Páll Steindór Steindórsson flugstjóri fæddist í Reykjavík 3. desember 1966. Hann lést í flugslysi á Akureyri 5. ágúst 2013. Foreldrar hans eru Guðný Pálsdóttir kennari frá Siglufirði f. 21. nóvember 1943 og Steindór Hjörleifsson, f. 25. apríl 1938, d. 6. janúar 2011. Systkini Páls eru Halldór Már Stefánsson, búsettur í Barcelónu á Spáni, kvæntur Maríu J. Boira. Hanna Kristín Steindórsdóttir; Hjörtur Þór Steindórsson, í sambúð með Thelmu Guðmundsdóttur, búsett í Reykjavík, og Ólöf Kristín Daníelsdóttir, í sambúð með Jóni Hrólfi Baldurssyni, búsett á Siglufirði. Eftirlifandi unnustu sinni og sambýliskonu, Sigríði Maríu Hammer viðskiptafræðingi, f. 19. janúar 1971, kynntist Páll á Akureyri árið 1997 og reyndist það honum hin mesta gæfa. Sigríður María er dóttir hjónanna Maríu Elísabetar Behrend frá Sjávarbakka í Arnarneshreppi og Bjarna Debess Hammer frá Þórshöfn í Færeyjum. Þau eignuðust tvær dætur, Guðnýju Birtu f. 22. janúar 2001 og Söru Elísabetu f. 7. september 2002. Þau bjuggu í Reykjavík á meðan Páll lauk atvinnuflugmannsprófi. Hann starfaði um tíma sem flugkennari í Reykjavík og vann hjá Flugfélagi Íslands. Þegar honum bauðst staða hjá flugfélaginu Mýflugi við að fljúga sjúkraflugvélum flutti fjölskyldan norður á Akureyri þar sem þau reistu sér heimili að Pílutúni 2. Þar átti Páll ófá handtökin við að smíða og innrétta nýja heimilið þó aldrei hefði hann lært smíðar. Honum var margt til lista lagt og hafði ávallt mörg járn í eldinum. Hann var hörkuduglegur og útsjónarsamur og voru þau Sigríður sérlega samhent um alla hluti. Þau ferðuðust vítt og breitt um heiminn með dæturnar og nutu þess að vera saman. Árið 2012 keyptu þau gistiheimilið Gulu Villuna og í ár bættu þau við sig Gistiheimilinu Súlum. Rekstur gistiheimilanna sáu þau um í sameiningu og unnu hlið við hlið að starfseminni. Páll Steindór ólst upp í Reykjavík fyrstu 7 árin, fyrst með foreldrum sínum en síðar með móður sinni og sambýlismanni hennar, Stefáni Má Halldórssyni og fluttist svo með móður sinni og bróður að Hellu þar sem þau bjuggu til ársins 1984 en þá flutti fjölskyldan til Selfoss. Höfðu þá bæst við systir og stjúpfaðir, Daníel Þorsteinsson. Páll lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1985 og flutti til Akureyrar þar sem hann vann við sjávarútveg, og nam einnig eitt ár við Háskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Akureyrar. Hann tók þátt í ýmsum hljómsveitarævintýrum og var meðal annars í hinni þekktu hljómsveit Skurk. Páll hafði alla ævi mikinn áhuga á hjólum og bílum og átti bíl frá 16 ára aldri auk skellinaðra og mótorhjóla af ýmsum gerðum. Hann tók þátt í keppnum bæði á hjólum og bílum og var meðlimur í Bílaklúbb Akureyrar. Hann skilur eftir fyrir utan húsið sitt gamlan gulan Broncojeppa sem oft hefur verið keppt á og Mustang sem var framtíðarverkefnið. En flugið varð hans aðalatvinna og var hann flugstjóri á sjúkraflugvél frá Mýflugi þegar hann lést. Útför Páls Steindórs fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, miðvikudaginn 14. ágúst 2013, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Þegar ég frétti að það hefði sjúkraflugvél frá Mýflugi farist á Akureyri þá var það fyrsta sem ég hugsaði Guð, ég vona að Palli hafi ekki verið að fljúga. En það var því miður raunin.

Ég kynntist Palla fyrst á Spilahöllinni á Akureyri fyrir um það bil 26 árum síðan. Á Spilahöllinni héngu litskrúðugustu ungmenni Akureyrar og vorum við Palli í þeim hópi. Mér líkaði strax vel við þennan hressa strák sem var alltaf í góðu skapi og góður við alla.

