Arthur Níels Sumarliðason fæddist 18.7.1920 á Siglufirði. Hann lést 5.1.2014 á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum Rvk. Foreldrar hans voru Sumarliði Guðmusdsson Skósmiður,fæddur í Hörgárdal 22.4.1889 látinn 1.5.1983 og Sigurlína Guðrún Níelsdóttir fædd að Hallanda á Svalbarðsströnd 2.2.1891 látin 28.1.1963. Bræður Arthúrs: Kári, fæddur á Siglufirði 16.6.1916 látinn 20.3.1990 og Hreinn, fæddur á Siglufiði 24.11.1930. Arthur kvæntist Stefaniu Sigmundsdóttur frá Hofsósi, þau eignuðust dótturina Sigurrósu Osk 1942. Hjónin fluttu suður en skildu svo all nokkru síðar. Sigurrós giftist Ragnari Páli myndlistamanni þau eignuðust tvo syni, Arthur myndlistamann og Víði grafískan hönnuð. Útför Arthurs fór fram í kyrrþey 15. janúar 2014
Afi minn, hann Arthur Níels Sumarliðason var fæddur á Siglufirði þann 18. júlí 1920, sonur hjónanna Sigurlínu Guðrúnar Níelsdóttur húsmóður og Sumarliða Guðmundssonar skósmiðs. Arthur átti tvo bræður, þá Kára Sumarliðason, fæddan 1916 en hann lést árið 1990 og eftirlifandi yngri bróður, Hrein Sumarliðason sem er fæddur árið 1930.
Langamma mín, hún Sigurlína lést þann 28. janúar 1963 tæplega 72. ára að aldri en Sumarliði langafi lést í hárri elli þann 1. maí 1983, þá á 94. aldursári rétt eins og Arthur afi minn var sjálfur nú þegar hann lést þann 5. janúar s.l. á Droplaugarstöðum hér í Reykjavík eftir stutta sjúkdómslegu.
Sigurlína og Sumarliði höfðu flust úr sveitum Eyjafjarðar til Siglufjarðar sem þá var uppspretta ólgandi atvinnulífs og uppbyggingar sem athafnabær í sjávarútvegi. Þarna risu stærstu síldarverksmiðjur í heimi og þarna var atvinnu að fá, sér og sínum til framfærslu. Það var ekkert sjálfsagt mál í byrjun tuttugustu aldar hér á Íslandi.
En lífið var ekki bara dans á rósum á Siglufirði millistríðsáranna og þótt Sumarliði skósmiður hafi séð fjölskyldu sinni vel farboða var oft hart í ári. Sem unglingur byrjaði Arthur afi að vinna sem kúskur við vegagerð yfir Siglufjarðarskarð. Engar stórvirkar vinnuvélar voru til, aðeins hestakerrur eins og sú sem hann stjórnaði, skóflur, hakar og önnur handverkfæri. Þá var dugnaður og útsjónarsemi það eina ráð ef eitthvað brást eða breyttist. Þá hæfileika tók Arthur afi með sér sem veganesti í gegnum lífið, göngu sem bæði átti eftir að vera stráð þyrnum sem rósum í orðsins fyllstu merkingu.
Sem ungur maður í iðandi mannlífi síldaráranna á Siglufirði var Arthur afi minn mikið glæsimenni. Hann var ekkert sérlega hávaxinn en ákaflega vel byggður og andlitsfríður svo eftir því var tekið, með mjög dökkt, allt að því svart liðað hár. Hann var íþróttamaður og bar sig sem slíkur, með snörpum og kvikum hreyfingum, beinn í baki og bar höfuðið hátt. Hann gekk hnakkreistur um Siglufjarðarbæ, hlaðinn sjálfstrausti og ákveðinn í fasi. Einhverjir öfundarmenn hans sögðu hann montinn en það var hann ekki. Hann var bara glæsilegur karlmaður.
Arthur afi stundaði sínar íþróttir af miklu kappi, jafnt á skíðum á vetrum og ekki síður frjálsar íþróttir á sumrin. Hann átti mörg Siglufjarðarmet í ýmsum greinum frjálsra íþrótta sem seint voru slegin og hann skilur eftir sig safn verðlaunapeninga og viðurkenninga sem okkur afkomendum hans eru nú dýrmætar minningar um öflugan mann.
Uppúr tvítugu kynntist hann ömmu minni, Stefaníu Sigmundsdóttur frá Hofsósi sem hann síðar kvæntist. Í apríl 1942 eignuðust þau sitt eina barn, dótturina Sigurrósu Ósk sem er móðir mín og ávallt er kölluð Rósa. Fyrir átti Stefanía soninn Stefán Kristján Sverrisson sem þá var 3ja ára.
