Bergþóra Sigurðardóttir fæddist að Skjöldólfsstöðum í Breiðdal 31. desember 1922. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 9. júlí 2013. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurður Sigurðsson bóndi, f. 25. mars 1879, d. 27.11. 1960, frá Kálfafelli í Suðursveit, og Arnleif Kristjánsdóttir ljósmóðir, f. 17. 9. 1882, d. 31. 7 1969, frá Löndum í Stöðvarfirði. Systkini Bergþóru eru: Margrét, f. 25.1. 1909, d. 12.9. 1989, Guðmundur, f. 28.9. 1919, d. 15.7. 2011, Helga, f. 3.12. 1923, Kristbjörg, f. 29.9. 1927, d. 16.1. 2009. Bergþóra giftist 6.8. 1948 Pétri Sigurðssyni frá Ósi í Breiðdal, f. 22.1. 1917, d. 5.1. 2010. Börn þeirra eru: 1) Arnleif, f. 3.9. 1946, maki Manfred Kleindienst, dóttir Arnleifar er Linda Mjöll, f. 17.7. 1968, maki Daníel H. Sigmundsson. 2) Jóhanna, f. 2.5. 1948, maki Sveinn F. Jóhannsson, dóttir þeirra er Elsa Guðrún, f. 17.1. 1990, í sambúð með Sigurði Halldórssyni, börn Jóhönnu eru: Hallgrímur, f. 2.11. 1970, Íris, f. 9.12. 1973, maki Jóhann Friðleifsson, sonur Sveins er Heiðar, f. 15.9. 1968. 3) Sigurður, f. 31.3.1950, maki Ólöf Kristjánsdóttir, dætur þeirra eru: Þóra, f. 2.6. 1976, maki Völundur S. Völundarson, Arna, f. 9.3. 1979, maki Sigurður V. Jakobsson. 4) Hreinn, f. 7.4. 1953, maki Linda H. Guðmundsdóttir, synir þeirra eru: Pétur Arnar, f. 22.9. 1993, og Guðmundur Arnþór, f. 26.6. 1996. 5) Pétur, f. 9.5. 1958, maki Ingunn H. Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru: Bylgja Lind, f. 11.2.1985, maki Pétur S. Guðmannsson, Sunna Rún, f. 21.7. 1989, Magni Þór, f. 16.10. 1995. Barnabarnabörnin eru 11. Bergþóra ólst upp á Skjöldólfsstöðum í Breiðdal við hefðbundin sveitastörf þess tíma, hún fór til klæðskeranáms í Hoffell, Hornafirði ung að árum, ári seinna var hún við störf á Eskifirði hjá Lúðvíki sýslumanni, á stríðsárunum fór hún til Reykjavíkur og starfaði við mötuneyti stúdenta í HÍ. Pétur og Bergþóra stofnuðu heimili á Breiðdalsvík 1945 í Gamla kaupfélaginu, þar fæddust öll börnin. Árið 1967 fluttu þau í nýbyggt hús sitt, Helluvík, þar sem hún bjó til dauðadags. Bergþóra sá um og sinnti stóru heimili, auk fjölskyldunnar voru á heimili hennar tvær eldri manneskjur, þau Baldvin Björnsson og Guðfinna Eiríksdóttir. Mjög gestkvæmt var á heimilinu og var ekki óalgengt að fleiri sætu til borðs en fjölskyldan. Vegna starfa Péturs var mjög gestkvæmt sem áður segir og þurfti oft að greiða götu fólks bæði hvað varðar mat og gistingu. Bergþóra var annáluð hannyrðakona og bar þar mest á saumaskap og var algengt að hún saumaði kjóla á konur í þorpinu fyrir þorrablót og hjónaböll. Auk hefðbundinna heimilisstarfa vann Bergþóra utan heimilis í frystihúsinu og við síldarsöltun. Hún var mikill dýravinur og kom það glöggt fram við búrekstur þeirra Péturs, á Ósi, en þar ráku þau fjárbú um árabil. Bergþóra var vel lesin og þekkti vel til sögu þjóðar sinnar, ættfræði var henni einnig hugleikin. Útför Bergþóru fer fram frá Heydalakirkju í dag, 20. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 12.

