Brynjólfur, Binni eða Benny var fæddur 21 júní 1942. Hann lést á heimili sínu að Steinholti á Dalvík 8 desember 2013. Brynjólfur lætur eftir sig eina dóttur, Hedvig, fædda í Noregi, en búsetta í Svíþjóð. Útförin fram frá Dalvíkurkirkju 11 janúar 2014.

Brynjólfur Karl Eiríksson

Binni/Benny

Þegar góður vinur kveður, hvarflar hugurinn til baka á örskotsstundu og  flóð minninga fram til hinsta dags streyma fram. Bernskusporin eru að mestu á Steinholtstúninu með léttum landbúnaðarstörfum, knattleikjum  sem og einskærum áhuga á  silungsveiði. Samkeppni og kapp komu fljótt í ljós ásamt góðmennsku og greind er skein úrgjörvöllu andlitinu og reyndist okkur samferðamönnum góður skóli sem og áskorun. Stríðni og skapfesta voru aldrei langt undan og olli oft miklum misskilningi og reytti menn til reiði og heimóttarskapar. Líkamlegt atgervi var óvanalega mikið strax á unglingsárum og þótti okkur krökkunum mikið til um er hann tók á tunnulöggum með berum gildum puttunum, og tók fullar nýpæklaðar síldartunnur og snaraði uppí þriðja lag á Múlaplaninu.

Eftir landspróf Þótti Eiríki í Steinholti eðlilegt að senda drenginn að íþrótta og menningarsetrinu að Laugarvatni til fræðimennsku og knattleikja. En fljótt kom í ljós, að eigin mati, eftir að hafa att kappi við Kobba á Ufsum, Villa á Karlsá og Stebba á Staðarhóli á Kaupfélagstúninu á Dalvík, að hann væri orðinn miklu fremri í líkamlegu atgervi og íþróttamennsku en þessir ágætu samstúdentar og af þeim sökum væri lítill tilgangur með þessari skólavist. Fjölskyldan í Steinholti bjóst við drengnum í jólafrí með vöruflutningabíl frá Óskari Jónssyni & co. Eplabíllinn kom að sunnan, en enginn Binni. Næsti bíll kom og svo seinasti bíll fyrir jól, en Binni  ekki sjáanlegur. Eiríkur í Steinholti neri saman lófunum eins og honum einum var lagið, lófa yfir hnúfa. Fólk er farið að örvænta, en ekki beint að óttast, því alltaf í gegnum tíðina hafði Binni skilað sér.Á þriðja degi jóla hringir síminn í Steinholti. Mamma er til svara og heyrir hún óma framandi tungur í tólinu þar til sonurinn með sínu skýrmælgi tjáir henni að hann sé staddur á járnbrautarstöðinni í  Bremerhaven og sé á leið til Kaupmannahafnar til að gerast atvinnumaður í knattspyrnu. Hafði hann þá farið niður að bryggju í Reykjavík meðan hann beið eftir bílnum frá Ó.J & co., hvar síðutogarinn Hallveig Fróðadóttir var að taka ís og tanka fyrir söluferð með karfa til Þýskalands. Dyrnar að atvinnumennskunni í Kaupmannahöfn reyndust ekki víðar inngöngu og þörfnuðust meiri undirbúnings og félagsstarfs, en rétt að banka að dyrum  og segja; Hér er ég. Farareyrir var knappur og því lítið skotsilfur til framfærslu í Köben. Af hendingu sá hann auglýst eftir fólki til starfa í gróðurhúsum í Amager. Viðfangsefnið var að gróðursetja lauka í akkorði. Flutningabílar komu hlaðnir frá Hollandi og mikið reið á að koma laukunum í mold. Með ólgandi athafnaþrá spennti hann á sig heljarmikla tréskúffu með þykkum leðurólum um axlir og hóf  hlaup eftir löngum göngum gróðurhússins og plantaði á bæði borð og linnti ekki látum fyrr en hann náði amk. 20.000 laukum á dag.Vænkaðist nú hagurinn fljótt og þar sem gömlu nýlenduherrarnir gátu ekki nýtt sér hæfileika hans til atvinnumennsku í knattspyrnu þá hlytu þeir í sveitaþorpinu Osló að bíða spenntir eftir kröftum hans. Allt kom fyrir ekki, þróun atvinnumennskunnar var á annan hátt en vonir stóðu til. Laukapeningarnir fara að þverra og enga atvinnu að fá í Osló. Því eru seinustu krónurnar notaðar til að að kaupa far með Bergensbanen svo langt sem aurar entust. Binna til happs, sem oft áður, reyndist ákvörðunarstaðurinn Geilo, sem var lítt þekktur staður okkur íslendingum. Þar sem hann stígur úr lestinni á brautarpallinn í Geilo blasir við honum í myrkrinu heljarstór hvít bygging sem á stendur Holms Hotel.Þar gengur hann inn og spyr hvort ekki vanti startskraft til einhverra viðvika. Jú, og það sama kvöld er Binni farinn að skræla þar kartöflur og þvo upp leirtauið. Út um eldhúsgluggann sér hann skilti, Ski skole, og þar með var teningnum kastað.Og verða þá straumhvörf í lífi Binna. Verður hann þjálfari og skíðakennari árum saman í Geilo, og varð kunnur meðal almúgans sem og háaðalsins í Evrópu. Eftir að hann hóf rekstur á næturklúbbi í kjallara Bardöla hotelsins og síðar veitingahússins Skarv jókst hróður hans enn meir. Benny, eins og hann var kallaður, er enn goðsögn í Hallingsdalen. Hann varð á tímabili einskonar sendiherra Íslendinga, bæði skíðamanna sem og yngra fólks er hleyptu heimdraganum í atvinnuleit, ævintýraþrá eða skíðamennsku. Alltaf var Binni til staðar og leysti mál af hvaða toga sem var með glampa í augum og stríðnislegt brosið. Að afloknum vinnusömum og erfiðum vetrum skíðamennskunnar fór hann oft í Evrópuferðir, akandi, til að skoða hvað var um að vera á skíðasvæðum í Ölpunum,skoða nýjungar í hljómflutningstækjum og næturklúbbum, þefa uppi tónleika af ýmsu toga, sjá hvað var nýjast í hátískunni í París,  Mílanó, eða hvar sem var eða fara til Spánar og klára Ferðamálaskóla Simon Spies. Nokkur sumur vann hann hjá Dikemann,víðkunnum skrúðgarðamanni í Kaupmannahöfn sem annaðist gróður, inni sem úti, fyrir aðalinn á Sjálandi, í Þýskalandi og víðar og lærði þar latnesku plöntuheitin á öllum þeim jurtum sem meðhöndlaðar voru. Fínu frúnum í Hellerup og Charlottenlund fannst það góður kostur að fá Benny í heimsókn, því það var sama hvar borið var niður, allstaðar var Benny  með á nótunum.

