Sigfús Jóhann Johnsen fæddist í Ögri í Ögurhreppi í N-Ísafjarðarsýslu 27. apríl 1940. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Slottet í Kaupmannahöfn 5. júní 2013. Foreldrar Sigfúsar voru Baldur Johnsen, læknir við Ísafjarðardjúp, í Vestmannaeyjum og Reykjavík, síðar forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Jóhanna Jóhannsdóttir Johnsen, söngkennari og konsertsöngkona í Reykjavík. Foreldrar Baldurs voru Sigfús M. Johnsen, lögfræðingur og bæjarfógeti í Vestmannaeyjum og Sigurveig Guðrún Sveinsdóttir, matreiðslukennari og húsfreyja í Reykjavík. Foreldrar Jóhönnu voru Jóhann Jóhannesson, bóndi á Möðruvöllum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði og Guðrún Skúladóttir húsfreyja. Sigfús kvæntist Pálínu Matthildi Kristinsdóttur, f. 14. janúar 1943, þann 27. desember 1964. Börn þeirra eru: 1) Kristinn, phd í eðlisfræði, f. 20. janúar 1966, maki hans er Herdís Dögg Sigurðardóttir. Börn Kristins frá fyrra hjónabandi eru Katrín, f. 1997 og Freyja, f. 1999. Börn Herdísar og stjúpbörn Kristins eru Jón Sigurður, f. 1988 og Zoe, f. 1996. 2) Jóhann Johnsen læknir, f. 7. maí 1969, maki hans er Inga Maren Johnsen. Börn þeirra eru Ebba, f. 2006 og Björn, f. 2008. Börn Jóhanns frá fyrra hjónabandi eru Viktoría Helga, f. 1993 og Benjamín Jóhann, f. 1996. 3) Valgerður Guðrún Johnsen, sagnfræðingur og kennari, f. 19. apríl 1972, maki hennar er Kristján Þór Árnason. Börn þeirra eru Sólveig Matthildur, f. 1994, Tómas Helgi, f. 1998 og Jóhann Gunnar, f. 2008. Að loknu stúdentsprófi frá MA 1959 lauk Sigfús meistaraprófi í tilraunaeðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann starfaði við háskólann þar til hann flutti til Íslands 1980 og var ráðinn dósent í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands þar sem hann hlaut framgang í starf prófessors 1987. Árið 1989 hóf hann aftur störf við Háskólann í Kaupmannahöfn þar sem hann starfaði við Niels Bohr-stofnunina til starfsloka. Sigfús varði mestöllum sínum starfsaldri við rannsóknir á djúpkjörnum úr Grænlandsjökli. Hann tók þátt í 36 borleiðöngrum á Grænlandsjökli og stjórnaði mörgum þeirra. Hann hlaut fjölda alþjóðlegra viðurkenninga sem brautryðjandi við hönnun og smíði ísbora sem og við öflun og túlkun margvíslegra vísindagagna á sviði eðlisfræði jökla og þróunar loftslagsbreytinga síðustu 150 þúsund árin. Sigfús hlaut m.a. Seligman-kristalinn, æðstu viðurkenningu Alþjóðasambands jöklafræðinga árið 1997. Danadrottning veitti Sigfúsi Dannebrogs-riddaraorðu árið 2000 og Sigfús var handhafi Hans Oeschger-orðu Evrópusambands jarðeðlisfræðinga fyrir framúrskarandi störf á sviði jöklarannsókna. Árið 2010 var Sigfús gerður að heiðursdoktor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og heiðursfélaga í Jöklarannsóknarfélagi Íslands. Sigfús er höfundur yfir 200 vísindagreina, þar af 35 greina í Nature og Science. Hann er í úrvalsflokki vísindamanna og samkvæmt ISI-gögnum Thomson Scientific Inc var oftar vitnað til verka hans, á árunum 1990-2004, en nokkurs annars jarðvísindamanns starfandi í Danmörku. Minningarathöfn um Sigfús Jóhann Johnsen fer fram í Fossvogskirkju í dag, 20. júní 2013, kl. 13.

