Margrét Birna Valdimarsdóttir fæddist í Reykjavík 8. ágúst 1938. Hún lést á heimili sínu 30. ágúst 2013. Foreldrar hennar voru Valdimar Björnsson, sjómaður frá Gafli í Villingaholtshreppi, f. 5.8. 1907, d. 19.2. 1991 og Ingibjörg Helgadóttir, vinnukona frá Hreimsstöðum í Norðurárdal í Borgarfirði, f. 28.10. 1904, d. 29.3. 1944. Síðar kvæntist Valdimar Huldu Pálínu Vigfúsdóttur, f. 20.7. 1918, d. 7.7. 2000. Systkini Margrétar Birnu eru þau: Valgeir Hilmar Valdimarsson, f. 14.4. 1930. Kristín Vigdís Valdimarsdóttir, f. 11.11. 1952 og Björn Valdimarsson, f. 9.1. 1955. Stjúpsystur hennar eru þær Guðrún Erla Skúladóttir, f. 27.7. 1935 og Jensína Nanna Eiríksdóttir, f. 15.12. 1940. Margrét Birna eignaðist einn son, Valdimar Örn, f. 20.7. 1961. Hún giftist Vali Símonarsyni 9.3. 1963, f. 7.3. 1942, d. 15.5. 2007, sem ættleiddi Valdimar. Maki Valdimars er Snjólaug Kristín Jakobsdóttir, f. 15.8. 1964. Dætur þeirra eru Snædís Anna, f. 23.7. 1991 og Valdís Lind, f. 24.11. 1999. Dóttir Valdimars er Margrét Birna, f. 9.4. 1985, sambýlismaður Páll Axel Vilbergsson. Börn Margrétar Birnu: Gísli Matthías, f. 25.10. 2007 og Ásdís Vala, f. 19.12. 2012 Margrét Birna fór í fóstur að Skarðshömrum í Borgarfirði eftir að móðir hennar lést. Ólst síðan upp hjá föður sínum og síðar stjúpmóður í Hlíðunum þar til hún flutti til Hilmars bróður síns um 16 ára aldur. Árið 1961 eignaðist hún Valdimar Örn en flutti til Keflavíkur ári seinna og gerðist ráðskona hjá Símoni Gíslasyni. Þar kynntist hún Vali Símonarsyni, syni hans, sem hún giftist. Margrét Birna vann ýmis verslunar- og þjónustustörf. Vann meðal annars á Aðalstöðinni leigubílastöð, hjá Kaupfélagi Suðurnesja og síðustu árin vann hún hjá Pósti og síma. Útför Margrétar Birnu fer fram frá Njarðvíkurkirkju, Innri-Njarðvík, í dag, 6. september 2013, kl. 15.
Öll börn sem alast upp í blokk þurfa að hafa eina Birnu hjá sér.
Ef mamma var ekki við þá var Birna alltaf við. Ég man eftir einu skipti þar sem við systurnar forum í bíó að sjá Óla prik og ég hafði innbyrt aðeins of mikið sælgæti og ældi yfir allt, systir mín var ekki tilbúin til að fara með mig heim því hún vildi ekki missa af bíóferðinni. Hún hringdi heim til að láta ná í mig, þar svaraði enginn þá hringdi hún bara í Birnu og hún sótti skjóðu sína í bíó og passaði þar til mamma kom heim, þetta var að sjálfsögðu fyrir tíma farsíma og mamma hafði einungis brugðið sér í búð.
Þetta lýsir Birnu best, alltaf var hún til staðar alveg frá því að ég fæddist. Hún var mér eins og besta amma en ég kallaði hana alltaf Birnu. Ég var viðstödd þegar Lassi hundurinn hennar fæddist og átti alltaf mikið í honum, þegar aðrar stelpur voru með börn í vist á róló þá var ég með Lassi og fékk örugglega mikið meira borgað en þær. Það eru svo margar minningar sem fljúga um huga minn. Valur var mikið á sjó og Birna og Valdi voru mikið bara tvö, ég sat í fanginu á Valda í húsbóndastólnum og alltaf spurði ég: Valdi, af hverju áttu ekki kærustu og svarið var alltaf: ég er svo feitur, það vill mig engin! Að sjálfsögðu eignaðist Valdi kærustu og þau fengu að passa mig, mér leiddist það ekki.
Og alltaf þegar foreldrar Birnu kíktu í heimsókn fékk ég það hlutverk að bjóða Valda eldri vindla, mér fannst það mjög merkilegt hlutverk. Það útskýrir matinn sem Birna eldaði sem var helmingi betri en maturinn hjá mömmu minni. Alltaf ýsa í orlý með djúpsteiktum frönskum, mér fannst það best. Það var ekki til djúpsteikingarpottur á mínu heimili og þetta var eina leiðin til að fá mig til að borða fisk.
Við Birna fluttum úr blokkinni á svipuðum tíma, við fjölskyldan á Greniteiginn og þau Valur í Innri-Njarðvík, sem þótti mjög langt að fara á þeim tíma. Samt lagði ég það á mig að kíkja í heimsókn, tók vinkonu mína með mér og nesti og við hjóluðum alla leið, bara til að kíkja á Lassa og Birnu. Ég fór oft í næturpössun til Birnu og man ég sérstaklega eftir því að eftir að hún flutti í Innri-Njarðvík þá var hún með kapalkerfi í sjónvarpinu en það var bara komið þar á þessum tíma. Ég fékk að vaka eins lengi og ég gat og alltaf var matur í boði, sama hvað klukkan var. Brauð í ofni með skinku, osti, aspas og mæjó. Svo fórum við að sofa á sama tíma, oft um miðjar nætur, og Lassi á milli okkar.
Þegar ég var 15, var ég örugglega ekki besti unglingur sem sögur fara af. Mamma og pabbi þurftu að bregða sér norður og þá voru góð ráð dýr, hvað áttu þau að gera við unglinginn? Að sjálfsögðu tók Birna það að sér að passa mig og það sem ég hafði það kósý, fékk að vera eins lengi úti og ég vildi, Birna vakti mig og skutlaði mér í skólann, hún græjaði morgunmat og nesti og allt. Þetta var eins og himnaríki fyrir óþekkan ungling eins og mig. Ég lét vini mína skutla mér í Innri-Njarðvík á kvöldin, þetta var svo langt, á mótorhjóli og Birna setti ekkert út á það eins og foreldrarnir hefðu gert.
Ég hitti Birnu síðast í vor, í kaffi heima hjá mömmu þar sem allar þessar sögur og fleiri voru rifjaðar upp. Ég er svo þakklát fyrir þann kaffitíma, þar sem ég hafði ekki hitt hana, að neinu ráði, í 10 ár. Við töluðum um það einmitt að síðast þegar við hittumst til spjalla þá var eldri sonur minn nýfæddur. Hann varð 10 ára í apríl.
Alltaf var hún Birna mín stolt af syni sínum, Valda, og stelpunum hans 3. Hún talaði mikið um þau og Snjólaugu, tengdadóttur sína. Mér finnst eins og ég þekki þær mæðgur persónulega, svo mikið veit ég um þær.
Hún og Gréta, alnafna hennar, náðu einstaklega vel saman. Í einni af utanlandsferðunum sem þau Valur fóru í saman létu þau mála mynd af Grétu sem er mér alltaf svo minnisstæð. Hún hvílir nú hjá Val og Lassa, sem huggar mig.
Þetta og svo margt margt fleira gæti ég sagt um hana Birnu mína.
Elsku Valdi, Snjólaug, Gréta og börn, Snædís og Valdís. Hugur minn er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.
Hallveig Fróðadóttir.