Sveinn Björnsson fæddist á Húsavík 23. maí 1980. Hann lést af slysförum í Kelduhverfi 28. september 2013. Foreldrar Sveins eru Ólöf Sveinsdóttir frá Krossdal, f. 24.10. 1962, og Björn Ágúst Sigurðsson frá Garði, f. 4.4. 1955, d. 25.3. 2001. Foreldrar Ólafar: Sveinn Þórarinsson, f. 1938, og Helga Ólafsdóttir, f. 1944. Foreldrar Björns Ágústs: Sigurður Jónsson, f. 1919, og Jóhanna Ólafsdóttir, f. 1927. Fósturfaðir Sveins frá þriggja ára aldri og eiginmaður Ólafar: Matthías Guðmundsson, f. 24.11. 1962. Foreldrar Matthíasar: Guðmundur J. Pálsson, f. 1926, d. 12.2. 2008, og Salbjörg Matthíasdóttir, f. 1929. Systkini Sveins, samfeðra, eru a) Alexander, f. 1989, unnusta hans er Johanna Flensborg Madsen, og b) Berglind, f. 1991. Móðir þeirra er Kristín Björnsdóttir, f. 1961. Systkini Sveins, sammæðra: a) Guðný, f. 1982, faðir hennar: Jón Pétur Sveinsson, f. 1953. Unnusti Guðnýjar er Reynir Ari Guðráðsson, b) Salbjörg Matthíasdóttir, f. 1989, unnusti hennar er Jónas Þór Viðarsson og c) Björgvin Matthíasson, f. 1992, unnusta hans er Kristín Birna Stefánsdóttir. Fósturbróðir: Arnar Þór Arnarsson, f. 1983, sonur Kristínar Björnsdóttur, unnusta hans er Kristín Heba Gunnarsdóttir. Börn Sveins eru tvö: a) Einar Ágúst, f. 26.12. 2008, móðir: Rakel Svava Einarsdóttir, f. 21.3. 1975, og b) stúlka, f. 6. september 2013, móðir: Inga Fanney Sigurðardóttir, f. 28.9. 1982. Sveinn ólst upp í faðmi fjölskyldu sinnar við hefðbundin landbúnaðarstörf jafnt á Suðurlandi sem Norðurlandi og stundaði sumarstörf hjá afa sínum í Landgræðslunni samhliða námi. Fjölskylda hans fluttist í Kelduhverfið árið 1994. Sveinn lauk grunnskólaprófi frá Lundi í Öxarfirði vorið 1996 og fór á vertíð í Neskaupstað veturinn þar á eftir. Hann stundaði nám við Framhaldsskólann á Laugum í Reykjadal, Iðnskólanum í Reykjavík og útskrifaðist með sveinspróf í vélsmíði frá Borgarholtsskóla vorið 2004. Árið 2003 hlaut hann Da Vinci-styrkinn og fór í mánaðarlanga námsdvöl til Austurríkis í rennismíði. Að loknu námi vann hann ýmis störf, t.d. hjá fiskeldisfyrirtækinu Rifósi í Kelduhverfi. Lengst vann hann þó hjá Vélsmiðjunni Hamri á starfsstöðvum hennar bæði innanlands og utan. Á Þórshöfn stýrði hann uppbyggingu verkstæðis Hamars á Norðausturlandi og var verkstæðisformaður fyrirtækisins um þriggja ára skeið. Vorið 2011 fluttist hann heim í Árdal í Kelduhverfi og tók við búi foreldra sinna ásamt sjálfstæðri vélsmíðavinnu. Snemma á þessu ári hóf hann einnig störf á Vélaverkstæðinu Röndinni á Kópaskeri. Útför Sveins fer fram frá Garðskirkju í dag, 5. október 2013, og hefst athöfnin kl. 14.
