Sigurður Hólmgrímsson fæddist á Hrauni í Aðaldal 4. október 1928. Hann lést á Grenilundi, Grenivík, 7. september 2013. Móðir hans var Margrét Bjarnadóttir, f. 31.8. 1901, d. 13.3. 1986. Faðir hans var Hólmgrímur Sigurðsson, f. 9.2. 1901. d. 20.5. 1987. Sigurður var elstur af fjórum systkinum en þau eru Kristín, f. 1932, Bjarni, f. 1933, d. 2002, og Snjólaug Bergljót, f. 1942. Sigurður á fimm dætur með Guðrúnu Jónínu Eiríksdóttur. 1) Sigríður Margrét aðjunkt í kennslufræðum, f. 1973. Sambýlismaður hennar er Stip Bos kennari, f. 1968. Börn þeirra eru Lara, f. 2000, Roman Darri, f. 2003, Rafael, f. 2006, Elías, f. 2006, og Sunna, f. 2013. 2) Jóna Bergþóra viðskiptafræðingur, f. 1974. Eiginmaður hennar er Ólafur Daníel Jónsson margmiðlunarfræðingur, f. 1975. Börn þeirra eru Álfheiður Una, f. 2002, Guðrún Lilja, f. 2007, Jón Kristján, f. 2011, og Sigurður Gunnar, f. 2013. 3) Laufey Björg, nemi í arkitektúr, f. 1976. Eiginmaður hennar er Kjartan Pálsson tölvunarfræðingur, f. 1977. Synir þeirra eru Lárus Ármann, f. 2003, og Styrmir, f. 2010. 4) Sólveig Kristín verkfræðingur, f. 1977. Eiginmaður hennar er Gunnar Gunnarsson stærðfræðingur, f. 1977. Börn þeirra eru Arndís Dúna, f. 2003, Sigurður Bragi, f. 2009, og Þórdís Jóna, f. 2012. 5) Jónasína Fanney Sigurðardóttir félagsfræðingur, f. 1983. Sambýlismaður hennar er Haraldur Lúðvíksson verkfræðingur, f. 1980. Dóttir þeirra er Unnur Bergþóra, f. 2012. Tveggja ára gamall flutti Sigurður með foreldrum sínum að Dæli í Fnjóskadal og ólst þar upp. Tvítugur að aldri flutti fjölskyldan sig yfir að Ystu-Vík í Grýtubakkahreppi og þar bjó hann þar til fyrr á þessu ári að hann fór á Grenilund, Grenivík. Hann gekk í barnaskóla á Skógum í Fnjóskadal og var tvo vetur í smíðadeildinni í Laugaskóla. Sem ungur maður vann hann mörg sumur á skurðgröfu og var nokkra vetur á vertíðum þar til hann snéri sér alfarið að búskap í Ystu-Vík. Útför Sigurðar fer fram frá Svalbarðskirkju, Svalbarðsströnd, í dag, 16. september 2013, klukkan 14.

Nú er hann Sigurður Hólmgrímsson, tengdafaðir minn, farinn til feðra sina. Það var þannig með hann Sigga að hann hafði tvær hliðar, önnur var einstrengingsleg, sérlunduð og skapstór en hin var góðleg, gjafmild, vitur og víðlesin. Það var svo merkilegt að hann komst alveg upp með það að vera einstrengingslegur, sérlundaður og skapstór á köflum því að hin hliðin á honum var svo hlý og gefandi.

Siggi elskaði landið sitt Ísland, og þá sérstaklega hverja þúfu sem hafði fóstrað hann ungan að árum, þar eð í Dæli í Fnjóskadal og svo síðar í Ystu Vík. Það var unun að ferðast með honum ef maður var ekki að flýta sér því óskahraði Sigga um þjóðvegi landsins var undir 60. Hann þurfti að geta séð sig um en einnig vildi hann hafa nægan tíma til að segja frá. Það var varla sá sveitabær á Norðurlandi sem hann þekkti ekki til á og gat sagt sögur af ábúendum sem þar höfðu verið á þeim tíma sem hann fór um sveitirnar við annan mann á vegum ræktunarsambandsins og gerði framræsluskurði fyrir bændur. Það var eins og Siggi myndi hvert orð sem sagt hafði verið við matarborðið á þessum bæjum þegar þeir félagar fóru þar um. En tengdafaðir minn var ekki bara vel að sér um sínar nágrannasveitir því hann var gríðarlega víðlesinn og fróður þrátt fyrir skamma skólagöngu. Útvarpið var hann með beint í æð nánast allan sólarhringinn frá því að ég kynntist honum og þá sérstaklega Rás 1 eða bara þá stöð sem eitthvað áhugavert var á hverjum tíma og gat hann meira að segja vitnað í Tvíhöfða þegar þeir voru á dagskrá. Blöðin las hann staf fyrir staf og alltaf var hann með ævisögur og/eða fræðibækur við höndina. Hann var að mennta sig til dánardags og innbyrti allan fróðleik af áhuga. Hann var áhugasamur um sögu bæði Íslands og mannkynsins. Hann gat auðveldlega rekið mann á gat í mannkynssögu heimsins þegar hann var að velta fyrir sér uppruna hinna ýmsu þjóðflokka og blöndun þeirra, sumir með nöfn sem ég minntist þess ekki að hafa heyrt áður. Ég man að ein fyrstu jólin sem ég eyddi í Ystu Vík ásamt Jónu, konunni minni, systrum hennar og Sigga var Trivial Pursuit dregið fram. Siggi harðneitaði að taka þátt en sat álengdar með bók eða blað og svaraði svo nánast annarri hverri spurningu rétt og gilti þá einu hvaða lið var að fá spurninguna. var það ekki&. eða ætlið þið að segja mér að þið vitið ekki að þetta var& heyrðist hvað eftir annað.

