Bryndís Friðriksdóttir fæddist á Raufarhöfn 2. október 1941. Hún lést á heimili sínu 4. nóvember 2013. Foreldrar hennar voru Guðrún Hansdóttir, f. 1903, d. 1988, og Friðrik Hans Guðmundsson, f. 1887, d. 1957. Bryndís var næstyngst 12 systkina sem eru í aldursröð: Klara (látin), Guðmundur, Kristín (látin), Þorbjörn (látinn), Sigríður (látin), Ólöf, Hallsteinn (látinn), Kári, Hrefna, Guðrún (Día), Kristín og Friðrik. Bryndís giftist 3. desember 1960 Frank Kristni Herlufsen, f. 18. mars 1941 á Ísafirði, og eignuðust þau fjögur börn; 1) Grétar, f. 6. apríl 1960. a) M. Ingibjörg Karlsdóttir, börn þeirra eru Karl Viðar og Karen. b) M. Helena Bæringsdóttir, börn þeirra eru Ísak og Davíð. Grétar er í sambúð með Sigrúnu Arngrímsdóttur. 2) Guðrún Ásta, f. 2. júlí 1961, gift Baldvini Loftssyni. Börn þeirra eru Loftur, Þórður og Bryndís. 3) Sara Helga, f. 1. febrúar 1964. a) M. Sveinn Rúnar Ólafsson, barn þeirra er Ólafur Aron. b) M. Stuart Hjaltalín, barn þeirra er Bríet. Sara Helga er gift Einari Ólafsyni. 4) Sandra, f. 17. mars 1966, gift Árna Birni Kristbjörnssyni. Börn þeirra eru Birna og Birkir. Bryndís giftist 5. desember 1974 eftirlifandi eiginmanni sínum Einari Sturlusyni, f. 4. október 1952. 5) Ingigerður f. 23. febrúar 1976, gift Caglar Cetin Caglar. Börn þeirra eru Júlía Esma og Einar Ozan. Útför Bryndísar fór fram í kyrrþey 8. nóvember 2013.
Elskuleg móðir mín Bryndís Friðriksdóttir er látin.
Það er erfitt að kveðja þig mamma mín, það koma upp í hugann svo ótal
margar minningar um þig, allar góðu stundirnar með þér. Það er hægt að
skrifa um þær þykka bók. Þú kenndir mér svo margt gagnlegt og nytsamlegt.
Þegar ég heimsótti þig í Austurtúnið, fyrir stuttu síðan ræddum við um
ýmislegt bæði til gagns og gaman, líkt og við gerðum oft. Veikindi þín voru
m.a eitt af umræðuefnum okkar þennan dag. Þar sem þú talaðir um veikindi
þín með svo miklu æðruleysi. Þú sagðir við mig að núna værir þú tilbúin að
kveðja, að lífsstarfi þínu hér á Hótel Jörð væri nú að ljúka og að þú værir
sátt við það. Mér fannst mjög erfitt að hlusta á þig segja þetta.
Þú ert alltaf fallegust, yfirbragð þitt og glæsileiki bar af, þannig að
eftir þér var tekið. Persónuleiki þinn litríkur og skemmtilegur. Lífsseigla
þín og ákveðni var svo staðföst að ekkert gat haggað ákvörðunum þínum í
ákveðnum málaflokkum. Hæfileikar þínir í hannyrðum, listum, garðyrkju,
hagfæði heimilanna og barnauppeldi voru stórkostlegir. Það var gott að
leita til þín og fá hjá þér góð ráð, það var hægt að spyrja þig um allt
milli himins og jarðar, bæði þegar eitthvað var að og líka þegar allt lék í
lyndi. Þú gafst mér margar orðsins gjafir, og sagðir við mig þú getur það
. Ég er þér þakklát fyrir það. Það er samt ein gjöf frá þér til mín sem er
mér afar kær. Á afmælisdaginn minn þann 1. febrúar 2005, gafstu mér mynd og
skrifaðir inn í kort með sömu mynd framan á. Myndin er eftirlíking af frægu
listaverki eftir Picasso. Kona með barn á brjósti. Inn í kortið skrifaðir
þú orðrétt;
Elsku Sara mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn, alltaf jafn
falleg. Ég var 23 ára þegar ég eignaðist þig, ég man það svo vel að það er
eins og það hafi verið áðan. Ég var oft spurð hvort þetta væri mynd af mér
og þér, en ég keypti hana rétt áður en þú fæddist. Bestu kveðjur,
mamma.
