Guðmundur Helgason fæddist í Reykjavík 1. desember 1927. Hann lést 19. nóvember 2013. Guðmundur var yngsta barn hjónanna Helga Guðmundssonar, bankastjóra, f. 1890, d. 1972, og konu hans, Karítasar Ólafsdóttur, f. 1894, d. 1951. Systkini Guðmundar voru Þóra, f. 1922, d. 1996, Ólafur, f. 1924, d. 1997 og Kristín, f. 1925, d. 2013. Guðmundur kvæntist 21. febrúar 1948 Katrínu Sverrisdóttur Thoroddsen, f. 1928. Hún lést 22. mars 2012. Foreldrar Katrínar voru Sverrir Skúlason Thoroddsen, bankafulltrúi, f. 1904, d. 1982, og kona hans, Helga Laufey Eyjólfsdóttir, f. 1905, d. 1983. Systkini Katrínar: Theódóra, f. 1929, Guðmundur Hrafn, f. 1936, d. 1936, Guðmundur Hrafn, f. 1937, Kristín Ólína, f. 1940, d. 2013 og Helga Ragnhildur, f. 1944. Katrín og Guðmundur eignuðust sex börn. Þau eru Helgi, f. 1947, kvæntur Oddnýju Óskarsdóttur, Katrín, f. 1949, Sverrir, f. 1950, kvæntur Ástu Kristínu H. Björnsson, Guðmundur, f. 1954, kvæntur Önnu Friðriksdóttur, Eyjólfur, f. 1957, kvæntur Emilíu Maríu Gunnarsdóttur, og Guðrún, f. 1960, í sambúð með Páli Alfreðssyni. Barnabörnin eru 17 og barnabarnabörnin eru 19. Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947 en síðan prófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann nam síðan tæknifræði við Tækniháskólann í Stokkhólmi og útskrifaðist þaðan sem rafmagnstæknifræðingur 1955. Hann starfaði hjá Rafmagnsveitum ríkisins 1955-1967 og hjá Landsvirkjun 1967-1992. Hann var rekstrarstjóri Landsvirkjunar frá árinu 1984 allt þar til hann lét af störfum í árslok 1992. Útför Guðmundar fór fram í kyrrþey 28. nóvember 2013.
Faðir okkar, Guðmundur Helgason, var sonur hjónanna, Karítasar
Ólafsdóttur og Helga Guð-mundssonar, sem lengst af starfsævi sinnar gegndi
stöðu bankastjóra Útvegsbanka Íslands. Guðmundur var yngstur fjögurra
systkina, sem öll eru nú látin og það í réttri aldursröð. Börn Helga og
Karítasar auk Guðmundar voru Þóra, Ólafur, innan fjölskyldunnar jafnan
nefndur Olli, og Kristín, sem menn kölluðu aldrei annað en Stínu.
Margir í fjölskyldunni eiga í fórum sínum ljósmyndir af þeim systkinum sem
teknar voru í Barcelona þar sem þau bjuggu ásamt foreldrum sínum fyrir
rúmum átta áratugum. Á einni myndinni er systkinunum stillt upp eftir hæð
og aldri. Sýnu lægstur stendur þar fremst í röðinni smáfríður snáði. Fer
enginn í grafgötur um það að þar fór augasteinn móður sinnar enda atlætið
eftir því. Þessi litli drengur var aldrei kallaður annað en Gummi eða
jafnvel Gummi Helga ef þörf var á til aðgreiningar þegar fram liðu
stundir.
Að Guðmundi stóðu kennimenn í báðar ættir. Afi Guðmundar í móðurætt var Sr.
Ólafur Helga-son á Stóra-Hrauni og föðurafi hans, Guðmundur Helgason,
gegndi prestskap í Reykholti í Borgarfirði. Eru þá ótaldir fleiri menn
geistlegrar stéttar í þeim frændgarði og því raunar engan veginn sjálfgefið
að Guðmundur virtist alla tíð skeyta furðu lítt um trúarefni.