Afi og amma bjuggu á Siglufirði þar sem lífið snerist um fisk og þá auðvitað aðallega um síldina. Afi vann á sumrin í Síldarverksmiðum Ríkisins á löndunarkrönum eða við erfiða vaktavinnu við skilvindurnar þegar bræðslan stóð yfir og "peningalyktin" lá sem ósnertanlegt ský yfir Siglufjarðarbæ. Þá var stundum farið í aukavinnu á síldarplön og Arthur afi var þá kominn í störf beykisins með díxil og drífholt í hendur, því oft var unnið heilu næturnar til að bjarga verðmætu silfri hafsins. En Siglufjörður var miklu meira en síld á þessum tíma, það þurfti til dæmis að opna veginn yfir Siglufjarðarskarð til að rjúfa einangrun vetrarins og það tóku hraustir menn að sér á hverju vori. Afi Arthur var einn þeirra sem margoft handmokuðu skarðið í 630 mtr. hæð. Það mundi engum detta það í hug í dag, þvílík þrekvirki sem menn unnu með berum höndum í þá daga.
Sigurrós Ósk, eða Rósa dóttir þeirra hjóna og móðir mín kynntist ung Ragnari Páli föður mínum og eignuðust þau son seint í desember 1958. Þessi dóttursonur þeirra Arthurs og Stefaníu var skírður í höfuðið á afa sínum, Arthur Ragnarsson og er hann búsettur í Svíþjóð. Fjórum árum síðar, eða 1962 kom annar afadrengur í heiminn, ég Víðir Ragnarsson sem skrifa þessi orð.
Afi Arthur sótti fiskvinnslunámskeið hjá Sjávarútvegsmálaráðuneytinu árið 1955 og nokkrum árum síðar sótti hann vinnu suður, fyrst á Akranesi og síðar í Sandgerði, þar sem þau afi og amma settust að. Hann var verk- og vinnslustjóri hjá Miðnesi í Sandgerði til margra ára og var sérlega vel liðinn. Það var líklega blómatíð þeirra hjóna, lífið gekk vel og þau eignuðust sinn fyrsta bíl. Einnig starfaði afi um tíma á Keflavíkurflugvelli sem þá var herstöð Bandaríkjamanna.
Á meðan breyttist lífið á Siglufirði hratt, ævintýrið í kring um silfur hafsins var komið á enda, síldveiðin brást og atvinnulífið lagðist í dvala. Fólkið flutti burt, yfirgaf húseignir sínar sem voru orðnar verðlausar og mannvirki athafnasvæðanna fóru sömu leið. Mamma og pabbi fluttu með okkur bræðurna suður til Reykjavíkur 1964 svo það varð því aftur stutt fyrir okkur að heimsækja afa og ömmu. Arthur bróðir minn dvaldi mikið í Sandgerði hjá ömmu sinni og afa, bjó hjá þeim um tíma og sótti þá skóla í Sandgerði, þeim til ómældrar ánægju.
Þau fluttu svo til Reykjavíkur á fyrri hluta áttunda áratugarins og bjuggu í Skipasundi. Afi Arthur vann í verslun Hreins bróður síns, versluninni Laugarási til skamms tíma en svo starfaði hann lengi hjá Lystadún, síðar Pétri Snæland út sína starfsævi. En óveðursský þyrmdi yfir, þau afi og amma slitu samvistum og skildu nokkru eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Afi háði baráttu við áfengi og það hallaði ört undan fæti á þessum tíma. Vinnuveitendur hans komu honum til hjálpar því hann var ákaflega vel liðinn starfskraftur og hann komst í áfengismeðferð. Það kom þó að því að áfengið náði aftur yfirhöndinni um tíma en seinni árin voru þó með ágætum, hann hætti að reykja og minnkaði mikið við sig sopann.
Áhugi hans á íþróttum var alla tíð mikill og er hann stóð á sjötugu fékk hann þá ósk sína uppfyllta að sjá Akrópólishæð í Grikklandi með eigin augum. Arthur bróðir minn, afabarnið hans og nafni fór þá með hann til Grikklands og var þetta gríðarlega mikil upplifun fyrir þennan gamla íþróttagarp, nokkuð sem hann talaði um í mörg ár á eftir, að fá að sjá vöggu mestu íþróttakappleika mannkynssögunnar, sjálfan upphafsstað Ólympíuleikanna.
Afi Arthur átti aldrei miklar veraldlegar eignir. Eftir að hans starfsævi var lokið var hann þó enn við mjög góða heilsu sem eflaust mátti þakka íþróttaiðkun hans og hreysti á yngri árum. Hann átti ekki bíl en notfærði sér strætisvagna mikið, fór um allt Reykjavíkursvæðið og kynnti sér öll hverfi, sérstaklega þau sem þá voru í byggingu svo sem Grafarvog og önnur úthverfi. Þessi nýju hverfi þekkti hann jafnvel betur en fólkið sem þar bjó. Hann gekk mikið og var almennt vel á sig kominn þrátt fyrir sykursýki og á stundum líferni sem ekki telst hollt og gott.
