Guðmundur Andrésson fæddist á Felli í Árneshreppi 5. júlí 1928. Hann lést á Landakoti 21. júní 2013. Foreldrar hans voru Sigurlína Guðbjörg Valgeirsdóttir, f. í Norðurfirði 16.7. 1900, d. 6.11. 1992, og Andrés Guðmundsson, sjómaður og bóndi að Felli og síðar í Norðurfirði, f. í Munaðarnesi 11.9. 1982, d. 1.8. 1974. Systkini Guðmundar eru: Bernharð Adolf, f. 10.10. 1919, d. 3.5. 2003; Guðný, f. 10.1. 1921, d. 31.1. 1921; Bergþóra, f. 1.6. 1922, d. 30.4. 1992; Sigvaldi, f. 30.8. 1924, d. 7.1. 1998; Soffía Jakobína, f. 4.3. 1927, d. 18.4. 1962; Ólafur Andrés, f. 4.3. 1927, d. 5.7. 2006; Benedikt, f. 14.3. 1933; Guðrún. f. 18.3. 1935, d. 13.6. 1999; og Eygló Gréta, f. 13.2. 1939. Guðmundur kvæntist Þórunni M. Eyjólfsdóttur, f. 29.5. 1931, d. 3.11. 1992, árið 1968, þau skildu. Dóttir þeirra er Hrund Guðmundsdóttir, f. 2.4. 1969, búsett í Hafnarfirði. Dætur hennar eru Eva Dögg Hrundardóttir, f. 15.11. 1987 og Ylfur Rán Hrundardóttir, f. 24.4. 1990. Maki Hrundar er Ásgeir Valgarðsson, f. 22.11. 1967. Sonur þeirra er Tómas Hugi Ásgeirsson, f. 8.6. 2004. Sambýliskona Guðmundar er Salgerður Arnfinnsdóttir f. 11.10. 1937. Ylfur Rán A. Hrundardóttir á einn son, Guðmund Húma Ansnes. Guðmundur starfaði lengst af sem stýrimaður og skipstjóri. Útför Guðmundar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 3. júlí 2013, kl. 13.
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Það er ekki hægt að hefja minningargrein um hann pápa minn öðruvísi en á Hávamálum, þeir sem hann þekktu skilja það. Í dag kveð ég ekki eingöngu foreldrið mitt og uppalanda heldur einnig vin minn og sálufélaga. Ég er lánsöm því ég átti föður sem lét mig algjörlega finna það að ég var viljuð í þennan heim án nokkurs vafa. Slíkt markar líf á þann hátt að maður leggur sig aðeins aukreitis fram, eða þannig verkaði það á mig. Hann kenndi mér mikilvægustu lexíur lífs míns; Leggja mig fram um að tala gott og lifandi mál, vera jákvæð og sýna fólkinu mínu hlýtt viðmót og leitast við að hafa bætandi áhrif á það fólk sem ég umgengst. Ég er langt því frá að vera fullnuma í þessum lexíum, þær duga mér ævina á enda. Pabbi var fæddur að Felli í Árneshreppi í Strandasýslu og var í foreldrahúsum fyrstu átta ár ævinnar eða þar til móðir hans fékk berklaveikina en þá fór hann í fóstur í Ófeigsfjörð til Sveinbjarnar og Sigríðar þar sem hann ólst upp þar til hann hleypti heimdraganum. Hann fór í skóla að Reykholti og síðar í Héraðsskólann að Reykjum og Samvinnuskólann. Hann lauk Stýrimannaskólanum og starfaði sem skipstjóri og stýrimaður lengst af starfsævi sinnar. Ég man eftir sjálfri mér sem barni vera að telja dagana þar til hann pabbi kæmi heim, þá fengi ég pönnukökur með sykri og fisk sem var bestur þegar pabbi eldaði og ekki síst þá fengi ég vísur og hann söng fyrir mig áður en ég sofnaði, það var best. Hann kenndi mér að meta ljóð gömlu meistaranna og gaf lítið fyrir nútíma kveðskap þar sem honum fannst vanta hrynjandann. Hann gaf mér fyrstu ljóðabókin fyrir rúmlega tuttugu og þremur árum, ljóð Tómasar Guðmundssonar sem er orðin velkt og vel lesin. Það voru mörg ljóðin lesin úr þessari bók og hún var ávallt við hendina, líka þá mánuði sem hann dvaldist á sjúkrastofnunum. Þá var alltaf hægt að finna ljóð til að sefa hugann og gæða sér á til að gera rúmleguna hans léttbærari. Einræður Starkaðar eftir Einar Ben voru einnig okkar lífsakkeri í lífsins ólgusjó og við nutum hvers orðs og dæstum af velþóknun yfir fegurð þeirra og sannleikskjarna. Þegar hann varð leiður í lundinni var alltaf hægt að hressa hann við með glaðlegum söng frá sokkabandsárum hans eins og það var kátt hérna um laugardagskvöldið á Gili eða segja honum fréttir úr sveitinni hans eða af barnabörnunum og langafabarninu hans og nafna, þá varð hann bísperrtur af gleði og stolti yfir afkomendum sínum. Afabörnin hans voru hans stolt og yndi og ekkert hefði getað glatt hann meir en þegar dóttursonur hans, Tómas Hugi kom og dansaði fyrir hann á sjúkrastofunni að Landakoti. Dótturdætur hans voru honum einnig mjög hjartfólgnar og fylgdist hann náið með gæfu þeirra og gengi og gladdist yfir sigrum þeirra. Hugurinn hvarflaði oft í sveitina hans sem honum þótti svo ofur vænt um og var honum tíðrætt um mikilvægi þess að þekkja rætur sínar því sá sem þekkti uppruna sinn væri aldrei vegalaus. Hann talaði ávallt hlýlega um systkini sín og oft viknaði honum um augun þegar hann talaði um Bernharð elsta bróður sinn sem hann sagði hafa verið klettinn og þau systkinin hafi ávallt getað leitað til. Hann var Benna, eins og hann var kallaður, og Laugu konu hans ævarandi þakklátur fyrir að hafa veitt mér þann munað að kynnast sveitinni okkar og veitt mér skjól. Oftar en ekki sagði pápi minn ég á öllum gott að gjalda. Í spjalli okkar nokkru fyrir andlát hans kom þetta viðhorf hans til samferðarfólks hans aftur í ljós þegar hann sagði við mig fólk er gott, fólk er svo mikið, mikið gott.
Ég veit að nú hefur hann pápi minn fengið hvíldina sem hann var farin að þrá svo heitt. Ég vel að trúa því að hann sé nú kominn til hennar ömmu sem hann unni svo heitt og dáðist að dugnaði hennar og styrk. Ég veit að ljóðið Þá var ég ungur eftir Örn Arnarson átti sérstakan stað í hjarta hans og kom oft fram á honum tárum og ég veit hversvegna. Því kveð ég þig elskulegi pápi minn stórgallaðan og stórkostlegan eins og lífið sjálft með þessum ljóðlínum því þannig getur það bara verið:
Nú er ég aldin að árum.
Um sig meinin grafa.
Senn er sólarlag.
Svíður í gömlum sárum.
Samt er gaman að hafa
lifað svo langan dag.
Er syrtir af nótt, til sængur er mál
að ganga,
sæt mun hvíldin eftir vegferð
stranga,
þá vildi ég, móðir mín,
að mildin þín
svæfði mig svefninum langa.
(Örn Arnarson)
Guð geymi þig.
Þín dóttir,
Hrund Guðmundsdóttir.