Hájökull Grænlands er mikil víðátta. Þótt ferðast sé um hundruð og jafnvel þúsundir kílómetra getur ekkert annað að líta en endalausa breiðu snævar og íss, sem litlum breytingum hefur tekið um tugþúsundir ára. Líflaust má þar heita með öllu og aðeins er liðið skammt á aðra öld síðan menn lögðu þangað fyrst leiðir sínar. Marga merka landkönnuði og vísindamenn má telja í þeim hópi; Norðmanninn Nansen, Danina J.P. Koch og Knud Rasmussen, Þjóðverjann Wegener og Íslendinginn Vigfús Sigurðsson, sem gekk með þeim Koch og Wegener hina löngu leið yfir jökulinn fyrir 100 árum. Og þegar sögð verður sagan af því hvernig menn fóru að því að skyggnast niður í gegnum Grænlandsjökul allan og rekja með borunum hina löngu sögu, sem þar er skráð í freðin íslögin, mun hátt bera nafn merkilegs Íslendings, Sigfúsar Johnsens, sem nú hefur lotið í lægra haldi fyrir erfiðum sjúkleika.

Sigfús nam eðlisfræði við Hafnarháskóla og hóf þar störf að námi loknu 1966. Fljótlega tókst traust samstarf með honum og Willi Dansgaard prófessor, sem þá hafði byggt upp rannsóknastofu til mælinga á samsætum vetnis og súrefnis og leitt að því rök að sögu loftslags mætti rekja með mælingum á fornum jökulís. Þeim bauðst að mæla fyrsta djúpkjarnann úr Grænlandsjökli, sem boraður hafði verið á vegum bandarískra herverkefna og var afraksturinn merk grein í tímaritinu Science árið 1969, sem enn er vitnað til. Þar voru leidd sterk rök að því að ískjarninn geymdi um 100,000 ára sögu veðurfars á norðurhveli jarðar og var nú ævibraut Sigfúsar mörkuð, því við tóku sífellt nákvæmari og fjölbreyttari rannsóknir auk þess sem stöðugt var skyggnst lengra aftur í tímann. Nýjar aðferðir við aldursgreiningar ískjarna voru þróaðar og Sigfús setti fram fræðileg líkön af þynningu árlaga í stórum hveljökli og reiknaði út aldur íssins nærri botni. Einnig sýndi hann fram á skilyrði þess að árstíðasveiflur samsætuhlutfalla varðveitist, svo telja megi árlög í kjörnunum. Hann skýrði breytileika í fimbulkulda jökulíssins, sem mæla má í borholum og leiddi rök að því að þar gætti enn áhrifa hins kalda loftslags fyrir ísaldarlok. Uppruni vatnsgufunnar, sem skilar snjókomu á Grænlandsjökul var Sigfúsi einnig mjög hugleikinn og birtu þeir Dansgaard grein með merku framlagi til aukins skilnings á þeim efnum. Var oft til þess tekið meðal vísindamanna, hve frábærum árangri samstarf þeirra tvímenninga skilaði: Sigfús var eindæmum hugkvæmur og skapandi við þróun fræðilegra líkana, en þekking og yfirsýn Dansgaards var í besta lagi auk þess sem hann bjó að mikilli reynslu við ritun greina til birtingar í fremstu vísindatímaritum.

Á árunum 1980-2010 vannst svo hver sigurinn á fætur öðrum á hinum mikla jökli. Eftir að Bandaríkjamenn hættu bortilraunum þeim, sem þeir stunduðu á tíma kalda stríðsins, gerðist Sigfús forystumaður við hönnun og smíði ískjarnabora og reyndist ekki síður hugkvæmur við þróun tæknilausna en á sviði hinna fræðilegu rannsókna. Borunin við Dye 3 stöðina á sunnanverðum jöklinum náði botni á 2000 m dýpi 1981 og naut Sigfús þá meðal annars frábærrar aðstoðar Pálínu konu sinnar, sem tók þátt í verkefnum á jöklinum um 2ja áratuga skeið og stýrði oftast mælingum og skráningum ískjarnanna. Var ávallt kært með þeim hjónum, enda voru þau jafningar að greind auk þess sem lífsskoðanir þeirra fóru mjög saman.

