Ingunn Ósk Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 24. september 1917. Hún lést á Dvalarheimilinu Lundi, Hellu, 27. júní 2013. Foreldrar Ingunnar Óskar voru Sigurður Kristinn Einarsson, f. 12. ágúst 1891, d. 19. júní 1926 og Margrét Kristjánsdóttir, f. 8. apríl 1893, d. 2. maí 1987. Systkini Ingunnar Óskar eru: Kristján Ársæll, f. 9. júlí 1920, d. 7. júlí 2012, Einar, f. 7. júlí 1922 og Gunnþórunn, f. 10. febrúar 1924. Ingunn Ósk giftist 17. júní 1944 Páli Björgvinssyni, f. 20. ágúst 1898, d. 8. apríl 1967. Foreldrar Páls voru Björgvin Vigfússon, f. 21. október 1866, d. 12. september 1942 og Ragnheiður Ingibjörg Einarsdóttir, f. 21. desember 1865, d. 15. desember 1944. Dætur Ingunnar Óskar og Páls eru: 1) Ragnheiður Sigrún Pálsdóttir, f. 11. janúar 1945, maki Þórir Yngvi Snorrason, f. 14. ágúst 1940. Sonur þeirra: Páll Ragnar Þórisson, f. 25. janúar 1975, maki Brynja Rut Sigurðardóttir, f. 21. janúar 1976. Börn þeirra: Ágúst Þór, f. 17. maí 2005, Helga Sigrún, f. 29. júlí 2009 og Inga Mjöll, f. 3. mars 2012. 2) Helga Björg Pálsdóttir, f. 16. júní 1949, maki Guðmundur Magnússon, f. 5. janúar 1948. Börn þeirra eru: a) Páll Björgvin Guðmundsson, f. 15. ágúst 1970, maki Hildur Ýr Gísladóttir, f. 31. maí 1972. Börn þeirra eru Bergsteinn, f. 14. febrúar 1995, Katrín Björg, f. 8. október 1999 og Ragnar Páll, f. 20. maí 2007. b) Magnús Ragnar Guðmundsson, f. 9. júní 1975, sambýliskona Lena Zielinski, f. 13. ágúst 1974. Sonur þeirra Matthías Zielinski, f. 31. janúar 2013. c) Ragnheiður Ósk Guðmundsdóttir, f. 22. október 1985. Ingunn Ósk ólst upp hjá foreldrum sínum í Reykjavík til níu ára aldurs, eða þangað til faðir hennar lést árið 1926. Í kjölfar andláts hans fór hún í fóstur til föðursystur sinnar, Jarþrúðar Einarsdóttur, f. 17. ágúst 1897, d. 6. janúar 1967. Ingunn Ósk eyddi æskuárum sínum að miklu leyti á Tóftum í Stokkseyrarhreppi hjá föðurömmu sinni og afa. Ingunn Ósk gekk í Húsmæðraskólann á Hallormsstað 1936-1938 og í kjölfarið starfaði hún þar í einn vetur. Ingunn Ósk flutti að Efra-Hvoli árið 1944 þegar hún giftist Páli Björgvinssyni. Þar ráku þau Páll stórt heimili og myndarbú. Rekstur búsins kom oft í hlut Ingunnar þar sem Páll var oddviti Hvolhrepps og þurfti að sinna ýmsum verkefnum bæði heima og að heiman. Í kjölfar andláts Páls árið 1967 rak hún búið ein og síðar með dætrum sínum og tengdasonum. Ingunn Ósk átti heima á Efra-Hvoli til ársins 2003 er hún flutti að Dvalarheimilinu Lundi, Hellu. Útför Ingunnar Óskar fer fram frá Stórólfshvolskirkju í dag, 12. júlí 2013, kl. 15.

