Sigríður Jónsdóttir fæddist í Stíflisdal í Þingvallasveit 17.7. 1924. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 12. janúar 2014. Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson, fæddur að Sandi í Kjós, 11.8. 1896, d. 27.9. 1978 og Ingibjörg Eyvindsdóttir, fædd að Ásólfsskála, V-Eyjafjöllum, 13.3. 1899, d. 31.1. 1980. Systkini Sigríðar eru: Kristín sem er látin, Ósk, Einar sem er látinn, Haraldur, Jenný, Ása og Ingibjörg. Sigríður giftist 18.11. 1944, Þorgilsi Bjarnasyni, fæddum að Hraunsmúla í Staðarsveit 5.9. 1914, d. 11.8. 1971, foreldrar hans voru Bjarni Jónsson og Kristbjörg Jónsdóttir. Börn Sigríðar og Þorgils eru: Ingibjörg, maki Þorvaldur Guðnason, þau eiga 2 börn og 3 barnabörn, Ragnar, maki Eva Garðarsdóttir, þau eiga 3 börn og 6 barnabörn, Björg, maki Magnús Ólafsson, þau eiga 4 börn og 8 barnabörn, Jón, maki Ásdís Ólafsdóttir, þau eiga 5 börn og 4 barnabörn, Anna, maki Gunnar Stefánsson, þau eiga 3 börn og 4 barnabörn, Árni, maki Sigrún Margrét Jónsdóttir, þau eiga 1 barn og 1 barnabarn, Guðrún, maki Einar Helgason, þau eiga 2 börn og 2 barnabörn, og Eyvindur. Þorgils átti eina dóttur áður, Jóhönnu Erlu. Sigríður og Þorgils hófu búskap í Reykjavík 1944 og bjuggu við Skólavörðustíg til 1951 þegar þau fluttu vestur á Snæfellsnes að Kirkjuhóli í Staðarsveit og bjuggu þar í eitt ár og fluttu aftur á Skólavörðustíginn í Reykjavík og bjuggu þar uns þau byggðu sér íbúð árið 1958 í Ásgarði 133 í Reykjavík, þar sem þau bjuggu til dánardags. Sigríður var saumakona af lífi og sál og vann við saumaskap hjá ýmsum aðilum, svo sem Andrési Andréssyni, Fötum hf., Sportveri og Saumastofu Ríkisspítalanna, einnig vann hún við ræstingar. Sigríður hætti að vinna úti 1995. Sigríður flutti í hjúkrunarheimilið Skógarbæ í júní 2013 og lést þar 12. janúar sl. Útför Sigríðar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 21. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.00.

Flutt í afmæli hjá Ömmu Sirrý í Ásgarði 133 árið 2011 :

Það er ekki sjálfgefið að eiga ömmu sem er eins og draumur úr dós. En ég er svo heppin.

Amma Sirrý er kletturinn minn í lífsins ólgusjó og ein þeirra kvenna í kringum mig sem ég get alltaf treyst á og hef alltaf getað.

Mig langar í tilefni afmælisins að fá að flytja hér nokkrar vísur um hana ömmu.

Amma Sirrý kom úr Kjós,

kostagripur ljúfur.

Gilsi Bjarna bjart sá ljós

og bæjarins hlýjustu húfur.

Í Ásgarði byggðu ástartjörn,

þar áttu þau börn og buru.

Saman eignuðust átta börn

eins og upp úr þurru.

Karnabæjarpæjan mín,

saumaþjarkurinn færi.

Vanaföst, svo sæt og fín

sérviskupúkinn minn kæri.

Saumar, prjónar, puntar allt

peysur fyrir alla.

Engum gleymir, engum er kalt

eftir ullinni má kalla.

Mallar bollur fyrir bestu skinn,

betri fæ ég ekki.

Gefur ávaxtagrautinn sinn

græðgin hleypur í kekki.

Elsku amma, engillinn minn,

yndið mitt og tryggðatröll.

Til hamingju með daginn þinn.

Þess óska ég og fjölskyldan öll.