Næst lágu leiðir okkar saman í Karate tímum hjá Magga á Akureyri. Ég var búin að æfa í nokkra mánuði og komin með gula beltið þegar næsti nýliðahópur byrjaði, og þar á meðal var Palli. Ég man alltaf hvað mér fannst fyndið að sjá þessa fullorðnu menn, eins og mér fannst þeir vera þá, rúmlega tvítugir, í jogging-buxunum sínum mæta á fyrstu æfingarnar, með ekkert þol og algjörir stirðbusar. Ég gat ekki annað en hlegið að þeim og Palli var með þeim verri. En það breyttist nú heldur betur og þegar ég hætti að æfa þá var Palli kominn jafn langt og ég í gráðum og stóð sig rosalega vel. Það var rosalega gaman hjá okkur í karatetímum og hittumst við stundum þar fyrir utan og er mér minnisstæðast þegar við hittumst heima hjá Palla og horfðum á Enter the Dragon með Bruce Lee og drukkum bjór og slógumst.

Að lokum lágu leiðir okkar saman í mótorhjólabransanum. Það var mjög skemmtilegur tími þar sem við ferðuðumst saman, hittumst á Sniglafundum og oftar en ekki var partý hjá Palla í Norðurgötunni. Það var alltaf stutt í húmorinn hjá Palla. Ég man árið 1997 þá vorum við Palli saman í landsmótsnefnd fyrir Landsmót Snigla. Við gerðum okkur ferð upp á brekku í gamla appelsínugula Skodanum okkar Ingós (Repsol Skodanum) til að fá lánað gjallarhorn. Á leiðinni heim aftur keyrðum við fram hjá Akureyrarsundlauginni. Þar voru útlendingar að labba og gerði Palli sér lítið fyrir og stakk hausnum út um gluggann, mundaði gjallarhornið og gólaði Welcome to Iceland, have a nice day. Önnur skemmtileg minning sem kemur upp í huga mér er þegar Palli sprautaði hjólið mitt fyrir mig. Þá voru einhver blankheit á manni svo það var ákveðið að sprauta hjólið með venjulegum spraybrúsum og kom það í hlut Palla að gera það þar sem hann var svo handlaginn. Þennan fallega vordag sem Palli sprautaði svo hjólið var blíðskaparveður úti svo Palli ákvað að fara út í garð og sprauta hlífarnar þar. En það vildi ekki betur til en svo að þegar hann var nýbúinn að sprauta eina litla hliðarhlíf þá kom vindhviða og feykti hlífinni í laufblaðshrúgu. Palla fannst þetta drepfyndið og var að hugsa um að hafa hjólið allt svona, gult með laufblöðum á. Svo fékk hann reyndar enn betri hugmynd og það var að búa til svona nammihjól. Sem sagt gult lakk, svo fullt af nammi á hjólið og glært lakk yfir. Já, Palli fékk ýmsar skemmtilegar hugmyndir.

En minnisstæðust er mér mótorhjólaferð sem við fórum í um Hvítasunnuhelgi 1995. Við gistum á Skagaströnd fyrstu nóttina og ætluðum í Borgarfjörð daginn eftir. Þegar við komum út um morguninn þá voru snjóskaflar á hjólunum. Við létum það nú ekki stoppa okkur og héldum í Munaðarnes eftir mikinn barning við að koma Palla á fætur þar sem hann hafði fengið sér aðeins of mikið neðan í því. Það var búið að vera eitthvað vesen með hjólin þeirra Palla og Ingós alla ferðina og vorum við meira og minna stopp á verkstæðum og bóndabæjum á meðan Palli og Ingó reyndu að koma hjólunum sínum í lag. Þegar við komum í Munaðarnes þá stoppuðum við við afleggjarann og vorum að bíða eftir einhverjum sem höfðu dregist aftur úr. Maja stykki var eitthvað að gera grín að Palla svo Palli gleymdi sér í einhverjum leikrænum húmor og passaði ekki nógu vel upp á hjólið sitt sem stóð mjög tæpt í halla og það datt á hliðina. Eftir það varð hjólið algjörlega ógangfært og þurfti Palli á endanum að fara heim með rútunni. Honum tókst nú samt að verða á undan okkur heim þar sem við þurftum enn og aftur að stoppa á bóndabæ út af hjólinu hans Ingós.

Ég man þegar Palli og Sía fóru að vera saman, það var sumarið 1997. Loksins kom stúlka í líf hans sem hann elskaði nógu mikið til að gerast ráðsettur með. Elsku Sía, Guðný Birta og Sara Elísabet, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Palli er einn af þeim mönnum sem ég hef kynnst sem mér hefur alltaf þótt mjög vænt um þó við höfum ekki verið í sambandi síðustu árin. Þið eruð heppnar að hafa fengið að hafa hann í lífi ykkar þó allt of stutt væri. Ég bið Guð og englana um að senda ykkur ljós og styrk og vaka yfir ykkur.

Maríanna Þorgilsdóttir (Maja).