Hans Aðalsteinn Valdimarsson fæddist í Vatnsfjarðarseli, Ísafjarðardjúpi, 18. mars 1918. Hans andaðist á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 4. september 2013. Foreldrar hans voru þau voru Sigurgeir Valdimar Steinsson, f. 6. ágúst 1878, d. 6. september 1953, og Björg Þórðardóttir, f. 28. júní 1890, d. 1. ágúst 1980. Hans átti þrjú systkin, Hrólf, f. 17. janúar 1917, d. 23. júní 2003, Gunnar, f. 22. nóvember 1923, og Ingibjörgu Steinunni, f. 5. mars 1928. Hans kvæntist 2. desember 1944 Stefaníu Finnbogadóttur, f. 9. desember 1919, d. 14. ágúst 2001. Hans og Stefanía eignuðust fjórar dætur, þær eru: Jónína Jórunn, f. 12. júlí 1945, gift Sigurgeiri Garðarssyni, f. 24. janúar 1945, og eiga þau fjögur börn, 14 barnabörn og eitt barnabarnabarn. Björg Valdís Hansdóttir, f. 17. apríl 1950, gift Frosta Gunnarssyni, f. 9. maí 1950, og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. Ásdís Margrét, f. 25. júní 1951, gift Óskari Kárasyni, f. 27. október 1953, eiga þau eitt barn og tvö barnabörn. Þóra Hansdóttir, f. 26. júlí 1954, gift Sigurði Zakaríasi Ólafssyni, f. 21. júní 1946, og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn. Fyrir átti Stefanía dótturina Huldu Kristjánsdóttur, f. 26. mars 1938, d. 18. janúar 1995. Hún var gift Sigmundi Sigmundssyni. f. 23. ágúst 1930, áttu þau sjö börn, 20 barnabörn og 24 barnabarnabörn. Einnig ólu Hans og Stefanía upp frænda Stefaníu frá þriggja ára aldri, Sigurð H. Karlsson, f. 6. febrúar 1961. Hans og Stefanía byrjuðu sinn búskap í Miðhúsum Ísafjarðardjúpi vorið 1946, og bjuggu þar til 1994 er þau fluttu á Hlíf 2, Ísafirði. Hans verður jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju í dag, 14. sepember 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Mig langar með fáeinum fátæklegum orðum að minnast föður míns. Það er svo margt, sem leitar á hugann, þegar maður sjálfur tilheyrir elstu kynslóðinni. Eins og börnin mín minnast afa og ömmu, vil ég óska að barnabörnin mín minnist mín, þegar þar að kemur.

Pabbi fæddist og ólst upp við kröpp kjör, en naut þess þó að foreldrar hans gátu haft börnin sín hjá sér. Sparsemi og nýtni var í hávegum höfð og með það að leiðarljósi ásamt heiðarleika, dugnaði og trúmennsku komst hann áfram í lífinu.

Ég man vordaga við sauðburð og túnávinnslu. Alltaf hafði pabbi tíma til að leiðbeina og kenna okkur. Við lærðum að þekkja fuglana og gróðurtegundirnar og hlusta á náttúruna. Við lærðum hve mikilvægt var að sinna ánum vel um burðinn og skilja þarfir þeirra.

Ég man sumardaga og pabbi stóð við slátt, enginn hamagangur en ljáförin löng og breið. Þannig vann hann. Aldrei nein læti, en vannst þó ótrúlega vel. Eftir að dráttarvélin kom á heimilið var auðvitað allt, sem véltækt var slegið með sláttuvél, en móarnir og útskæfurnar freistuðu bóndans, sem vissi að hvert strá var dýrt.