(Magdalena Berglind Björnsdóttir)

Elsku amma mín, kletturinn minn í lífsins ólgu sjó er fallinn frá. Amma var kletturinn minn, hún var alltaf til staðar fyrir mig, hún hughreysti mig þegar ég þurfti á því að halda, gladdist með mér þegar það átti við og allt þar á milli. Ég er skírð í höfuðið á henni, en hún bað mömmu og pabba að í guðanna bænum ekki láta kalla mig Sigríði því þá færi örugglega einhver að kalla mig Siggu og það fannst henni hræðilegt, enda hafði hún sínar skoðanir og sagði þær. Allir vissu að það sem hún sagði meinti hún það var ekkert sem hét smjaður hjá henni maður vissi hvar maður hafði hana. Þegar hún hrósaði manni þá átti maður það fyllilega skilið og maður lyftist upp, þú ert svo dugleg Helga mín sagði hún eitt sinn þegar ég var með börnin lítil. Ég ljómaði, þessi orð voru eins og auka kraftur til margra mánaða. En hún nefndi það ekki hvað hún var mikil kraftakona, afi féll frá þegar yngsta barnið var 9 ára og 6 börn enn heima og hún 47 ára, og ekki mikla aðstoð að fá. Þegar ég var að alast man ég eftir því að hún prjónaði peysur til að selja og man ég eftir því þegar var verið að mæla peysurnar til að þær mundu falla í ákveðna staðla og þar máttu engu muna. Þar var amma á heimavelli því að millimetra manneskja var hún. Hún saumaði lengi hjá Karnabæ og öðrum saumastofum en síðast hjá saumastofu ríkisspítala. Saumaskapurinn var ekki bara í vinnunni því hún saumaði á sig, börnin sín, barnabörn og fleiri þegar þurfti eða beðið var um. Átti hún það einnig til að skoða jakkaföt sona sinna og tengdasyni til að ath með frágang og sauma. Ég var svo heppin að amma saumaði á mig fínar flíkur, prjónaði á mig peysur, sokka og vettlinga, og vettlinga og ullarsokka sá hún um að prjóna á börnin mín og nokkrar peysur líka, og það er ekki langt síðan að það komu ullarsokkar frá henni á heimilið. Vantar þér leista Helga mín eða krakkana?  Helga mín villtu ekki koma og fá þér smá bita sagði hún þegar ég bjó hjá henni í eina önn, þá var hún komin heim úr vinnunni búin að fara í búðina á leiðinni heim setti á borð  flatbrauð og hangikjöt eða annað góðgæti. Kjötbollurnar hennar voru bestar í heimi með sósu og kartöflumús og ávaxtagrauturinn (eilífðargrautur) á sunnudögum með rjóma, það þarf trúlega ekki að taka það fram að undirrituð grenntist ekki í vistinni hjá ömmu. Alla tíð gat maður treyst því að eftir kl fimm þá var amma heima búin að vinna og fara í búðina, maður gat treyst því að ganga að ömmu vísri heima, og allir hlutir áttu sinn stað á heimilinu hárgreiðan, naglaklippurnar eða cheeriosið hvort heldur sem var árið 1976 eða 2013.  Í hvert sinn sem ég fór til Reykjavíkur þá kom ég við hjá ömmu ég gat ekki hugsað mér neitt annað til að sjá hana og sýna henni börnin mín hvað þau hefðu stækkað frá því síðast og að fá ömmu spjall við eldhúsborðið og kaffi það var ómissandi. Á hverju sumri komu amma og Eyvi í heimsókn hingað norður í land það var alltaf tilhlökkunarefni hvort heldur sem maður var 8 eða 40 ára. Það var alltaf svo mikil hátíð, þá voru dregnir fram prjónar, spil og það var spjallað fram á rauða nótt, og camel sígarettureykur lagði um húsið sem var vottorð um það að amma væri í heimsókn. Því hún amma mín, amma camel eins og ég kallaði hana stundum í góðra vina hópi, en hún reykti camel fílterslausar sígarettur alvöru fullorðins sígó. Þegar ég hugsa til hennar sé ég fyrir mér ömmu reykja, drekka kaffi, leggja kapal, mjólkurkex og lesa moggann. Mörg heilræðin fékk maður, ég skal segja þér eina sögu, byrjuðu þau oft, og svo komu heilræðin, það geta allir verið heilir og hreinir það kostar ekki mikið sagði hún eitt sinn, þá var verið að ræða um einhverja sem áttu ekki mikið á milli handanna. Fyrir mér var amma hetja, hvunndagshetja kannski, en hetja var hún, hetjan mín. Ég mun ætið sakna hennar, en minningin lifir. Elsku amma mín farðu vel með þig, og ég skal vera þæg og góð stúlka

Þín.

Helga litla