Reynar fæddist á Vaðstakksheiði í Neshreppi utan Ennis 26. febrúar 1922. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 19. september 2013. Foreldrar hans voru Guðrún Guðbjörnsdóttir, f. 24.5. 1892, d. 11.4. 1974, og Hannes Elísson, f. 19.4. 1892, d. 25.4. 1984. Þau bjuggu fyrst á Hellissandi og síðar í Reykjavík. Systkini Reynars eru: Helga, Elís, Berta, Hallveig og Richard. Þau eru öll látin nema Richard. Hinn 17. júní 1944 kvæntist Reynar Sigríði Sigfúsdóttur frá Stóru-Hvalsá í Bæjarhreppi í Strandasýslu, f. 9.11. 1921, d. 24.2. 1998. Foreldrar hennar voru Sigfús Sigfússon, f. 7.8. 1887, d. 29.1. 1958, og Kristín Guðmundsdóttir, f. 8.10. 1888, d. 15.2. 1963. Sigríður var ein 14 systkina. Börn Reynars og Sigríðar eru: 1) Gunnar Hannes, f. 25.11. 1944, börn hans eru Pétur Tyrfingur, f. 16.6. 1969, Gunnar Reynar, f. 12.1. 1986, og Sigurður Björn, f. 1.7. 1988. Gunnar er í sambúð með Fjólu Ingþórsdóttur. 2) Sigrún, f. 15.1. 1947, eiginmaður hennar er Gísli Ellerup, börn hennar eru Sigríður Anna, f. 1.6. 1965, maki hennar er Geir Gunnlaugsson. Þau eiga þrjú börn, Reynar Ellerup, f. 13.4. 1974. 3) Bjarni, f. 5.1. 1948, hann er kvæntur Jóhönnu Einarsdóttur, f. 11.11. 1952. Barn hans er Ragnar Páll, f. 9.2. 1970, kona hans er Hulda G. Valdimarsdóttir, þau eiga þrjú börn, börn Bjarna og Jóhönnu eru Einar Hugi, f. 16.11. 1977, kona hans er Margrét Þorsteinsdóttir, þau eiga eina dóttur, Reynar Kári, f. 13.1. 1982, kona hans er Erla Dís Arnardóttir, þau eiga eina dóttur, Halldóra Sigríður, f. 26.1. 1989. 4) Elís, f. 20.1. 1958, kona hans er Steinunn Kristín Jónsdóttir, þau skildu, börn þeirra eru Ástrós Elísdóttir, f. 4.9. 1982, maki hennar er Valtýr Sigurðsson, þau eiga tvö börn, Jón, f. 2.8. 1984, Svana Kristín, f. 18.1. 1989. Þegar Reynar var fimm ára flutti fjölskyldan á Hellissand og bjuggu þau þar til 1941 að þau fluttu til Reykjavíkur. Árið 1953 hóf hann störf hjá Olíufélaginu hf. Esso þar sem hann vann samfellt í um 40 ár, lengst af sem stöðvarstjóri á Gelgjutanga. Þar hafði hann yfirumsjón með flestum verklegum framkvæmdum fyrirtækisins. Reynar aflaði sér menntunar eftir því sem tök voru á, fór bæði á verkstjórnarnámskeið og Dale Carnegie-námskeið. Þá fór hann nokkrar ferðir til útlanda til að kaupa vörubíla fyrir Esso, m.a. Bedford- og Man-vörubíla. Hann tók virkan þátt í starfi Oddfellowstúkunnar Þorkels mána um áratugi og var þar yfirmeistari um tíma. Útför Reynars fer fram frá Neskirkju í dag, 26. september 2013, kl. 15.
