu, skólinn varð veröld útaf fyrir sig. Selfoss orðin hinn mikli menntastaður Suðurlands. Strákurinn hans Hallærisfúsa stóð fyrir sínu en Vigfús var þjóðsagnapersóna eins og sonurinn. Vigfús hlaut viðurnefnið af því að hann notaði aldrei stærra blótsyrði en ansans hallæri. Á námsárunum erlendis sendi Þór föður sínum bréf utanáskriftin var Hallærisfúsi Íslandi, bréfið komst til skila heim á Aðalból. Á skólameistaraárunum nam hann trésmíði við skólann ekkert minna trésmiður eins og meistarinn sjálfur. Hagfræðingur að auki og með próf í uppeldis- og kennslufræðum. En fyrst og fremst var Þór maður sem lét hjartað ráða för, var allsstaðar gjaldgengur því guð metur aldrei annað í heim, en auðmýkt og hjartans trúnað. Á besta aldri hætti hann sem skólameistari og gerðist kennari á ný við skólann. Þegar ég sagði þú mátt ekki hætta, Þór minn. Þá hló hann og sagði. Það kemur einhver enn betri en ég, orkan er búin, svona var Þór. Þegar ég varð landbúnaðarráðherra komu hér stundum norðurlandabúar ég fór með þá um héraðið fagra fékk Þór sem leiðsögumann hann sagði þeim svo kynngimagnaðar draugasögur að þeir sváfu ekki næstu nótt á eftir. Hann fór margar ferðir með innlenda og erlenda gesti um héraðið sitt enginn sagði jafn vel frá. Oft fór hann á Flóaáveituna á Brúnastaðaflötum að Flóðgáttinni, hann bað mig að hjálpa sér að gera veg að Flóðgáttinni svo Brúnastaðamenn fengju frið með sín grasmiklu tún. Við gengum í það og lögðum ferðamannaveg eftir ruðningnum á Vélaskurðinum mikla austur að Flóðgátt sem ætti auðvitað að heita Þórsvegur og skal héðan í frá bera nafn höfðingjans. Við öfluðum fjár og stuðnings víða hjá Vegagerðinni, Flóahreppi og Flóaáveitufélaginu að ógleymdum Óla heitnum í Ræktó. Héldum svo vígsluhátíð í fyrravor með fimm hundruð gestum á Brúnastaðaflötum eins og þegar kóngurinn og drottningin komu þar forðum. Ögmundur Jónasson Innanríkisráðherra klippti á borða og hann og Þór héldu slíkar ræður að enn bergmála þær um Flóann og bændur og hvað þá mjólkurkýrnar urðu Vinstrigrænar morguninn eftir í fjósunum. Þór bjó til sögur og þjóðsögur um hvað eina sem menn trúðu, ein var svona. Þegar ég varð landbúnaðarráðherra kom það fyrir sagði hann ef ráðherrar í Ríkisstjórninni ætlaðu ekki að fallast á mín mál þá hefði ég tautað við ríkisstjórnarborðið Ég verð að sækja mína ellefu bræður, þá leist mönnum ekki á blikuna, forsætisráðherrann Davíð Oddsson gafst upp og ég hafði mitt fram. En skemmtilegast var að koma til Þórs og Hildar að Straumum sitja við snarkið í arineldinum og ræða málin hlusta á kynngi magnaðar sögur af atburðum og eftirminnilegu fólki, þiggja átta og hálfan dropa af ráðherravíni, sem hann kallaði svo, mér til heiðurs. Þór var engum manni líkur, Árnesþing er rislægra við brotthvarf hans og skuggarnir frá Ingólfsfjalli verða sorgum búnir fyrsta kastið. Tregatónar Ölfusár berast sem harmskviða um héraðið. En nýr dagur rís og allt fer þetta eins og hann sagði forðum það koma nýir menn og kynslóðir með sína kvisti og stórbrotna fólk, lífið heldur alltaf áfram. Þórs verður sárt saknað, sögumaðurinn slyngi dáinn horfinn harmafregn. Blessuð sé minning Þórs Vigfússonar við Margrét þökkum allt og allt og vottum Hildi og fjölskyldu hans djúpa samúð.

Guðni Ágústsson.