Það var því mikið áfall fyrir hann þegar hann tæplega áttræður þurfti að láta fjarlægja hægri fótinn af sér fyrir ofan hné vegna sykursýkinnar. Það sætti hann sig aldrei við og þrátt fyrir margar aðdáunarverðar tilraunir tókst honum aldrei að ná tökum á því að ganga með gervifót. Hann vissulega reyndi og þetta var erfiður tími fyrir hann enda var hann skapstór og bráður, sérstaklega þegar hlutirnir gengu ekki eins vel og hann vildi. Hann var þá kominn í einstaklingsíbúð á þjónustuheimili aldraðra í Furugerði hér í Reykjavík. Hann var klár í kollinum en því miður fastur í hjólastól og lítið gefinn fyrir að láta hafa fyrir sér. Afi Arthur vildi ekkert umgangast annað vistfólk í Furugerði eða taka þátt í félagslífinu sem boðið var upp á þar. Að hans mati voru þetta allt eintóm gamalmenni sem töluðu bara um sjúkdóma og lækna.
Síðustu árin voru það því aðeins við nánasta fjölskyldan sem hann umgekkst og þá aðallega ég og auðvitað mamma, einkadóttir hans sem hugsaði sérlega vel um pabba sinn þessi síðustu ár. Heyrnin sveik hann hratt sem varð enn verra því hann fylgdist vel með öllu því sem gerðist í þjóðfélaginu og hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Þrátt fyrir háan aldur og hálfgerða sjálfskipaða einangrun í hjólastólnum í þessari litlu íbúð í Furugerði forvitnaðist hann þó alltaf um tækni og nýjungar. Hann var kominn með rafmagnshjólastól og svo seint sem í október s.l. keypti ég fyrir hann nýjan flatskjá. Hann var búinn að ræða það við mig reglulega í þónokkur skipti frá því síðastliðið vor að hann vildi fá flatskjá því honum fannst gamla túbúsjónvarpið auðvitað löngu úrelt þótt það væri svosem í lagi. Merkilegt hjá manni á tíræðisaldri.
En hann fékk þessa nýja skjás ekki notið í meira en nokkra daga því eftir af hafa nærst illa síðan síðastliðið sumar veiktist hann hastarlega og var fluttur á Landspítalann. Eftir stutta legu þar var hann fluttur á öldrunardeildina á Landakoti. Þá var ljóst að hann mundi ekki snúa aftur í litlu íbúðina í Furugerði, honum hafði hrakað hratt á þessum stutta tíma.
Það voru gleðitíðindi þegar hann fékk óvænt pláss á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum. Þangað fór hann mánudaginn 30. desember s.l. Því miður réðu örlögin því að þar fékk hann aðeins notið 6 daga, því hann lést í svefni snemma morguns þann 5. janúar s.l.
Af því sem áður segir mætti halda að hann hafi verið takmarkaður við líkamlegt atgervi og íþróttir en hann Arthur afi minn átti sér einnig aðra hlið sem var í senn jafnt ljóðræn sem heimspekileg en af því vissu fáir. Hann var ekkert sérlega trúaður og fannst lítið til himnafeðganna koma. Trúrækni og guðsótta gantaðist hann með svo seint sem á sínu síðasta sjúkrabeði um nýliðnar hátíðir. Sjálfsagt vissu enn færri af því að hann var hagmæltur og í fertugsafmæli Rósu, móður minnar orti hann henni:
Fertug er hún dóttir mín,
fegurst fagra rósa.
Ein er sú ósk til þín,
þig megi allir hrósa.
Þér ég færi óskir fagrar,
á fertugasta árinu.
Ekki eru allar sögur sagðar,
með einu saman tárinu.
Þiggðu þetta ljóð frá mér,
þekkust allra rósa.
Lifðu heil í heimi hér,
ljúfust mærin ljósa.
Rósa móðir mín var augasteinninn hans alla tíð og það fékk hann svo sannarlega endurgoldið því hún hugsaði um hann af einstakri alúð þegar honum þraut sjálfsbjörgin og var kominn í hjólastól. Hann var oft kröfuharður við dóttur sína, jafnvel á stundum þannig að fólki fannst nóg um enda var hann með mikið skap og sætti sig illa við að vera án sjálfshjálpar eftir feril hreysti og góðrar heilsu upp undir áttrætt. Það bitnaði stundum að ósekju á mömmu. En öll erum við breysk og tökum mótlæti á misjafna vísu og það gerði Arthur afi minn líka.
Það er með kærleika og djúpri virðingu sem minnist afa míns, Arthurs Níels Sumarliðasonar einum af alþýðuhetjum Íslands frá síðustu öld.
Víðir Ragnarsson