Björk Þorgrímsdóttir fæddist á sjúkrahúsinu á Húsavík 29. maí 1953. Hún lést á gjörgæsludeild fjórðungssjúkrahúsins á Akureyri 19. júní 2013. Björk var dóttir Ninnu Kristbjargar Gestsdóttur, f. 19. október 1932, d. 1. janúar 2008, og Þorgríms Jónssonar, f. 20. desember 1931. Björk ólst upp hjá móður sinni og eiginmanni hennar, Helga Hallgrímssyni, f. 11. júní 1935, sem reyndist henni sem faðir. Einnig dvaldi hún mikið hjá móðurfjölskyldu sinni í Múla í Aðaldal. Systkini Bjarkar í móðurætt eru Hallgrímur, f. 1958, Gestur, f. 1960, og Heiðveig Agnes, f. 1970. Systkini Bjarkar í föðurætt eru Ósk, f. 1956, Drífa, f. 1960, Elfa, f. 1960, Kristín, f. 1961, Jón Jarl, f. 1962, og Eggert, f. 1964. Börn Bjarkar eru Árni Kristjánsson, f. 1969, faðir Kristján Hermannsson. Kristjana Ditta Sigurðardóttir, f. 1974, faðir Sigurður Ólafsson. Dóttir Kristjönu er Signý Eir, f. 2001. Helgi Rúnar Sveinsson, f. 1990, og Jón Heiðar Sveinsson, f. 1993, faðir þeirra og sambýlismaður Bjarkar Sveinn Friðriksson, f. 25. júní 1952, d. 1. nóv. 2005. Björk lærði til sjúkraliða og megnið af sinni starfsævi starfaði hún á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Nutu margar deildir innan sjúkrahússins starfskrafta hennar. Björk starfaði á Kristnesi þar til hún veiktist haustið 2011. Útför Bjarkar fer fram í Akureyrarkirkju í dag, 28. júní 2013, og hefst athöfnin kl. 13.30.
Mér er sagt að hún hafi verið svo lítil og létt þegar að hún fæddist að henni hafi vart verið hugað líf. Þegar leiðir okkar Bjarkar lágu saman var ég sex ára og hún fimm ára og stærri en ég. Mér þótti það í meðallagi ásættanlegt, enda á því þroskaskeiði þegar að aldur er beintengdur við stærð. Að flestu leyti var þessi nýja leiksystir mér framandi; hún hafði ekki þær skorður sem staðnað umhverfi sveitalífsins hafði sett mér, heldur var hún hvatvís og málgefin og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna í samskiptum við aðra. Á unglingsárunum fór hispursleysið og hreinskilnin sem einkenndi hana alla tíð að vera meira áberandi í fari hennar. Við áttum margar skemmtilegar samverustundir á Droplaugarstöðum, meðal annars að fara í útreiðartúra á síðkvöldum á Blesu og Drottningu með hundastrolluna á eftir okkur. Síðkvöldin hentuðu Björk vel enda gat hún verið ansi viðskotaill á morgnana þegar ég var að reyna að vekja hana til að fara að vinna eins og þá tíðkaðist á sveitabæjum. Hún hélt áfram að vera hærri en ég, tágrönn með topp og millisítt brúnt hár og það geislaði af henni. Tíminn leið og Björk lifði hratt og fullorðnaðist hratt, svo að ég sem var ennþá á sauðskinnskónum, missti sjónar af henni um hríð. Kornung eignaðist hún sitt fyrsta barn, Árna, sem hún þurfti svo að láta frá sér og þó hann færi í góðar hendur til ömmu og afa og hún umgengist hann talsvert, mun þessi viðskilnaður við barnið sitt hafa sett meira mark sitt á unga sál en fólk gerði sér grein fyrir. Þegar að hún svo nokkrum árum seinna eignaðist einkadótturina Kristjönu, var hún staðráðin í að ala önn fyrir henni sem hún gerði með aðstoð móður sinnar og stjúpföður.
