Níels Maríus Blomsterberg fæddist í Reykjavík 15. janúar 1927. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 9. júní 2013. Foreldrar hans voru Frederik A. Hans Blomsterberg, fæddur í Helsingör 6. október 1898, d. 23. október 1949 og AnneLise Blomsterberg, fædd í Nörresundby 2. nóvember 1902, d. 14. mars 1997. Albróðir Maríusar var Hans Blomsterberg, f. 9. ágúst 1928 í Reykjavík, d. 8. september 2005. Hálfbræður Maríusar, samfeðra, eru: Bjarni Blomsterberg, f. 17. febrúar 1917 og Andrés Blomsterberg, f. 25. júní 1918, d. 16. apríl 1997. Maríus kvæntist 9. maí 1953 Maríu Þórhildi Óskarsdóttur, f. 18. júní 1931, d. 21. maí 2009. Foreldrar hennar voru Sesselja Þórðardóttir, f. á Gerðhömrum í Dýrafirði 11. desember 1892, d. 16. desember 1972 og Óskar Árnason, f. á Hvaleyri í Garðasókn 12. október 1894, d. 19. febrúar 1986. María átti tvo bræður og eina systur sem öll eru látin. Maríus og María eignuðust sex börn. Þau eru: 1) Emma Þórunn, f. 18. apríl 1950, gift Ómari Kristvinssyni, f. 9. maí 1950. Þau eiga þrjú börn, 7 barnabörn og 2 barnabarnabörn. 2) Óskar Árni, f. 17. október 1954, d. 1. janúar 1983. Óskar var í sambúð með Þórdísi Sigfúsdóttur, f. 3. júní 1964. Óskar átti 2 börn, 1 stjúpdóttur og 1 barnabarn. 3) Hans Pétur, f. 18. mars 1957, kvæntur Sigrúnu Hafsteinsdóttur, f. 30. desember 1959. Þau eiga 6 börn og 9 barnabörn. 4) Birgir Bogi, f. 8. nóvember 1960, kvæntur Bryndísi Halldóru Jónsdóttur, f. 4. mars 1961. Þau eiga 3 börn og 9 barnabörn. 5) Sesselja María, f. 29. september 1963, gift Gunnsteini Halldórssyni, f. 9. ágúst 1959. Þau eiga 2 börn og 1 barnabarn. 6) Sonur fæddur í nóvember 1965, lést fimm dögum síðar. Maríus eða „Blommi“ eins og hann vildi gjarnan láta kalla sig, ólst upp í Reykjavík . Faðir hans rak sláturhús og kjötvinnslu að Klömbrum í Reykjavík sem nú er þekkt sem Klambratún við Kjarvalsstaði. Hann lærði þar, af lærimeistaranum föður sínum, kjötiðnina sem hann vann við alla sína starfsævi. Hann var einn af stofnfélögum Félags íslenskra kjötiðnaðarmanna (FÍK) árið 1947 og var gerður að heiðursfélaga árið 1987. Einnig var hann í sveinsprófsnefnd og prófdómari í iðninni til margra ára. Blommi starfaði á ýmsum stöðum við fagið en lengst af við kjötvinnslu Kron í Brautarholti, kjötvinnslu Goða við Kirkjusand og síðar við sína eigin kjötvinnslu, Kjöt & álegg, sem hann svo síðar seldi. Eftir það kom hann við á nokkrum stöðum, m.a. Meistaranum, uns hann lét af störfum, þá kominn á aldur. Útför Maríusar verður frá Bústaðakirkju í dag, 24. júní 2013, kl. 13.

Nú er sá tími runninn upp, sem við vissum auðvitað að yrði óumflýjanlegur, en við öll höfum kviðið fyrir.
Pabbinn okkar, ættarhöfðinginn, sem við höfum fengið að hafa svo lengi hjá okkur er sofnaður svefninum langa og verður lagður við hlið mömmu, sem yfirgaf þessa jarðvist fyrir 4 árum síðan.
Þegar að mamma dó varð missir pabba mikill.
Gleðineistinn sem var alltaf til staðar, minnkaði svo um munaði, þó svo að alltaf væri stutt í spaugið og hnyttnu tilsvörin hjá honum. En án mömmu, var líf hans svo mikið breytt. Hann varð í raun bara hálfur maður.
Pabbi var litríkur og skondinn og stór karakter. Hann gatstundum verið umdeildurvegna fastmótaðra hugmynda sinna og ef hann beit eitthvað í sig, var ekki svo auðveldlega aftur snúið með þær.Það gat gustað af honum og í kringum hann svo um munaði, það þekkjum við sem þekktum hann best og annað samferðafólk í gegnum tíðina.
En pabbi var umfram allt yndislegur, ljúfur og elskulegur pabbi, með risastórt hjarta, sem rúmaði alla hans ástvini og ekki síst þá sem að minna máttu sín. Það samferðafólk hans sem hann vissi að átti eitthvað minna af veraldlegum gæðum gátu oft reitt sig á stuðning hans á einn eða annan hátt. Þrátt fyrir oft sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, þá var það mjúkur maður sem bjó undir skrápnum.