Jæja elsku vinur minn, aldrei hefði mig grunað að ég ætti eftir að setjast strax niður til að rita minningarorð um þig. Lífið er fullt af hlutum sem ég vil í eigingirni minni kalla óréttlæti en ég vill samt trúa því að einhversstaðar hafi verið brýn þörf á kröftum þínum fyrst þú varst kallaður burtu í þvílíku skyndi bara 33 ára gamall. Betri stað til að skrifa til þín finn ég samt ekki, ég er með fagurt útsýni yfir Kelduhverfið, þinn heimavöll og þar spilaðir þú svo sannarlega á heimavelli. Það var alveg sama hvar þú vannst eða varst í námi alltaf leitaði leið þín aftur heim í Árdal. Ég hef raunar ekki tölu á því hve oft þú fluttir heim aftur ýmist með annan fótinn eða báða. Enda áttirðu þar alltaf klárt herbergi og hlýlegan samastað hjá mömmu þinni og honum Matta pabba þínum sem gekk þér í föðurstað þegar þú vast bara smá polli. En eins og ég bjóst ekki við að fara að skrifa um þig minningarorð þá bjóst ég heldur aldrei við því að skjóta vinarótum við strákinn á gamla Saabnum með gamla P-númerinu um vorið 97. En ég get fullyrt að með okkur tókst strax vinskapur sem er vandfundinn. Leiðir okkar hafa leigið saman síðan og aldrei liðið nema nokkrir dagar á milli símtala og stóran hluta þessara 16 ára höfum við talað saman eða hist daglega. Aldrei rifist, oft ósammála en á milli okkar ríkti alltaf gríðarlegt traust og við vissum báðir af væntumþykju hvors annars. Saman gerðum við svo ótalmarga hluti sem verður ekki sagt frá hér en sem dæmi þá misstum við varla af sveitaböllum um nokkurra ára skeið, fórum saman til útlanda, fórum á þjóðhátíð, keyrðum dagsferðir á marga fótboltalandsleiki, bjuggum og gengum saman í skóla í Reykjavík, óteljandi skotveiðitúrar og fleira og fleira. En aðallega vorum við sannir vinir sem vissum af hvor öðrum og leituðum hvor til annars bæði til að fagna og til að ræða mistök okkar. Þú stóðst með mér þegar ég átti erfitt og hafðir áhyggjur af mér og það sama gerði ég þegar þú áttir ekki þína bestu daga. Það var nefnilega ekki svo að káti og glaði gæinn hann Svenni gengi alltaf auðveldustu leiðina í gegn um lífið. Stutt er síðan þú lentir í miklu mótlæti og þér fannst þú beittur óréttlæti, lífið var vont við þig og það gekk nærri þér. Við ræddum málin mikið á þessum tíma, ég gaf mér tíma til að keyra til þín nokkur kvöld, símtölin voru mörg og ég hafði áhyggjur af þér. Ég veit að ég kom þér að gagni og með hjálp frá fleiri góðum vinum þínum þá náðum við að koma þér aftur til sjálfs þíns. Að mestu leyti. Þú sagðir mér svo núna í síðustu viku að þér liði vel, værir sáttur og glaður og hlakkaðir til framtíðarinnar. Mikið leið mér vel þegar þú sagðir þetta algjörlega upp úr þurru og ég veit að þetta var að mestu leyti rétt hjá þér. Einmanaleikinn vildi auðvitað banka uppá hjá þér í sveitinni eftir að þú tókst loks ákvörðun um að gerast bóndi í sveitinni þinni og tókst við búinu hjá mömmu þinni og pabba. En þú varst mjög vinamargur og áttir því láni að fagna að hafa menn í kring um þig sem alltaf voru til í að hjálpa þér. Þú talaðir oft um það hve heppinn þú værir að hafa þá Stulla, Rúnar og Óla frænda þinn í sveitinni. Að ógleymdum æskuvini þínum honum Tryggva, missir hans er mikill.
