Þorsteinn Bjarnason fæddist í Reykjavík 13. október 1930. Hann lést á heimili sínu 12. október 2013. Hann var sonur Ágústu Ólafsdóttur frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og Bjarna Matthíassonar verslunarmanns í Reykjavík. Þorsteinn ólst upp hjá móður sinni en átti einnig heimili hjá mæðgunum Jónínu Jónsdóttur og Þórdísi Fjólu Guðmundsdóttur. Bróðir Þorsteins var Ólafur Bjarnason múrarameistari, f. 1928, d. 2003 og hálfsystir Ester Svanlaug Bjarnadóttir, f. 1922, d. 2003. Fóstursystur hans eru Jónína Steinunn, Þórunn Rut og Guðmunda Kristín Þorsteinsdætur. Þann 14. júlí 1956 kvæntist Þorsteinn Guðrúnu Guðmundu Sæmundsdóttur, f. 21. júlí 1932 í Reykjavík. Hún er dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar. Þorsteinn og Guðrún eignuðust þrjá syni, Sæmund Elías, f. 1958, Óla Ágúst, f. 1963, d. 2001 og Jón Viðar, f. 1971. Sæmundur er kvæntur Svönu Helen Björnsdóttur, þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein. Óli Ágúst var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur, þau eignuðust Rakel Guðrúnu. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur, þau eiga Þorstein Jakob og Guðmundu. Þorsteinn gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og var einn vetur í skóla í Reykholti. Hann fór 15 ára gamall til sjós. Framan af var hann togarasjómaður og síðar farmaður hjá Skipadeild Sambandsins. Árið 1963 færði hann sig um set til Eimskipafélagsins og var bátsmaður hjá félaginu allt til ársins 1992 en þá batt hann enda á sjómennskuna eftir um 47 ára starfsferil. Hann réðst þá til starfa hjá Sundlaug Vesturbæjar þar sem hann var sundlaugar- og baðvörður til ársins 2000 þegar hann hætti störfum fyrir aldurs sakir. Útför Þorsteins fer fram frá Neskirkju í dag, 18. október 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Í dag kveð ég elskulegan tengdaföður minn, Þorstein Bjarnason. Hann kvaddi þetta líf á þann friðsamlega og fallega hátt sem einkenndi allt hans líf. Ég finn tómið sem hann skilur eftir sig og sakna nærveru hans. Minningar um Þorstein til þrjátíu og tveggja ára streyma fram. Strax við fyrstu kynni sýndi hann ungu konuefni sonar síns föðurlegan kærleik og umhyggju.

Þorsteinn var traustur maður og glæsilegur á velli. Hann samsvaraði sér vel, laglegur, augun björt og leiftrandi. Hann var hlédrægur og hógvær, ögn dulur, en hafði til að bera eðlisgreind sem gerði hann að forvitnilegum og áhugaverðum viðmælanda. Hann var nægjusamur og góðviljaður, heill og sannur. Rausnarlegur og örlátur í garð annarra þegar við átti. Hann var ekki maður margra orða heldur kaus að láta verkin tala. Hvað er það sem mótar manninn, eins og steininn sem hafið fágar?

Þorsteinn átti þess ekki kost að ganga menntaveginn en fór ungur til sjós. Var fyrst á togurum en síðar á farskipum til 62 ára aldurs. Eftir það starfaði hann hjá Sundlaug Vesturbæjar til sjötugs. Vegna sjómennskunnar var hann langdvölum fjarri heimilinu og fór á mis við uppvöxt þriggja sona sinna. Það var ekki alltaf öfundsvert líf sem Guðrún tengdamóðir mín átti öll sjómannsárin, næstum alltaf ein með börnin, ein flest jól og stórhátíðir, á afmælum og meira að segja við fæðingu eldri sonanna tveggja. Saman voru þau glæsileg, gengu samstíga gegnum atburði gleði og sorgar, einnig þegar Óli Ágúst sonur þeirra dó langt um aldur fram frá ungri eiginkonu og sex ára dóttur. Þá sýndu tengdaforeldrar mínir, þessi miklu sómahjón, hvað í þeim bjó.

Sem afi blómstraði Þorsteinn og það veitti honum lífsfyllingu að annast og umgangast afabörnin sín, enda löðuðust þau að honum öll sem eitt. Þolinmæði, ljúfmennska og glaðværð einkenndu öll samskipti hans við fólk. Hann hafði einstaklega góða nærveru og börn löðuðust að honum. Góður var hann við menn og málleysingja. Honum þótti gaman að tefla og tefldi oft við sonarsynina. Samband þeirra við afa sinn var mjög náið og í raun einstakt. Þegar synirnir voru yngri og vinnuálag okkar foreldranna mikið þurftum við  stundum starfa okkar vegna að dvelja tímabundið erlendis. Þá kom afi og sá um heimilið. Við ferðuðumst saman, bæði innan lands og erlendis. Minnisstæð er Evrópuferð gegnum Þýskaland alveg suður til Ítalíu. Þá vorum við Sæmundur enn fátækir námsmenn og nutum rausnarskapar tengdaforeldranna. Jón Viðar var með í för, enn unglingur. Síðar áttum við eftir að fara saman í jeppatúra upp á hálendið, t.d. að Langasjó, en sú ferð er ógleymanleg.

Við Sæmundur eignuðumst syni okkar þrjá á aðeins tveimur og hálfu ári. Í gegnum elsku sína til sona okkar dýpkaði og þroskaðist einnig samband okkar Þorsteins. Meðan synir voru ungir og við Sæmundur bæði önnum kafin í krefjandi störfum reyndust Þorsteinn og Guðrún okkur ómetanlegur stuðningur, ekki síst mér. Án þeirra aðstoðar hefði margt orðið erfiðara, jafnvel óframkvæmanlegt. Það gerðist nefnilega ótrúlega oft að þegar Sæmundur var að störfum erlendis veiktust allir synirnir þrír, hver á eftir öðrum. Þá var gott að eiga góða tengdaforeldra og líkamlega sterkan tengdaföður sem gat tekið þá í fangið jafnvel tvo og þrjá í einu, horft á Múmínálfana eða borið þá í háttinn. Enda gjörþekkti afi strákana sína og þeir hann. Þeir töluðu oft saman í síma, mæltu sér mót, ákváðu sundlaugarferðir, ísbíltúra eða aðra skemmtilega samveru með ömmu allt án milligöngu okkar foreldranna. Sumir sögðu að Þorsteinn væri fæddur afi og mörg börn kölluðu hann líka afa. Samband Þorsteins við afabörnin sín var fallegt. Hann ræktaði samband sitt við þau, varði tíma sínum með þeim, var góður hlustandi þegar þau töluðu við hann. Faðmur hans var stór, faðmlagið þétt og hlýtt, nærveran svo góð.

Fyrir nokkrum árum tóku tengdaforeldar mínir upp á því að bjóða fjölskyldunni til sín, alla sunnudaga eftir messu. Við höfum hist hjá þeim á Fornhaganum með börnin okkar, þegið rausnarlegar veisluveitingar, skrafað, hlegið, teflt, og einfaldlega notið þess að vera saman. Þannig höfum við búið  til góðar minningar saman og hvert um annað. Þessar minningar eru fjársjóður.

Við leiðarlok kveð ég elskulegan tengdaföður með djúpum söknuði. Efst í huga er þakklæti fyrir kærleik hans og umhyggju.

Svana Helen Björnsdóttir.