GRIP borunin á hákolli Grænlandsjökuls 1989-1992 og rannsóknastarfið í kjölfar hennar var á marga lund hápunkturinn á ferli Sigfúsar. Þá gekk allt "som det var smurt", eins og Danir segja og var nú orðstír Sigfúsar og samstarfsmanna hans orðinn slíkur að borbúðirnar urðu smám saman að nokkurs konar sumarskóla í bortækni og ískjarnafræðum. Var þá stundum hægt að ganga niður í borgryfjuna og sjá þar í einum hnapp í kringum Sigfús vísinda- og tæknimenn frá Frakklandi, Þýskalandi, Englandi, Bandaríkjunum, Rússlandi, Japan og fleiri löndum. Þessir lærisveinar hans frá stórþjóðunum urðu síðar stjórnendur viðamikilla djúpborana á Suðurskautslandinu og víðar og má sérstaklega til nefna hinn fræga ískjarna frá Dome Concordia, sem segir sögu veðurfars og gróðurhúslofttegunda 800,000 ár aftur í tímann. Frá þeim fjarlæga stað í nánd við Suðurpólinn var stundum hringt í Sigfús, staddan í Kaupmannahöfn eða Reykjavík, til að leita ráða þegar eitthvað bjátaði á við borunina.

Úr hinum 3000 m langa GRIP ískjarna fengu Sigfús og hinn sístækkandi hópur samstarfsfólks hans stórmerkar upplýsingar um sögu síðasta jökulskeiðs. Loks var þá fengin staðfesting á því, sem þá hafði lengi grunað, að miklar og snöggar veðurfarssveiflur hefðu átt sér stað á jökulskeiðinu sjálfu. Er oft talað um að tímamót hafi orðið í loftslagsfræðunum er þessi niðurstaða var endanlega staðfest og frá henni greint í tímaritinu Nature árið 1992. Endurtók sagan sig þarna að nokkru leyti, því fyrir rúmri öld höfðu jarðfræðingar áttað sig á því með rannsóknum í Ölpunum, hér á Íslandi og víðar, að ísöldin hefði ekki verið samfelldur fimbulvetur, heldur hefðu skipst á jökulskeið og hlýskeið um nokkrar milljónir ára.

Og nú var að því komið að ná sem gleggstum upplýsingum um loftslag á síðasta hlýskeiði ísaldar, Eem-skeiðinu og var því á ný ráðist í djúpborun á NGRIP stöðinni á norðanverðum jöklinum. Sú borun fór fram 1996-2004 og reyndist hún Sigfúsi og öðrum allerfið, því þá var reynd ný bortækni sem talsverðan tíma tók að fullkomna. Ískjarninn veitti traustar upplýsingar um lok Eem-hlýskeiðsins á norðurhveli og var enn við þær niðurstöður bætt með NEEM boruninni, sem lauk árið 2010. Var Sigfús þá farinn að heilsu, enda hafði hann ávallt lagt sig allan fram við vinnuna í borgryfjunum, auk þess sem hann nýtti hverja stund á milli borvakta til að rýna í gögn sín og fræði. Mikið var jafnan til hans leitað um ráðgjöf og samstarf hvers konar og ávallt var hann boðinn og búinn að deila gögnum sínum með öðrum vísindamönnum. Félagslyndur var hann, einkar hlýr og einlægur í allri viðkynningu og oftast hrókur alls fagnaðar í samkvæmum, jafnt á jökli sem annars staðar. Þá var hann ávallt boðinn og búinn að rétta hjálparhönd, ef eitthvað bjátaði á hjá vinum og samstarfsfólki. Deilur og missætti koma auðvitað stundum upp meðal vísindamanna sem annarra, en slíkt forðaðist Sigfús og vægði fyrir þeim, sem sýndu honum ósanngirni, þá sjaldan það kom fyrir. Óvildarmenn átti hann enga og var eins og þegjandi samkomulag væri um það í fræðaheiminum að ekki skyldi blanda Sigfúsi í deilur eða flokkadrætti af neinu tagi, því allir fundu hversu eindregið starf hans allt miðaði að aukningu þekkingar og skilnings á náttúrunni og ekki síður að eindrægni og samvinnu milli þeirra, sem þessi fræði stunduðu. Við alla vildi ég gott eiga mælti Gunnar á Hlíðarenda eitt sinn við Njál vin sinn og fannst mér oft að Sigfús hefði þá setningu að einkunnarorðum.

Fjölskylda Sigfúsar hefur nú misst kæran eiginmann, föður og afa og fjölmargt vísinda- og fræðafólk saknar þessa merkismanns, sem dáður var og virtur um alla jörð. Með verkum sínum hefur Sigfús Johnsen reist sér veglegan bautastein og mun nafn hans verða á lofti um langan aldur.

Þorsteinn Þorsteinsson