Þeim sem minnast mannsins þunnhærða með síða skeggið í bláa Smáravegssamfestingnum á götum Dalvíkur, Akureyrar og um tíma Borgarness, mun aldrei til hugar koma að sá hinn sami átti heilan kjallara í Noregi af hátískufötum, íþróttafötum, pelsum, skíðum og skóm sem hann skildi eftir er hann yfirgaf Noreg. Hvar sem Binni kom hændust að honum börn og dýr, slík var útgeislunin. Eftir að Binni var alkominn í Steinholt aftur stundaði hann sjómennsku og ýmis önnur störf. Hjálpsemi var honum í blóð borin alla ævi og þótti honum ekki verra að fá matarbita eða sætar kökur með kaffinu. Fróðleiksfýsnin var engum takmörkum háð og var allt lesið sem til náðist, hlustað á fréttir, skeggrætt og jafnvel rifist af fullum þunga ef svo bar við og gat Binni verið langrækinn ef honum fannst á sig halla. Síðustu árin nam hann allt sem hann komst yfir varðandi siðblindu og átti ákaflega erfitt með að sætta sig við orðinn hlut í þeim málum, hvað varðar nærumhverfið og á landsvísu. Við búumst við að hann hafi sæst við frú Friðbjörgu, þótt hún hafi borið fram þriðju sorteringu af jólabakkelsi fyrir fjórtán árum síðan. Um þennan mann og líf hans væri hægt að skrifa heila bók.

Megi góðir vættir vaka yfir þér og dóttur þinni Hedvig.

Kveðja, þínir vinir.

Dagmar og Magnús, Linda Rún og Arna, María og Þorsteinn Máni.