Jóhanna Dagmar Pálsdóttir fæddist á Sveðjustöðum í Miðfirði í V-Húnavatnssýslu 27. apríl 1930. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Garðvangi 4. október 2013. Foreldrar hennar voru hjónin á Sveðjustöðum, Vinbjörg Ásta Jóhannsdóttur, f. 17. ágúst 1893, d. 10. janúar 1980 og Páll Theodórsson, f. 17. nóvember 1882, d. 20. desember 1939. Jóhanna var 3. í aldursröð 5 systkina. Elstur er 1) Friðrik Theódór, f. 10. nóvember 1926, giftur Lilju Lárusdóttur. 2) Arndís, f. 28. janúar 1929, d. 10. maí 2007, gift Ragnari Benediktssyni. 4) Lára, f. 31. ágúst 1933, d. 31. ágúst 1993, gift Jóni Jónssyni. 5) Finnbogi, f. 24. júní 1937, var giftur Ingu Helgu Jónsdóttur, nú sambýliskona Unnur Knudsen. Jóhanna eignaðist soninn Pál Björgvin, f. 13. apríl 1951, með Hilmari Daníelssyni, f. 6. desember 1931, flugmanni sem lést í flugslysi 24. maí 1959. Páll er kvæntur Signýju Eggertsdóttur, þau eiga þrjú börn og sex barnabörn. Jóhanna giftist árið 1956 Stefáni Eggerti Péturssyni, f. 23. júní 1932, syni hjónanna Péturs Jóns Vermundssonar og Pálínu Skarphéðinsdóttur. Þau eignuðust fimm börn, 1) Pétur Skarphéðinn, f. 22. febrúar 1957, eiginkona Sæbjörg Brynja Þórarinsdóttir, þau eiga þrjú börn og sex barnabörn. 2) Lovísa Guðlaug, f. 25. apríl 1959, eiginmaður Indriði Þórður Ólafsson, þau eiga tvö börn. 3) Ásta Pálína, f. 25. apríl 1959, eiginmaður Gunnar Már Yngvason, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn. 4) Stúlka andvana fædd 25. apríl 1959. 5) Hrönn Stefánsdóttir, f. 1. febrúar 1965, eiginmaður Jósef Hólmgeirsson, þau eiga eitt barn. Jósef á eitt barn frá fyrri sambúð og þrjú barnabörn. Jóhanna ólst upp á Sveðjustöðum með móður sinni og systkinum en föður sinn missti hún mjög ung. Stundaði hún barnaskóla í farskóla sem var á bæjunum í sveitinni og framhaldsnám í Reykjaskóla 1946 til 1948. Var hún við nám við Húsmæðraskólann á Blönduósi 1950-1951. Árið 1959 byggðu þau Stefán nýbýlið Brúarholt og flytja þangað tveimur árum síðar. Stunduðu þau þar fjárbúskap. Árið 1991 flytja þau að Miðgarði 14 í Keflavík. Í Miðfirði tók Jóhanna þátt í ýmsum félagsstörfum, meðal annars kvenfélaginu Iðju og var formaður þess í nokkur ár. Var hún félagi í leikfélaginu Gretti og söng í kirkjukór Melstaðarsóknar til margra ára. Einnig vann hún um tíma í sláturhúsi Sigurðar Pálmasonar á Hvammstanga og svo á saumastofunni á Laugarbakka. Í mars 2013 flyst Jóhanna á Hjúkrunarheimilið Garðvang. Útför Jóhönnu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 11. október 2013, og hefst athöfnin kl. 14.
Elsku mamma nú hefur þú kvatt þetta líf.
Þú varst þessi sterka kona sem vildir hafa alla í kring um þig. Við höfum verið að kveðja þig. Undanfarin misseri hefur þú fjarlægst okkur smátt og smátt. Þú hefur átt sífellt erfiðara með að skynja og heyra kveðjur okkar. Og nú ertu horfin úr okkar augsýn til nýrra heimkynna.