Þú vannst margt á þinni stuttu ævi, varst nokkur sumur í landgræðslunni
hjá afa þínum, vannst í laxeldisstöð, á bóndabæ á Suðurlandinu og gleymum
ekki þeim magnaða skemmtistað Klaustrinu í Reykjavík. En eftir að þú
útskrifaðist sem vélsmiður þá vannstu í mörg ár hjá Hamri. Þar vannstu á
starfsstöðunum á Eskifirði, á Þórshöfn og svo komstu loks til Akureyrar til
að vinna á starfsstöðinni þar. Loksins vorum við sameinaðir í sama
bæjarfélaginu. En það stóð stutt því þegar þú varst nýlega byrjaður þá kom
mamma þín að máli við þig og bar það undir þig hvort þú vildir hætta,
flytja heim í sveit og taka við búinu ásamt ferðaþjónustunni. Þú kallaðir
mig á þinn fund og saman tókum við mjög auðvelda ákvörðun. Við vorum báðir
100% vissir um að þarna fékkstu tækifæri til að gera það sem þig langaði
alltaf mest til að gera. Flytja aftur austur og gerast bóndi á
heimavellinum þínum. Og aldrei hefurðu séð eftir þeirri ákvörðun þó vinnan
væri oft erfið, dagarnir langir og launin lág. Þarna vildirðu vera og þarna
leið þér vel óháð efnum og lífsins gæðum. Enda varstu hreinræktað
náttúrubarn sem barst mikla virðingu fyrir náttúrunni og dýrunum í kring um
þig. Eftir að þú hættir með ferðaþjónustuna þá fórstu að vinna á Röndinni,
vélaverkstæðinu á Kópaskeri. Þar leið þér vel og þú talaðir um það hve
heppinn þú værir að vera þarna með góðum og skemmtilegum köllum. Það var
nefnilega þannig að á erfiðum tímum í vetur þurftirðu á góðu fólki að halda
og ég veit að þér leið vel á verkstæðinu með þeim Skúla, Gunna, Ingimari og
Stefáni. Og svo auðvitað honum Nonna frænda þínum sem byrjaði hjá ykkur
fyrir skömmu.
En þó svo að vinur minn hefði flesta þá mannkosti til að teljast fullkominn
þá var alltaf einn djöfull sem elti þig og núna upp á síðkastið var sá
djöfull farinn að bregða ansi oft fyrir þig fæti. Ég náði að hrista minn
djöful af mér og þú öfundaðir mig af því og samgladdist mér. En hann var
ekki búinn að ná að fella þig nógu harkalega til að þú vildir losna alfarið
frá honum. Hann náði hinsvegar að fella þig aðfaranótt 28. september og
hafði betur. Og það er þyngra en tárum tekur að sætta sig við það og það
mun ég aldrei gera en ég mun vonandi ná að læra að lifa við það.
Elsku Svenni minn, í dag er komið að jarðneskum leiðarlokum hjá okkur
eftir skemmtilegt 16 ára ferðalag. Ég er endalaust þakklátur fyrir að hafa
fengið að vera vinur þinn. Ég fékk að kynnast honum Einari Ágústi syni
þínum og þú kynntist börnunum mínum og henni Höllu minni. Einnig kynntistu
foreldrum mínum vel og ég þínum líka. Börnin mín munu fá að heyra um þig
svo lengi sem ég lifi. Nú ertu kominn á óþekktan stað en úr kirkjugarðinum
hefurðu frábært útsýni. Heimavöllurinn blasir við þér og þú sérð vel heim í
Árdal. Nú færðu vonandi að hitta hann Gústa pabba þinn sem ég veit að þig
langaði oft að kynnast betur en þú gerðir.
Elsku Ólöf, Matti og fjölskylda. Munum Svenna eins og hann var, glaður,
brosandi og kátur. Ég bið algóðan Guð að vaka yfir ykkur og gera ykkur
lífið ögn bærilegra. Hafið það sem best.
Að horfa á vinina er eins og að horfa á lauf í vindi
þau fjúka um, koma og fara.
En þegar besta laufið fýkur til þín skaltu ná því
og sleppa því aldrei, ALDREI.
Ég verð að sleppa þér núna Svenni minn en minningunni um besta vin minn sleppi ég aldrei, ALDREI.
Aðalsteinn Tryggvason og fjölskylda.