Okkar ástkæri Reynar er fallinn frá. Þó vitað sé að kallið geti komið
hjá öldruðum manni þá var það samt óvænt, eiginlega ótímabært. Reynar var
lélegur til heilsunnar síðastliðin ár en alltaf gott að koma til hans. Hann
hélt þeim eiginleikum sínum til hinstu stundar að vera jákvæður,
uppbyggilegur og glettinn. Þessir eiginleikar ásamt þrautseigju nýttust
honum í heilsufarsáföllum á efri árum og við missi konu sinnar Sigríðar, en
hún lést 1998. Reynar var fæddur og uppalinn á Snæfellsnesi og á tímabili
nágranni föður míns á Hellissandi þegar báðir voru ungir að árum. Á þessum
árum sóttu menn sér ekki söngvara né hljóðfæraleikara langt að. Reynar átti
þá þegar góða söngrödd og rifjaði stundum upp með trega og stolti þegar
hann 18 ára gamall söng einsöng við útför frænda síns sem lést ungur frá
konu og börnum. Reynar lék á þessum árum stundum fyrir dansi á harmonikku.
Hann endurnýjaði svo kynnin við harmonikkuna um það leyti sem hann fór á
eftirlaun. Söngröddin hans fagra veitti okkur fjölskyldunni gleði.
Uppáhaldið okkar var Næturljóð Chopin, það krefst góðs raddsviðs og
fallegrar túlkunar og varð einmitt svo fallegt í hans meðförum. Fleiri
uppáhaldslög áttum við líka með Reynari, svosem Hvar ertu vina sem varst
mér svo kær. Reynar og Sigga bjuggu sér hlýlegt skjól í Skorradal. Honum
féll aldrei verk úr hendi og fann sér sífellt eitthvað að dytta að. Við
fjölskyldan höfum átt þar ómældar ánægjustundir. Á heimili þeirra hjóna bjó
ég tvö ár á menntaskólaárunum. Þá var Elli í Samvinnuskólanum á Bifröst en
þeim þótti sjálfsagt að bjóða mér að búa hjá sér á meðan og mat ég það
mikils. Reynar og Sigga fóru á eftirlaun um það leyti sem börnin voru í
leikskóla og að byrja sína skólagöngu. Þau voru boðin og búin að gæta
þeirra á starfsdögum. Og börnin voru sæl með að fara til afa og ömmu á
Hagamel. Þar fengu þau góðan og hollan mat, hlustuðu á gamla og góða
tónlist, teiknuðu, lituðu, spiluðu og spjölluðu margt. Starfsævi sína átti
Reynar framan af hjá Landleiðum og síðan Olíufélaginu Esso.
Þar gegndi hann ábyrgðarstöðu í áratugi, sem yfirmaður á Gelgjutanga.
Starfið krafðist yfirsýnar margra verkþátta og starfsmannahalds. Þar var
verkstæði fyrir bílaflotann, birgðastöð, og samráð við afgreiðslustaði út
um landið. Mín tilfinning var sú að Reynar hafi leyst þetta vel af hendi og
verið farsæll í starfi. Eitt sinn á frídegi á menntaskólaárunum fór ég í
eftirlitsferð með Reynari á Snæfellsnesið. Þessi ferð er ógleymanleg, hann
þuldi upp bæi og frásagnir af fólki alla leiðina, dreif mig inní kaffi á
viðkomustöðunum og svo var hann góður bílstjóri - og fór hratt yfir. Ég
segi hér ekkert um hvar bensínmælirinn lá mestan hluta ferðarinnar.
Synirnir störfuðu um lengri eða skemmri tíma hjá Esso, og margt snérist því
um þetta fyrirtæki. Börnin okkar Ella spurðu leikfélagana í byrjun að því
hvaða olíufélagi þeir héldu með, það stóð þeim nær en að spyrja um
íþróttafélag. Reynar átti það áhugamál að starfa með Oddfellow og gegndi
m.a. ábyrgðarstörfum. Hann hélt því eins lengi og heilsa leyfði.
Gegnum tíðina hafði hann líka gaman af veiði, fór einkum í laxveiði þegar
færi gafst. Á efri árum gætti hann markvisst að heilsunni, fór í göngutúra
flesta daga og í félagsstarf, skar út, æfði sig á harmonikkuna, og lagði
sig fram um að fylgjast með því sem um var að vera hjá fjölskyldunni. Á
hjúkrunarheimilinu nutu eðlisþættir hans sín einnig, og hann talaði fallega
og af virðingu um aðra íbúa og starfsfólk.
Ég kveð kæran tengdaföður minn til áratuga og minnist hans og Sigríðar með
hlýju og þakklæti.
Steinunn K. Jónsdóttir.