Ég man haustdaga. Ég held að haustið hafi byrjað með því að við vorum sendar af stað að ná í einhverja tiltekna á, oftast tvílembu. Þá var leitalömbunum slátrað. Ákveðin vísbending til þess að nú fór sá tími í hönd, sem var bæði skemmtilegur og tregablandinn. Göngur og réttir, með lífi og fjöri. Ánægjan, sem fylgdi því að heimta vel og sjá fjárhópinn renna heim, var að sönnu mikil. Að velja líflömbin var alltaf spennandi, en svo þurfti að reka stærsta hlutann á sláturhús. Allar götur til 1973 var slátrað á Hjalltanganum í Vatnsfirði. Bændurnir unnu sjálfir að slátruninni og afurðirnar voru sendar með djúpbátnum daglega til Ísafjarðar. Þó sláturstörfin, sem slík, gætu varla talist skemmtileg, var þetta nokkurskonar félagsmiðstöð þennan tíma. Bændurnir kynntust nánar en þeir hefðu annars gert, gistu enda flestir í Vatnsfirði í húsi Ungmennafélagsins Vísis. Eftir að við systur komumst á legg, var mamma einnig niðurfrá og eldaði fyrir karlana. Það var alltaf svolítið spennandi að skreppa niður eftir og heyra í körlunum. Við þessar aðstæður er engin ritskoðun í gangi og kannski var þetta ekki ólíkt stemmingu í beitningaskúrum.

Ég man vetrardaga. Pabbi sinnti gegningum, mokaði húsin og fór með símanum eftir alla óveðurskafla. Að fara með símanum fólst í því að Geir, símstöðvarstjóri og bóndi í Skálavík, fékk pabba í lið með sér til að finna bilanir og samslátt á loftlínu símans, sem óhjákvæmilega fylgdi í kjölfar óveðurs. Þá löbbuðu þessir karlar tugi kílómetra með línunni og leituðu að samslætti eða slitinni línu, gerðu við og löbbuðu svo heim til sín. Síminn, þetta frábæra samskiptatæki var talsvert annað í þá daga en lítið tæki í vasa, sem ná má sambandi hvert í heiminum sem er. Oft á vetrarkvöldum eftir gegningar, meðan mamma sinnti eldhúsverkum, leiðbeindi pabbi okkur systrum við að sníða og sauma föt á dúkkurnar okkar. Eftir að skólaganga okkar í Barnaskólanum í Reykjanesi hófst hjálpaði hann okkur með heimadæmin. Ég man að mér fannst Björg og Ása vera svolítið öfundsverðar, þegar þær sátu við stofuborðið og nutu leiðsagnar pabba, en svo kom röðin að mér og betri kennslu hef ég ekki notið.

Foreldrar mínir voru samtaka um það að kenna okkur tillitsemi og heiðarleika. Mikið vona ég að þessir eiginleikar verði alltaf í hávegum hafðir í fjölskyldunni.

Vinátta og samhugur allra nágrannanna í sveitinni eru mér ofarlega í huga og ég man eftir skemmtilegum heimsóknum margra af því ágæta fólki. Gagnkvæm virðing og samvinna var á milli manna og allir voru alltaf tilbúnir að hjálpast að.

Í maí sl. henti það að pabbi datt á eldhúsgólfinu heima hjá sér og brotnaði þá hægri öxl hans. Fyrstu vikuna leit út fyrir að hann ætlaði að komast í gegn um þetta, eins og annað, en níutíu og fimm ára líkami er kannski ekki alveg í stakk búinn til að takast á við slíkt, auk daglegs viðhalds og fljótlega varð okkur ljóst að hann stigi ekki aftur í sína þreyttu fætur. Gamla góða hjartað hans sýndi þó ótrúlegt úthald og seiglu og það var ekki fyrr en eftir nær fjögurra mánaða baráttu að það lét loks undan. Þó að þetta væri kannski sorglegur endir, þá hefði hann getað verið erfiðari. Hann bjó heima hjá sér alveg fram að þessu og eldaði sinn hafragraut sjálfur á hverju kvöldi. Fyrir það ber að þakka.

Starfsfólk heimþjónustunnar, sem hann kallaði dömurnar sínar sinnti honum afar vel síðustu árin og erum við systur þeim afar þakklátar. Síðustu mánuðina á sjúkrahúsinu naut hann einstakrar hlýju og natni hjúkrunarfólksins þar. Guð blessi allt þetta góða fólk og störf þess.

Þóra Hansdóttir.