Þorsteinn Guðjónsson fæddist í Vestmannaeyjum 11. september 1932. Hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 20. september 2013. Þorsteinn var sonur hjónanna Pálínu Geirlaugar Pálsdóttur frá Hlíð undir Eyjafjöllum, f. 20. júní 1901, d. 11. mars 1992, og Guðjóns Þorsteinssonar frá Hallskoti í Fljótshlíð, f. 15. júní 1889, d. 25. júní 1980. Systkini Þorsteins eru Páll Magnús Guðjónsson, f. 12. desember 1926, andvana fæddur drengur 6. ágúst 1929, Ingibjörg Lovísa Guðjónsdóttir, f. 5. ágúst 1930, og fósturbróðir, Magnús Gísli Magnússon, f. 5. september 1947. Steini, eins og hann var alltaf nefndur, var ókvæntur og barnlaus. Hann bjó hjá foreldrum sínum á Lögbergi við Vestmannabraut á meðan þeirra naut við og síðar í sama húsi til dauðadags. Á yngri árum sigldi hann um tíma á flutningaskipinu Þyrli sem þá var í lýsisflutningum til erlendra hafna. Steini brá sér svo í kokkinn og vann í nokkur ár á matstofu Vinnslustöðvarinnar við Strandveg þar sem eldað var fyrir vertíðarfólk, sem hér var þá í hundraðatali. Hann fór svo eftir það að starfa hjá fyrirtæki sem hét Flekamót sem sá um báta- og húsasmíðar ásamt margskonar viðhaldsverkefnum. Hann var þar í nokkur ár. Mörg seinni ár starfsævinnar var hann starfsmaður Fiskiðjunnar og síðar Vinnslustöðvar Vestmannaeyja eftir sameiningu þeirra fyrirtækja. Þorsteinn var jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk.

Nú er hann Steini bróðir minn dáinn. Hann tók uppá því að deyja á föstudaginn. Þessi orð eru ekki sögð eða meint af neinni kaldhæðni. Hann bróðir minn notaði þessi orð nefnilega mjög oft þegar hann fékk fregnir af því að einhver hefði dáið og sagði þá - Jæja tók hann nú uppá því að deyja blessaður. Þegar ég var 3ja mánaða gamall kom ég í fóstur til foreldra Steina, sem bjuggu að Lögbergi í Vestmannaeyjum. Ég átti bara að vera þar í eina viku, vegna erfiðleika í lífi blóðforeldra minna. Vikan sú varð að fleiri vikum og þær að mörgum mánuðum og árum. Mamma og pabbi á Lögbergi - Pálína og Guðjón, tóku mér strax opnum og hlýjum örmum og slepptu aldrei takinu á meðan þau lifðu. Blessuð sé minning þeirra. Steini var þá yngstur nýju systkinanna minna, þá 15 ára gamall. Lóa var 17 ára og Palli 21 árs. Ég var glaðasti strákur í heimi- og þó víða væri leitað, eins og einhver sagði. Foreldrar mínir og systkini voru alvöru. Þegar Palli og Lóa fluttu úr foreldrahúsum, vorum við Steini eftir í nokkur ár, eða þar til ég fór að heiman, en Steini fór aldrei. Hann var stoð og stytta foreldra okkar, sem varð til þess að þau gátu verið lengur heima á Lögbergi. Þau létust bæði níutíu og eins árs. Mamma hafði þá verið 10 ár á spítalanum eftir erfið veikindi, en pabbi lést eftir stutta sjúkralegu. Palli bróðir og Emma konan hans bjuggu beint á móti og voru alltaf nálæg. Lóa systir og Gústi maður hennar, sem lést árið 2000, litu líka oft við á Lögbergi. Mikill samhugur var í fjölskyldunni og mikill gestagangur heima. Ég sagði oft að pabbi og mamma hefðu haft um nóg að hugsa, voru með kýr og kindur, hænsni, rabbabara og okkur Steina.

Elsku Steini minn, nú langar mig að tala til þín nokkur orð. Þú tókst uppá því að deyja á föstudaginn svona gerir maður ekki við vini sína. Sársaukinn og söknuðurinn við að missa einn besta vin sinn er óbærilegur um stund. Ég veit að þú gerðir þetta ekki að gamni þínu ,- þótt stríðinn værir. Þú læknaðist samt aldrei af stríðninni, hún var sem betur fer ólæknandi. Það þekktu þeir líka sem unnu með þér á Vinnslustöðvar matstofunni og í Fiskiðjunni, en ekki orð um það meir. Skammvinn veikindi þín tóku völdin og því fór sem fór. Enda man ég eftir því þegar þú sagðir einhvernveginn þannig á lokasprettinum - Ég vona bara að hann fari nú að skjóta mér upp. Þú manst að fyrir um 2 árum þurftir þú að leita læknishjálpar á sjúkrahúsinu. Læknirinn fann þig hvergi í sjúkraskrám spítalans - 79 ára gamlan manninn. Já þú hefur verið heppinn Steini minn, mjög heilsuhraustur nánast allt þitt líf. Ég naut þess alltaf að vera í návist þinni, þú varst svo fróður og fyndinn. Heima hjá þér á Lögbergi var eldhúsborðið alltaf troðfullt af blöðum og bókum. Útvarpið var á fullu á ísskápnum og maður þurfti oft að banka hraustlega á útihurðina til að ná athygli þinni.

Ekki vissi ég af hverju þú varst svona klár í öllu sem viðkom flugvélum, farþega- og flutningaskipum. Vissir hreinlega allt um tegundir, vélarstærð, flutningsgetu, smíðaár og bara nefndu það. Kannski þótti þér mikið til koma að eiga góðan vin sem var flugstjóri og annan sem var stýrimaður á flutningaskipi. Fyrr á árum elskaðir þú að ferðast með fjölskyldu og vinum. Áttir margar eftirminnilegar stundir í Spánarferðum og siglingu á skemmtiferðaskipi. Svo um tíma sigldir þú til erlendra hafna á Þyrli, sem þá var í lýsisflutningum.

Ég er þakklátur fyrir þína hönd, að hafa ekki þurft að þola langa spítalavist. Þú hafðir áður upplifað slíka vist, ekki sjálfur, en í öll þau 10 ár sem elsku mamma okkar dvaldi þar sín síðustu ár, má segja að þú hafir komið þangað nánast á hverjum degi. Það sýnir best hugarfar þitt og umhyggjusemi. Við systkinin,makar okkar, börn, önnur skyldmenni og vinir, gleymdum þér heldur ekki þegar þú áttir þínar erfiðu stundir nú í lokin. Ég fann að þér þótti vænt um það. En ég held þú vitir að hún Hrönn frænka þín hafi staðið sig best og Sigrún dóttir hennar líka, - gefðu þeim vink ef þú getur, þær eiga það sko skilið. Ekki gleyma stelpunum og læknunum sem hugsuðu svona líka vel um þig.

Elsku Steini minn, takk fyrir allar ánægjulegu samverustundirnar okkar saman með fjölskyldu og vinum. Takk fyrir alla aurana sem þú gafst börnunum mínum og síðar barnabörnum, með framrétta hnefa og hægri-vinstri gisk. Takk fyrir þolinmæðina við mig á unglingsárunum. Við förum nú ekki aftur saman, eins og alltaf áður, að gröf foreldra okkar um jól og áramót. En ég mæti.

Bróðir minn góði þú fallinn ert frá

fámáll nú er ég og linur.

Á leiði þitt alloft ég líta mun á

og lýsa það upp - kæri vinur.

Gísli.