Elsku besta mamma mín, þú gafst mér líf, ég þakka þér svo mikið fyrir
það.
Á jólunum heima var skemmtilegt að vera, stemmingin og eftirvæntingin var
mikil. Þú lagðir mikið á þig til þess að gera allt eins og best var á
kosið. Heimilið var allt þrifið, loft, veggir, gólf og allt sem inni var.
Þvotturinn þveginn og straujaður. Smákökubaksturinn byrjaði löngu fyrir jól
og við krakkarnir fengum að taka þátt í þessu með þér. Alveg sérstök
stemming var þegar jólatréð var skreytt, þá var söngur, glens og gaman.
Borðhaldið á aðfangadag var svo vel upp sett, dúkar, diskar, hnífapör og
servéttur allt eftir kúnstarinnar reglum. Þetta var allt svo vel gert hjá
þér að það lá við að forsetinn væri að koma í heimsókn. Í desember árið
1971 eða 2, fórum við fjölskyldan saman í strætó til Reykjavíkur. Til þess
að vera viðstödd þegar kveikt var á jólatrénu á Austurvelli. Jólatréð var
stórt og mörg voru ljósin, jólasveinar að tralla hér og þar og mannmergð í
bænum þennan dag. Við fengum kakó og kökur og eyddum deginum saman. Þennan
dag gerðir þú börnin þín að hetjum; þegar við vorum á leiðinni heim um
kvöldið, segir þú við okkur; Vegna þess að þið eruð svo þæg og góða þá
held ég að jólasveinninn hafi skilið eftir gjafir handa ykkur við stóra
jólatréð á Austurvelli. Við skulum fara og athuga það. Við hlupum að trénu
og jú, mamma hafði rétt fyrir sér eins og svo oft áður, þarna voru fjórir
pakkar, tveir eins handa mér og Söndru og tveir eins handa Guðrúnu og
Grétari. Þessu gleymi ég aldrei.
Eitt af fjölmörgum áhugamálum þínum var að hlusta á sögur, þú gerðir mikið
af því, samhliða því að sinna hugðarefnum þínum. Ég veit að núna þegar þú
ert komin í ljósið, þá ertu ekki ein. Í ljósinu þar sem þú ert núna er gott
fólk með þér, bæði gott fólk sem þurfti frá að hverfa mjög ungt og líka
gott fólk sem fékk allan þann tíma hér á Hótel Jörð sem það þurfti fyrir
lífsgöngu sína. Þegar almættið grípur inn í lífsörlögin, þá getum við
ekkert annað gert en að sætta okkur við það. Sama hversu erfitt það getur
verið fyrir okkur. Jörðin heldur áfram að snúast og sólin að koma upp á
morgnana.
Ég bið að heilsa ömmu Guðrúnu, hún getur nú aldeilis sagt þér draugasögur,
það var eitt af því skemmtilegasta sem hún gerði þegar ég heimsótti hana
meðan hún dvaldi hér, Djákninn á Myrká var í miklu uppáhaldi hjá þeirri
gömlu. Ég bið líka að heilsa systurdætrum þínum Auði og Guðrúnu en þær fóru
héðan með sviplegum hætti í hræðilegu bílslysi, rétt rúmlega tvítugar. Þær
voru mjög lífsglaðar og skemmtilegar stelpur. Þær hressa þig við og geta
sagt þér sögur t.d. úr Goðafræðinni, skemmtilegt fannst mér að heyra
frásagnir þeirra systra um það hvernig náttúruperlan Ásbyrgi varð til.
Sagan segir að þarna hafi Sleipnir, hestur Óðins, stigið fast niður fæti
þegar hann var á ferð sinni um lönd og höf. Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis
og eyjan í miðjunni sé far eftir hóftunguna. Aðeins eitt líf sem endar
fljótt, en kærleiksverkin standa.
Elsku besta mamma mín í táraflóði kveð ég þig í hinsta sinn. Þín er sárt
saknað.
Okkar innilegustu samúðarkveðjur til þín Einar Sturluson, guð gefi þér
styrk í sorginni.
Ykkar dóttir,
Sara Helga Franks og fjölskylda.