Það er merkilegt með tímann að hann er eins og vatnið. Flæðir stöðugt áfram án þess að við verðum þess nokkuð vör né veitum því nánast nokkra athygli. Það kemur mér því alltaf jafn mikið á óvart þegar ég sé litlu börnin í fjölskyldunni allt í einu komin á fermingaraldur og eldri ættingjar falla frá. Bergþóra frænka var ein af mínum uppáhalds frænkum og þó hún næði níræðisaldri á síðustu áramótum var hún alltaf jafn skýr og skemmtileg kona. Hún var vel að sér og gaman að ræða við hana hin ýmsu efni allt frá hannyrðum til heimspeki. Alls staðar var frænka með á nótunum.
Ég átti því láni að fagna að fá að dvelja á heimili frænku í tvo vetur meðan að ég sótti skóla á Breiðdalsvík á unglingsaldri. Það var draumur fyrir sveitastúlku að fá að búa hjá flottri frænku í næsta þorpi. Kynnast og vera með góðu fólki þegar óvissan sem fylgir því að fara að heiman hellist yfir. Mér leið alltaf mjög vel í Helluvík hjá frændfólki mínu enda Bergþóra einstaklega lík mömmu. Á heimilinu voru auk þeirra hjóna ömmustelpan hún Linda sem er og verður sólargeisli allra sem henni kynnast en einnig þeir eðal frændur Hreinn og Gummi. Ég er óendanlega þakklát fyrir að fá að kynnast þeim öllum.
Enn í dag get ég hæglega séð fyrir mér þau systkinin sem nú eru öll látin: Móður mína, Kristbjörgu, Gumma og Bergþóru, að skeggræða gamla tíma: Liðna daga frá æskuheimilinu að Skjöldólfstöðum, ættfræði, ættingja, búskapinn eða bara landsins gagn og nauðsynjar. Þá var oft slegið sér á lær og sagt: Segðu það maður. Ekki þó síst þegar umræðuefnið var ungviði en það mátti einu gilda hvor um væri að ræða barn, lamb eða æðarunga. Af þeim skein umhyggjan og virðing fyrir öllu lífi.
Bergþóra sinnti sínu heimili af alúð, frábær mamma, amma og langamma, bakaði heimsins bestu vöfflur og var annáluð fyrir mikla hæfileika við saumavélina. Ég vildi að einhver hefði tekið myndir af öllum þeim flíkum sem flæddu í gegnum hendurnar á frænku. Hún saumaði ekki bara, nánast allt, á sig og sína heldur marga þorpsbúa. Það er ekki vafi í mínum huga að ef komið væri upp hannyrðasafni á Breiðdalsvík ætti hún þar stórt sýningarsvæði.
Það er gott þegar horfa þarf á bak góðum vinum að rifja upp góðar minningar. Í dag þegar við kveðjum konu sem var alla tíð glöð og kát og full af lífi, þrátt fyrir að lífið tæki sama toll hjá henni og öllum öðrum, er ég fyrst og síðast þakklát fyrir að hafa fengið að eiga hana að. Ekki bara sem góða frænku og fróða heldur einnig hvetjara og nánast sem móður til tveggja ára.
Síðast þegar við frænka hittumst var það í kirkjugarðinum á Álftanesi við gröf foreldra minna en þar var hún að heilsa upp á systur sína með Jóhönnu dóttur sinni. Við Stefanía systir vorum þá á gönguferð um Garðaholtið. Það var eins og fundum okkar væri stýrt því við systur tókum óvænt ákvörðun um að fara í garðinn og þær mæðgur ætluðu bara aðeins að kíkja þangað. Mikið var gaman að hitta þær, eins og alltaf, svo fínar og flottar og enginn hefði getað trúað því að frænka væri að verða níræð. Bar sig vel og þó heyrnin og heilsan væri að daprast þá var ekki verið að barma sér. Nei enda engin ástæða til að hennar mati.
Við hinstu kveðju vottum við systur, börnum Bergþóru og afkomendum, innilega samúð okkar en við Sigrún áttum góðar stundir með þeim fyrir tveim árum þegar við kvöddum Gumma frænda og lifum enn í minningunni um góðar samverustundir.

Siggerður Ólöf og Sigrún Guðleif Sigurðardætur frá Karlsstöðum.