Guðmundur var meðalmaður á hæð og grannvaxinn en samsvaraði sér ágætlega.
Þrátt fyrir að hann virtist ekki mikill að burðum var líkamsþrek vel yfir
meðallagi. Ungur var hann ágætur í leikfimi og langt fram eftir ævi snar í
snúningum, liðugur og léttur á fæti. Til marks um líkamsfimi hans skal þess
getið að fram um áttrætt gat hann léttilega og auðveldlega beygt sig fram
með bein hné og fætur saman þannig að fingurgómar námu við tær.
Á bernskuskeiði var Guðmundur sendur til sumardvalar að Stóra-Hrauni hjá
Kristínu, ömmu sinni, og á efri árum varð honum tíðrætt um löngu liðna
dýrðardaga á Stokkseyri og Eyrarbakka. Á Stóra-Hrauni bjó besta amma í
heimi sem á sunnudögum lét ekki undir höfuð leggjast að færa blessuðu
barninu í rúmið pönnukökur með rabarbarasultu og rjóma, randalínur og
súkkulaði ávallt einnig með rjóma. Eitthvað mátti nýta drenginn til
snúninga utanhúss en ekki væsti um hann á rigningardögum þegar hann
hreiðraði um sig í mjúkum hægindum og fletti tímunum saman gegnum fjallháar
stæður af Familiejournalen og skemmti sér konunglega yfir þeim Gyldenspjæt
og Knold og Tot.
Á unglingsárum voru þeir bræður, Gummi og Olli, í vinnuflokki símamanna í
Skagafirði. Uppi-staðan í mataræðinu var m.a. rúgbrauð með margaríni og
greindi Olli oft frá því að bróðir hans hefði eytt gervallri hýrunni í
Napóleonskökur í bakaríinu á Sauðárkróki enda alla tíð mikið gefinn fyrir
sætindi. Þó var Guðmundur yfirleitt með eindæmum neyslugrannur og var sem
ekkert gæti kveikt með honum löngun í mat. Mátti einu gilda hvaða krásir
voru í boði, jafnvel þótt tilreiddar væru af færustu mönnum eftir öllum
kúnstarinnar reglum. Ef franska eldhúsið bar á góma bar Guðmundur jafnan
við hvítlauksofnæmi en þeir, sem gerst máttu til þekkja, fullyrða að
franskbrauð með sultu hefði nægt honum til fæðslu, eitt og sér. Hann hefði
aldrei þurft annars með. Viðkvæðið var gjarnan: Ég vil mat minn og engar
trefjar.
Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1947 og
síðan prófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann nam síðan
tæknifræði við Tækniháskólann í Stokkhólmi og útskrifaðist þaðan sem
rafmagnstæknifræðingur árið 1955. Hann starfaði hjá Rafmagnsveitum ríkisins
á árunum 1955 til 1967 og eftir það hjá Landsvirkjun frá 1967 til
1992.
Er Guðmundur réðst til starfa hjá Rafmagnsveitum ríkisins stóð yfir mikið
átak í raforkumálum og unnið að rafvæðingu víðs vegar um hinar dreifðu
byggðir landsins. Virkjun Grímsár var við það að ljúka og í burðarliðnum
voru Reiðhjallavirkjun og Mjólkárvirkjun vestur á Fjörðum. Ekki leið á
löngu áður en Guðmundi var falið að taka þátt í virkjun Mjólkár og hafði
hann forystu um það verk uns því lauk árið 1958. Þessu næst réðst hann til
starfa á aðalskrifstofu rafmagnsveitnanna og voru verkefnin ærin enda unnið
að dreifistöðvum og háspennulínum um land allt. Eftir stofnun
Landsvirkjunar og þegar virkjun Búrfells hófst réðst Guðmundur til
Lands-virkjunar og varð fljótlega aðstoðarrekstrarstjóri þess fyrirtækis.
Síðar gegndi hann stöðu rekstrarstjóra uns hann lét af störfum fyrir aldurs
sakir.