Sjálfur var hann ekkert ríkur á fé, en hann átti nóg fyrir okkur og rúmlega það, og þannig varði hann sínum auði. Að gefa þeim sem að minna máttu og áttu. Það er gott veganesti, að alast upp við það, að gleyma ekki þeim sem minna eiga og rétta hjálparhönd ef hægt er.
Pabbi gat oft verið kröftugur og farið hratt yfir. En ekki varðandi okkur systkinin þegar að við vorum lítil og hann var að kenna okkur hluti, eins og t.d. að hjóla, reima skó og blístra. Þar hafði hann endalausa þolinmæði.
Hann elskaði það að kenna okkur, það sem að gat verið erfitt að gera, allskyns brellur og klæki, og svo hristist stóri búkurinn hans af hlátri, því hann hafði svo gaman af, þegar að við vorum að baksa við að reyna að læra hlutina og mistakast hundrað sinnum.
Pabbi var sögumaður mikill og fannst ekkert leiðinlegt að gera góða sögu betri með leikrænum tilburðum og svipbrigðum.
Pabbi var kjötiðnaðarmeistari af Guðs náð og var afar fær á sínu sviði og gífurlega metnaðargjarn fyrir hönd iðnarinnar. Þar voru fáir honum fremri.
En við megum til með að nefna eitt atriði sem hann var ekki jafn góður í.
Hann var ekki besti ökumaður í heimi!
Hann eignaðist sinn fyrsta bíl ekki fyrr en  47 ára gamall og var því ekki mjög vanur ökuþór.
Oft fór hann með okkur í bíltúr og átti það til að keyra með hvítu punktalínurnar á milli dekkjanna. Þegar honum var bent pent á það að drífa sig yfir á réttan vegarhelming, sagði hann að þessar línur væru sérstaklega gerðar til þess að hafa á milli hjólanna. Svo flissaði hann, gaf í, og sá eini, svo vitað sé, sem komst upp í 60 í fyrsta gír áður en hann rykkti yfir í annan gír.
Það kom fyrir að hann renndi yfir á rauðu ljósi. Óvart að sjálfsögðu og þegar að hann uppskar skræki og skammir og allt varð vitlaust í bílnum, var hann fljótur að svara og segja að rauði liturinn væri svo miklu fallegri en sá græni. Þetta væri nefnilega VALS-liturinn! Það þarf varla að taka fram að hann var mikill Valsari.
Pabbi elskaði óperutónlist og spilaði hana mikið alla sína ævi. Hann átti sína uppáhalds söngvara og ógrynni af plötum og oftar en ekki, þegar að við vorum yngri og líka langt komin á unglingsárin opnaði hann hurðar og glugga eldsnemma um helgar, stillti hátölurunum út í garðinn og spilaði svo hátt að glumdi um allt hverfið.Svo dúllaði hann sér á meðan að hann naut þess að hlustaá hina fögru tóna, við að dytta að garðinum sínum. Pabbi var ekki  alltaf á topp tíu listanum hjá okkur í þá daga, né unglingunum í hverfinu sem að vildu fá frið til að sofa á frímorgnum. Fullorðna fólkið tók þessu  með stóískri ró, hló og hafði gaman af.
Þetta var bara Blommi.
Pabbi var með græna fingur og var alltaf að laga, bæta og breyta garðinum og aldrei var garðurinn eins, 2 ár í röð. Nágrannarnir göntuðust oft með það að engu líkara væri að trén hans Blomma væru með tær því hann var ótrúlega duglegur við að færa trén, sem sum hver voru ekki neinar smáspírur.
Það eru til ógrynni af skondnum sögum af pabba okkar í gegnum tíðina, sem við munum geyma í okkar ranni. Og þegar að við rifjum þær upp, þá er grátið af hlátri, því hann var einstakur karakter. Orðheppinn og skemmtilegur.
En pabbi fékk líka sinn skammt af sorginni. Ekkert fer eins illa með foreldri og að missa barn sitt og það á eins sviplegan og ósanngjarnan hátt og í þessu tilfelli. Þann harm tókst honum í raun aldrei að yfirstíga. En með tímanum tókst honum að halda því til hliðar enda heldur lífið áfram og því bera að lifa á þann besta hátt sem maður getur þó að höggin séu þung. Það gerði hann.
Við viljum þakka þessum einstaka manni, sem pabbi okkar var, allt það sem að hann hefur gert fyrir okkur í gegnum tíðina. Alla hans velvild, umhyggju, öryggi og ást. En umfram allt þökkum við honum fyrir lífið sem hann gaf okkur, ásamt mömmu. Þau voru yndislegir foreldrar og við erum þakklát fyrir að hafa lent hjá þeim. Þau grófu minningar í hjartað, ekki í marmara.
Megi þau bæði hvíla í friði, hlið við hlið, aftur eftir 4 ára aðskilnað.
Við elskum ykkur að eilífu. Verið Guði geymd.

Emma, Hans, Birgir og Sesselja.