Eftir standa margar ljúfar og góðar minningar svo skírar fyrir öllum, minningar úr sveitinni. Það er ljúft að láta hugann reika og rifja upp liðnar stundir frá Brúarholti. Heimilið sem þið byggðu svo fagurlega upp frá grunni. Ég man alltaf hvað þú varst glöð þegar við héldum fyrstu jólin okkar á Brúarholti þó að allir hlutir væru ekki komnir. Með okkur flutti hún Ásta amma og er ég þakklátur fyrir að hún hafi geta verið hjá okkur hvað þú hugsaðir vel um hana. Hún var okkur öllum svo kær.
Það reyndist þér auðvelt að búa til góðan mat sama hvert hráefnið var enda varst þú snilldar kokkur. Ég mynnist þess hvað þú hafðir það i föstum skorðum hvað væri í matinn. Sem dæmi, var alltaf læri eða hryggur á sunnudögum og svo ávaxtagrautur á eftir. Á laugardögum var alltaf saltfiskur og grjónagrautur. Er líka oft vitnað í hvað þetta eða hitt var gott hjá þér. Ég verð að minnast á smjörkökuna þína. Hún tók öllu fram. Alltaf þegar þú vissir að við vorum að koma norður þá bakaðir þú nokkrar slíkar. Þér féll aldrei verk úr hendi. Hún mamma skipulagði verkefni dagsins og sagði að henni liði best þegar allur dagurinn var skipulagður.
Ekki var mikið verið að kaupa fötin því þú saumaðir þau á allan mannskapinn sama við hvaða tækifæri ætti að nota þau, svo ekki sé mynnst á hannyrðirnar. Mikið yndi hafðir þú af blómum og má segja að það hafi ekki verið til það blóm sem ekki þreifst hjá þér. Mikla rækt lagðir þú við garðinn sunnan við húsið. Hjá ykkur voru allir hlutir á sínum stað og hreinlæti fyrirrúmi. Fengu þið viðurkenningu fyrir snyrtimennsku og hvað allir hlutir voru vel til hafðir á Brúarholti.
Gestkvæmt var oft hjá ykkur. Það var alltaf pláss fyrir alla og ekki ósjaldan gengu þið úr rúmum. Í minningu barna okkar stand upp úr réttaböllin í Brúarholti. Fengu börnin þá að fara í fataskáp ömmu sinnar og klæða sig upp að eigin smekk. Voru þá flestir kjólarnir dregnir fram.
Þegar þið komuð til Keflavíkur hafðir þú tök á því að hafa allt fólkið þitt hjá þér. Liður í því var að í Miðgarði var alltaf veisluborð á sunnudögum. Heyrnin þín var vandamál sem hrjáði þig um langa tíð. Þú dróst þig hlés vegna hennar. Mér er minnistætt hvað þér leið oft illa vegna höfuðverkja hér áður fyrr. Drengskapur, heiðarleiki, velvild og hjálpsemi voru þín aðalsmerki. Það átti heldur ekki við þig að gera mikið úr þínum verkum.
Fyrir um 5 árum fór að bera á veikindum þínum. Þér tókst lengi vel að leyna þessu. En ef þú varst ekki viss hvað hver og einn hét gastu fengi nafnið fram með ýmsu móti. Þú varst kannski ekki viss með yngstu börnin. Fórstu þá með þau til hliðar og sýndir þeim eitthvað og spurðir svo (hvað heitir þú vinur). Þegar líða tók á sjúkdóminn fannst þú þér verkefni sem þú réðir við og það var að prjóna vettlinga. Þú sagðir við mig að þú værir alveg hætt að elda því Stefáni þætti svo gaman að því. Svona leystir þú málin. Fjölskyldan var þér alltaf efst í huga. Hversu veik sem þú varst orðin spurðir þú alltaf hvort allt væri ekki í lagi hjá okkur og hvort allir væru ekki frískir.
Elsku Stefán missir þinn er mikill. Megi góður Guð styrkja þig í þínum raunum.
Elsku mamma! Nú ert þú á leið til nýrra heimkynna þar sem þínir vinir og ættingjar taka á móti þér opnum örmum líkt og þú gerðir áður fyrr. Þú ert komin á stað þar sem þér líður vel og þú þekkir alla og heyrir í öllum. Þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið og kennt okkur. Góðar minningar um þig munu lifa með okkur.
Megi góður Guð varðveita þig og minningu þína.
Þinn sonur
Páll Bj. Hilmars.