Guðmundur var í starfi sínu vinsæll og virtur fagmaður og stjórnandi. Hann
var einnig mjög virkur í félagslífi rafmagnsveitnanna og síðar
Landsvirkjunar Hann var t.d. fyrsti formaður starfsmanna-félags
Landsvirkjunar. Hrókur alls fagnaðar þegar við átti.
Í menntaskóla varð yngismær á vegi Guðmundar, Katrín Sverrisdóttir
Thóroddsen, kölluð Trínsa. Hann gat við henni, er fram liðu stundir, sex
börn, tvær dætur og fjóra syni. Eru afkomendur þeirra Guðmundar nú samtals
fjörutíu og tveir að tölu.
Þau Gummi og Trínsa áttu eftir að ganga saman ævina á enda eða allt þar til
Katrín féll frá fyrir á að giska einu og hálfu ári. Hjónin virðast hafa
verið býsna samrýmd og ekki hvað síst áttu þau allt frá unga aldri
sameiginlegar hugsjónir sem miðuðu að því að færa eitt og annað til betri
vegar í heiminum ef hann kynni nú að taka upp á því að vilja láta bjarga
sér. Þau aðhylltust m.ö.o. alla tíð róttæk viðhorf í stjórnmálum og héldu
sig staðföst á vinstri vængnum hvað sem tautaði og raulaði. Tæpast verður
þó fullyrt að þau hafi tekið að neinu ráði beinan þátt í pólitísku
flokksstarfi á þeim nótum sem tíðkast hefur í afskekktri og fámennri
eyjabyggð á norðurhjara.
Saman deildu þau einnig einlægri ást á íslenskri náttúru. Þetta hljómar
auðvitað eins og margþvæld tugga en er í raun eins nærri sanni og verða má.
Ófáar ferðir fóru þau um landið þvers og kruss og höfðust jafnan við í
tjaldi. Þessum tjaldtúrum fylgdi ákveðið ritúal. Tjaldað var sumar eftir
sumar á sömu stöðunum og þá jafnframt á nákvæmlega sama blettinum, s.s. í
Vattarfirði vestur og ofan við Næfurholt undir Heklurótum. Engu verður um
það logið að sérviskulegir tilburðir voru í frammi hafðir í öllum greinum:
Einlægt fengu menn sér einn gráan þegar síðasti tjaldhællinn hafði verið
keyrður ofan í svörðinn og annað var eftir þessu. Aldrei bjuggu þau sér
náttból á merktum og skipulögðum tjaldstæðum, heldur oft og iðulega langt
úr alfaraleið. Um árabil sváfu þau undir tjaldhimni tíu til tuttugu nætur á
hverju sumri eða allt þar til þau voru komin fast að áttræðu. Guðmundur
lærði að tjalda af móður sinni: Pabbi kunni ekkert með tjald að fara.
Mamma kenndi mér það allt saman. Þá skyldi ætíð allt vera í föstum
skorðum. Tómur brennivínskassi gegndi lykilhlutverki sem nestisskrína og
skyldi hann ávallt snúa eins - úti við tjald-skörina. Þá seilst var eftir
vistum ofan í kassann höfðu menn ávallt í huga einstaka landshluta, rétt
eins og væri kassinn ígildi Íslandskorts. Salt og pipar var austur á
Langanesi, tappatogarinn á Snæfellsnesi, rommið í Mýrdalnum....
fiskibollurnar á miðhálendinu og þar fram eftir götunum. Með þessu móti
voru allar nauðsynjar ávallt innan seilingar allt á sínum stað. Ætíð
gengu hjónin hvort um sig skipulega til verks í áningarstað og fylgt var
ákveðnum verklagsreglum. Þegar tjaldið var reist tók eiginkonan sér stöðu
og hélt í fremri tjaldsúluna styrkri hendi. Þannig stóð hún á meðan bóndi
hennar sá um aðra verkþætti.