Þegar mér bárust þau tíðindi, að Ingunn Sigurðardóttir frá Efra-Hvoli væri látin í hárri elli fór margt í gegnum hugann frá löngu liðinni tíð. Ég kom fyrst að Efra-Hvoli sem kaupamaður sumarið ´65, þá á 16. ári. Þar var þá rekið stórbú á þess tíma mælikvarða, með kúm, kindum og hestum. Ég man enn nokkuð ljóst, þegar eiginmaður Ingunnar Páll Björgvinsson oddviti sótti mig í eigin persónu niður í Þykkvabæ í Rangárþingi á Willisnum sínum. Ég sá fljótt, að þarna fór einlægur og góður maður, sem ekki talaði niður til unga mannsins, en tók honum sem jafningja og ræddi við hann um heima og geima á leiðinni til baka að Efra-Hvoli. Enn er mér sérstaklega minnisstætt er við komum að mörkum landareignarinnar, er hann sleppti höndum augnablik af stýrinu, breiddi út faðminn og lýsti því yfir, að hér hæfist dýrðin og átti það eftir að koma betur og betur í ljós. Að ég skyldi svo vera þarna næstu tvö sumur á eftir, þ.e. sumrin ´66 og ´67 segir allt um það, hvernig mér líkaði vistin á þessum góða stað. Ég held, að ég unglingurinn hafi vart getað orðið heppnari með íverustað. Fyrir það getur maður nú verið þakklátur. Þarna var manni algerlega tekið sem einum af heimilismeðlimum og þarf ekki að útlista nánar. Þar átti Ingunn ekki minnstan hlut að máli. Mikil vinna og skemmtileg beið manns þarna og væri kannski talað um þrældóm í dag. Ekki held ég að maður hafi borið neinn skaða af nema síður sé. Maður hefur bara haft gott af þessu og á í dag ekkert nema góðar minningar frá þessum tíma, sem fylgt hafa manni til þessa dags. Ég átti eftir að gerast nokkrum árum síðar aftur kaupamaður á Efra-Hvoli í tvö sumur og þá hjá Ingunni, en maður hennar fyrr nefndur var þá látinn, en hann lést árið ´67. Þetta voru sumrin ´72 og ´73. Ingunn hringdi í mig og sagðist vanta mann ekki seinna en strax. Hún spurði mig, hvort ég væri til í að taka að mér þau mörgu verk er biðu úrlausnar, sem aðallega snéru að heyskap. Ég hafði ekkert ráðstafað mér og því meira en til í það og raunar hlakkaði til þess, að takast að nýju á við hin fjölbreyttu og skemmtilegu sveitastörf. Segir það ekki eitthvað um þann hug sem ég bar til þessa heimilis og minnar fyrrverandi húsmóður? Það þarf ekki að orðlengja það, að þarna átti ég að nýju ógleymanlegar og skemmtilegar stundir, sem voru þó í eðli sínu svolítið öðruvísi en forðum enda nú orðinn nokkru eldri með allt sem því getur fylgt og verður ekki orðlengt hér. Ég minnist Ingunnar sem afar glaðværrar, hláturmildrar og léttlyndrar konu, sem bauð af sér afar þægilega nærveru. Hún gat þó sýnt festu og ákveðni þegar það átti við. Það var gaman að ræða við hana, því hún virtist vera vel heima í mörgu og hafa áhuga á mörgu sem ungt fólk var að fást við og ræddi jafnan þau mál alveg fordómalaus. Ég man, að hún reyndi oft að ráða mér heilt, en henni hefur stundum fundist ungi maðurinn fara fram úr sér þó ekki sé meira sagt. Ég hugsa að ráðleggingar hennar hafi síast inn, þó ekki hafi komið í ljós fyrr en löngu síðar. Ég vil að lokum enda þessar sundurlausu endurminningar frá þessum yndislega tíma með ljóðkorni, sem ort er fyrir margt löngu og birtist í ljóðabók minni Demónar og fóbíur, sem kom út í árslok 2010. Ljóðið er ofið úr minningamyndum frá þessum tíma, sýnum, sem hugurinn varðveitir.

Sumarnótt.

Mynd sú enn í minningu er tær.
Þá mynd umlykur fagur draumablær.
Þá hrifnæmi og önd þín óspillt var.
Nú ei með sama hraða hjarta slær.

Fyrir dögun blundur hvarf af brá.
Þér blárri morgunskímu tókst að ná
fyrr en upp af beði röðull reis,
að roða hvel og þerra döggvuð strá.

Þá yfir fjöllin gægist gullin sól
og geislaflóði steypir yfir ból.
Á dalsins bæjarglugga glampa slær.
Í greinum trjáa fuglar fara á ról.

Sem aðrir sofa ættir þú nú rótt
og orku safna svo af hafir gnótt
enn einn fyrir unaðsríkan dag
eftir hljóða fagra sumarnótt.

En þess í stað í dáleiðslu á dýrð
vors Drottins horfir, ei til hvílu snýrð
og teygar fullan bikar lífs í botn
og burtu langt frá amstri hversdags flýrð.

Þú veröldina vakna sérð á ný,
varma sól upp rekja þokuský.
Þú kindur heyrir kalla á lömbin sín,
sérð kýr sem liggja ennþá rónni í.

Sér eitthvað fegra Drottins dauðleg hjörð?
Er dásamlegri önnur til hans gjörð,
en engilblíð og ástrík sumarnótt?
Er eitthvað fegra til á vorri jörð?

Aðstandendum votta ég samúð mína.
Blessuð sé minning Ingunnar Sigurðardóttur frá Efra-Hvoli.

Sveinn Auðunsson.