Sumarið 1999 er mér sérstaklega minnisstætt. Þá lögðum við land undir fót ,Sigurður tengdafaðir minn lagði til fararskjótinn, stuttan Pajero sem hann hafði keypt árinu áður og með í för voru dætur hans tvær, Jóna og Sigga Magga og undirritaður. Tjaldi og farangri náðum við að troða í bílinn með okkur. Fiskur og kjöt ættað úr Ystu Vík var með í för og átti að grilla. Ferðaplanið var nokkuð opið en ætlunin var að þræða sveitir Suðurlands. Þetta var hálfgerð pílagrímsför hjá Sigga en hann virtist líta á þetta á þeim tíma sem sína hinstu reisu um Suðurlandið og hann var stöðugt að setja það sem hann hafði lesið í samhengi við það sem fyrir augu bar og reyna að fræða okkur unga fólkið. Það er skemmst frá því að segja að við yfirgáfum Ystu Vík og héldum yfir Sprengisand. Í Nýjadal vorum við um kvöldmatarleytið og við unga fólkið vildum tjalda og grilla fiskinn sem við vorum með með okkur. Siggi var ekki á því dagsbirtan skyldi notuð meðan gæfist og við gætum alltaf fundið stað til að tjalda sunnar á Sprengisandi. Þetta fór á endanum þannig að við tjölduðum í Landmannalaugum í kolniða myrkri og ekkert var grillað það kvöldið. Þetta var lýsandi fyrir ferðina en hún var að mati Sigga ekki farin til þess að hugga sig á tjaldstæðum landsins heldur til að sjá sig um í sveitum Suðurlands. Í minningunni er þetta með skemmtilegri ferðalögum sem ég hef farið, þegar við vorum búin að sætta okkur við að láta öll plön um matartíma og gististaði lönd og leið og láta kylfu (og Sigga) ráða kasti. Þarna ókum við nánast alla mögulega vegi og slóða á Suðurlandi í nokkra daga. Uppgötvuðum þegar við vorum í Húsafelli að það var hápunktur verslunarmannahelgarinnar. Þá dró Siggi fram flösku af íslensku brennivíni sem var það eina áfenga sem hann hafði fundið í Ystu Vík við brottförina. Þessu sulluðum við saman við kók og gáfum Húnvetningum með okkur sem við rákumst á. Siggi hafði mjög gaman af því hvað ungdómnum þótti um þessa blöndu okkar.

Siggi var alltaf mjög elskur að dætrum sínum og barnabörnum. Hafði hann sérstaklega gaman af börnum sem voru á þeim aldri að hægt var að hossa þeim á hné sér og kankast á við þau. Aldrei hafði fæðst gáfulegra barn en það sem hann var með í fanginu hverju sinni.

Siggi var safnari af guðs náð og gat ekki með nokkru móti fengið af sér að henda því sem mögulega gat komið að notum síðar. Mat mátti hann ekki sjá fara í ruslið. Einnig varð að bjarga hinu og þessu allt frá litlum plast döllum upp í ónýta bíla. Viðkvæðið hans var það hefði nú verið gott að eiga þetta í Dæli í gamla daga. Með tímanum lærði maður að bera virðingu fyrir þessari áráttu hans til að bjarga verðmætum, enda sagði hann, sem satt var þið vitið ekki hvað það er að líða skort og vera svöng.

Siggi keypti litla skurðgröfu fyrir nokkrum árum ásamt Guðmundi bróðursyni sínum. Það var ótrúlegt að sjá hvernig hann yngdist upp og færðist allur í aukana við þetta. Hann var orðinn haltur og skakkur en í gröfunni gat hann setið og unnið að jarðabótum þannig að okkur dætrum og tengdasonum var stundum nóg um. Hann átti það til að gleyma sér og grafa í 12-14 klukkutíma án þessa að fara heim að næra sig. Hann hafði það stundum á orði að hann mætti ekki vera að því að drepast fyrr en hann væri búinn með þessar jarðarbætur.

En enginn má við ellikerlingu og kom hún að vitja Sigga að endingu. Eftir lifa minningar um góðan mann. Honum safnaðist ekki veraldlegur auður því alltaf gaf hann ef hann var aflögufær og honum fannst aðrir þurfa meira á því að halda en hann sjálfur. En eftir hann lifa 5 yndislegar dætur og fjöldi barnabarna sem öll elskuðu hann og dýrkuðu.

Farðu í friði kæri vinur.

Þinn tengdasonur,

Ólafur Daníel (Óli Dan).