Guðmundur var gleðimaður í hinni hugþekkustu merkingu þess vandmeðfarna
orðs og bjó yfir stakri náðargáfu þegar kom að því að blanda áfengar
veigar. Þegar í foreldrahúsum hafði hann skenkingar með höndum og gegndi
ætíð upp frá því þessu ábyrgðarstarfi þá efnt var til mannfagnaða hjá
stórfjölskyldunni. Sjússar voru hans sérgrein og aðalsmerki. Þar skiptu
meginmáli eftirtaldir þættir: Skraufþurr klaki, jökulkaldur blandari og
hárrétt hlutföll. Þrátt fyrir einlægan ásetning, einbeittan vilja og
ástundun í góðu meðallagi fer því víðs fjarri að afkomendum Guðmundar hafi
auðnast að ná í þessari grein þvílíkri fullkomnun sem Guðmundur hafði
algerlega og afdráttarlaust á valdi sínu.
Á heimili foreldra Guðmundar að Laufásvegi 77 ríkti mikill og djúpstæður
áhugi á hvers kyns listum og þá ekki hvað síst tónlist. Guðmundur hóf ungur
að kljást við knéfiðlu en gaf hana upp á bátinn þegar hann komst af
unglingsaldri. Sjálfur sagði hann einhverju sinni að hann hefði lagt
gersamlega af alla slíka viðleitni er honum varð það fullljóst að þetta
yrði aldrei til neins. Hann næði aldrei með tærnar þar sem hefði hælana
undrabarnið, Erling Blöndal Bengtsson. En það er mála sannast að Guðmundur
spilaði allra manna best á grammófón. Þar stóð honum enginn á sporði.
Hvað sem klassískri tónlist líður átti djassinn hug Guðmundar allan og
snemma tók hann að viða að sér hljómplötum úr þeirri áttinni. Eftir því sem
árin liðu jókst hröðum skrefum safn af hvers kyns tónlistarefni sem varð,
er yfir lauk, hreint ótrúlegt að vöxtum: hljómplötur og hljómdiskar, bækur,
myndbönd og mynddiskar. Kennir þar ýmissa grasa en auðvitað snerist þetta
allt að langstærstum hluta um djassmúsík. Guðmundur hafði ákveðnar skoðanir
í þessu sem öðru. Honum fannst eiginlega ekkert varið í djassinn eins og
hann þróaðist upp úr miðjum fimmta áratug síðustu aldar og gaf lítið fyrir
bíbopp og diskaglamur eins og hann komst að orði.
Þegar tilefni gafst áttu menn til að knýja glymskrattann allt hvað af tók
og lögðu sig alla fram um að gera sér glaðan dag. Börnum þeirra Gumma og
Trínsu er í fersku minni glasaglaumur, hark og rassaköst þegar fótamennt
var iðkuð af innblásnum þrótti á æskuheimili þeirra að næturþeli. Því er
ekki að neita að stöku sinnum var ekki alls kostar laust við að vansvefta
nágrannar í blokkinni kveinkuðu sér ögn undan skruðningunum sem fylgdu
gleðskapnum á þriðju hæð til hægri.
Eftir fráfall Katrínar, eiginkonu sinnar, leitaðist Guðmundur við að halda
í horfinu en einhverjir höfðu brátt á orði að hann hefði sig ekki mikið í
frammi. Hann blandaði lítt geði við aðra en sína allra nánustu en varði
löngum stundum í einveru við bóklestur og sjónvarp að ekki sé minnst á
hljómflutningstæki, plötur og geisladiska. Heilsu hans hrakaði töluvert
síðustu vikurnar uns hann lést á öldrunardeild Borgarspítalans þ. 19.
nóvember sl. Þar naut hann einstakrar aðhlynningar af hálfu starfsfólksins
sem sinnti honum af nærfærni og alúð til hinstu stundar. Fyrir slíkt ber að
þakka.
Að baki var löng og góð ævi auðugt líf.
Börn Guðmundar og Katrínar