Snemma byrjaði Björk að vinna við umönnunarstörf sem leiddi til þess að hún hóf sjúkraliðanám og lauk því og vann síðan á heilbrigðisstofnunum mest á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu alla starfsævina uns hún missti heilsuna fyrir um einu og hálfu ári síðan. Þegar við Björk ræddum um vinnuna hennar kom það berlega fram hversu vel hún var að sér um marga hluti og hve mikla sál hún lagði í starfið og eiginleikar sem hún fékk í vöggugjöf eins og samhygð, umhyggjusemi og kímnigáfa komu þar að góðu gagni.
Kaflaskipti urðu í lífi Bjarkar þegar hún hóf sambúð með Sveini Friðrikssyni og settist að í Hafnarstræti 9 þar sem hún átti heima til dauðadags. Þá eignaðist hún yngri drengina sína þá Helga Rúnar og Jón Heiðar. Strákarnir, eins og hún nefndi þá jafnan voru augasteinarnir hennar sem hún eyddi allri sinni orku í að ala upp, ekki síst eftir lát Sveins á meðan að þeir voru enn á barnsaldri. Hún var vakin og sofin yfir velferð þeirra en fann stundum sárt til þess hversu lítilsmegnug henni fannst hún vera. Svo eignaðist hún dótturdótturina Signýju Eir og hún ásamt frændsystkinunum á Setbergi voru henni stöðug uppspretta yndis og ánægju. Mörg gullkornin hafði hún eftir þeim þegar að þau dvöldu hjá henni eða jafnvel bara í spjalli við þau í síma.
Eins og Björk átti kyn til í móðurætt fannst henni eldamennska og matartilbúningur skemmtilegt starf og þar lék allt í höndunum á henni, hvort sem það var matargerð, bakstur eða handavinna. Þegar tvö yngstu börnin mín fermdust sá hún um fermingarveislurnar og þar var hún heldur betur á heimavelli. Skipulögð og sjálfstæð í vinnubrögðum sagði hún húsmóðurinni hvað best væri og hagkvæmast að hafa á borðstólum, hve mikið þyrfti og hvernig verkinu skyldi hagað miðað við aðra þætti svo sem gesti og kirkjuathafnir. Þarna var allt önnur Björk á ferðinni en sú sem oft virtist hafa lítið vald yfir eigin velferð og sinna nánustu. Þessi Björk var full sjálfstrausts og vissi hvað hún vildi, ekki það að húsmóðirin mátti alveg koma með tillögur til að ræða svona rétt á meðan að Björk settist niður og fékk sér eina rettu. Svo óskiljanlegt sem það var fyrir mig að nokkur byðist til að taka að sér fermingarveislu, rann það seint og um síðir upp fyrir mér að henni fannst þetta bara svo gaman. Oft síðan hef ég hugsað um það hve Björk hefði getað náð langt ef hún hefði átt þess kost að starfa við þetta áhugamál sitt og lagt rækt við það. Sem betur fer gat ég lítillega endurgoldið Björk þessa greiðasemi þau ár sem ég dvaldi á Akureyri við nám og störf. Oftast fólst það í einhverskonar skutli, þar sem ég var með bíl en hún ekki. Skutla Jóni í leikskólann, henni sjálfri í búðina, bankann eða bókasafnið eða hvað sem fyrir lá í það sinnið. Oft enduðum við slíkar ferðir á kaffihúsi, því að við þurftum endilega að prófa sem flest kaffihús í bænum. Þær ferðir verða nú ekki fleiri en gott er að eiga þær í minningunni. Líkt og forðum þegar að ég var ósátt við að Björk skyldi vera stærri en ég sem var eldri, er erfitt að sætta sig við að hún sem var yngri en ég, skuli vera farin yfir móðuna miklu. Eitt af því sem við Björk gerðum saman í nokkur ár var að fara með blóm á leiði systur minnar á vorin. Í fyrsta skiptið lá við að verkefnið yrði mér ofviða og ég sagði við Björk að mér fyndist ég ekki eiga að þurfa að vera þarna. Svarið hljómar enn í eyrum mínum: Ég er nú hrædd um að þú verðir að sætta þig við það, góða mín. Þannig er það víst líka núna. Við fjölskyldan í Haga 1 sendum aðstandendum Bjarkar okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíli hún í friði.
Bergljót Hallgrímsdóttir.